31.01.1956
Efri deild: 56. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

107. mál, kirkjuítök

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég lét í ljós hér við fyrri umr. þessa máls, að ég teldi, að það væri ekki hægt, ekki réttmætt a.m.k., að hafa frv. óbreytt eins og hér er. Ég benti þá á, að það, sem mér þætti athugavert við það, væri það ákvæði í 3. gr. frv., að verðmæti ítaka, sem seld eru, skyldu renna til þess prestakalls, þar sem presti ber afnotaréttur af ítakinu, og skiptast síðan milli allra kirkna prestakallsins. Ég benti á það þá, að þetta væri alrangt. Í fyrsta lagi segir það ekkert um, hvert eigi að renna ítök þeirra kirkna, sem prestur hefur aldrei haft afnot af, eins og allra kirkna, sem eru annexíur. Í öðru lagi tel ég ekki réttlátt að taka löglega eign af kirkju og skipta henni á milli annarra. Ég er einu sinni ekki viss um, hvort það er hægt eftir stjórnarskrá landsins að gera það. Nú kann að eiga að réttlæta það eitthvað með því, að þessi ítök hafi verið illa fengin á sínum tíma. Það getur vel verið, einhvern tíma í grárri forneskju.

En það kemur nú ekki hér til mála, og við getum ekki tekið tillit til þess. Þess vegna verðum við að taka staðreyndina eins og hún er, og hún er sú, að lagalega séð á þessi kirkja þessa eign. Og þá er mér spurn: Er þá hægt að taka það frá henni með einföldum lögum og skipta andvirðinu milli annarra. Ég held, að það sé ekki hægt. Ég held þess vegna, að hvernig sem á málið er litið, eigi að breyta þessu, og með tilliti til þess hef ég leyft mér að koma hér með skrifl. brtt. og hún er við 3. gr., og með leyfi forseta hljóðar hún þannig, að í stað orðanna „rennur til kirkna þess prestakalls, þar sem presti ber afnotaréttur ítaksins, og skiptist jafnt á milli þeirra“ komi: rennur til þeirrar kirkju, sem ítakið á. — Við tökum það af henni og látum hana hafa andvirði fyrir það, breytum því bara í peninga, ef við látum hana halda sinni eign óskertri, en skiptum því ekki milli annarra kirkna, sem aldrei hafa neitt í því átt og aldrei hafa neitt komið ítakinu við. Það var allt annað með prestmötuna, sem lögð var á bara í þeim tilgangi að létta söfnuðunum öllum að greiða prestinum laun eða láta prestinum líða betur. Það er allt annars eðlis, hún átti náttúrlega skilyrðislaust að renna annaðhvort beint í ríkissjóð, sem launar prestana, ellegar til prestsembættisins, sem um er að ræða hverju sinni. Þess vegna er það hjá upprunalegu nefndinni, sem hefur haft með málið að gera, algerlega skökk samlíking að jafna þessu tvennu saman, því að það hefur í eðli sínu aldrei átt neitt skylt hvað við annað, ítökin annars vegar og prestmatan hins vegar.