23.01.1956
Neðri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Mér finnst rétt, að ég segi nokkur orð um þetta mál nú. Ég hef ekki gert það fyrr í þinginu. En svo miklu moldviðri, útúrsnúningum og rangfærslum hefur verið þyrlað upp í kringum þetta tiltölulega einfalda og ég vel segja sjálfsagða mál, að það er a.m.k. nauðsynlegt að halda öðruvísi ræðu í því en hv. frsm. minni hl. gerði, því að ég var í raun og veru algerlega undrandi á þeirri ræðu, sérstaklega af því að ég þekki hv. 6. þm. Reykv., þekki góðvild hans og veit, að hann þekkir mikið til búskapar, auk þess er hann mjög mikið inni í stéttarfélögum og öðru slíku og virðist vinna þar vel. En svo þegar heil stétt, bændastétt landsins, einhuga kemur með mál, þá er þessi maður með rangfærslur og útúrsnúninga, og það kemur ekki eitt einasta orð, sem kemur við málinu sjálfu og kjarna þess, fram í ræðu hans. Ég vil bara leyfa mér að benda á eitt atriði. Hann er að burðast við að lesa upp ummæli eftir eitthvað tvo eða þrjá kaupfélagsstjóra, sem hann segir að séu á móti málinu, og nefnir þar sérstaklega einn mætan kaupfélagsstjóra, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Eyfirðinga. Í raun og veru kemur hvergi fram í ummælum hans, að hann sé á móti málinu. En við skulum segja, að það væri. Má ég þá spyrja hv. 6. þm. Reykv.: Ef það væri ályktun frá Dagsbrún eða ef það væri ályktun frá Alþýðusambandi Íslands, einhuga ályktun frá heilli stétt þjóðarinnar, mundi hann þá taka meira tillit til þess, þó að einhver ágætur maður úr stétt verkamanna, eins og t.d. formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, andmælti þessu? Mundi hann lesa það upp og telja, að það ætti að taka meira tillit til þess en þess, sem fulltrúar 6000 bænda landsins óska eftir einhuga. Ég spyr hv. þm. að þessu, því að allt þetta vitlausa — ég leyfi mér að hafa það orð — skraf hans um, að menn hafi verið keyptir í þessu máli, er svo barnalegt, að eins vitur maður og hv. 6. þm. Reykv. ætti að leggja þetta niður. Hér hafa engir verið keyptir. Þetta mál hefur eingöngu verið tekið upp í stéttarsamtökum bændanna sjálfra, það hefur ekki verið ýtt undir þá, það hefur meira að segja verið heldur reynt að leggja á móti því.

Ég tel mig fulltrúa landbúnaðarins. Ég tel mig fulltrúa bændanna, og þegar þeir standa saman um mál eins og þetta, þá tel ég mér skylt og mun berjast fyrir því, því að ég mun einnig sýna fram á það síðar, að þetta er sjálfsagt mál, þetta er réttlætismál, og það er ekki hægt að finna neitt að því, að þetta sé sett fram, vegna þess, hvernig málið er vaxið. Þetta vil ég biðja hv. 6. þm. Reykv., vin minn, að athuga vel, áður en hann heldur sína næstu ræðu í sama dúr og hann gerði áðan, því að þannig er ekki hægt að halda framsöguræðu um mál eins og þetta, sem hér er um að ræða, koma ekki nærri kjarna málsins, heldur vera bara með útskit í allar áttir um það, að menn hafi verið keyptir til einhvers og einhvers. Hverjir hafa keypt þá? Hverjir hafa keypt bændurna, fulltrúa þeirra í Búnaðarfélagi Íslands, í Stéttarsambandi bænda og fleiri samtökum, til þess að óska eftir þessu máli? Má ég spyrja hv. 6. þm. Reykv. að því, og geri hann svo vel og segi það, það er skylda hans, ef hann vill ekki heita ósannindamaður. — Þetta vildi ég nú aðeins leyfa mér að segja almennt um þessa dæmalausu framsöguræðu hv. 6. þm. Reykv. Ég hef aldrei heyrt jafnauma framsöguræðu um nokkurt mál hér á hinu háa Alþingi. Að öðru leyti tel ég ástæðu til þess að fara svolítið út í forsögu þessa máls, en mun gera það þó mjög stutt.

Það skolaði hér inn á hið háa Alþingi á síðustu dögum þess í fyrra uppbótarþingmanni, sem ég man nú hvorki nafn né númer á, en sá hv. þm. reyndi sérstaklega að slá sig til riddara á því frv., sem þá lá hér fyrir um þetta. Og aðeins til þess að benda á, hvílíku moldviðri og vitleysum er hampað í sambandi við þetta frv. frá upphafi, vil ég geta þess, að hann hélt því þar ákveðið fram, að það mundi vera búið að verja um það bil Nóbelsverðlaunum til þess að rannsaka þetta mál nú á síðustu árum. Nóbelsverðlaun eru mjög umhugsaður hlutur hér hjá okkur, við gleðjumst yfir þeim, og við vitum kannske betur nú en áður, hvílík upphæð það er, sem þar er um að ræða, ef um heil Nóbelsverðlaun er að ræða. Þetta var meginuppistaða í ræðu þessa hv. þm., sem ég að vísu gat hlustað á, en það var á síðasta degi þingsins, og ég hafði enga aðstöðu til að taka þetta til meðferðar. En í sambandi við þetta datt mér í hug, að það væri alls ekki úr vegi a.m.k. að geta hinu háa Alþingi svolitla skýrslu um forsögu þessa máls.

Ég ætla ekkert að fara inn á forsögu eða störf grænmetisverzlunar ríkisins. Þetta er stofnun, sem frá upphafi hefur verið rekin vel að mínum dómi og hefur gert mikið gagn, og ekkert, sem ég segi hér, er sagt til þess að niðra þeirri starfsemi á einn eða neinn hátt, síður en svo. Hún var sett upp á sínum tíma fyrir frumkvæði Framsfl. og fékk misjafnar undirtektir. En reynslan hefur sýnt, að þessi skipulagning var nauðsynleg, og engum hefur dottið í hug nú upp á siðkastið, að hún skyldi afnumin, heldur yrði að hafa eitthvert vald á þessu, og það er sérstaklega bundið við það, að hér er um vöru að ræða, sem er svo mjög breytilega mikil á markaði, þetta er engin venjuleg einkasala, og það var það, sem ég vildi leyfa mér að skjóta til þeirra manna og þeirra flokka hér í þinginu, sem sérstaklega hafa trú á því, að ríkisverzlun, einkasala með vörur, kannske með allar vörur, sé rétt og sjálfsögð. Það er skoðun út af fyrir sig, sem ég ætla ekki að fara að fordæma neitt. Það verður hver að gera það upp við sig, hvað hann vill í þeim efnum, en þetta er ekkert hliðstætt að mínum dómi. Við trúum því enn, að við getum ræktað nægilegar kartöflur hér á Íslandi innanlands fyrir alla íbúa landsins í flestum árum. Hins vegar vitum við vel, að eins og tíðarfari er enn háttað og meðan ekki eru meiri vísindi og tækni, en fá kartöfluafbrigði, sem þola meira frost en algengt er hér og kulda, má búast við, að eitt ár af tíu eða kannske annaðhvort svolitið meira eða minna verði allmikil vöntun á kartöflum. Hitt vitum við vel, að í öllum venjulegum árum getum við ræktað alveg nægilega mikið af kartöflum. Og við urðum fyrir því, ég veit ekki, hvort það á að segja láni eða óláni, fyrir örfáum árum að vera að kafna í kartöflum hér innanlands. Uppskeran varð svo mikil þá allt í einu, að við réðum ekkert við þetta. Það, sem veldur þessu, er náttúrlega að einhverju leyti reynsluskortur. Við höfum ekki það vald á þessu, sem við gætum haft, ef við hefðum meiri þekkingu, og við höfum ekki almennilega vald á að laga okkur eftir tíðarfarinu, eins og kannske er hægt að gera að ýmsu leyti, en vitanlega hlýtur okkar takmark í þessum efnum að vera að rækta nægilegar kartöflur fyrir okkur, eftir því sem mögulegt er, og taka svo skellina stöku sinnum, og þá verðum við vitanlega að flytja inn kartöflur. Út frá þessu sjónarmiði virðist mér það sjálfgefið, að það sé eðlilegt, að sömu samtökin sem hafa yfirumsjón og verðlagningu landbúnaðarvara yfirleitt fari einmitt samhliða með þetta mál og það séu engir aðrir aðilar, sem séu betur færir til þess heldur en þessi samtök að samræma innanlandsræktunina og notfæra sér hana út í æsar og geta svo sjálf undir yfirstjórn ráðuneytisins — þetta á auðvitað allt að vera undir því — gripið til innflutnings, þegar þörfin er fyrir.

Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á það, að í lögum um grænmetisverzlun ríkisins er gert ráð fyrir, að grænmetisverzlunin gangist fyrir stofnræktun á kartöflum, en stofnræktun þýðir, að það séu vissir stofnar, úrvalsstofnar, ræktaðir við góð skilyrði og á þann hátt reynt að fá fram betra útsæði og auka kartöfluræktina á þennan hátt. Þetta hefur grænmetisverzlunin ekki gert, og það er engan í sjálfu sér um það að saka út af fyrir sig. Það hafa ekki verið fjárráð og möguleikar til þess, auk þess ekki verið tæknilega fróðir menn þar um þessa hluti. Þetta er að mínum dómi sjálfsagt hlutverk Stéttarsambandsins eða framleiðsluráðs landbúnaðarins að taka í sínar hendur. Og ég get vel sagt ykkur það, að eitt af því, sem hefur gert að verkum, að ég hef ákveðið að berjast fyrir því, að þessi löggjöf gangi í gildi í samræmi við margyfirlýstan vilja bændastéttar landsins, er það, að ég ætla þessum samtökum að taka þetta verkefni upp og ég ætla þeim að geta sýnt, að það sé hægt að rækta hér meira af kartöflum. Við getum haft nógar kartöflur hér í flestum árum, þurfum ekkert að flytja inn, en verðum einstöku sinnum að grípa til þess, og þá er jafnsjálfsagt, að það sé sama yfirstjórn, sem hefur heimild til þess — með leyfi ráðuneytisins — að flytja inn kartöflur eins og á vantar.

Ég veit, að þarna er verið að leggja á herðar þessara félagssamtaka geysilega erfitt verkefni, og ég játa, að ég öfunda þau ekkert af að taka við því. Síður en svo. Ég þekki það til möguleika til ræktunar kartaflna hér á landi og annarra slíkra hluta, að það er ekkert öfundsvert hlutverk, sem við erum að afhenda þessum samtökum til að reyna að inna þetta verkefni af hendi: Þið megið vera víssir um það. Ef þeir geta leyst það, þá verður það til stórmikils ágóða, fyrst fyrir þá sjálfa í meðvitund alls almennings, og sömuleiðis til ágóða fyrir landið. Við losnum við mikinn hluta af þeim innflutningi, sem við höfum orðið að hafa áður, og þeir hafa gagnrýnt grænmetisverzlunina fyrir að hafa sýnt tómlæti í þessum efnum og það stundum dálitið harkalega. Ég hef verið að færa fram afsakanir um þá hluti, en nú segi ég: Nú er bezt, að þessir aðilar, sem trúa og telja, að þeir geti leyst þetta erfiða verkefni, fái að spreyta sig á því, en þá er eðlilegt, að þeir fái um leið yfirráðin yfir innflutningnum. Því er ekki að neita, að það hafa stundum orðið dálitlir árekstrar, eins og eðlilegt er, um það, hvað mikið þurfi að flytja inn á hverjum tíma, og annað slakt. Ég held, að ótti hv. 6. þm. Reykv. um, að þetta gæti orðið til þess, að kartöflulaust yrði hér langa tíma ársins, sé algerlega ástæðulaus. Þungi þess fólks, sem býr í þéttbýli hér, þó að við sleppum nú hinu, er orðinn svo mikill, að það væri óhugsandi, að það væri látið líðast, að það væri kartöflulaust nokkurn tíma í landinn. Þetta er orðin ein aðalneyzluvaran. Og ég trúi líka Stéttarsambandi bænda og framleiðsluráðinu til þess, að því detti ekki í hug að viðhafa slíka þröngsýni, að slíkt gæti komið fyrir, enda mundi það þá hefna sín strax á eftir, það megum við vera alveg sannfærðir um.

Það er af þessum ástæðum, sem ég nú hef reynt að skýra frá mínu sjónarmiði, sem ég hef tekið þessar till upp fyrir mitt leyti og tel rétt að fylgja þeim fram. Ég skal að vísu viðurkenna, að það litast nokkuð af því, að ég tel mér alltaf skylt að líta með velvild á tillögur, sem koma frá samtökum landbúnaðarins, og athuga allt, sem mér finnst vera lífrænt og rétt í þeim, og það hygg ég að við hv. 6. þm. Reykv. getum kannske sameinazt um, að hann muni sennilega reyna að líta á svipaðan hátt á þær till., sem koma frá hans ágæta félagi, Dagsbrún, eða jafnvel öðrum stærri samtökum innan verkalýðssamtakanna, svo að það er nú í sjálfu sér ekkert undarlegt.

Þetta mál hefur verið tekið upp á hverjum fundinum eftir annan, á aðalfundi stéttarsamtaka bænda, og annaðhvort verið samþykkt þar algerlega einróma eða svo að segja, ég held upp á siðkastið algerlega einróma. Ég veit ekki, hver telur sig þess umkominn að telja, þar sem jafnvíðtæk samtök eru með fulltrúum úr hverri sýslu landsins, að það hljóti að vera helber vitleysa og meira að segja, eins og hv. 6. þm. Reykv. tók fram, til bölvunar fyrir bændastéttina, ef ætti að fara að gera skipulagsbreytingu eins og þá, sem hér er farið fram á. Það mega a.m.k. vera meiri mennirnir, sem setja sig á það háan hest, að þeir telji, að þeir geti betur um þetta dæmt en það fólk, sem sjálft stendur í þeirri baráttu, sem hér er um að ræða, ræktuninni. Það er hampað hér með tölum frá grænmetisverzlun ríkisins, sem m.a. eiga að sýna, að raunverulega sé það orðið lítið, sem ræktað sé í sveitum af kartöflum, og það sé mikið af þessu fært yfir í borgir og þorp. Þetta er alveg rétt, og ég gleðst yfir því, hve almennt menn í bæjum og kauptúnum eru farnir að rækta kartöflur. Það má vissulega vaxa enn meir og er öllum til góðs og ekki sízt því fólki, sem hefur haft skynsemi og þrótt í sér til þess að koma þessu á. Ég vil ekkert fara inn á þessar tölur hér og hef ekkert látið endurskoða, hvort þær eru réttar eða ekki, en það skiptir í raun og veru litlu máli. Hitt vitum við, að það eru heil byggðarlög hér í þessu landi og heilar sveitir, sem hafa svo mikla kartöflurækt, að það gerir mikinn hluta af framleiðslumagni þeirra sveita. Við getum bara nefnt héruð eins og Hornafjörðinn, eins og Þykkvabæinn eins og Svalbarðsströndina og fleiri sveitir í Eyjafirði, og við getum nefnt miklu fleiri sveitir hér á landi hvað þetta snertir, svo að það er náttúrlega hin mesta firra eins og flest, sem er verið að ausa upp í kringum þetta frv., að þetta snertir ekki bændastéttina neitt verulega sem slíka. Ef á, eins og meiningin er með þessari skipulagsbreytingu, að gera nýtt áhlaup um að rækta kartöflur, rækta betri kartöflur og betri stofna, hefja stofnræktun til þess að fá betra útsæði og reyna svo í öllum meðalárum og betri og jafnvel lökum meðalárum að geta haft nægilega miklar kartöflur, þá er áreiðanlegt, að það verður ekki gert öðruvísi en það verði miklu fleiri sveitir, sem taka þetta upp í stórum stíl, heldur en enn er komið. Það megum við vera alveg vissir um. Þess vegna vil ég algerlega mótmæla því, að hér sé ekki um neitt verulegt mál fyrir landbúnaðinn sem slíkan að ræða. Auk þess er í þessum samtökum félag garðyrkjueigenda, — ég man nú ekki, hvað það heitir, því að það eru svo mörg þessi sambönd, — sem einmitt fer þá með afurðir þeirra, sem í þéttbýlinu búa. Þeir leggja engu síður til en Stéttarsamband bænda, að þessu skipulagi verði breytt svona. Þeir eru að ganga inn í þau samtök landbúnaðarins, framleiðsluráð landbúnaðarins, um verðlagningu á sínum vörum.

Mér skildist, að hv. 6. þm. Reykv. væri að gera hálfgert gys að því, að jafnvel blómaframleiðendur ætluðu sér að fara í þessi samtök. Ég sé nú ekki, að það sé hægt að gera neitt gys að slíku út af fyrir sig. Framleiðsla blóma er eitt af því, sem hvert menntað nútímaþjóðfélag krefst að hafa, og okkur þætti heldur dauft hér umhorfs, ef ekki væri um blómarækt að ræða, að miklu leyti náttúrlega í gróðurhúsum, en þó töluvert mikið einnig á bersvæði. Og ég sé ekkert athugavert við það, ef þeir menn, sem hafa félagsskap um þetta, vilja ganga undir þau skilyrði, er gilda um verðlagningu landbúnaðarvara hjá framleiðsluráði landbúnaðarins, að þeir fáí að vera með í þessu. Ég segi það alveg eins og er. Og allra sízt bjóst ég við því að heyra það frá fulltrúum stéttarfélaga verkamanna, að þeim þætti það óeðlilegt, því að ég hef alltaf skilið þeirra afstöðu svo, að þeir teldu sjálfsagt, að allir, sem væru í stéttinni, væru reyrðir saman og gætu ekki einn fyrir sig eða smáflokkar tekið ákvarðanir um kaup sitt og kjör, heldur yrði það að vera heildin, og þá verða þeir vitanlega að vera við því búnir, að það séu fleiri stéttir, sem hafi nákvæmlega sömu afstöðu hvað þessi atriði snertir, svo að mér finnst mjög einkennilegt, ef það ætti nú að vera einn ásteytingarsteinn í þessu efni.

Ég vil taka það fram, að þegar ég kom að landbrn., það er bráðum hálft þriðja ár síðan, það var vist snemma í september 1953, þá var þetta mál í meðferð þar. Fyrrverandi landbrh., hv. þm. Str., hafði þá skipað mann fyrir nokkru í þetta starf, Jóhannes Helgason, og starf hans átti að vera að leitast eftir að ná samkomulagi milli þeirra aðila, sem sérstaklega hefðu með þessi mál að gera. Á undan hafði verið starfandi n., skipuð af hæstv. landbrh., sem náði ekki samkomulagi. Sú n. var skipuð með einum manni af hæstv. ráðh. og að öðru leyti af grænmetisverzluninni, framleiðsluráðinu og fleiri aðilum. Þessi n. starfaði upp undir ár, og ekkert samkomulag náðist. Þegar það náðist ekki, en sami óróinn var um þessi mál, þá skipaði hæstv. ráðh. Jóhannes Helgason til þess að leita eftir möguleikum um það, á hvern hátt væri hægt að ná samkomulagi meðal þessara aðila. Hann hafði starfað um eitthvað hálfs árs skeið, held ég, þegar ég kom þarna, og að sjálfsögðu fékk hann að ljúka sínu verki, sem hann skilaði svo vorið 1954 og hefur verið töluvert umtalað, og eitt, sem hefur verið reynt að gera mjög mikið gys að, að sú bók væri svo stór, að mér virðist jafnvel hæpið, að nokkrir þm. treysti sér til að lofta henni, hvað þá að fletta henni spjaldanna á milli, eftir því sem mér hefur virzt af umtali. En hvað sem því nú líður, þá er áreiðanlega mikill fróðleikur í þeirri bók um þessi mál. Þegar þessi mikla biblía kom nú í mínar hendur eins og annarra, og kannske sennilega fyrst til mín, og ég sá, hvernig þetta mál horfði, og sá þar mjög miklar upplýsingar um ýmislegt varðandi þessi mál, og ég varð fyrir sífelldum áróðri frá stéttarsamtökum landbúnaðarins, sérstaklega Stéttarsambandi bænda, um að gera eitthvað í þessu máli, þá tók ég þá leið að skipa enn eina nefndina. En ég gerði það á þann hátt, að enginn maður var frá minni hálfu skipaður í hana, enginn maður frá ráðuneytinu, það voru bara samtökin sjálf, sem skipuðu menn í n. Og ég gerði þetta algerlega af ráðnum huga. Það var búið að reyna hina leiðina, og nú sagði ég: Nú er bezt, að þeir sjálfir, sjálf samtökin, athugi. Getið þið komizt að samkomulagi um eitthvert skipulag í þessum málum, sem þið sættið ykkur við? Og svo er sjálfsagt að athuga, hvort rn. fyrst og Alþ. á eftir geti fallizt á það eða eitthvað svipað þessu.

Tilraunin heppnaðist að því leyti, að n. skilaði að vísu ekki samhljóða áliti. Fulltrúi grænmetisverzlunarinnar var með nokkuð mikla fyrirvara. En að öðru leyti stóðu nm. saman um sitt álit og frv. Og það var á þeim grundvelli, sem ég lagði þetta frv. fyrir Alþingi. Það var hér í förum mikið í fyrra, og það fékk að ýmsu leyti töluvert óblíðar viðtökur, ekki einungis frá hv. stjórnarandstæðingum, það voru ýmsar meiningar, ég veit það, innan Framsfl. um mörg atriði í frv. Mér er engin launung á því. Og þetta hefur aldrei verið neitt, sem sjálfsagt hefur verið talið að taka ómelt, þó að það kæmi frá þessum samtökum, heldur yrði að athuga það vandlega. Niðurstaðan af því varð sú, að landbn. Nd. í fyrra gerði allmiklar brtt. við frv., og lengra komst það svo ekki þá. Að loknu Alþ. í fyrra afhenti ég svo frv. enn á ný og óskaði eftir, að sú n., sem fjallaði um það áður, tæki það á ný til meðferðar með þeim brtt., sem fyrir lágu þá frá hv. landbn. Þetta afhenti ég strax í vor, og ég fékk svo umsögn um það ekki fyrr en í haust, um það bil sem þingið var að byrja, að n. — ég reikna með að frátöldum auðvitað þeim manni, sem raunverulega var á móti frv., fulltrúa grænmetisverzlunarinnar — féllist á þessar till. landbn. eftir atvikum, eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði eftir a.m.k. einum manninum. Ég afhenti þetta formanni fyrri n. og óskaði eftir, að hann gæfi umsögn nefndarinnar um það, og ég óskaði sérstaklega eftir því, að þeir endurskoðuðu frv. rækilega og tækju um leið til meðferðar þær brtt., sem landbn. hefði gert, og gæfu mér síðan umsögn um það, svo að ég gæti tekið það til meðferðar á næsta Alþingi. Ég hafði ekki á neinn hátt afskipti af málinu að öðru leyti. Hvað mikil athugun hefur farið fram og á hvern hátt, því get ég ekki svarað, en það var mjög hreinlega geng,ið frá þessu frá hálfu ráðuneytisins, og þegar þessi umsögn kom um, að meiri hl. n., sá sem að upphaflega frv. stóð, féllist á frv. með þeim brtt., sem landbn. hafði gert á því, þá lét ég fella þær algerlega óbreyttar inn í frv. og sendi svo landbn. Nd. það aftur, og á þeim grundvelli er frv. flutt hér nú.

Ég taldi alveg rétt að gefa þessa skýrslu um það, á hvern hátt þetta mál hefur gengið fyrir sig til þessa, til þess að ekki þurfi neitt að vera að deila um það eða vera með einhverjar rangfærslur um framgang þessa máls. Það finnst mér eiginlega alls ekki viðeigandi. Þetta mál er tekið upp af hreinum stéttarsamtökum landbúnaðarins, og til fylgis við sig hafa þau síðan fengið önnur samtök, eins og gróðurhúsaframleiðendur, sem ekki er hægt að segja að séu hreinir landbúnaðarframleiðendur, eru það þó sumir, og fleiri aðila, sem í þessu hafa starfað, t.d. hefur í þessari nefnd alltaf starfað fulltrúi frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og fleiri aðilar.

Ég vildi nú vænta þess, að umr. um þetta frv. þyrftu ekki beint að snúast um þessa hluti meir, því að þetta liggur allt skjallega fyrir og er tiltölulega auðvelt að leggja það fram, ef hv. alþm. óskuðu sérstaklega eftir því, en því virðist mér nú ekki þörf á. Hinu reyndi ég að gera hér grein fyrir áðan frá mínu sjónarmiði, hvers vegna þessi ráðstöfun um að leggja innflutning á kartöflum og grænmeti undir framleiðsluráð landbúnaðarins sem yfirstjórn þess væri mjög annars eðlis en að leggja niður almennar einkasölur og ætla að fara að afhenda þær einhverjum og einhverjum. Ég vil aðeins endurtaka það aftur, því að mér finnst það vera mergur málsins: Það er aðeins til þess að reyna að koma undir eina yfirstjórn ræktun kartaflnanna, afsetningu þeirra, eftir því sem unnt er, og það geti þá um leið gripið til þess innflutnings, sem nauðsynlegur er. Ég vil ekki neita því og skal viðurkenna, að það er mjög áfátt í kartöflurækt okkar Íslendinga, sérstaklega er áfátt í gæðum kartaflnanna. Það vitum við ósköp vel, og það stafar af ýmsu. Það stafar náttúrlega mikið af því, að við gripum til fljótvaxinna afbrigða, sem þurfa stuttan vaxtartíma, þau eru alltaf lausari í sér og lélegri, og þetta er sjálfsagt að gera með þær kartöflur, sem við ætlum að fá fyrst á sumrin til átu, og alveg réttmætt. En hitt er náttúrlega jafnrangt að rækta þannig kartöflur, sem við ætlum að geyma fram á vetur og fram á næsta sumar. Ef við ætlum að verða sjálfstæðir um framleiðslu, verðum við að fara í önnur fastari, þéttari afbrigði, sem þurfa þá lengri vaxtartíma, og það er þetta, sem stofnræktunin átti að gera hér, að skapa á þennan hátt betri kartöflustofna, sem þó væru að sjálfsögðu miðaðir við það, að þeir hentuðu í okkar erfiða veðurfari.

Ég get ósköp vel skilið það, að mönnum virðist yfirleitt, að það geti dregið slóða á eftir sér og verið mjög hættulegt, ef ætti að fara að afhenda sérstökum stéttarsamtökum vissa þætti innflutningsverzlunarinnar, eins og einhverjar aðrar einkasölur eða eitthvað slíkt, það skil ég mætavel, enda gæti mér alls ekki dottið það í hug. En ég man ekki eftir, að það sé neitt til hliðstætt þessu hér hjá okkur, svo að hægt sé að segja, að hér sé verið að skapa eitthvert hættulegt fordæmi. Ég a.m.k. kem því ekki almennilega fyrir mig, og það er af þeirri ástæðu einni, sem ég hef getað fallizt á, að þessi leið væri farin hvað þetta atriði snertir, og þá einnig af því, að ég vil ekki losa stéttarsamtök bændanna við það, úr því að þau óska eftir því, að taka á sig þann vanda, sem þau gera með því skipulagi, sem hér er gert. Ég vona, að þau leysi það vel af hendi. En eins og ég tók fram áðan, tel ég, að þeir séu ekkert of sælir af því að ljúka því á þann hátt, sem vel verður við unað. Þeir verða undir harðri gagnrýni, og það er nú gott og blessað, en verkið er í sjálfu sér mikið og erfitt, því miður.

Ég er nú kannske búinn að tala allt of lengi, en ég hef ekki talað fyrr í þessu máli, hvorki í fyrra né nú, en fannst ófært annað en að ég gæfi nokkra skýrslu um, hvernig þetta hefði gengið fyrir sig, og þá til þess, að umr. um það að mínum dómi gætu komizt inn á eitthvað raunhæfari grundvöll. Ég get vel skilið, að það komi fram sterkar mótbárur gegn því, að þetta sé hægt með einhverja þætti af utanríkisverzlun landsins, og annað slíkt, það er mál, sem má alltaf deila um, og það skil ég vel. En hér er að mínum dómi um algerlega sérstætt tilfelli að ræða í þessu efni.