22.11.1955
Neðri deild: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við höfum undanfarið á þessu þingi og á síðasta þingi séð framan í frumvörp, sem Sjálfstfl. hefur flutt um að leggja niður bæði ferðaskrifstofuna og skipaútgerð ríkisins, og þetta hvort tveggja, ferðaskrifstofan og skipaútgerð ríkisins, eru stofnanir, sem voru settar á stofn, þegar stjórn Frams.- og Alþfl. var hér á árunum 1934–37. Framsfl. hefur rekið upp mikið óp, þegar þessar till. hafa komið fram, og meira að segja í sambandi við aðra till. brugðið svo hart við, að hann hefur gert það, sem hann sjaldan hefur annars gert hér, að hindra, að samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn fengi slíkt mál í nefnd. Framsfl. hefur þótt, að þarna væri verið að ráðast á það, sem væri einn af þeim minnisvörðum um samstarfið 1934–37, sem ekki mætti falla. Það er vitanlegt, að tillögurnar um skipaútgerð ríkisins og um ferðaskrifstofuna og um grænmetisverzlun ríkisins voru gerðar af skipulagsnefnd atvinnumála eða Rauðku, eins og hún venjulega var kölluð, og þóttu vera allmikil framför í skipulagsmálum í þjóðfélaginu frá því, sem áður hafði verið.

Nú bregður svo við, að Framsfl. sýnir alveg sérstakan áhuga um að leggja niður eitt ríkisfyrirtæki, sem líka var stofnað fyrir 20 árum, grænmetisverzlun ríkisins, afnema þá einkasölu, sem líka var einn árangurinn af þeirri samvinnu Alþfl. og Framsóknar, einn árangurinn af starfi skipulagsnefndar atvinnumála eða Rauðku á þessum árum.

Ég held, að það sé ekki að tilefnislausu, að maður þess vegna spyrji: Hver er stefna Framsóknar um þessi mál? Hvað er það, sem veldur því, að það á að fara að afnema og svipta ríkið upphaflegum eignum skaðabótalaust, eins og hv. 6. þm. Reykv. hefur sýnt fram á, hvað er það, sem veldur þessu? Manni liggur nærri að láta sér detta í hug, að þegar um ferðaskrifstofuna eða skipaútgerðina sé að ræða, fyndist Framsfl. sem hann væri að missa einhverja aðstöðu með því, að það væri tekið frá ríkinu. En finnst honum þá rétt að svipta ríkið og þá, sem það á að hugsa um hagsmuni fyrir með grænmetisverzlun ríkisins, þeirri aðstöðu, jafnvel þótt Framsfl. kynni að hugsa sér, að hann fengi einhverja betri aðstöðu með því að gera þetta að einkafyrirtæki? Hingað til höfum við þó gengið út frá því í orði kveðnu a.m.k., að þegar ríkið hefði þarna einkasölu, væri tekið tillit bæði til hagsmuna neytenda og framleiðenda, og það er ekki ósanngjarnt, að þeirri stefnu, sem upphaflega var mörkuð í þeim efnum, sé haldið, og engin ástæða til þess, að annar aðilinn, sem þarna á hlut að máli, sem sé hluti af framleiðendunum, gæti ákveðið sjálfur allt um þetta verk.

Mér finnst það satt að segja koma úr hörðustu átt, þegar ráðuneyti hæstv. landbrh., sem var, ef ég man rétt, einn af þeim mönnum, sem voru í skipulagnefnd atvinnumála fyrir 20 árum, og einn af aðalstarfsmönnum Rauðku þá, var þess vegna einn af aðalfrumkvöðlum grænmetisverzlunar ríkisins, skuli nú leggja til að afnema þessa verzlun ríkisins. Ég sé að vísu, eins og hv. 6. þm. Reykv. sýndi hér fram á, að það er heldur kurteislegar í þetta farið en á siðasta þingi, enda var það þá gert með slíkum endemum, að ekki var haldið áfram með það. En þessar aðferðir minna mig dálítið á það, sem hefur verið að gerast á undanförnum árum og ég hef nokkrum sinnum komið inn á, áburðarverksmiðjumálið, hvernig reynt er að svipta ríkið eign og valdi, sem það hefur, til þess að leggja það öðrum einstökum aðilum í hendur. Ég hef flutt frv. um það mál hér á þinginu ár eftir ár. Það frv. hefur aldrei enn þá verið afgreitt frá fjhn. og liggur nú hjá henni, þrátt fyrir það að ég hafi fulla ástæðu til að halda, að meiri hluti þings sé mér sammála í því máli. Og ég vil leyfa mér að spyrja: Er það Framsfl., sem hefur formennskuna í fjhn., sem liggur á því, að svona frv. fáist afgreitt úr nefnd, þannig að það fái að koma í ljós, hver afstaða þingmanna er með þessu máli? Er þetta ef til vill vinstri samvinnan, þessi lýðræðislega samvinna, að afgreiða engin mál úr nefnd, að stöðva mál með eins konar valdboði í nefndunum og láta þau aldrei sjá dagsins ljós, eftir að þau hafa lent inn í nefndagreninu einu sinni, jafnvel þótt meiri hluti þingmanna sé kannske með þeim? Mér dettur þetta nú sérstaklega í hug vegna þess, að ég tók eftir, að hv. frummælandi þessa máls lagði ekki til, að málið færi til nefndar. Og ég vil leyfa mér að taka undir þá till., sem hv. 6. þm. Reykv. kom hér með, sem sjálfur á sæti í landbn., að þessu máli sé vísað til landbn. Það er engin ástæða til þess, þegar meiri hl. einnar n„ sem er bara einir fjórir þm., en ekki nefnd, flytur eitt mál, að því máli sé ekki vísað til n. á venjulegan hátt. Hvað þýðir það, að máli er vísað til nefndar? Það þýðir það, að í n. er tækifæri fyrir alla aðila nefndarinnar til að leita álits sérfróðra manna um það mál, sem fyrir liggur, og fá það upplýst og geta birt þingheimi þau álit, þannig að þingheimur hafi möguleika til þess að dæma um þessi mál að fengnum upplýsingum frá báðum hliðum. Ég vil minna á, að það er ekki höfuðtilgangur nefndanna samkv. stjórnarskrá og þingsköpum að svæfa mál, þó að hv. stjórnarliðar séu kannske farnir að gera sér það í hugarlund út af þeim aðferðum, sem þeir hafa haft undanfarið við bæði mál stjórnarandstöðunnar og sum af málum stjórnarsinna. Það er tilgangur nefndanna að rannsaka mál og útvega þingheimi upplýsingar um þau, og þegar landbn. á að fá svona mál aftur til athugunar, þá er það til þess að leggja fyrir okkur þingmennina almennt upplýsingarnar í þessum málum.

Ég vil taka undir það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það væri mjög fróðlegt að heyra álit m.a. þeirra starfsmanna ríkisins, sem nú stjórna grænmetisverzlun ríkisins, — heyra álit þeirra á þessum málum. Ég veit ekki til þess, þegar málin um skipaútgerðina hafa verið hér til umr. á Alþingi, að forstjóra skipaútgerðarinnar hafi verið meinað að birta sitt álit um það mál. Ég veit ekki betur en að öllum þingheimi og það jafnvel Sjálfstfl. líka hafi þótt sjálfsagt, að þessir starfsmenn ríkisins kæmust að með að birta sitt álit um, hvort ætti að afnema skipaútgerð ríkisins eða ekki. Ég veit ekki betur, þegar málin um ferðaskrifstofuna eru rædd hér, en það sé leitað álits forstjórans fyrir ferðaskrifstofunni til þess að heyra, hvað hann hafi að segja um þessi mál. Og ég sé ekki, af hverju Framsfl. ætti ekki að geta verið með því, að þessir menn, sem meira að segja þar að auki munu almennt vera framsóknarmenn, fái að láta í ljós sitt álit á þessum málum og það álit fái að birtast þingheimi.

Ég álít, að það sé þess vegna sjálfsagður hlutur, að þessu máli sé vísað til landbn. og landbúnaðarnefnd, heil eða óklofin, að fengnu áliti þeirra manna, sem hún kallar til til þess að heyra um þetta mál, skili þessu aftur til hv. d. við 2. umr. Ég sé hvort sem er, að það þarf ekki að óttast, að málið komi ekki úr n. aftur. Það er auðsjáanlega það mikill áhugi í nefndarmönnum, að þó að ég leggi til eða taki undir þá tillögu hv. 6. þm. Reykv., að málið fari aftur til landbn., er ekki þar með verið að leggja til að svæfa málið, eins og virðist vera aðaltilgangur sumra nefnda hér í þinginu. Þvert á móti, það er til þess að fá upplýsingar frá öllum hliðum í málinu.

Ég vil þess vegna leyfa mér að óska þess, að hv. frsm. fallist á þá till., að þetta mál fari til landbn., og ég man ekki betur en að við höfum áður rætt það mál þó nokkuð hér í deildinni, þegar mál eru flutt af meiri hluta nefndar, hvort það sé ekki rétt, að þau fari til nefndar aftur, og komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri sjálfsagt, einmitt vegna þess, að ef sá háttur væri tekinn upp, þegar meirihlutamenn úr einni n. flytja mál, að senda það ekki til n., þá mundi það þýða, að minni hlutinn í einni n. væri sviptur þeirri aðstöðu, sem honum ber samkv. stjórnarskrá og þingsköpum, að gefa út nál. með þeim skýrslum, sem þar til heyra, fylgiskjölum um þetta mál, sviptur þeirri aðstöðu, sem við vitum að er ákaflega mikilvæg aðstaða, ein af mikilvægustu aðstöðunum hér á þingi. Ég vil þess vegna eindregið leyfa mér að vona, að hv. frsm. málsins fallist á það, að málið fari til n. aftur, það sé hægt að athuga það vel í þeirri n. og það geti legið alveg fyrir okkur þm., þegar málið kemur aftur frá n., hver afstaða þeirra manna er, sem ríkið nú undanfarið hefur falið að stjórna þessum málum fyrir sína hönd, hvort þeir eru samþykkir eða ekki þeim till., sem hér eru í frammi. Það er það minnsta, sem við þm. getum búizt við að gert sé, að tryggja okkur að fá álit þeirra manna, sem um þessi mál fjalla.

Hv. 6. þm. Reykv. sýndi líka fram á, að í grg. væri bara talað um meiri hluta þeirrar n., sem hafði flutt frv. upphaflega og undirbúið það. Og ég vil taka undir það með honum að biðja um upplýsingar um það, hvernig er með minni hluta þeirrar nefndar. Af hverju er þess ekki getið, hvað hann segir? Og ég vil minna á um leið, sérstaklega þá, sem mikið tala um lýðræði, að það, sem þykir einkenni á lýðræði, sé, að minni hlutinn fái að komast að með sínar skoðanir, og þess vegna væri mjög æskilegt, að við fengjum líka að heyra, hvað minni hluti þeirrar nefndar, sem upphaflega hefur þó verið stjórnskipaður, segir um þetta. Það má vel vera, að þær upplýsingar liggi ekki fyrir sem stendur, en þá er það eitt af þeim tilvöldu verkefnum hv. landbn., þegar hún fengi þetta mál aftur til umr., að útvega sér þessar upplýsingar og láta þær liggja fyrir deildinni í rökstuddu áliti með fylgiskjölum þessara manna, þegar málið kemur aftur til 2. umr. frá hv. landbn.