09.02.1956
Efri deild: 63. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

137. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til, að sú breyting verði gerð á lögunum um happdrætti fyrir dvalarheimili aldraðra sjómanna, að happdrættinu verði leyft að hafa fleiri tegundir vinninga en nú er samkvæmt gildandi lögum. Er sérstaklega farið fram á það, að leyft verði að hafa húsgögn og annað slíkt á meðal vinninga í happdrættinu. Það er nú farið að tíðkast mjög í seinni tíð að færa vinningana í happdrættunum út á dálítið breiðara svið en verið hefur, og hvað sem um þá hluti má segja yfirleitt og allt þetta happdrættafargan, sem hér gengur, þá virðist ekki vera ástæða til að amast við því, að þetta happdrætti fái að hafa á meðal sinna vinninga svipaða muni og önnur happdrætti, sem hér starfa, fá að hafa. Út frá því sjónarmiði hefur allshn. orðið ásátt um að mæla með því, að frv. verði samþykkt.