25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

143. mál, almenningsbókasöfn

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Frv. um almenningsbókasöfn, sem hér er til 2. umr., hefur verið athugað í menntmn. þessarar d., og hefur frsm. n. um málið nú skýrt frá því, hverjar breytingar n. leggur til að gerðar verði á frv., og get ég tekið undir hans mál í einu og öllu. En í nál. er það fram tekið, að einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja öðrum brtt., sem fram kunna að koma, og þennan rétt hef ég nú notað mér og flutt hér eina brtt. við málið. Ég skal taka það fram, að þótt málið sé í heild nokkurt framfaraspor, þá hefur mér frá öndverðu fundizt það orka tvímælis, hvort það sé rétt að hnýta aftan í málið þeim ákvæðum, að stofnað skuli til nýs embættis í sambandi við rekstur bókasafna í landinu, en frv. gerir ráð fyrir því, að svo verði gert, það verði skipaður sérstakur bókafulltrúi í skrifstofu fræðslumálastjóra og eigi það að vera fast embætti.

Þegar menntmn. ræddi við ýmsa forráðamenn í menntamálum, t.d. fræðslumálastjóra, svo og formann þeirrar n., sem frv. þetta hefur samið, þá kom í ljós, að þeir litu báðir svo á, að í sambandi við framkvæmd þessa frv., ef að l. verður, mundi liggja fyrir starf á fræðslumálaskrifstofunni, sem yrði að fela einhverjum manni. Það yrði sem sagt að leggja fræðslumálaskrifstofunni til aukastarfsmann, meðan verið væri að koma þessari skipan málanna í framkvæmd. Hitt var þeirra beggja álit, að mjög vafasamt væri, að hér væri um fullt starf að ræða þegar frá liði.

Ég hef þess vegna haft mikla tilhneigingu til þess að lita svo á, að þarna væri um óþarfa embættisstofnun að ræða. En að svo stöddu máli hef ég ekki viljað hafa á móti því, að greitt yrði fyrir því, að lögin gætu komizt í kring, með því að bókafulltrúi yrði skipaður til að byrja með, en tel eðlilegast, að það verði þá gert með sama hætti og íþróttafulltrúi er skipaður, þannig að hann verði aðeins ráðinn til ákveðins tímabils, til þriggja ára, og síðan að því tímabili liðnu verði athugað, hvort enn er þörf á að hafa fast embætti í sambandi við framkvæmd þessara laga, og menntmrn. geti á hverjum tíma metið það, hvort þörf er þessa embættismanns eða ekki. Þessi l. eru að sumu leyti hliðstæð því, sem gildir um íþróttamál, og væri í alla staði eðlilegt, að bókafulltrúi væri ráðinn á sama hátt og íþróttafulltrúi, enda var það álit ýmissa fleiri meðnm. minna, enda þótt ekki yrði af því, að n. flytti þessa brtt. sem heild.

Ég skal taka fram, að ýmislegt fleira í frv. getur orkað tvímælis, hvort rétt er, eins og hv. frsm. n. gat um, og á ég þar einkum við skiptingu í bókasafnshéruð og svo um það, hvernig skipa skuli yfirstjórn bókasafna. En með því að ég hef ekki mikla þekkingu á staðháttum, þar sem slíks ágreinings kæmi frekast til með að gæta, hef ég ekki gert neinar brtt. um þau efni, en er að sjálfsögðu til með að athuga afstöðu til allra slíkra till., sem fram kynnu að koma frá staðkunnugum mönnum á hverjum stað, svo og um heildarskipun þessara mála.

Brtt. mín, sem prentuð er á þskj. 628, felur í sér þá breytingu við bókafulltrúaembættið, að í það sé einungis ráðinn til þriggja ára í senn sérstakur bókafulltrúi, sem starfi í skrifstofu fræðslumálastjóra, svo og það, að ef til þess kæmi, að menntmrn. sæi ekki ástæðu til þess að ráða í þetta embætti, þá falli það hlutverk, sem í lögunum er ætlað bókafulltrúa, undir fræðslumálaskrifstofuna.