04.11.1955
Efri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

81. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég hef engu að bæta við framsögu hv. þm. Hafnf., en ég vildi aðeins taka það fram, að ég hef komizt að þeirri niðurstöðu eftir að athuga þetta mál allvandlega með biskupi og hans starfsmönnum, að raunverulega hlyti þetta að verða fremur hagnaður fyrir ríkið en aukinn kostnaður. Það hefur a.m.k. verið svo þessi síðustu ár, að raunverulega er greitt meira til þessarar aukaþjónustu í ýmsum prestaköllum en nemur launum eins prests. Það getur náttúrlega komið fyrir, að ekki geti hann alltaf annað öllu. Það kann satt að vera. En ég hef þó sannfærzt um, að þetta væri raunverulega rétt, með þeirri skipan, sem nú er um þessi mál, og hef því leyft mér að mæla með því, að frv. fengi afgreiðslu Alþingis. — Það var ekkert annað, sem ég ætlaði að segja.