12.01.1956
Neðri deild: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

130. mál, mannfræði- og ættfræðirannsóknir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar með örfáum orðum til þess að lýsa mjög eindregnum stuðningi mínum við þetta frv. Ég tel, að hér sé um stórmál að ræða, sem eigi það skilið að hljóta hinar beztu undirtektir hjá hv. þingdeild. Ég hef tvívegis áður á hv. Alþingi flutt till. við afgreiðslu fjárlaga um að ætla nokkurt fé til þeirra þarfa, nákvæmlega til þeirra þarfa, sem um er rætt í þessu frv. Ég treysti mér ekki til að mæla betur með þessu frv. en að endurtaka, með leyfi hæstv. forseta, fáein orð, sem ég sagði um þetta mál, þegar ég flutti málið fyrst á hv. Alþingi, á árinu 1954, en á þeim ummælum sést, að sjónarmið okkar hv. flm. um þetta efni falla algerlega saman, því að alveg sömu sjónarmiðin er einmitt að finna í grg. fyrir þessu frv. og einnig í ræðu hv. flm. fyrir frv. nú áðan, — en ég sagði þá meðal annars:

„Ein till. er um nokkra fjárveitingu, 100 þús. kr., til þess að koma á fót mannfræðideild við þjóðskjalasafnið, og hafi sú deild m. a. það hlutverk að vinna að því að koma upp spjaldskrá yfir Íslendinga, þar sem getið væri helztu æviatriða þeirra og jafnframt varðveitt mynd af þeim, ef kostur væri á. Ég hygg, að óhætt sé að segja, að engin þjóð hafi önnur eins skilyrði til þess og Íslendingar að varðveita persónusögu sína til þess að fá þar með öruggan og vísindalegan grundvöll undir sagnfræðirannsóknir nútíðar og framtíðar og jafnframt undir rannsóknir í ættfræði og mannfræði. Mér skilst, að þeir Íslendingar, sem lifað hafa á Íslandi, séu ekki nema 1–2 millj. að tölu, og þar af munu vera þekkt nöfn á nokkur hundruð þúsundum manna. Það er engan veginn óvinnandi verk að gera skrá yfir alla þessa menn, sem nöfn eru þekkt á og þegar er fyrir hendi nokkur vitneskja um. Um meginhluta þeirra manna, sem lifað hafa í landinu frá landnámstíð og til 1703, er fyrsta manntal var tekið hér á landi, er auðvitað ekki vitað, hvorki um nöfn né æviatriði, en síðan 1703 má fullyrða að vitað sé um nöfn og jafnvel um æviatriði mikils þorra þeirra manna, sem lifað hafa í landinu.

Það væri einstakt í veröldinni, ef þjóð tækist að koma upp æviatriðaskrá yfir þá, sem lifað hafa með þjóðinni um nokkrar aldir, og fjöldi Íslendinga er ekki meiri en svo, að það er vel vinnandi verk í framtíðinni að halda við spjaldskrá um Íslendinga alla og helztu æviatriði þeirra. Yrði slíkt gert, mundi sú heimild áreiðanlega vera einsdæmi og óþrjótandi fróðleiksuppspretta fyrir sagnfræðinga, ættfræðinga og mannfræðinga. Með fáum þjóðum mun vera jafnmikill áhugi á ættfræði eins og með Íslendingum. Er það eðlilegt, og ber því að fagna. En störf hinna fjölmörgu manna, bæði sérfræðinga og alþýðu manna, sem við ættfræði fást, eru oft og einatt unnin á sama vettvanginum. Margir menn eru hver í sinn horni að vinna að sömu verkefnunum, og fer þarna oft mikil starfsorka til lítils. Ef komið væri upp mannfræðadeild í þjóðskjalasafninu, þá gæti hún orðið miðstöð og leiðbeiningarstöð fyrir alla þá mjög svo fróðu menn, sem nú fást við þessi störf, og mundi vafalaust verða til þess að auka mjög afköst þeirra og þá um leið gildi athugana þeirra.“

Ég hef undanfarin tvö ár öðru hverju hugleitt það, hvort réttara væri að flytja frv. um þetta efni, eins og hv. 2. þm. Skagf. hefur gert, eða flytja till. um fjárveitingu til þess að koma þessari starfsemi á laggirnar. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að skynsamlegra mundi vera að láta fjárveitingu til þessarar starfsemi nægja, og komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa átt allýtarlegar viðræður á sínum tíma um málið bæði við þjóðskjalavörð og þjóðminjavörð og nokkra menn aðra. Hv. 2. þm. Skagf. hefur komizt að annarri niðurstöðu. Ég geri ráð fyrir, að báðar skoðanirnar hafi nokkuð til síns máls. Hann telur, að nauðsynlegt sé, að til séu um þetta í upphafi fastákveðnar reglur. Um það er ég ekki alveg sannfærður. Ég gæti þvert á móti trúað, að það gæti orðið starfinu til nokkurs trafala, að því yrðu settar í upphafi mjög fastákveðnar reglur, og það er ástæðan til þess, að ég hef sjálfur ekki haft frumkvæði að því að flytja frv. eins og þetta. Mín hugsun var þvert á móti sú, að eðlilegt væri, að sá sérfræðingur, sem til starfsins yrði ráðinn, hefði alveg óbundnar hendur um það, hvernig hann skipulegði þetta starf sitt, og taldi meiri líkur á, að með því fengist góður árangur, ef hendur hans væru frjálsar og óbundnar í málinu. Ég komst m.a. að þessari niðurstöðu við það að ræða við þjóðskjalavörð og þjóðminjavörð um málið og komst að raun um, að skoðanir þeirra voru ekki alveg á eina lund um það, hvernig heppilegast væri að haga þessu starfi.

Hér í frv. er til dæmis — ég nefndi það aðeins sem dæmi — tiltekinn sá aldur, sem þeir eiga að hafa, sem spjaldskráin nær yfir. Ég er ekki að bera brigður á, að sá aldur sé sá, sem reynslan mundi sýna að væri æskilegastur, en ég tek þetta aðeins sem dæmi um það, að það kann að orka nokkurs tvímælis, hvort æskilegt sé að kveða á um öll framkvæmdaratriði í lagasetningunni sjálfri. Sá aldur, sem a.m.k. þjóðskjalavörður nefndi við mig á sínum tíma, var, að því er mig minnir, annar en þessi. En þetta er auðvitað aukaatriði í málinu.

Ég hefði talið, að reynsla skrásetjara sjálfs mundi verða bezti mælikvarðinn á það, hvernig haga ætti framkvæmdum í þessum efnum. Ég vil í því sambandi til dæmis geta þess um önnur hliðstæð störf þessu, mjög mikilvæg, svo sem orðabókarstarfið, sem ég tel tvímælalaust vera eitt merkasta menningarstarf, sem nú er unnið á landi hér, að um það voru ekki sett á sínum tíma sérstök lög, heldur framkvæmdir hafnar þannig, að ráðnir voru til starfans menn og þeir látnir skipuleggja verk sitt sjálfir. Það var einmitt gert með fjárveitingu annars vegar frá Alþ. og hins vegar úr sáttmálasjóði. Mér vitanlega hafa aldrei verið settar fastar reglur um starfshætti þeirra manna, sem að orðabókinni vinna, ekki einn sinni reglugerð, heldur treyst þar á dómgreind þeirra sjálfra, enda mun reynsla á því sviði hafa sýnt, að hugmyndir manna um það, hvernig æskilegast væri að haga verkinu, hafa breytzt nokkuð frá því, að verkið var hafið. Ég gæti vel hugsað, að þannig færi einnig hér. En ég bið menn að skoða þetta ekki sem andmæli gegn frv., heldur aðeins á þann veg, að það kynni að koma í ljós, að nauðsyn yrði að breyta frv. síðar, að fenginni reynslu.

Hitt skal ég játa, að það eru rétt rök með því að fara frekar þá leið að setja um málið lög en að láta fjárveitingu á fjárlögum duga, að auðveldara yrði að fá mann til starfans, ef um hana giltu föst lög, en ef um væri að ræða fjárveitingu eina saman í fjárlögum. Þó tel ég mega nefna það í því sambandi, að hér er ekki um það að ræða, ekki heldur samkv. frv., að koma á fót algerlega nýrri stofnun, heldur gerir flm. frv. einmitt ráð fyrir því sama og ég hef gert í mínum till, að þessi starfsemi yrði í stofnun, sem þegar er lögfest, þ.e.a.s. þjóðskjalasafninu. Það er nokkurt álitamál, hvort starfsemin ætti að vera í þjóðminja- eða þjóðskjalasafninu. Um það voru líka nokkuð skiptar skoðanir meðal þeirra manna, sem ég ræddi við um málið á sínum tíma. Niðurstaða mín varð þó sú, að starfsemin ætti frekar heima í þjóðskjalasafninu, þó að ýmsir væru á öðru máli, eins og raunar sú starfsemi, sem skyld er þessu, mannamyndasöfnunin, ber vott um, að hún er í þjóðminjasafninu. En við flm. og ég erum sammála um eftir þessu frv. að dæma, að starfsemin eigi heima í þjóðskjalasafninu.

Ég vil að síðustu aðeins endurtaka meðmæli mín með því, að frv. nái fram að ganga, og vona, að það, að till mín hefur í tvö skipti ekki hlotið nægilegar undirtektir hv. þingmanna, tákni ekki það, að þeir séu þessari hugmynd andvígir, heldur hljóti þetta frv. stuðning nú, enda má í því sambandi geta þess, að með þessu frv. einu yrði í sjálfu sér ekki efnt til neinna útgjalda, því að það er gert ráð fyrir því, að það komi ekki til framkvæmda fyrr en fé sé veitt á fjárlögum til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Eftir sem áður yrði væntanlega nauðsyn á því, að till. yrði flutt við afgreiðslu fjárlaga um að veita fé til þessa máls, og vona ég þá fastlega, að hv. 2. þm. Skagf. greiði slíkri till. atkv. og nægilega margir til þess, að hún nái fram að ganga.