04.11.1955
Efri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

81. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram að ósk hæstv. kirkjumálaráðherra og er um breyting á lögum nr. 31 frá 1952, um skipun prestakalla.

Þetta er ekki nýtt mál, því að það var samþykkt við 3. umr. hér í þessari hv. deild hinn 5. maí s.l., en þar sem skammt var til þingslita, dagaði málið uppi í Nd.

Ekki þarf að hafa mörg orð um að lýsa frv., því að það er samhljóða því frv., er fram var borið á síðasta þingi, að öðru en því, að þjónusta um stundarsakir mun eðlilega hafa breytzt milli prestakalla frá því, sem áður var, en upplýsingar um það geta komið fram við 2. umr. málsins.

Efni frv. er að heimila biskupi að ráða prestvígðan mann til þess að gegna prestsþjónustu um stundarsakir í prestaköllum þeim, þar sem prestur er veikur eða kallið prestslaust af öðrum ástæðum.

Eins og tekið er fram í grg., eru taldir erfiðleikar á því að fá aldraða presta til þess að taka að sér þjónustu í fjarlægum prestaköllum um stuttan tíma. Þess vegna er frv. þetta fram komið. Er nauðsynlegt að ráða prestvígðan mann til þessara starfa og hafa þá ráðningartímann allt að 3 árum, því að ekki þykir viðkunnanlegt að vígja unga kandidata til nokkurra mánaða þjónustu. Launakjör skulu vera þau sömu og sóknarprestar hafa, og ferðakostnaður skal greiddur sérstaklega samkvæmt reikningi, er ráðuneytið úrskurðar, svo og húsaleiga, ef með þarf.

Þar sem prestaköllin eru nú 116 að tölu samkv. lögum nr. 31 frá 1952, er ekki að undra, þó að einn prestvígðan mann þurfi til þess að vera tiltækan til þjónustu, þegar svo ber undir, að forföll verða hjá þjónandi prestum.

Að lokinni þessari umr. óskast málinu vísað til 2. umr. og að sjálfsögðu aftur til menntmn., sem falinn var flutningur málsins.