11.11.1955
Efri deild: 16. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

81. mál, skipun prestakalla

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir þá afgreiðslu, sem hv. frsm. lýsti á því frv., sem ég flutti á þskj. 79 um breytingu á lögum um skipun prestakalla. Mér skilst, að hv. n. í tillögum sínum hafi lagt til, að frv. mitt um, að tveir sóknarprestar yrðu framvegis látnir þjóna í Vestmannaeyjum, sé með því efnislega samþykkt, og út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því, þó að hv. n. afgreiði það í einu lagi ásamt því frv., er seinna kom, um aukaprest eða ferðaprest, sem svo er nefndur. Að fenginni þessari umsögn hv. n. vonast ég til, að málið geti fengið afgreiðslu út úr þessari d. á þann hátt, sem hv. n. hefur frá því gengið.