26.01.1956
Efri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

107. mál, kirkjuítök

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þó að ég gleðjist yfir því, að losa eigi þau ítök, sem kirkjurnar á ýmsum tíma hafa sölsað undir sig og við erum nú að prísa og lofa með því að minnast hátíðlega þess mikla dags, sem Skálholtsbiskupsstóll t.d. hefur gert með því að koma nógu miklu undir prestana o.fl„ o.fl., þá er ég ekki alls kostar ánægður með þetta frv. Það, sem mér finnst sérstaklega athugavert við það, er það, að gert er ráð fyrir því í frv., að þegar ítak er selt undan einni kirkju, skiptist andvirði ítaksins jafnt á milli allra kirkna prestakallsins. Þetta finnst mér ekki rétt.

Ég viðurkenni þó þá röksemd, sem færð er fyrir þessu í grg. frv. eins og það kom fyrst til Nd. Þar er gerð sú grein fyrir þessu, að það séu sum ítök, sem hafi legið upprunalega undir kirkju, sem búið sé að leggja niður; sé búið að leggja þessa kirkju niður og færa ítakið undir aðra kirkju í prestakallinu, þá sé eðlilegt, að andvirði ítaksins, sem þarna var og ekki getur lengur fallið til þeirrar kirkju, sem upprunalega átti það, skiptist á milli allra kirkna prestakallsins.

Ég er nú ekki einu sinni viss um, að þessi röksemd haldi. En þegar ekki er því til að skipta, þegar það er ítak, sem kirkjan hefur átt frá alda öðli, við skulum segja t.d. Breiðabólstaðarkirkja í Fljótshlíð hefur frá alda öðli átt ítök niður á söndum, og ef þau ítök eru seld undan kirkjunni, hvers vegna á þá að fara að gefa öðrum kirkjum prestakallsins þátttöku í andvirði þeirra? Það er Breiðabólstaðarkirkja, sem alltaf hefur átt þau, alltaf nytjað þau og alltaf haft þar gagn. Hvers vegna á þá, þó að þau séu seld, að fara að láta það renna til annarra kirkna við hliðina á? Aftur á móti viðurkenni ég t.d. um Viðvíkurkirkju, sem átti ítak og á ítak, sem heitir Elínarhólmi, varphólma, hann lá upprunalega undir kirkju, sem hét Miklabæjarkirkja og er búið að leggja niður, og þegar hún var lögð niður, var Miklabæjarkirkjusókn að öllu leyti sameinuð Viðvíkursókn, og þá eignaðist Viðvíkursókn hólmann. Eðlilegast væri þá líka, að Viðvikurkirkja fengi andvirði hans, ef hann væri seldur. Það væri eðlilegast, en ekki að hann skiptist á milli Hólakirkju og Hofstaðakirkju og annarra kirkna prestakallsins, sem aldrei hafa neitt haft með hann að gera að neinu leyti. Svona dæmi mætti taka ákaflega mörg. Það er t.d. ekkert eðlilegt, þó að ítak Hvanneyrarkirkju í afréttarlandi, sem heitir Kirkjutungur, uppi í Skarðsheiði, væri selt, ef viðkomandi hreppur vildi fá Kirkjutungurnar keyptar og fengi fyrir upprekstrarland fyrir sig, að Bæjarkirkja færi að fá hluta af því verðmæti, sem Kirkjutungurnar seldust fyrir, ef ítakið væri selt undan, eða Lundskirkja eða Fitjakirkja. Það væri ekkert réttlæti í því. Þær hafa aldrei komið þar neitt nálægt. Þetta hefur alltaf verið óskert eign Hvanneyrarkirkju og nytjað af henni alla tíð og tíma.

Svona dæmi gæti ég tekið nærri því úr hverri sýslu, þar sem kirkjur hafa átt ítak um áratugi og árhundruð og alltaf notið þess, og ef það ítak er selt, þá finnst mér ekki nein ástæða til þess að fara að skipta verðmæti þess milli annarra kirkna, sem aldrei hafa neitt notið þess. Ef þetta ætti að styðjast við það, að þessi ítök á sínum tíma hefðu orðið eign kirknanna til þess að launa prestana eða til að létta launagreiðslur prestsins, ef það ætti að styðjast við það, og það mætti hugsa sér, að það styddist við það kannske, þá er það ekki heldur rétt, því að laun prestanna eru núna að langsamlega mestu leyti greidd beint úr ríkissjóði og koma ekki að neinu leyti kirkjunum og fjárhag þeirra við. Þess vegna er þetta alveg óháð þeim. Ég skal viðurkenna, að það eru til einstök ítök, sem er líkt ástatt með og með prestmötuna, sem var alveg tilbúin á sínum tíma af bændunum með frjálsum vilja í viðkomandi söfnuði til þess að standa undir launum prestanna. Það hafa ítökin yfirleitt ekki verið. Þau hafa yfirleitt komið fram til þess að viðhalda kirkjunum og létta starf safnaðanna hvað það snertir, en ekki sem uppbót á laun prestanna, og þess vegna eru þau annars eðlis en prestmatan, sem þó er gerð hliðstæð í grg. fyrir frv. upprunalega.

Ég vil þess vegna mjög biðja nefndina á milli 2. og 3. umr. að athuga, hvort hún getur ekki lagað þetta og látið andvirði ítakanna renna til þeirra kirkna, sem raunverulega hafa átt þau, en ekki vera að skipta andvirði þeirra. Ef henni finnst, að það þurfi endilega að skipta þessu verðmæti þeirra ítaka, sem hafa áður tilheyrt kirkjum, sem búið er að leggja niður, þá má hafa tvö ákvæði um þetta, annað fyrir þau ítök, sem hafa heyrt til kirkjum, sem búið er að leggja niður, og hitt fyrir hin ítökin, sem alltaf hafa heyrt undir sömu kirkjuna. Annars hygg ég, að meginið af þessum kirkjuítökum, ekki kannske alveg öll, sé af sjálfu sér nú úr gildi numið. Ég hygg, að þeir, sem hafa átt að sjá um eign kirknanna, vafalaust prestarnir, hafi mjög fáir lýst ítökunum eins og þeim bar skylda til að gera eftir 4. gr. laga nr. 113 29. des. 1952, og hafi þeir ekki lýst ítökunum þá, eru þau dottin niður. Þess vegna hygg ég, að það sé meira form en að það komi að verulegu leyti til framkvæmda gagnvart mörgum af þessum kirkjuítökum. Þá átti að lýsa ítökum, hver, sem átti ítök í annarra manna jarðeign, átti að lýsa þeim þá, og þá var þeim, sem bjó þar, sem ítakið lá, gefin heimild til þess að geta keypt það. En ef lýsing yrði ekki gerð, féll ítakið sjálfkrafa undir þá jörð, þar sem ítakið var, og það hygg ég að sé orðið núna með megnið af þessum kirkjuítökum, þannig að þau séu í raun og veru ekki lengur til.