14.12.1955
Neðri deild: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það lagði í eyru mér inn í hliðarherbergi, að hv. 8. landsk. þm. lét út úr sér nokkur fúkyrði í garð Alþfl. í sambandi við afstöðu hans til verðlagseftirlits, eitthvað í þá átt, að nú væri Alþýðuflokkurinn að — (Forseti: Ég bið hv. þm. afsökunar, en ég vil vekja athygli bæði þessa hv. þm. og þess hv. þm., sem lauk nýlega máli sínu, á því, að verðlagseftirlit er ekki fyrst og fremst hér til umræðu; það er allt annað mál. Og ég vil beina því mjög eindregið til hv. þingmanna, að þeir fari ekki jafngersamlega út fyrir umræðuefnið og gert hefur verið í síðustu ræðu og horfur eru nú á.) Herra forseti. Ég mælti þessi orð mín eingöngu að gefnu tilefni af hálfu hv. 8. landsk. þm. og ætla mér aðeins að andmæla ummælum hans í örfáum orðum, en alls ekki að ræða verðlagseftirlit almennt.

Þessi ummæli hv. 8. landsk. benda til svo fullkominnar fáfræði um það, sem gerzt hefur á Alþ. undanfarin ár, að mig rekur í raun og veru í rogastanz að heyra þetta. Jafnvel þó að þetta sé fyrsta kjörtímabilið, sem hv. þm. situr á þingi, ættu hér ekki að vera menn, sem eru svo fullkomlega fáfróðir um það, sem gerzt hefur á þingum, sem þeir hafa ekki setið á, að þeir láti sér önnur eins ummæli um munn fara.

Það hefur verið eitt helzta baráttumál Alþfl., frá því að verðlagseftirlit var hér fyrst sett á 1938, að auka það og efla. Alþfl. hefur flutt um það ótal frumvörp, að nauðsyn væri á því að halda hér uppi öflugu verðlagseftirliti. Það frv., sem hann flytur núna og liggur fyrir þessu þingi, flytur hann í annað sinn. Það frv. er rækilega undirbúið og að öllu leyti margfalt skynsamlegra en þær till., sem þessi hv. þm. ásamt samflokksmanni sínum hefur leyft sér að flytja varðandi það, að verðlagseftirliti sé komið upp, en kjarninn í þeim till. er, að verðlagseftirlitið skuli sett í hendur Alþýðusambandsins, sem eru ópólitísk samtök vinnandi fólks í landinu.

Það er áreiðanlega einsdæmi, að nokkrum þm. detti í hug að láta stéttarsamtök fá algert úrslitavald yfir öllu verðlagi í landinu. Þeim málum þarf að skipa öðruvísi, með meiri varúð og meiri skynsemi en þar er lagt til. Að öðru leyti eru tillögurnar mjög gallaðar, og er það kannske ekki undarlegt. En hitt kemur manni mjög á óvart, að stóryrðum og fúkyrðum skuli vera stefnt að þeim flokki þessa þings, sem fyrst og ötullegast og mest hefur barizt fyrir því, að öflugu og skynsamlegu verðlagseftirliti sé haldið uppi í landinu. Og sízt hefði maður átt að geta búizt við slíkum fúkyrðum af hálfu manna, sem hafa ekki sýnt sig að því að flytja skynsamlegri tillögur um verðlagseftirlit en þessi hv. þingmaður.