15.11.1955
Efri deild: 18. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

81. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru bara örfá orð, sem ég þarf að segja.

Það eina, sem mér virtist koma fram í þessari ræðu hv. þm. Barð., sem jafnframt mun vera formaður í Þingvallanefnd, ef ég man rétt, var fyrirspurn um það, hvers vegna ekki hefði verið settur prestur í Þingvallaprestakall. Ég get svarað þessu mjög fljótlega að því er mig snertir þau tvö ár, sem ég hef farið með kirkjumálin. Ég hef yfirleitt haft þá afstöðu að fara eftir till. biskups um þau mál, sem snerta kirkjuna, að því leyti sem það hefur samrýmzt mínum eigin till., og því flutt fram hér á Alþingi nokkrar till., sem frá honum hafa komið varðandi þessi mál, og þ. á m. það frv., er snertir aukaprest til þess að gegna í forföllum reglulegra presta, sem forfallast, og það held ég, að sé mjög mikill misskilningur hjá hv. þm. Barð., að með því sé verið að stefna að því, að allir prestar eigi að vera búsettir hér í Reykjavík og eigi svo að þjóta á bílum eða flugvélum út um land og rétt drepa sér niður á kirkjustöðum og gegna þar störfum. Við hv. þm. Barð. erum báðir það rosknir menn og þekkjum svo mikið til og vitum það, að prestar forfallast frá störfum eins og aðrir, og það er ekki alltaf þægilegt að láta gegna því á annan hátt en til sé maður, sem geti hlaupið í skörðin. Hlutverk þessa varaprests, eða hvað á að kalla hann, er ekkert annað en það, og hitt dettur vitanlega engum í hug, og því er ég nú undrandi á jafnþingvönum manni og hv. þm. Barð., að koma með aðra eins firru og þetta og það í skrifaðri ræðu, sem hann hefur undirbúið. Þetta dettur vitanlega engum í hug. Þetta er mál, sem biskup hefur sérstaklega borið fyrir brjósti, sérstaklega beðið fyrir, og ég sannfærðist um, að þetta væri rétt mál, mundi ekki hafa aukin útgjöld í för með sér og það væri því rétt að gera þetta. Hins vegar hafa engar tillögur komið fram frá biskupi um Þingvelli til mín þessi meira en tvö ár, sem ég hef verið í þessu starfi sem kirkjumálaráðherra, og það er ástæðan til þess, að ég hef ekkert gert í málinu. Ég skal viðurkenna, að ég hef treyst bæði þeim biskupi, sem fyrir var hér, herra Sigurgeir Sigurðssyni, og eins þeim, sem nú situr, herra Ásmundi Guðmundssyni, til þess að koma til mín, sem er leikmaður og hef aldrei sett mig neitt verulega inn í kirkjuleg málefni, með það varðandi kirkjuna, sem þeir sem yfirmenn hennar með þeim réttindum, sem kirkjan hefur hér og þeir sem yfirmenn hennar, um það, sem þeir teldu mestu varða í þessum efnum, og það er þetta, sem hefur gerzt, ég skal alveg viðurkenna það.

Ég hef í raun og veru ekkert annað um þetta að segja. Satt að segja hef ég yfirleitt ekki mjög mikinn áhuga á fjölgun presta yfirleitt í landinu, þó að ég hafi stutt að því, að þessi aukaprestur yrði settur til þess að hlaupa í skörð, þar sem þörf væri, og ég get meira að segja bætt því við, að ég hef álitið það og áleit, þegar síðast voru samþ. lög um prestakallaskipunina, að þá hefði verið hægt að breyta töluvert meiru en gert var í þeim efnum. Ég ligg ekkert á því, þótt ég sé kirkjumálaráðherra, og álít, að það hefði að sumu leyti kannske verið betra fyrir þrif kirkjunnar hjá okkur, að þá hefði prestum verið nokkuð fækkað. En það var enginn vilji til þess hjá hinu háa Alþingi, og við, sem þar sátum, eigum auðvitað allir okkar hlut í því. Ég er ekkert að undandraga mig frá því út af fyrir sig. En ég hef ekki séð ástæðu til þess að taka þetta mál upp, fyrr en það á einhvern hátt kæmi fram frá æðsta manni íslenzku kirkjunnar, herra biskupnum.

Nú virtist mér á niðurlagi ræðu hv. þm. Barð., að hann hefði átt tal við biskup um þetta mál að einhverju leyti, því að hv. þm. vitnaði að einhverju leyti í ummæli biskups. Þetta getur vel verið, og ég mun að sjálfsögðu í þessu máli eins og öðrum taka mjög mikið tillit til þess, sem biskupinn flytur, og þeirra raka, sem hann kemur með varðandi mál eins og þetta. En núna vildi ég leyfa mér að segja það, að ég vildi óska eftir, að menntmn. þessarar hv. deildar, sem mun hafa með þetta mál að gera, ræði við biskupinn um málið. Ég veit það að vísu ekki með vissu, en ég hygg þó, að n. hafi ekki rætt þetta mál við biskup, eða ég hef skilið það þannig. Ef það er misskilningur, þá biðst ég afsökunar á því. En það finnst mér alveg sjálfsagt, áður en lengra er gengið um þetta atriði. Um mína afstöðu til málsins að öðru leyti mun ég ekki ræða neitt hér, fyrr en ég hef fengið umsögn biskups og rök hans fyrir því, að sjálfsagt sé að gera þetta, og þá einnig þann hátt, sem hv. þm. Barð. leggur til í sinni till., sem er nokkuð sérstæður og samrýmist alls ekki því, á hvern hátt prestar eru nú kallaðir til embætta hér í þessu landi, eins og við vitum, þar sem um kosningar safnaðanna er að ræða. En ég segi það alls ekki af því, að ég gæti ekki hugsað mér breytingu í þeim efnum. Ég get mjög efazt um, að það skipulag, sem nú ríkir, sé rétt í þessum efnum, og það gæti verið full ástæða til að taka það út af fyrir sig til meðferðar, þó að það yrði alls ekki gert í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, hvort ekki væri rétt að breyta til að meira eða minna leyti í þeim efnum. En það er allt annað mál.

En það, sem ég vil aðeins endurtaka, er þetta, að hv. menntmn., hafi hún ekki rætt við biskup um þetta mál, geri það, áður en hún tekur ákvörðun um afstöðu til málsins, og að sjálfsögðu mun ég líka kynna mér skoðanir hans um þetta.