22.03.1956
Efri deild: 90. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

155. mál, vátryggingasamningar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga hefur borizt Alþingi fyrir milligöngu Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum og hefur þegar fengið afgreiðslu í Nd. óbreytt eins og það barst hinu háa Alþingi.

Við höfum hér í þessari deild talsvert kynnt okkur þetta frv. og rætt það. Með hinu upphaflega frv. á þskj. 375 er ýtarleg grg. fyrir þessum breytingum, sem ætlazt er til að fá lögfestar nú, og ef hv. þm. hafa kynnt sér þá grg., er kannske lítil þörf á fyrir mig að hafa sérstaklega ýtarlega framsögu um þetta mál.

Ég vil þó benda á það, að í grg. er tekið fram, að með lögunum, sem ætlazt er til að breyta, nr. 20 8. marz 1954, um vátryggingarsamninga, voru lögin um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, sem kölluð eru vélbátatryggingarlögin, að verulegu leyti felld úr gildi. Stendur lítið annað eftir af þeim en ákvæðin um skyldutryggingar. En þessi lög, sem talið er að hafi verið felld úr gildi, fólu í sér sérstaka tilhliðrun hvað snertir greiðslu á björgunarlaunum fyrir fiskiskipin eða vélbátaflotann sérstaklega. Nú er því flotinn að því leyti til berskjalda, að síðan felld voru úr gildi þessi sérstöku honum hliðhollu lög, getur hver, sem bjargar vélbát, krafizt fullra björgunarlauna samkvæmt almennum lögum þar að lútandi, og verður það, ef svo fer fram, óhjákvæmilega til þess að áliti þeirra, sem þessa löggjöf vilja fá núna setta, að hækka þarf tryggingariðgjöld af bátunum að miklum mun. Til þess að forðast, að það verði, vill því hv. Nd. og þeir, sem að þessu máll standa, lögleiða aftur ákvæði vélbátatryggingarlaganna, m.ö.o. lögleiða aftur þau fríðindi, sem bátarnir sérstaklega njóta að því er snertir greiðslu á björgunarlaunum.

Að öðru leyti er því lýst í grg., sem um ræðir, að verið sé að vinna að endursamningu bátaábyrgðarlaganna og samræma þau, eftir því sem unnt er, lögunum um vátryggingarsamninga. Það frv. er þó ekki svo langt á leið komið, að hægt hafi verið talið að fá það samþykkt á þessu þingi, og er því ætlazt til, að sú breyting, sem liggur fyrir nú í frv. á þskj. 375, verði til bráðabirgða, þangað til hinn endurskoðaði lagabálkur verður tilbúinn fyrir bátaábyrgðarfélögin og þá samræmdur, að svo miklu leyti sem það er unnt, ákvæðunum í lögunum um vátryggingar samninga.

Ég held, að þó að það kunni að vera annmarkar á því að takmarka björgunarlaun fyrir fiskibáta, þá verði að fallast á, að það væri óhagstætt ekki síður nú, og kannske frekar nú en oft endranær, að vátryggingariðgjöld bátanna þyrftu enn að hækka. Það eru margir, sem stynja mjög undir þeim gjöldum, og rétt er að benda á það í þessu sambandi til þess að undirstrika það, hve þýðingarmikill liður þau eru í kostnaði útgerðarinnar, að í nýafstöðnum aðgerðum Alþingis varðandi aðstoð til bátaflotans er séð fyrir því að létta undir með bátaflotanum frá ríkisins hálfu einmitt á þessu sviði, tryggingarsviðinu. Með hliðsjón af því, þó að það kunni ekki að vera nema þetta ár eða til bráðabirgða líka, finnst mér, að það væri að leggja öfugt á að stofna til þess með því að synja um staðfestingu á þessu frv., að bátaábyrgðariðgjöldin yrðu að hækka af öðrum ástæðum.

Þessi sjónarmið hefur sjútvn. rætt og komst að þeirri niðurstöðu, að hún, eins og hv. Nd. hefur lagt til, leggur til, að frv. sé samþykkt óbreytt.