28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

143. mál, almenningsbókasöfn

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tvær brtt. á þskj. 653. Ég get verið fáorður um þessar brtt., ég hafði að nokkru leyti gert grein fyrir þeim hér fyrr í umr. um þetta mál.

Þær breytingar, sem ég legg hér til að gerðar verði á frv., eru í fyrsta lagi fólgnar í því, að tvær nýjar málsgr. bætist við 2. gr. frv.

Fyrri málsgr. felur í sér, að þau bæjarfélög, sem óska eftir því að vera sér um sín bæjarbókasöfn, skuli hafa rétt til þess samkvæmt lögunum, en séu ekki skylduð til þess að hafa rekstur bæjarbókasafns eða héraðsbókasafns sameiginlega með hlutum af sýslufélögum, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég hef þegar bent á það hér í fyrri umr. um málið, að það eru verulega mikil vandkvæði á því með bæjarfélög, sem hafa um margra ára skeið rekið sjálfstæð bókasöfn og eiga orðið stór og mikil bókasöfn, sem kosta talsvert verulegt fé í rekstri, að ætla að skylda þau skyndilega til þess að slengja sínum miklu eignum saman við í rauninni engan eignastofn frá nálægum sveitarhreppum og ætla síðan að gera þessa miklu eign, sem bæjarfélögin eiga nú, að sameign þessara aðila síðar meir og slengja saman stjórninni, þannig að sá, sem á meginstofn eignarinnar, hefur alls ekki fullan yfirráðarétt yfir eigninni, eftir að þessi sameining hefur verið gerð. Ég legg því áherzlu á það, að bætt verði við 2. gr. frv. þeirri málsgr., sem er í a-lið í brtt. minni á þskj. 653, og ég spái því, að verði farin hin leiðin að ætla að samþ. frv. í því formi, sem það er nú, þá hljóti að koma síðar til þess, að þessu verði að breyta, því að bæjarfélögin geta ekki — ýmis þeirra — unað því, að þetta fyrirkomulag verði eins og frv. gerir ráð fyrir.

Þá er annað atriði, að ég legg til enn fremur, að það verði bætt við annarri nýrri málsgr. aftan við 2. gr., en með þeirri málsgr. yrði sveitarfélögum öllum gefinn réttur til þess að velja um það sjálf, hvort þau vildu byggja einvörðungu upp sín sveitarbókasöfn, en þyrftu ekki að greiða sérstakt gjald, miðað við íbúa sína, til héraðsbókasafns, ef þau óska ekki eftir því að vera í tengslum við héraðsbókasafnið. Það mundi þá auðvitað verða í þeim tilfellum, þar sem sveitarhreppurinn liggur þannig, að hann á óhægt með allt samstarf við héraðsbókasafnið, og vill því ógjarnan þurfa jafnhliða því, sem hann reynir að byggja upp eigið bókasafn, að greiða skatt til nálægs héraðsbókasafns. Mér þykir vel fær sú leið að gefa sveitarfélögunum rétt á því að velja um það, hvort þau vilja einvörðungu byggja upp sín sveitarbókasöfn eða verða þátttakendur í héraðsbókasafni.

2. brtt. mín á þessu sama þskj. er svo um það, að ríkissjóður taki á sig þá skyldu að greiða 40% af byggingarkostnaði bókasafna, þannig að ríkið styrki byggingu bókasafnsbygginga á hliðstæðan hátt og ríkið styrkir nú ýmsar aðrar hliðstæðar stofnanir. Þó yrði þetta framlag ríkisins heldur lægra en nú á sér stað með skólabyggingar, en hliðstætt því, sem er til íþróttamannvirkja og annarra slíkra framkvæmda. Ég held, að það verði alveg óhjákvæmilegt að skipa þessu með föstum reglum, þannig að byggingarstyrkir séu ekki veittir jafnóákveðið og nú hefur verið, heldur takist ríkið, um leið og gert er ráð fyrir að efna til slíkrar almennrar og mikillar umbótastarfsemi með bókasöfn eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, líka á hendur þá skyldu að láta nokkurn hluta af byggingarkostnaði yfir söfnin.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta. Ég er, eins og ég hef skýrt frá áður, hlynntur málinu í sjálfu sér, en tel æskilegt, að þessar breytingar verði gerðar.