09.02.1956
Neðri deild: 65. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

81. mál, skipun prestakalla

Fram. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var borið fram í hv. Ed., og flutti menntmn. þeirrar deildar það að beiðni kirkjumálaráðherra.

Frv. fjallaði þá um að heimila biskupi að ráða prestvígðan mann til að gegna prestsþjónustu um stundarsakir í þeim prestaköllum, þar sem prestur er veikur eða kallið prestslaust af öðrum ástæðum.

Fyrir Ed. lá einnig annað frv. um fjölgun presta í Vestmannaeyjum úr einum í tvo. Þessum frv. var steypt saman í Ed. og kom þannig hingað til Nd., en menntmn. þessarar deildar hefur rætt málið á tveim fundum og meðal annars fengið biskupinn yfir Íslandi á fund til viðræðna. Nefndin hefur sannfærzt um, að með frv. væri rétt stefnt.

Varðandi fjölgun presta í Vestmannaeyjum er það að segja, að í Vestmannaeyjum eru nú 4000 manns búsettir, en á vetrarvertíð munu vera þar um 6000 manns, og Vestmannaeyjar hafa í rauninni algera sérstöðu meðal prestakalla landsins vegna legu sinnar. Það er talið mjög erfitt, að þar sé aðeins einn prestur, m. a. ef sá prestur þarf frá að fara, hvort sem það er á prestastefnu, vegna hvíldar, orlofs eða af öðrum ástæðum, og biskup telur, að ekki sé vel séð fyrir prestsþjónustu í Eyjum, nema tveir séu prestar, og minnir á, að áður fyrr voru Vestmannaeyjar tvö prestaköll.

Varðandi hitt atriðið hefur reynslan sýnt, að það er hin mesta nauðsyn að hafa prest, sem geti hlaupið í skarðið, gegnt í forföllum og fjarveru presta víðs vegar, og er það hald manna, að sú ráðstöfun mundi sízt verða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, það mundi jafnvel geta í mörgum tilfellum fremur orðið til sparnaðar en að nágrannaprestur þjóni og fái þá eftir venjulegum reglum hálf önnur laun.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en menntmn. mælir með því, að það verði samþykkt.