14.12.1955
Neðri deild: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að gera margar athugasemdir við þessa ræðu. Hv. 1. landsk. þm. tók það fram, að hann hefði verið í hliðarherbergi. Mér heyrðist á ræðunni, að hann mundi hafa verið miklu lengra frá þingsalnum en í hliðarherbergi, því að hann talaði hér um einhverja hluti, sem ég hef alls ekki talað um og alls ekki nefnt, eins og það, hvort Alþfl. hafi einhvern tíma flutt frv. um verðlagseftirlit. Á það minntist ég ekki. Ég talaði aðeins um afstöðu Alþfl. og þá sérstaklega þessa hv. þm. til frv., sem við þm. Þjóðvfl. fluttum hér í fyrra; annað ekki. Og hann gat ekki á nokkurn hátt bót mælt framkomu sinni og afstöðu þá. Um það, hvort okkar frv. sé skynsamlegra eða óskynsamlegra en frv. Alþfl., skal ég lofa þessum hv. þm. að dæma fyrir sig. Ég þykist vita, að ef hann hefur einhvern tíma flutt eitthvert mál, þá áliti hann það þaðan í frá skynsamlegra en allt annað, sem allir aðrir geti nokkurn tíma flutt, og hann má vel hafa þá skoðun fyrir mér. Ég ætla sannarlega ekki að ræna hann þeirri barnatrú.

Um hitt atriðið og þau orð, sem hann sagði hér um alþýðusamtökin, væri freistandi að segja ofur lítið. En ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að eftirláta alþýðusamtökunum sjálfum það hlutskipti.