04.11.1955
Efri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

81. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég heyrði, að frsm. þessa máls, hv. þm. Hafnf., lagði til, að málið færi aftur til nefndarinnar, og það gefur mér tilefni til að benda á þrjú atriði, sem ég vildi óska að n. athugaði.

Í fyrsta lagi liggur hér fyrir annað frv. um breyt. á sömu lögum. Ég hef bent á það áður, að ég tel ákaflega illa farið, þegar sama Alþ. semur fleiri en eina breytingu, sem koma fram í lögum viðvíkjandi breytingu á einu og sömu lögunum. Ef það er meining nefndarinnar þess vegna að gera þá breytingu, sem felst í frv. á þskj. 79, þá er rétt að setja það inn í þetta frv., svo að það komi ekki frá þessu þingi nema ein lög um breytingu á prestakallalögunum.

(Gripið fram í: Eða að setja þetta inn í hitt frumvarpið.) Já, eða það, skeyta þau saman, svo að það komi aðeins eitt frv., sem breyti prestakallalögunum, en ekki tvö, samþ. á Álþingi með tveggja eða þriggja daga millibili. Það er til að gera glundroða fyrir öllum mönnum, sem þurfa að nota lög, að gera slíkt. Þetta er fyrsta atriðið, sem ég vildi beina til nefndarinnar.

Önnur athugasemdin er svo bundin við frv. þetta, sem nú liggur fyrir til umr. Þar er ætlazt til þess, að þessum presti sé greiddur ferðakostnaður úr ríkissjóði. Hann á að hafa sömu laun og aðrir prestar. Hann er settur prestur einhvers staðar í einhverju prestakalli, og svo þarf hann að fara á bæ til að jarða. Á hann að fá ferðakostnað fyrir það? Það hefur enginn annar prestur ferðakostnað frá ríkinu fyrir að gera þetta embættisverk, en það liggur í orðanna hljóðan, eins og frv. er núna. Sé hins vegar ætlazt til, að hann fái aðeins ferðakostnað til að komast í þetta nýja kall og úr því aftur, þá er það annað mál og þá þarf það að takast fram. En ferðakostnað á hann ekki að mínum dómi að hafa sem prestur frekar en aðrir sóknarprestar. Ég tel, að það þurfi að breyta þessu.

Það er enn fremur talað um það hér, að borguð skuli fyrir hann húsaleiga. Hvaða ástæða er til þess, ef það veikist prestur einhvers staðar, t.d. norður á Melstað, og það á að setja prest fyrir hann árið, og húsið stendur þar, ríkissjóður á það, presturinn, sem hefur verið þar og er þar, er veikur, og hann fer burt, og það er settur nýr prestur að þjóna? (Gripið fram í: En ef hann og hans fjölskylda er kyrr í húsnæðinu?) Það er sama, húsaleigan er reiknuð þeim presti sama sem ekki neitt, og öll prestsseturshús hér á landi eru þannig sett, að það er lafhægt að bæta í þau a. m. k. einhleypum manni. Þess vegna tel ég það mjög vafasamt, hvort á að fara svona að. (Gripið fram í: En ef húsið er nú í sóttkví?) Ja, þá þarf hann að vera annars staðar. Það mundi náttúrlega einhvern veginn rætast fram úr því í þeim málum. En ég tel ekki rétt, almennt séð, að ákveða það, að þessir prestar eigi að fá húsaleigu fram yfir aðra presta, því að þeir setjast yfirleitt að í prestsseturshúsunum, og eftir lögum er prestunum reiknað það að vísu til ósköp lítilla tekna, en þeir sitja nærri því afgjaldslaust í húsunum, og það er ekkert á móti því, en þá eiga þessir varaprestar, sem á að grípa til í prestsleysi, ekki að vera það rétthærri en hinir prestarnir, að fyrir þá sé borguð einhver húsaleiga eftir einhverjum reikningi, sem fram kemur. Þeir eiga að hafa afnot af því húsnæði, sem fylgir því prestsembætti, sem þeir eru settir til að þjóna í forföllum annars prests, og ekki sérstaklega að greiða þeim húsaleigu að mínum dómi. Þetta vildi ég nú biðja n. að athuga.

Ég er ekkert á móti því, að ráðningartíminn skuli vera allt að þremur árum, en það finnst mér nú samt nokkuð langur tími til að ákveða prest í forföllum annars prests, — að maður sjái það fyrir, að það séu a.m.k. þrjú ár, þangað til þessi prestur, sem þarf að gera eitthvað eða fara eitthvað eða er lasinn og þarf að fá heilsubót, geti komið aftur, svo að það sé ástæða til að ráða hinn svo lengi. Það finnst mér mjög vafasamt. Þó er það ekkert aðalatriði hjá mér. En hitt finnst mér hvorugt ná neinni átt að láta hann fá rétt til alls ferðakostnaðar, sem fylgir embættinu, sem engir aðrir prestar hafa, þegar hann hefur sömu laun og þeir, og líka að borga fyrir hann húsaleigu, þar sem í ég held öllum prestsembættum landsins fylgir bústaður fyrir prestinn. Ég er ekki alveg viss um það samt, ekki kannske alveg öllum hérna í Reykjavík, þó held ég það nú líka, eða þá að þeir fái húsaleigustyrk, annað hvort af tvennu.

Þetta vildi ég biðja nefndina að athuga.