25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

143. mál, almenningsbókasöfn

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur nú fyrir til 2. umr., um almenningsbókasöfn, er um nauðsynlegt mál. Það er á margan hátt mjög til bóta í sambandi við það skipulag, sem ríkt hefur um starfsemi bókasafna. Mörg ákvæði frv. eru þess eðlis, að þau mundu heldur bæta um í þessum efnum og styrkja bókasöfnin til bókakaupa og starfsemi bókalána allverulega. Hins vegar er það, að ýmis ákvæði í frv. eru þess eðlis, að mér þykir ástæða til þess að gera hér nokkrar aths. um málið og beina um það fyrirspurnum til hv. n. og þeirra, sem kynnt hafa sér málið betur en ég kann nú að hafa gert.

Það var svo sem við að búast, þegar semja á heildarlöggjöf um bókasöfn á öllu landinu og fella þetta saman í fast kerfi, að þá mundu koma í ljós ýmsir samræmingarerfiðleikar í þessum efnum, þar sem erfitt væri í rauninni að yfirstíga ýmsa erfiðleika, og mér sýnist, eins og málið liggur nú fyrir, komið frá Ed., að þá séu ýmsir örðugleikar enn í vegi og að það þurfi að reyna að yfirstíga þá, áður en þetta verður gert að lögum.

Það er þá fyrsta atriðið, sem ég tek eftir í sambandi við þetta frv., að í rauninni er ekkert skýrt ákvæði um það til í frv., hvernig skuli farið með eignarrétt á þeim bókasöfnum, sem nú eru fyrir í landinu.

Dæmi um þetta skal ég taka til frekari skýringar þaðan, sem ég er kunnugastur, en ætti að vera auðvelt fyrir menn að átta sig á eigi að síður, að í mínu byggðarlagi er búið að byggja upp bókasafn með margra ára starfsemi. Ég get trúað því, að bókasafnið sé nú talið að verðmætum í kringum 100 þús. kr. Nú er ákveðið í þessu frv., að tveir nálægir hreppar við Neskaupstað skuli verða saman um héraðsbókasafn með bókasafninu í Neskaupstað, þeir skuli greiða árlegt gjald, miðað við sína íbúa, til þessa komandi bókasafns og þeir skuli síðan hafa nokkra samstjórn á bókasafninu.

Nú vaknar eðlilega sú spurning, hvernig á að fara með þessa eign, sem Neskaupstaður á alveg tvímælalaust, og hvernig á að fara með þessa eign, sem þarna kann að verða fyrir í bókasafnsformi eftir 5 eða 10 ár. Það er ekki hægt að setja löggjöf um það svona skyndilega — og það án þess að hafa nokkur samráð við viðkomandi aðila — að taka algerlega eignir þeirra, sem byggðar hafa verið upp á þennan hátt, og slengja þeim saman við aðra, kannske talsvert óviðkomandi aðila, án þess að gera fulla grein fyrir því, hvernig með eignahlutföll í þessum efnum skuli farið.

Það er líka alveg augljóst á frv., að það er ekki aðeins þannig í þessu eina tilfeili, sem við kemur Neskaupstað og nálægum sveitum. Hér er talað um, að saman í bókasafnshverfi skuli vera Reykjavík og Kjósarsýsla. Reykjavík á bókasafn. Ég veit ekki, hvort hrepparnir í Kjósarsýslu allir eiga bókasöfn og hvort þá er ætlazt til þess að slengja þessu að verulegu leyti saman og hvaða eignahlutföll skuli síðan ríkja á milli þessara aðila.

Svipað er ástatt með Hafnarfjörð. Með Hafnarfirði verða saman í bókasafnshverfi Garðahreppur og Bessastaðahreppur í Gullbringusýslu.

Með Keflavík eru líka fleiri hreppar, og eins er það með Akranes og á fleiri stöðum.

Enn fremur er það, að af þessu leiðir svo líka hitt, að það eru afar óljós ákvæði í frv. um það, hvernig skuli farið raunverulega með stjórn á þessum sameiginlegu eignum, sem síðan koma til með að verða. Það er að vísu sagt, t.d. viðvíkjandi bókasafnshverfinu í Neskaupstað, að yfirstjórn þessa bókasafns skuli vera í höndum „bæjarstjórnar og/eða sýslunefndar“. Mundi það þá þýða, — um það vildi ég beina fyrirspurn minni til hv. n., sem með þetta mál hefur haft að gera, — t.d. í tilfeilinu í sambandi við Neskaupstað, að það væri sýslunefndin í Suður-Múlasýslu, sem ætti að kjósa í bókasafnsstjórn ásamt bæjarstjórninni í Neskaupstað, vegna þess að tveir hreppar úr Suður-Múlasýslu, Mjóafjarðarhreppur og Norðfjarðarhreppur, eiga þarna að leggjast saman um bókasafn með Neskaupstað? Mér fyndist, að það væri miklu eðlilegra, að þessir tveir hreppar út af fyrir sig, Mjóifjörður og Norðfjörður í þessu tilfelli, ættu sína hlutdeild beint að því að kjósa í bókasafnsstjórnina með bæjarstjórninni í Neskaupstað, vegna þess að sýslunefndin í Suður-Múlasýslu á samkvæmt frv. að taka þátt að sínu leyti í kosningu bókasafnsnefndar annars staðar í sýslunni. Aðalbókasafnið fyrir Suður-Múlasýslu mundi samkvæmt frv. verða staðsett á Eskifirði, og mestur hluti af Suður-Múlasýslu mundi lúta undir það héraðsbókasafn.

Þessi ákvæði í frv. eru mjög óljós og þannig, að ég er afar hræddur um, að það yrði strax togstreita um það, hvernig skilja bæri þessi ákvæði, auk þess sem þau hljóta vegna eignarréttarins á þessum söfnum að verða nokkuð viðkvæm í hverju tilfelli um sig.

Þá hef ég veitt því athygli, að í þessu frv., sem gerir ráð fyrir því að byggja upp bókasafnskost manna í landinu, skipuleggja þetta og auka mjög fjárframlög í þessu skyni, er þó ekki gert ráð fyrir því, að ríkið leggi neitt fé fram til þess að byggja yfir bókasöfn, engan byggingarstyrk eða neina aðra fyrirgreiðslu í sambandi við byggingar. Þetta voru mér nokkur vonbrigði og það með sérstöku tilliti til þess, að Alþ. hefur áður gengið nokkuð til móts við byggingu bókasafna á hinum ýmsu stöðum. Ég hygg meira að segja, að á seinustu fjárl., sem voru afgr., hafi verið gert ráð fyrir nokkrum byggingarstyrk til bókasafnsbyggingar í Hafnarfirði, en áður hafa smástyrkir verið veittir sem byggingarframlög til bókasafna. Þetta væri líka í fullu samræmi við það, sem er frá hálfu ríkisins í alveg hliðstæðum málum, þar sem er verið að byggja skóla, íþróttamannvirki og annað, sem virðist vera skipulagt nokkuð svipað og hér er gert ráð fyrir með bókasöfnin. Þetta vantar með öllu í frv. Um leið og þær skyldur eru lagðar á sveitarfélögin og bæjarfélögin að reka jafnumfangsmikla bókasafnsstarfsemi og gert er ráð fyrir í frv. með lesstofum viðast hvar, þar sem héraðsbókasöfn eru, þá er alveg gefið mál, að það þarf að byggja yfir söfnin, það þarf að veita þeim miklu betra húsnæði en þau búa almennt við núna, og það væri því ákaflega eðlilegt, að ríkið legði fram ákveðinn hundraðshluta af byggingarkostnaði bókasafna.

Þá er svo hitt atriðið, sem snýr að þessari samræmingu, sem hér er verið að taka upp, þar sem ákveðin umdæmi eru sett saman í héraðsbókasafnshverfi eða bæjarbókasafnshverfi. Mér sýnist, miðað við þær aðstæður, þar sem ég er kunnugastur, að á frv. séu mjög verulegir gallar í þessum efnum og það sé afar hæpið, að frv. fái staðizt í framkvæmd í þeim búningi, sem það er.

Ég vil þá enn taka dæmi úr minni sýslu. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því að byggja upp aðalbókasafn fyrir Suður-Múlasýslu á Eskifirði. Hins vegar er svo vitanlega gert ráð fyrir því, að það verði sérstök sveitarbókasöfn í öllum hreppum sýslunnar; t.d. syðst í Suður-Múlasýslu, suður í Geithellnahreppi og suður á Djúpavogi, verða starfandi sérstök sveitarbókasöfn. Þar eiga sveitarfélögin að leggja fram 5 kr. á hvern íbúa sinn sem fast framlag til bókasafnanna og eiga að fá aftur á móti frá ríkissjóði 5 kr. á hvern íbúa, en auk þess eiga svo þessi sveitarfélög að leggja fram 3 kr. á hvern íbúa í framlag til sýslubókasafnsins, sem verður staðsett á Eskifirði, og ríkið á aftur að leggja fram á móti kr. 2.50 á hvern íbúa þessara hreppa sem framlag til sýslubókasafnsins á Eskifirði. Bókasafn það, sem staðsett verður á Eskifirði, kemur því til með að fá kr. 5.50 fyrir hvern íbúa í Geithellnahreppi og á Djúpavogi og frá öðrum hreppum sunnan til í Suður-Múlasýslu. Nú er svo háttað málum í þessari sýslu um samgöngur frá suðurhluta sýslunnar til Eskifjarðar, að það er sízt betra samgöngukerfl t.d. . á milli Djúpavogs og Eskifjarðar heldur en á milli Djúpavogs og Reykjavíkur; ferðirnar eru ekki fleiri. Það eru ekki einu sinni bílasamgöngur yfir sumarið, og það er nokkurn veginn útilokað, að þeir suður á Djúpavogi eða suður í Geithellnahreppi geti út af fyrir sig notað bókasafn það, sem byggt verður upp á Eskifirði. Fyrst stefna á að því að byggja upp bókasafn í þeirra hreppi eða þeirra hreppum þar suður frá, þá virðist vera miklu eðlilegra, að allt þetta framlag gangi til þeirra og það sé ekki verið að setja þá með í bókasafnshverfi, þar sem þeir eiga nærri að segja engan aðgang að.

Ég held, að ef á að fara inn á þá braut að byggja upp í tilteknu umdæmi aðalbókasafn, sem fær allmiklu meiri fjárframlög en sveitarbókasöfnin, og er ráðgert að hafa þetta aðalbókasafn miklu víðtækara og meira, þá verði þetta aðalbókasafn að liggja þannig við samgöngum, að það nái auðveldlega til alls þess svæðis, sem á að taka þátt í greiðslum til þessa aðalbókasafns, og það eigi ekki að leggja greiðsluskyldu á herðar öðrum en þeim í námunda við þetta aðalbókasafn, sem þangað ná sæmilega greiðlega eftir eðlilegum samgönguleiðum. En eins og frv. er upp byggt, þá er það verulega fjarri lagi.

Ég á líka ákaflega bágt með að trúa því, að það geti verið til frambúðar eða þótt þægilegt, að þeir í Skeggjastaðahreppi á Langanesi sækí aðalbókasafn suður á Seyðisfjörð. Ég held, að þeir hljóti að leggja til, að það sé miklu sæmra, að þeir fái sjálfir til þess að byggja upp sitt sveitarbókasafn allt það fé, sem þeir annars eiga að leggja á sig og ríkissjóður ætlar að greiða á móti þeirra eigin framlagi, en ekki að það verði af þeim tekið og sett í uppbyggingu bókasafns á þeim stað, sem þeir eiga mjög óhægt um samgöngur við.

Svona er þessu ábyggilega varið víða um landið, að fyrst á að leggja fram verulega orku í það að byggja upp sjálfstæð bókasöfn í sveitum og í kauptúnum, þá held ég, að það ætti ekki að láta þær sveitir eða þau kauptún taka þátt í uppbyggingu þessara aðalbókasafna, nema hægt sé að sýna það með sanni, að þessi kauptún eða þessar sveitir eigi sæmilega greiða aðgöngu að aðalbókasöfnunum.

Það hefur komið í ljós hér í umr. um þetta frv., að það hefur ekki verið leitað eftir samráðum við sveitarstjórnir landsins. Þau bæjarfélög, sem nú eiga allt í einu að slengja saman bókasöfnum sínum við ákveðin sveitarfélög og taka upp sameiginlegan bókasafnsrekstur og hafa að verulegu leyti sameiginleg fjármál, hafa ekki verið um þetta spurð, álits þeirra hefur ekki verið leitað. Þetta er verulegur galli.

Þó að ég sé að öðru leyti með þessu máli, því að mér sýnist, að hér sé verið að fjalla um nauðsynjaefni, og hér er beinlínis komið inn á að skipuleggja þessa starfsemi betur en áður hefur verið, og hér er einnig lagt til að verja talsvert meira fé af hálfu hins opinbera til þess að efla bókasafnastarfsemina í landinu en hingað til hefur verið, og að því leyti til er ég með þessu máli og vildi ógjarnan þurfa að tefja málið í sjálfu sér, þá teldi ég þó miklu eðlilegra og betra að leita umsagnar sveitarfélaganna um fyrirkomulag í þessu efni, sérstaklega ef hægt er að koma því við án þess, að bein framkvæmd málsins þurfi að taka á sig nokkurn frest þess vegna.

Ég held, að það sé nú alveg einsýnt mál, að það verði í allra fyrsta lagi á næsta ári, sem þessi lög geta raunverulega komið til framkvæmda. Því fyndist mér, að það kæmi mjög vel til mála eftir svona almennar góðar undirtektir hér á hv. Alþ. undir þetta mál að vísa frv. og fram komnum till. til sveitarfélaganna til umsagnar og ganga síðan út frá því að lögfesta þetta næsta baust. Ég held, að þá mætti komast fram hjá ýmsum þeim örðugleikum, sem annars yrðu ábyggilega ásteytingsefni, ef það ætti að lögfesta frv. að öllu leyti í þeim búningi, sem það er í nú.

Ég vildi t.d. skjóta því til hv. n., hvort hún gæti athugað það núna fyrir 3. umr., hvort e.t.v. væru möguleikar á því að koma fyrir í frv. ákvæði um það, að þau bæjarfélög, sem óska eftir því að vera ein sér um bókasöfn eða bókasafnsrekstur, hefðu til þessa rétt, að það væri sett inn ákvæði í frv., sem áskildi þeim kaupstöðum landsins, sem hingað til hafa rekið sjálfstæðan bókasafnsrekstur, heimild til þess að vera ein sér um sín bókasöfn áfram, ef þau óskuðu beinlínis eftir því, eins líka, hvort það væri e.t.v. fært að setja inn svipað ákvæði í sambandi við sveitarfélögin, að þau hefðu líka rétt til þess að velja um það, hvort þau vilja vera með í þessu eða hinu aðalbókasafnshverfinu. Þó hefði ég talið hitt bezt, ef samkomulag hefði getað orðið um það, að málinu hefði beinlínis verið frestað til næsta hausts og í millitíðinni hefði málið verið sent til umsagnar sveitarfélaganna.

Ég vil svo að lokum segja það, að þau ákvæði, sem er að finna í 8. gr. frv. og eins í 6. gr. frv., sem varða stjórn bókasafnanna, eru svo óákveðin, að það er í rauninni alveg óviðunandi á allan hátt að samþykkja þau eins og þau eru. Ég er anzi hræddur um það t.d. með Reykjavík, svo að ég taki það dæmi, en það dæmi er nokkuð stórt í þessum efnum, að þeim meiri hluta í bæjarstjórn Reykjavíkur, sem nú fer með völd í Reykjavík, þætti nokkuð hart að farið í sambandi við alla bókasafnseign þeirra hér. En vegna ákvæðisins í frv. um það, að Kjósarsýsla skuli vera saman með Reykjavík í bókasafnshverfi, og siðan á Kjósarsýsla að eiga sína hlutdeild í yfirstjórn bókasafnsins hér í Reykjavík, m.ö.o., að bæjarstjórnin hér á að kjósa ákveðna fulltrúa, Kjósarsýsla ákveðna, gæti hæglega farið svo, að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hætti að hafa yfirráð yfir sínu bókasafni, gæti komizt beinlínis í minni hluta í sambandi við stjórn á sínu stóra og mikla bókasafni.

Ósköp svipað stendur á í mínu byggðarlagi. Ég segi ekki, að þetta yrði, en það er fullkominn möguleiki, að vegna þess að í mínu byggðarlagi yrðum við þeirrar náðar aðnjótandi að geta fengið styrk út á örlitla sveitahreppa í kringum okkur, sem mundu samkv. frv. styrkja bókasafnsreksturinn hjá okkur um rösklega 1000 kr. á ári, þá gæti farið svo, að sá meiri hluti, sem er í bæjarstjórn í Neskaupstað, hætti að ráða yfir öllu sínu bókasafni.

Ég held, að þessi ákvæði um samstjórn aðila, sem hafa ekki einu sinni verið kvaddir til í þessum efnum, en fara að eiga saman eignir eins og bókasöfn, séu svo óljós um það, hvernig skuli fara með samstjórn þeirra og sameign á þessum stofnunum, að það sé ekki hægt að lögfesta þau eins og þau eru í frv.

Ég vildi nú beina þessum orðum til hv. n., hvort hún treysti sér ekki að beita sér fyrir því, án þess að það þyrfti að raska því höfuðefni, að meginefni þessa frv. nái fram að ganga a.m.k. á þessu ári, að taka tillit til þeirra aths., sem ég hef hér gert.