08.12.1955
Neðri deild: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

118. mál, ný orkuver og orkuveitur

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. fjhn. fyrir flutning þessa frv. Ég bjóst jafnvel tæplega við að taka til máls nú við þessa 1. umr., en tel þó rétt út af þeim atriðum, sem hér hafa komið fram frá nokkrum hv. þm., að gera það, þó að einstök efnisatriði verði að sjálfsögðu rædd aftur frekar við 2. umr. frv.

Ég vil taka það fram út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram um form frv., að ég get að mörgu leyti fallizt á það, sem hann sagði, að það væri heppilegra að steypa þessu saman við þau lög, sem gilda um þetta efni. Við vitum, að það er mjög títt, að það sé gert og breytingar á lögum teknar inn í frumvörp, sem fyrir liggja við lokaafgreiðslu þeirra á Alþingi. Hins vegar tel ég, að í sjálfu sér sé kannske að sumu leyti alveg eins glöggt að leggja frv. á þennan hátt fyrir Alþ. eins og að fella það fyrir fram alveg inn í stóra lagabálka, sem áður eru í gildi. Efnisatriðin eru þá gleggri og ákveðnari í frv. eins og það nú liggur fyrir. En það er siður en svo, að ég hafi á móti því, ef hv. n. vill á það fallast, að steypa þessu saman. Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm.

Reykv. tók fram, að það er yfirleitt til hægðarauka, og nóg höfum við af lögum, nógu mörg eru þau, þó að ekki sé verið að gera þau miklu fleiri en þörf er á.

Þetta vildi ég taka fram um þetta atriði, en rn. leit svo á, að það væri engu síður verk Alþ. að gera þetta og til glöggvunar fyrir alþm. í upphafi væri ekkert á móti því, að frv. kæmi fram í þessu formi fyrst.

Ég vil svo aðeins minna á það, að þegar raforkulögin voru sett í upphafi, þ.e.a.s. þessi stóra áætlun, þessi svokallaða 250 millj. kr. áætlun, eins og hún var nú áætluð í upphafi, var það vitanlegt, að þar gat ekki verið um fastmótaða áætlun að ræða, sem ekki yrði að taka einhverjum breytingum. Hvort tveggja var, að undirbúningsrannsóknir höfðu alls ekki verið svipað því nægilegar til þess, að nægar rannsóknir gætu legið fyrir um allt land, og í öðru lagi eru svo alltaf að koma fram nýjungar á þessu sviði, tæknilegar nýjungar, sem gera það að verkum, að það virðist oft vera sjálfsagt að breyta um frá því, sem hinir tæknifróðu menn höfðu álitið rétt að gera fyrir örfáum árum.

Allt þetta hlýtur að verða tekið til meðferðar, á meðan á þessari áætlun stendur og reynt er að framkvæma hana, og því var það í raun og veru ekkert nema hlutur, sem hlaut að koma, að það yrði að bæta við áætlunina, breyta henni að einhverju leyti og fullkomna hana. Og það skal fram tekið, að það er þegar nú verið að vinna að, jafnvel búið að fullgera hér vissa hluti, sem leitað er nú heimilda fyrir, en ekki var í sjálfu sér heimild fyrir í gömlu lögunum. Ég vil t.d. taka það fram, að í raun og veru er nú verið að enda við, ef það er ekki búið að leggja línu frá Gönguskarðsárvirkjun og vestur í Húnavatnssýslu, Laxárvirkjunina, sem er eitt af því, sem hér er farið fram á að heimild fáist fyrir. Og það er byrjað á orkuverum bæði austanlands og vestan, sem hér er óskað eftir að fá fullnaðarheimild fyrir, ef þetta frv. verður að lögum. Og fleira slíkt má telja, að það er verið að vinna að ýmsum framkvæmdum einmitt á sviði þessa frv. Það er því enginn vafi á því, að hverjir sem með þessi mál fara í framtíðinni á næstu þingum, verður náttúrlega að koma til þingsins aftur með nýjar breytingar og nýja viðauka í þessu efni.

Það hafa tveir hv. þm. gert hér að umtalsefni raforkumál varðandi sín kjördæmi, og kemur mér það ekkert ókunnuglega fyrir, þó að um slíkt sé spurt. Það var hv. þm. Dal., sem virtist óánægður yfir því, að enn lægi ekki neitt fyrir um það, á hvern hátt raforka fengist um þær sveitir Dalasýslu, sem þó koma til mála um samveitur. Er alveg rétt, að þetta er ekki enn tekið inn í frv., og það er af því, að það hefur verið nokkur óvissa um það, hvernig þetta skyldi tekið. Í fyrstu virtist það vera skoðun sérfræðinga á þessu sviði, að komið gæti til greina með sérvirkjun innan sýslunnar, sem er þó að mörgu leyti erfið. En það mun nú vera miklu meir farið að hallast að því að taka þetta með línu vestan yfir Gilsfjörð og leiða það þann veg um sýsluna, en þetta var ekki komið á það stig, að rétt þætti að taka það inn í frv., sem hér liggur fyrir. Ég er náttúrlega síður en svo á móti því og þykir ágætt, að sú n., sem hefur með þetta mál að gera hér á hinu háa Alþ., yfirheyri raforkumálastjóra og Eirík Briem, sem fer með héraðsrafveiturnar aðallega, og aðra þá menn, sem hún hefur hug á, um þessi og önnur atriði. Ef samkomulag gæti orðið um það milli þeirra og Alþ., að eitthvað meira yrði sett inn í þetta frv. en hér er, mundi sízt standa á mér að vera með því. En hitt vil ég taka fram, að ég hef ekki viljað hvetja þá sérfræðinga, sem með þessi mál fara, til þess að koma með ákveðnar till. um ákveðna lausn í ákveðnum héruðum, áður en talið er, að málið sé það vel undirbúið, að rétt sé að setja það fram.

Hv. þm. N-Þ. minntist á þetta á nokkuð svipaðan hátt, þó ekki að öllu leyti, en minntist á raforkumál í Norður-Þingeyjarsýslu, og boðaði hv. þm. brtt., sem hann hefði þegar lagt fram í málinu. Ég hef ekki séð þá brtt., en veit þó nokkurn veginn, um hvaða efni hún muni vera. Það er nokkuð svipað um þetta að segja og Dalasýslu, að þetta er ein af þeim sýslum, sem einna örðugast er að eiga við um samveitur vegna strjálbýlis í mörgum sveitum, þótt þar séu einnig sveitir, sem eru vel fallnar til þess, að koma megi samveitukerfi um þær, og auk þess eru auðvitað þarna kauptún, sem bráðnauðsynlegt er að fái örugga raforku, eins og við vitum. En þegar upphaflega áætlunin var gerð, var raunverulega reiknað með virkjun innan Norður-Þingeyjarsýslu, í Sandá í Þistilfirði, og út frá því orkuveri, sem yrði alltaf mjög litið, yrði svo að leiða raforku eitthvað um sýsluna. Ég held, að það sé ekkert of mikið, þó að ég segi það, að raforkumálaeftirlitið er a.m.k. að mjög miklu leyti fallið frá þessari hugmynd og telur, að það sé miklu líklegra, að tekin verði lína t.d. frá Laxá og farið með hana þarna norður og sé þá hægt t.d. að taka Kelduhverfið, sem er eitt af þeim sveitum, sem bezt eru fallnar í Norður-Þingeyjarsýslu til þess að koma samveitu um í sambandi við það. En það var eins með þetta og með Dalasýslu, að þeim þótti ekki rétt og ég vildi ekki hvetja þá til þess um skör fram að koma með ákveðnar till. um þetta enn þá.

Þetta vildi ég taka fram til þess að segja þessum hv. þm. og öðrum, sem svipað stendur á um, þó að þeir hafi ekki talað hér, að þetta kemur ekki allt í einu. Menn verða að hafa dálitla biðlund um það, hvernig í einstökum atriðum verði farið með það og þá einmitt þá staðina, sem að vissu leyti eru erfiðastir viðfangs í þessu efni. Mér virtist, að hv. þm. Dal. þætti seinagangur á þessu, það væru nú liðin, eins og hann sagði, rúm tvö ár. Það eru raunar ekki nema rétt tvö ár, held ég, frá því að lögin náðu staðfestingu á Alþ., það var ekki fyrr en eftir áramót, svo að það eru eiginlega ekki tvö ár einu sinni síðan fastur fótur var undir þessum ráðstöfunum. En þetta er nú ekki mál, sem bara er sirklað út á pappír með sirkli og reglustiku og dregin svo bein strik á milli, það er miklu meira vandamál, það verður að segjast, því miður, enda veit ég, að hv. þm. meinti það ekki beinlínis, en það er mjög eðlilegt, að þingmenn minni á sína afstöðu í þessu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að tala hér að öðru leyti um þetta mál á þessu stigi. Það er mjög sennilegt, að við 2. umr. málsins liggi kannske fyrir eitthvað fleira af brtt. en sú, sem þegar hefur verið boðuð, og að þá verði ástæða til að ræða ýmis atriði varðandi þetta frv. og kannske þá líka eitthvað í þeirri löggjöf, sem nú er gildandi um þessi efni.

Ég fyrir mitt leyti vildi vonast eftir, að þessu frv. yrði nokkuð hraðað í gegnum þingið. Það þarf að ganga fram á þessu þingi, en það er nú náttúrlega vitað, að það verður framhaldsþing eftir áramót, þannig að það er ekki um neitt að ræða, sem krefst þess endilega, að þetta sé afgreitt nú fyrir jólafri. En ég vildi þó óska eftir, að reynt yrði að vinna að þessu máli eins og unnt væri, og ég vil leyfa mér að leggja áherzlu á, að hv. fjhn., sem hefur þetta mál til meðferðar, — hliðstæð frumv. hafa verið hér í þessari d. alltaf hjá hv. fjhn., — hafi samráð og tali við æðstu menn raforkumálanna í raforkueftirlitinu og kynni sér þeirra sjónarmið og þá náttúrlega sérstaklega gagnvart þeim till., sem fram kynnu að koma um verulegar efnisbreytingar á frv.