14.12.1955
Neðri deild: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er stjórnarfrv. og er um framlengingu á gildi 3. kafla laga nr. 100 frá 1948, en í þeim kafla eru ákvæðin um söluskatt, og er lagt til með þessu frv., að þau ákvæði verði framlengd fyrir árið 1956. Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar og sannfært sig um, að frv. er nákvæmlega samhljóða þeim lögum, sem nú gilda og sett voru fyrir ári, en gildi þeirra takmarkað við eitt ár, og falla þau úr gildi nú um næstu áramót.

Það mun öllum ljóst, að það er þörf fyrir þessar tekjur í ríkissjóð á næsta ári ekki síður en áður, þó að n. hafi að vísu ekki orðið sammála um að mæla með frv. Það liggur fyrir nál. hér frá meiri hl. á þskj. 192, og leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Þetta er mál, sem hv. þdm. er vel kunnugt, því að frv. um sama efni hafa verið lögð fyrir að undanförnu, þegar leið að árslokum, til þess að fá þessar framlengingar fyrir eitt ár í senn.