23.01.1956
Neðri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

118. mál, ný orkuver og orkuveitur

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hv. form. fjhn. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf varðandi Dalasýslu, og ég vænti þess, að hæstv. raforkumálaráðherra láti sem fljótast úr því skera, hver háttur verði á hafður í þessum málum. En ég vil undirstrika það, sem ég kom með fsp. um hér við 1. umr. þessa máls, að það væri mjög æskilegt fyrir þjóðina og fyrir landsbúa alla sem slíka að vita nokkurn veginn, hvenær þeir ættu að vænta raforku til sín, hver og einn, og mér fyndist það mjög vel við eiga, að hæstv. ríkisstj. léti gefa út sérstaka bók um þá áætlun, sem hún hefur gert, þegar sú áætlun er fullgerð, svo að menn séu ekki að vaða neinn reyk í þessum efnum, og ég vil við þessa umr. undirstrika það við hæstv. raforkumálaráðherra, að þetta verk verði unnið á þann hátt, að það verði öllum landslýð kunnugt, áður en langt um liður. Hitt er svo annað mál, hvenær raforkan kemur til hvers og eins, en ég vænti þess, að framkvæmdum verði hraðað sem mest. Ég álít það afar þýðingarmikið atriði, að fólk viti nokkurn veginn, hvar það er í röðinni, sem kallað er, og geti á einhvern hátt undirbúið sig undir að taka á móti þeim þægindum, sem raforkunni fylgja.