08.12.1955
Efri deild: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

107. mál, kirkjuítök

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan, áður en þetta mál fer til nefndar, segja nokkur orð um málið, sem ég vildi biðja n. að hafa í huga, þegar hún fer að ræða það.

Það er þá fyrst það, að þessi kirkjuítök eru ákaflega misjöfn og liggja mörg þannig lagað, að það er með öllu útilokað, að sú kirkja, sem á ítakið, geti notað það. Mér finnst þess vegna, að það sé beint ástæða til að láta ekki alveg sama ganga yfir öll kirkjuítök.

Það er dálítið annað, svo að ég taki nærtækt dæmi, um ítak sem heyrir undir Bergþórshvolskirkju, t.d. reka á söndunum, að lofa henni að halda því, þar sem maður þaðan getur notað það og athugað, eða láta t.d. kirkju ofan úr Fljótshlíð, sem á reka alveg við hliðina, eiga að stunda hann og nota, að ég ekki tali um, þegar er komið með reka norðan af Ströndum, sem kirkjur uppi í Borgarfirði eiga, eða reka norður á Ströndum, sem kirkjur suður í Gullbringusýslu eiga. Það er töluvert annað, hvort þessi ítök eru seld, sem bókstaflega er útilokað að viðkomandi kirkja eða kirkjubóndi geti notað sér nema láta aðra gera það í sínu umboði. Mér finnst vera dálítið vafasamt, hvort eigi að gilda sama um þessi tvenns konar ítök.

Í öðru lagi tel ég, að allir, sem óska eftir að fá ítak, sem liggur þannig við, að það sé hagkvæmara fyrir heildina, að það sé nytjað frá þeim stað, sem ítakið er næst, þeirri jörð, sem ítakið liggur undir, heldur en frá kirkjunni, sem ítakið á, eigi skilyrðislaust að fá það og það eigi ekki að þurfa að sækja eða biðja neinn um leyfi eða neitt, til þess að hann fái það, hann á bara alveg skilyrðislaust að fá það, þegar ítakið er alveg fyrir framan bæjardyrnar hjá honum. Hvers eðlis sem ítakið er, þá á sá, sem getur nýtt sér það daglega, að hafa það, en ekki kirkja, sem liggur fleiri tuga km og stundum hundraða km. vegalengd í burtu. Það á að vera svo sjálfsagður hlutur, að það á hvorki að þurfa að bera það undir prest né neinn, að hann fái það. Ef hann bara óskar eftir að fá það, þá á hann að fá það keypt, og hann á að fá það keypt með fasteignamatsverði; það á ekkert okurmat að fara fram á því, þegar hann fær það keypt. Og þar sem tekjur prestanna, sem hafa notað þessi ítök, hafa ekki verið metnar síðan árið 1918, og þeir búa enn við sömu leigu á sínum jörðum, þá er það svo lágt metið þeim til tekna, þetta ítak, að það er alveg ástæðulaust annað en að selja mönnunum það með fasteignamatsverði og lækka heimatekjur prestsins sem nemur því, sem þetta ítak var metið honum 1918, þegar heimatekjur prestanna voru síðast metnar. Að láta fara fram nýjar virðingar á því og annað þess háttar, það er bara kostnaður og aukin fyrirhöfn, og ég sé enga ástæðu til þess, ekki neina.

Það, sem ég vildi þá beina til n. að athuga, var þetta í fyrsta lagi, hvort það er ekki ástæða til að láta dálítið annað gilda um þau ítök, sem liggja þannig við, að kirkjubóndinn, hvort sem það er prestur eða ekki prestur, geti notað það frá sinni heimajörð, en hin, sem liggja þannig við, að það er útilokað með öllu, að bóndinn á kirkjujörðinni, sem á að nota ítakið, geti notað það og verði þá að láta annan hagnýta það í sínu umboði, ef hann yfirleitt á að nota það nokkurn hlut, sem ekki er nú gert um mörg af þessum ítökum þar að auki. Og svo er að hinu leytinu, hvort það sé ekki rétt með ítök, sem liggja lengra frá jörðunum, sem eiga þau, en það, að bændur geti notað þau með sínum eðlilega búrekstri, að selja þau alltaf fortakslaust, et óskað er eftir kaupum á þeim, með því verði, sem á þeim er, ef það er til fasteignamatsverð á þeim, eins og er t.d. á rekaítökunum flestum og hinum reyndar líka, en þá inni í fasteignamati viðkomandi prestssetursjarða, — hvort það er þá ekki rétt að selja þau fortakslaust með því verði, án þess að láta fara fram nýjan kostnað og nýjar virðingar, og lækka að sama skapi heimatekjur prestsins. Ég held, að það eigi að gera mönnum sem allra greiðast fyrir að geta eignazt þessi ítök, þau eru hvort sem er, eins og nú er komið, ósköp lítils virði fyrir kirkjurnar, sem eiga þau langt frá sér, og notast miklu betur fyrir heildina að vera nytjuð af þeim manni, sem býr alveg við þau og getur notað þau án verulegrar fyrirhafnar.

Þetta tvennt vildi ég biðja n. að athuga.