22.11.1955
Neðri deild: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt af meiri hluta landbn. eftir beiðni hæstv. landbrh., en einn nm., hv. 6. þm. Reykv., hefur ekki tekið þátt í flutningi þessa frv. Eins og hv. þm. er kunnugt, var frv. um svipað efni og breyting á framleiðsluráðslögunum flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Nú er frv. um breytingu á framleiðsluráðslögunum flutt á ný í dálitið breyttu formi, þ.e.a.s. meiri hl. nefndarinnar hefur tekið upp þær till., sem meiri hl. landbn. lagði til að yrðu samþykktar á s.l. þingi.

1. gr. þessa frv. fjallar um það að fela mönnum frá Landssambandi eggjaframleiðenda og Sölufélagi garðyrkjumanna að sitja fundi framleiðsluráðsins, þegar rædd eru málefni, sem varða þeirra atvinnugreinar, og virðist slíkt vera mjög eðlilegt, þar sem þeir eru sínum málefnum að öllu jöfnu kunnugastir.

2. gr. frv. felur í sér ákvæði, sem varðar inn- og útflutning landbúnaðarvara. Okkar landbúnaðarframleiðsla hefur ávallt verið og er mjög háð veðurfarinu, svo að búast má við, að þó að meira en nægjanlegt sé til af einni framleiðslugreininni í ár, t.d. mjólk eða slíku, þá muni kannske verða skortur á henni eitthvert annað ár. Það er því mjög áríðandi, að framleiðsluráð landbúnaðarins, sem hefur með sölu og verðlagningu á þessum vörum að gera, fái að segja álit sitt um, hvort eigi að vera innflutningur á viðkomandi vörum eða ekki. Og þessi grein fjallar um það, að ávallt skuli leita samþykkis framleiðsluráðsins, þegar um innflutning á landbúnaðarframleiðslu er að ræða.

3. gr. er um verðskráningu á garðávöxtum og gróðurhúsaframleiðslu. Það er ekki um neina efnisbreytingu að ræða hér, heldur aðeins orðalagsbreytingar.

4. gr. frv. fjallar um ný verkefni framleiðsluráðs, þar sem gert er ráð fyrir, að bætt verði inn í lögin nýjum kafla um sölu matjurta og gróðurhúsaframleiðslu. Í mörg undanfarin ár hafa verið á meðal gróðurhúsa- og garðræktarmanna háværar raddir um það að fá breytingar á fyrirkomulagi á sölu garðávaxta. Nefndir hafa verið skipaðar, sem hafa ekki orðið á eitt sáttar, eins og við mátti búast. Fundasamþykktir hafa verið gerðar á stéttarsambandsfundum bænda, þar sem bent hefur verið á, að nauðsynlegt væri að breyta um skipulag í þessum efnum. Hitt er svo annað mál, á hvern hátt heppilegast er að breyta til, og er mikið um það búið að ræða, og tel ég, að þær breytingar, sem hér um ræðir, séu þess eðlis, að þeir, sem þar eiga hlut að málí, muni eftir atvikum sætta sig við þær eða telja, að þær séu til bóta, því að þróunin í sölumálum landbúnaðarframleiðslunnar hefur verið sú á undanförnum árum og eftir því sem framleiðslan hefur farið vaxandi í landinu, að þá hefur viðkomandi stétt eða framleiðendur fengið meir og meir í sínar hendur sölu og fyrirkomulag á viðkomandi framleiðslu. Þessar breytingar koma því engum á óvart og ekki heldur óeðlilegt, þegar litið er á þróun þessara mála, þótt það fari á sömu leið með garðræktina sem aðra landbúnaðarframleiðslu, því að þeir framleiðendur, sem eiga allt undir sól og regni, eiga það sannarlega skilið, að fyrir þá sé gert það, sem þeir telja að sé sínu starfi til bóta. Það er líka meginskilyrði fyrir því, að gróðurmold og ylur jarðar notist og verði leystur úr læðingi í framtíðinni, að þeir, sem að því vinna, séu ánægðir með sitt hlutskipti, því að eitthvert mesta vandamál nútímans er að stöðva flótta fólksins úr dreifðum byggðum til fjölmennari staða í landinu. Okkur ber því nú sem fyrr skylda til að hlusta á þær raddir, sem til okkar berast, og búa þannig í haginn fyrir uppvaxandi kynslóðir, að það þyki ekki girnilegra að standa hér í búðarholu eða innilokaður á skrifstofu.

Það þarf að veita straumnum frá fjölbýlinu og meira út í hinar dreifðu byggðir, þar sem verkefnin verða ótæmandi um ófyrirsjáanlegan tíma.

5. og 6. gr. þessa frv. eru um verðmiðlun. Þær breytingar, sem hér um ræðir, eru hvort tveggja í senn afleiðingar af öðrum breytingum á þessum lögum og einnig breytingar, sem gerðar eru út frá þeirri reynslu, sem skapazt hefur á undanförnum árum, frá því að framleiðsluráðslögin gengu í gildi árið 1947.

Að lokinni þessari umr. óska ég þess, að frv. þetta verði látið ganga til 2. umr. og að hv. þm.

mæti því af skilningi og styðji það eftir beztu getu.