05.12.1955
Neðri deild: 26. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

57. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er að heimila ríkisstj. að selja eyðijörðina Breiðumýrarholt ábúendum í Holti í Árnessýslu, Sigurgrími Jónssyni og sonum hans, fyrir matsverð.

Landbn. hefur athugað þetta frv. og leitað um það umsagnar landnámsstjóra og jarðeignadeildar ríkisins. Báðir þessir aðilar mæla með heimildinni, landnámsstjóri þó, eins og í bréfi hans stendur, í því trausti, að unnið verði að býlafjölgun í Holti. Það er og upplýst í þessu máli, að hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps, sem þarna á hlut að máli, er meðmælt sölunni.

Að þessu athuguðu leggur n. til, að frv. verði samþ., þó með þeirri viðbót, sem ég nú skal gera grein fyrir.

N. hefur borizt bréf frá landbrn. og skógrækt ríkisins, þar sem þess er óskað, að heimild verði veitt í lögum til makaskipta á hluta af landi, sem skógrækt ríkisins á í Hafnarfjarðarhrauni, og landi, sem Hafnarfjarðarbær á í svonefndum Undirhlíðum, en þessara makaskipta er óskað af hálfu skógræktarinnar og ráðuneytisins að ég hygg vegna þess, að landið í Undirhlíðum sé talið hentugra til skógræktar en það land, sem skógræktin nú á. Það hefur verið rætt við Hafnarfjarðarbæ um þetta mál, og hefur n. verið tjáð af hans hálfu, að hann sé samþykkur þessum makaskiptum. Það hefur því orðið að ráði, að n. leggi til, að flutt verði viðaukatill. við frv. það, sem hér liggur fyrir, varðandi heimild til þessara makaskipta, sem ég nú hef nefnt.

Samkvæmt því, sem ég nú hef sagt, leggur n. til, að frv. verði samþ. með lítils háttar breytingu og þeim viðauka, að heimilað verði að hafa makaskipti á landi skógræktarinnar í Hafnarfjarðarhrauni og landi Hafnarfjarðarbæjar í Undirhlíðum.