24.01.1956
Neðri deild: 49. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það gerðist í gær hér í umr. um þetta mál, sem annars er til allrar hamingju sjaldgæft hér í þingsölunum, að hæstv. landbrh. lét sér sæma að ráðast með furðulegri ósvífni og dólgshætti að hv. 6. þm. Reykv. (SG), sem hafði skilað hér nál. minni hl. í landbn. Það var slitið fundi, þegar hann var búinn að tala í gær, þó að ég hefði kvatt mér hljóðs og fleiri, og ég vildi mega óska eftir því, að hann sé hér viðstaddur, þegar þetta mál nú er tekið fyrir. Það getur ekki gengið að slengja hér fram á þinginu ósvifnum aðdróttunum að mönnum og árásum og hlaupa svo í burtu. Það er ekki alveg ósvipað, þar sem hv. þm. Dal., frsm. meiri hl. landbn., hafði í frammi í gær ærumeiðingar í sinni framsöguræðu, en er stokkinn burt til útlanda í dag, en ég vil leyfa mér að vona, að það verði þá einhverjir aðrir til að taka upp hanzkann fyrir þessa menn. Ég sé, að hæstv. landbrh. er enn þá ekki kominn. (Forsrh.: Er þá ekki nauðsynlegt að skamma hann duglega, meðan hann er í burtu?) Ég held, að ég neyðist næstum því til þess, ef ómögulegt er að ná í hann, í trausti á, að hæstv. forsrh. taki þá upp málstað hans. Þeir hafa áður verið dálitið skyldir. Það lenti nú hvort sem er á hæstv. félmrh.,

þegar ég var að skamma hann út af Kópavogsmálinu. Þá var hæstv. forsrh. hvergi nærri, og þá varð félmrh. að taka á sig alla skömmina af því, en nú er hæstv. forsrh. við, svo að nú gæti hann kannske gengið í ábyrgð fyrir sinn samráðherra. Það er víst hvort sem er ekki svo lengi, sem þeir lafa saman enn þá, og það er ekki seinna vænna, að þeir sýni sína samábyrgð.

Ég vil leyfa mér að mótmæla algerlega þeim aðferðum, sem hér eru hafðar í frammi af hálfu hæstv. landbrh. Hann rýkur hér upp og sakar þingmenn hér um allar vammir og skammir, en hefur sjálfur í frammi slíka dólgslega framkomu og ofstopa, að með eindæmum er, og svo þegar hann á hér að standa fyrir sínu máli og hann veit, að þetta mál er til umræðu, þá er hann hér hvergi nærri. Það er ákaflega hart, að þá sjaldan sem við þingmenn höfum tækifæri til þess að tala við ráðherra og þeir láta yfirleitt hafa sig til þess að fara að taka hér þátt í umræðunum, þá skuli þeir stökkva burt og ekki geta staðið fyrir sínu máli, þegar þeir vita þó, að það er á dagskrá. Meira að segja hafði hæstv. landbrh. gengið svo langt í gær, að um tölur, sem farið er með í nál. minni hl., tölur, sem teknar eru frá hagstofunni og þar er beinlínis vitnað í í sambandi við bréf frá einum af starfsmönnum ríkisins og það einum af miðstjórnarmeðlimum Framsfl., þá segist hann efast um, að það séu réttar tölur. Ef það passar ekki fyrir þennan ráðherra, þá hikar hann ekki við að lýsa allt vitlaust, hvað vel sem hagstofan, starfsmenn ríkisins, sem sérstaklega hafa með þessi mál að gera, eða aðrir slíkir hafa undirbúið það og lagt fram.

Ég skal taka nokkuð fyrir það annað, sem ráðh. kom með í sinni ræðu. Hann byrjaði hér að tala um rangfærslur og útúrsnúninga og annað slíkt, þóttist tala hér fyrir munn bænda og stéttarsamtaka þeirra og var eiginlega að ögra þingmönnum til þess, hvort þeir dirfðust að ætla að fara að vera á móti þessu frv., þar sem hann talaði hér fyrir hönd allrar bændastéttarinnar og heil stétt stæði með þessu frv. Hann talar síðan um, að það séu 6000 bændur á bak við þetta, án þess að hafa tilfært svo mikið sem eina einustu ályktun frá einum einasta bændafundi eða neina samþykkt, sem gerð hafi verið um þetta, nema þá ef til vill þá undarlega tilkomnu samþykkt, sem þau pólitísku samtök á þessu sviði sérstaklega hafa beitt sér fyrir. Nú vil ég í fyrsta lagi hvað þetta snertir svara hæstv. landbrh. því, að þetta mál, sem hér er um að ræða, kartöfluframleiðslan, er ekkert sérmál bænda, og hann hefur engan rétt til þess að koma hér fram og þykjast tala hér f.h. bændastéttarinnar um þetta mál sérstaklega, því að þetta er mál, sem varðar miklu fleiri. Ég vil segja honum, ef við eigum að fara að fara í hart út af slíku, að við aðrir þingmenn getum þá talað hér í nafni þeirra um 150 þús. Íslendinga, sem borða kartöflur og neyta kartaflna, og sagt, að það séu þeir, sem eigi að fá einhverju að ráða um þetta mál, og að við hefðum gengið út frá því, að til þess væri verið að koma á sérstöku skipulagi í þessum málum, að það væri til gagns fyrir neytendur, að það væri til gagns fyrir alla þjóðina, þess vegna hafi því skipulagi verið komið á, að það hafi verið sett upp grænmetisverzlun ríkisins upphaflega með þetta. Ég vil því algerlega frábiðja mér það hér, að landbrh. hafi nokkurn rétt í sambandi við þetta mál til þess að ætla að fara að reyna að beygja okkur þingmenn með því að skírskota til bændasamtakanna í þessu sambandi. Í fyrsta lagi hefur hann þau ekki á bak við sig í þessu, og í öðru lagi er þetta ekki þeirra sérmál, heldur mál allrar þjóðarinnar, fyrst og fremst mál allra neytenda, en þar að auki er það sannað mál og liggur fyrir skýrsla um það, sem hæstv. ráðherra auðsjáanlega treystir sér ekki til að ræða hér, að meiri hlutinn af þeim mönnum, sem nú sem stendur framleiða kartöflur í landinu, eru menn, sem búa í bæjunum og í kauptúnunum, þannig að framleiðendurnir meira að segja í þessu efni eru skiptir á milli sveita og kauptúna og kaupstaða. Nú síðustu árin, sem skýrslur liggja fyrir um, er meiri hluti þeirra meira að segja í kauptúnum og kaupstöðum, þannig að meira að segja sem framleiðendur hafa samtök bænda þarna engin sérréttindi og enga sérstaka kröfu að gera. Þegar hæstv. ráðh. þess vegna talar um, hvaða stétt það sé, sem eigi að ráða þessu, þá vil ég bara segja honum það, að það er engin stétt, sem á að ráða þessu. Það er þjóðin í heild, sem þarna á hlut að máli. Og það er ákaflega hart, ef slengt er fram slíkum fullyrðingum eins og ráðh. hefur hérna gert, að hann skuli ekki síðan fást til þess að reyna að standa fyrir sínu máli.

Það eru neytendur í landinu, sem hafa fyrsta réttinn í sambandi við þetta mál, og sú fyrsta krafa, sem við þm. hljótum að gera í sambandi við, hvaða tillit skuli taka í sambandi við, hvernig ráðstafa skuli einkasölu á kartöflum og öðru slíku, er, að tillit sé tekið til neytendanna. Og ég vil leyfa mér að spyrja t.d. Framsóknarflokkinn, þegar hann álítur, að ríkið eigi að reka skipaútgerð eins og skipaútgerð ríkisins: Á að reka þessa skipaútgerð með tilliti til þeirra manna, sem eiga skip í landinu, eða á að reka hana sem þjónustustarf fyrir þá menn, sem þurfa á skipaferðunum að halda? Ég leyfi mér að spyrja Framsfl., hver sé meiningin. Er það sú nýja regla, sem á að taka upp, að ef t.d. einhver aðili eins og ríkið á skipafélag og rekur skipaútgerð, þá eigi nú að hætta að reka það með það sjónarmið fyrir augum að þjóna þeim, sem þurfa á skipaferðunum að halda, heldur eigi að fara að reka það með það fyrir augum, að þeir menn, sem eiga önnur skip, hafa hagsmuni af því, hvernig önnur skip séu rekin, og þess vegna eigi nú að fara að reka skipaútgerð ríkisins með það fyrir augum, hvernig skipaeigendur líti á hlutina. Slík mundi vera röksemdafærslan, sem hæstv. landbrh. var hérna með, ef hann er nokkurs staðar svo nærri, að hann megi orð mín heyra, ef maður yfirfærir hans röksemdir af kartöflunum yfir á skipaferðirnar. Ég held þess vegna, að fyrirmanni eins og hæstv. landbrh., sem leyfir sér að koma hér upp og fara að tala um rangfærslur og útúrsnúninga, sé skammar nær að reyna að standa fyrir sínu máli hér og taka þátt í að ræða þetta mál og stökkva ekki af hólmi undireins.

Hæstv. ráðh. leyfði sér að fullyrða hér í gær, að þetta sé svo sjálfsagt mál, að það sé raunverulega ósvífni næstum því af þingmönnum, að þeir skuli ætla að fara að ræða það. Og hvað gerir hann svo sjálfur í þessum umræðum í gær? Jú, hann kemur hér með staðhæfingar, sem hann ber fram fyrir okkur þingmenn sem landbúnaðarráðherra, og eftir því sem hans stjórnarblað, Morgunhlaðið, hefur eftir honum í morgun, þá hefur hann sagt í þeirri ræðu, að grænmetisverzlun ríkisins hafi brugðizt skyldu sinni um að stuðla að stofnræktun kartaflna. Hann ber hér á borð fyrir okkur þingmenn, að sú stofnun ríkisins, sem starfað hefur í þessum málum undanfarið, hafi brugðizt sinni skyldu, og við eigum að taka þetta trúanlegt, og þess vegna vill hann fá okkur til þess að greiða atkv. með því að leggja hana niður.

Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um þetta mál, sem landbrh. var hérna með í gær, og leyfi mér hér með að lesa upp athugasemd, undirskrifaða af Jóni Ívarssyni, sem ég býst við að landbrh. eigi bágt með að neita að taka gildan sem mann, sem hafi vit á þessum málum, sem sjálfur hefur veitt grænmetisverzlun ríkisins forstöðu og ætti að þekkja inn á þau. Með leyfi hæstv. forseta, er þessi aths. svo hljóðandi: „Athugasemd um stofnræktun útsæðis.

Morgunblaðið ber landbrh. Steingrím Steinþórsson fyrir því í dag, að grænmetisverzlun ríkisins hafi „brugðizt skyldu sinni um að stuðla að stofnræktun kartaflna.“ Hér er rangt með farið. Grænmetisverzlun ríkisins hefur á árunum 1941–1955, að báðum árunum meðtöldum, lagt beinlínis fram sem næst 600 þús. kr. til stofnræktunarinnar. Stofnræktun hefur verið og er framkvæmd í samráði við og eftir tillögum tilrannaráðs jarðræktar, og hafa tilraunastöðvarnar á Akureyri, Reykhólum, Skriðuklaustri og Sámsstöðum annazt hana. Jafnframt hefur á þessu tímabili verið samið við einstaka kartöfluframleiðendur að fara með framhaldsræktun útsæðis. Eins og sjá má af þessu og kunnugt er fjölda manna, hefur grænmetisverzlun ríkisins innt þetta hlutverk af hendi. Ummæli blaðsins eru því fjarri hinu rétta. Hins skal svo jafnframt getið, að fjárráð grænmetisverzlunar ríkisins hafa verið og eru takmörkuð. Verzlun með kartöflur hefur reynzt lítil tekjulind.

Reykjavík, 24. janúar 1956.

Jón Ívarsson.“

Svona hljóðar þetta. Sem sé, einu rökin, sem landbrh. bar hér fram í gær og ætlaðist til að við þm., sem hann bjóst við að mundum þekkja frekar lítið til þessa máls, tækjum gild, eru hrakin, — það eina, sem hann virtist ætla að reyna að fleyta þessu máll sínu á. Og nú tekur hann þann kostinn í dag, þegar hann á að svara til saka í þessum málum, að vera hvergi nærri.

Um hvað er þá raunverulega verið að ræða í sambandi við þetta mál, sem hérna liggur fyrir? Hvað er „prinsip“-málið, sem hérna er deilt um? Það er deilt um það, hvort eigi að taka úr höndum ríkisins starfsemi, sem varðar alla þegna ríkisins, og fá þessa starfsemi í hendur einkaaðilum, fá hana í hendur einstökum hagsmunahópum. Það er þetta, sem spurningin stendur um. Og það er þetta, sem tveir þm. Framsfl. hér hafa nú lýst sig fylgjandi, hæstv. landbrh. og hv. þm. Dal., að taka þessa stofnun úr höndum ríkisins og fá hana í hendur nokkurra einkaaðila, manna, sem hafa takmarkaðra hagsmuna að gæta í sambandi við þetta, manna, sem ekki eru þeir einu, sem hafa hagsmuna að gæta sem framleiðendur, og manna, sem hafa engra hagsmuna að gæta sem neytendur, m.ö.o. að taka hana úr höndum ríkisins og fá í hendur einstakra aðila og það undir lognu yfirskini, yfirskini, sem nú þegar er búið að hrekja.

Ég skal taka það fram, að ég er fyllilega sammála því, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur sagt um þetta mái. Það nær ekki nokkurri átt að gera þennan hlut. Og ég vil alveg sérstaklega fyrir hönd bæjarbúa leyfa mér að mótmæla þessum tillögum, í fyrsta lagi í nafni þeirra sem neytenda á þessu sviði og í öðru lagi í nafni þeirra sem framleiðenda að helmingnum af öllum kartöflunum, sem framleiddar eru í landinu.

Þá skal ég koma með nokkrum orðum að því, sem hv. þm. Dal., frsm. meiri hl., sagði hér í gær. Hann sagði, að þetta væri málefni Stéttarsambands bænda. Það er ekki rétt. Þetta er ekki málefni þeirra einna. Þetta er málefni allra bæjarbúa, bæði sem neytenda og framleiðenda um leið. Og það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar að ætla að skírskota eitthvað sérstaklega til einhvers sérréttar, sem Stéttarsamband bænda eða framleiðsluráð landbúnaðarins eigi að hafa í þessu sambandi. Það fær ekki staðizt. Það stangast við allar þær staðreyndir, sem fyrir liggja í þessu máli.

Hins vegar vil ég taka það fram, að ég álít það síður en svo eftirsóknarvert fyrir bændasamtökin að fara að fá þetta mál í sínar hendur. Þetta er erfitt mál, og það er mjög erfitt að reka þetta mál þannig, að það sæti ekki ýmiss konar gagnrýni. Ég efast ekki um, að þeir menn, sem stjórna grænmetisverzluninni, hafi reynt að reka hana eins vel og hægt hefur verið, og ég álít, að yfirleitt hafi þeim tekizt þetta vel, og þó efast ég ekki um, að það sé gagnrýnt. En ég vil bara benda þeim mönnum, sem skoða sig sem sérstaka fulltrúa bænda, í sambandi við þetta mál á það, að eftír að framleiðsluráð landbúnaðarins væri búið að taka svona mál í sínar hendur með offorsi hér á Alþingi, þá yrði e.t.v. gagnrýnin á þetta mál öllu hættulegri en ef það væri í höndum ríkisins. Það er ekki eftirsóknarvert fyrir bændasamtökin að hafa þetta mál í sínum höndum og hafa þá annars vegar yfir sér þá gagnrýni, sem upp mundi koma frá öllum neytendum, og í öðru lagi gagnrýnina frá þeim helmingi framleiðenda, sem hefur verið ofurliði borinn, ef þetta frv. er samþ., framleiðendunum í bæjunum. Ég held það sé þess vegna alveg misskilin sú þjónusta, sem þeir menn, sem hér vilja kalla sig fulltrúa bænda, eru að reyna að vinna fyrir bændasamtökin í sambandi við þetta verk, enda hefur ekki sézt, að bændur sjálfir eða fjöldinn í samtökum þeirra hafi farið fram á að fá þetta í sínar hendur. Það virðast vera einhverjar einkennilegar pólitískar bollaleggingar að baki þessu, og offorsið, sem þetta er flutt með hér, virðist benda til þess, að það sé ekki fyrst og fremst hagsmunamál bænda, sem þarna er um að ræða, eða þeirra óskir almennt, og skal ég koma seinna meir nánar að því. Ég vil þess vegna leyfa mér að mótmæla því, að þetta mál sé mál, sem bændurnir og bændasamtökin sérstaklega óski eftir eða ættu að beita sér fyrir eða hafa hag af.

Þá kom hv. þm. Dal., frsm. meiri hl. landbn., með svo ósvífna aðdróttun í sambandi við ræðu sína nm þetta mál, að sjaldgæf er hér á þingi, og ég ætla að leyfa mér að mótmæla. Hann sagði, þegar hann fór inn á rök minni hl. í þessum efnum, að sú höfuðgreinargerð, sem hér kæmi fram á móti málinu, væri frá starfsmönnum grænmetisverzlunar ríkisins; og starfsmenn grænmetisverzlunar ríkisins, sagði hann, þeir vilja auðvitað viðhalda grænmetisverzluninni, og þar með afgreiddi hann málið. Ég vil lýsa því yfir, að ef hv. þm. Dal. væri hér, þá myndi ég skora á hann að koma upp og biðja afsökunar á svona framferði og svona röksemdaleiðslu, því að hún er til skammar fyrir hann. Ég ætla að leyfa mér að spyrja flokksbræður hans hér í þinginu, framsóknarmenn, að því, hvað þeir mundu segja við okkur eða t.d. við Sjálfstæðisflokkinn, ef Sjálfstfl., þegar hér er lögð fyrir í sambandi við umræður um skipaútgerð ríkisins mjög nákvæm greinargerð frá forstjóra skipaútgerðarinnar, segði: Ja, þetta er frá forstjóra skipaútgerðarinnar. Hann vill bara viðhalda starfinu, maðurinn. Hvað þurfum við að tala meira um það? — Ég vil bara spyrja: Hvað segði Framsfl. við Sjálfstfl., ef hann afgreiddi málið svona? Það voru harðar umræður og hafa verið hér stundum um skipaútgerð ríkisins. Ég hef aldrei heyrt slíkt frá hálfu Sjálfstfl. og þeirra manna, sem hafa viljað leggja hana niður. Þeir hafa farið nákvæmlega út í umræðurnar um þessi mál, deilt um þetta. Það er vani okkar hér á Alþingi, þegar við ræðum um þessi mál, að spyrja alveg sérstaklega þá menn, sem hafa með mál ríkisins að gera og ríkið hefur falið að stjórna þessum málum og það kannske áratugum saman sem embættismenn. Þegar forstjóri skipaútgerðar ríkisins leggur hér fyrir okkur greinargerð um sin mál, þá segi ég fyrir mitt leyti: Við tökum alveg sérstakt tillit til þess. Við álitum: Þarna er maður að ræða um málið, sem hefur mikla þekkingu á málinu. Þarna er starfsmaður ríkisins, fulltrúi ríkisins, að athuga starfssvið, sem ríkið hefur falið honum að stjórna og hann ætti þess vegna að vera allra manna kunnugastur. Við leggjum þess vegna alveg sérstaklega mikið upp úr vitnisburði slíkra manna. Okkur dettur ekki í hug að væna þá um það, að þeir séu bara að hugsa um, að þeir sé,u í þessari stöðu og því skuli vera til áfram slík stofnun. Eða ég vil spyrja menn viðvíkjandi ferðaskrifstofu ríkisins, sem líka hefur verið deilt um hérna. Það hefur komið fram álit frá forstjóra ferðaskrifstofunnar. Auðvitað hefur okkur öllum fundizt sjálfsagt að taka tillit til þess álits, því að þar talar maður, sem hefur þekkingu á þessum málum, þegar verið er að ræða um, hvort eigi að leggja hana niður. Nú ætlar þessi þm. Framsfl. í Dölum, þm. Dal., að leyfa sér að fara að strika yfir það, að starfsmenn ríkisins, sem hefur verið falið að stjórna ákveðnum stofnunum áratugum saman, hafi nokkurt vit á slíku, að það sé nokkurt tillit takandi til þeirra. Hvers konar ósvífni er það í röksemdaleiðslum, sem þeir menn, sem hafa mælt fyrir þessu frv., leyfa sér að hafa í frammi á Alþingi? Það er langt síðan ég man eftir öðru eins og þessu. Þegar svona röksemdaleiðslur eru hafðar í frammi, þá er það fyrsta, sem manni dettur í hug: Það er eitthvað óhreint mjöl í pokanum, þegar menn eru að fylgja þessu máli fram, sem ekki þora að koma með rök, heldur koma með aðdróttanir. Þetta er ósvífni, sem ekki á að eiga sér stað. Þvert á móti, þegar fluttar eru fram nákvæmar röksemdafærslur, hógvært og trúlega, eins og gert er í þessu máli, þá á að taka þær fyrir lið fyrir lið og sýna þá fram á, að þær séu rangar, ef menn álíta það. En það á ekki að afgreiða málin svona. Þess vegna verð ég að segja það, að ég varð bókstaflega alveg hissa, þegar ég heyrði, að þessir tveir menn, sem hér töluðu í gær, hv. þm. Dal. og hæstv. landbrh., ætluðu að afgreiða þessi mál á þennan hátt.

Ég skal nú fara nokkrum orðum um þetta frv., eftir að ég hef nú látið í ljós mína skoðun á þeim röksemdaleiðslum, sem hér komu fram í gær af hálfu þessara tveggja manna, sem töluðu svona undarlega um þetta mál.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að framleiðsluráð landbúnaðarins, sem á að hafa einkaréttindin og yfirstjórnina á þessum málum héðan í frá, megi veita leyfi til eins árs í senn að verzla með kartöflur og aðra slíka hluti. Það virðist sem sé eiga að taka yfirleitt upp þann hátt í þessu sambandi að selja þessi leyfi á leigu til ákveðins árabils í senn, og er það einn af þeim mörgu nýju háttum, sem hafðir eru á í sambandi við þetta frv.

Þá er í 4. gr., c-liðnum, sagt, að ríkisstj. sé heimilt að selja grænmetisverzlun landbúnaðarins fasteignir grænmetisverzlunar ríkisins eins og þær verða, er lög þessi koma til framkvæmda.

Fyrir nokkru lágu hér frammi tillögur um að selja skip skipaútgerðar ríkisins, og mér fannst Framsfl. vera frekar á móti því að selja skip skipaútgerðarinnar. Nú vil ég leyfa mér að bera það saman við þetta. Skipaútgerðin hefur nokkur skip í förum, og það eru fleiri aðilar í landinu, sem líka hafa skip í förum. Skipaeigendur eru sem sé dálítill hagsmunahópur hér á Íslandi. Og það hafa komið fram hér á Alþ. tillögur um það frá hálfu Sjálfstfl., að þessi hagsmunahópur, skipaeigendur, t.d. Eimskipafélag Íslands o.fl., fengju þessi skip skipaútgerðar ríkisins, og þetta er alveg sams konar till. og sú, að það eigi að fara að afhenda nokkrum af framleiðendum kartaflna þann einkarétt, sem þarna getur um viðvíkjandi kartöflunum. Annað dæmi hefur líka gerzt. Það eru ýmsir menn hér, sem vilja halda upp ferðaskrifstofum og segjast geta gert það mjög vel. Þeir hafa farið fram á það, að sá réttur, sem ferðaskrifstofa ríkisins nú hefur, væri afnumin, og ákveðnir menn hafa flutt till. um slíkt hér á Alþingi. En Framsfl. hefur staðið mjög eindregið á móti henni. Hann hefur haldið því fram, að þetta væri alls konar þjónusta við bæði landsmenn og þá, sem ferðaskrifstofunnar eiga að njóta, sem hún ræki, og ekki viljað afhenda þetta í hendur þeirra hagsmunahópa, sem hafa hagsmuni af þessum rekstri. M.ö.o.:

Framsfl. hefur þarna tekið alveg þveröfuga afstöðu við það, sem þessir tveir þm. hans tóku hér í gær. Má ég nú spyrja: Hverju sætir? Það væri gaman að fá skýringu á því. Það væri gaman að fá skýringu á því í sambandi við þetta mál, hvort Framsfl. sé búinn að breyta um stefnu, líka viðvíkjandi ferðaskrifstofunni og skipaútgerðinni. Manni fer a.m.k. að detta það í hug.

Það er talað um að selja fasteignirnar, og svo virðist heldur ógreinilegt, eins og hv. minni hl. landbn. hefur þegar bent á, hver skuli vera eigandi stofnunarinnar, sem við tekur, og hver skuli bera ábyrgð á henni það er ekki ábyrgð ríkisins lengur. Ég veit ekki til þess, að grænmetisverzlun ríkisins hafi fengið neinn styrk frá þinginn eða ríkinu hingað til. Á máske eftir nokkurn tíma að fara að koma fram með tilI. um það, að þessi verzlun, þessir framleiðendur, þegar þeir væru búnir að taka þetta, ákveðnir hagsmunahópar, ættu að fá einhverja sérstaka styrki í sambandi við þetta. Mig minnir, að slíkt hafi komið fram í sambandi við ferðaskrifstofuna, þegar Sjálfstfl. var að leggja til að afnema hana, og kannske það eigi að fara að fara í sömu götuna hvað þetta snertir.

Þá er vert að benda á það, að þessi einkasöluleyfi, sem farið er fram á með þessari löggjöf að látin séu í hendur einstaklingum eða félagsskap, eru einmitt sú braut, sem menn hafa oft deilt á að farið væri inn á og ekki sízt af hálfu Framsfl., t.d. í sambandi við Sölusamband Ísl. fiskframleiðenda, sem hefur þó þá aðstöðu, að innan þess er þó megnið af saltfiskframleiðslu landsins, en þessi framleiðendahagsmunahópur, sem hér er verið að ræða um að gefa einkasölu, er ekki nema helmingurinn af framleiðendunum í landinu.

Það er þess vegna alveg sama, hvar gripið er niður í þessu máli. Það er sama hringavitleysan og stangast alls staðar jafnt á við allt, sem t.d. Framsfl. hefur haldið fram í svipuðum málum og þessu á undanförnum árum.

Hæstv. landbrh. talaði hér um það í gær, að bændasamtökin stæðu að baki þessu. En fyrir liggja yfirlýsingar frá umboðsmönnum úr öllum aðalkartöfluframleiðsluhéruðum landsins um að mótmæla þessu frv., eins og það lá fyrir í fyrra og eins og það liggur að mestu leyti fyrir nú.

Það er enn fremur tilgangurinn með þessu frv. að gefa þessu einkafélagi, sem þarna á hlut að máli, einkarétt til að flytja kartöflur til landsins. Í staðinn fyrir að hafa það í höndum ríkisins sem þjónustu við neytendur, á það nú að vera sérréttindi eins hóps af framleiðendum. Ég skal ekki segja kannske, að það yrði misnotað, en hvernig halda menn, að það yrði lagt út, ef það yrðu einhver afglöp í þessu? Vilja menn óska endilega eftir því, að það yrði allt saman lagt út á versta veg, þegar það væru þeir menn, sem um leið hafa hagsmuna að gæta í kartöfluframleiðslunni, sem þarna réðu? Sjá menn ekki, hvað þeir eru að gera bændasamtökunum með því að vera að slást fyrir því með þessu offorsi að svæla þetta undir þau?

Löggjöfin, sem nú er til um grænmetisverzlun ríkisins og nú á að afnema, gengur út frá því, að stofnunin eigi að vinna jafnt fyrir framleiðendur og neytendur, m.ö.o., að hún eigi að taka tillit til hagsmuna beggja, og þeim, sem vilja láta ríkið gjarnan koma fram eins og sáttasemjara í slíkum málum, ætti að finnast eðlilegt að hafa þennan hátt á. Með þessu frv. er aftur á móti lagt til að taka þetta úr höndum ríkisins og setja það í hendur eins hluta af framleiðendunum. Það duga þar engar yfirlýsingar um frá hálfu hæstv. landbrh., að vonandi fari þessi hagsmunahópur, sem fengi þetta í hendur, vel með það. Það dugir ekkert slíkt. Við, sem vanir erum að ræða um hagsmunamál hér á Alþingi, erum vanir að gera það alveg kalt og blátt áfram. Ef tekin er úr höndum ríkisins stofnun, sem samkv. lögum á að vinna bæði fyrir framleiðendur og neytendur, og lögð í hendur eins hóps af framleiðendum, þá göngum við þannig út frá því, að það sé verið að berjast fyrir því, að sá framleiðendahópur fái sérstaka aðstöðu til þess að nota sitt vald.

Svo skal ég, af því að hæstv. landbrh. er ekki kaminn enn þá, leyfa mér að lesa upp úr fylgiskjalinu með þessu frv., hvernig kartöfluframleiðslan skiptist samkv. skýrslum Hagstofu Íslands á árinu 1953, síðasta árinu, sem við höfum enn skýrslur frá. Þá var framleiðslan í sveitum 49.1%, framleiðslan í kaupstöðum og kauptúnum 50.9%, þannig að það ár var meiri hluti framleiðslunnar í kaupstöðum og kauptúnum. Hluti þeirra hefur á undanförnum árum alltaf verið að aukast, og þetta er fyrsta árið, þar sem er beinlínis meiri hluti framleiddur í kaupstöðum og kauptúnum.

Á síðasta þingi lá þetta frv. fyrir við lítinn orðstír, en sú nefnd, sem hafði það til meðferðar, hafði þó tíma til þess að setja sig í samband m.a. við flestalla kaupfélagsstjóra, sem búsettir eru í kartöfluræktarhéruðum landsins, og fá þá til að láta álit sitt í ljós, og þeir létu það álit í ljós, að það vari ekki ávinningur að þeirri breytingu, sem ráðgerð væri, og enginn þeirra taldi sig hafa orðið þess varan, að nokkur áhugi væri fyrir málinu, að undanteknu því, að tveir eða þrír þeirra höfðu fundið einn eða tvo menn, sem töldu sig vilja breytingu, en þeir voru ekkert frekar úr hópi kartöfluframleiðenda en annarra. Þá lá fyrir heilmikið af yfirlýsingum frá þessum mönnum alls staðar af landinu um þeirra skoðun á þessu máli. Hv. 6. þm. Reykv. las hér í ræðu sinni í gær álit eins þeirra, framkvæmdastjóra Kaupfélags Eyfirðinga, og hæstv. landbrh„ sem talaði hér á ettir honum, var uppi með þjósti og spurði eiginlega, hvaða mark menn vildu fara að taka á því, þegar einn kaupfélagsstjóri, þó að það væri fyrir stóru kaupfélagi og ágætur maður, gæfi slíka yfirlýsingu. Hæstv. landbrh. virðist yfirleitt ekki hafa lesið fskj. með þessu máli og nál. minni hl. Það er þess vegna rétt að lofa honum eða stólnum hans að heyra, að það eru fleiri, sem eru alveg sömu skoðunar. Kaupfélagsstjóri á Svalbarðseyri, Skúli Jónasson, skrifaði 3. apríl þ. á. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Að fenginni reynslu kaupfélagsins í samskiptum við grænmetisverzlun ríkisins teljum vér engar líkur til, að nýr aðili, er annist sölu og innkaup á þeim vörum, er grænmetisverzlun ríkisins hefur annazt, mundi leysa það hlutverk betur af hendi.

Vér getum ekki séð, að það yrði kartöfluframleiðendum til nokkurra hagsbóta að stofnsetja aðra stofnun til þess að annast þau mál, sem grænmetisverzlun ríkisins annast nú, þar sem sýnilegt er, að það gæti ekki minnkað dreifingarkostnaðinn.

Vér fáum engan veginn séð, að frv. það, sem hér er fram komið, sé það af sýnilegri nauðsyn.“ Þetta voru orð þessa kaupfélagsstjóra.

Þá skulum við taka annan kaupfélagsstjóra og þá líklega framsóknarmann líka, hérna á Suðurlandinn, það er Oddur Sigurbergsson, Vík í Mýrdal. Hann skrifar 9. apríl:

„Ekki tel ég miklar líkur til þess, að það yrði til hagsbóta fyrir framleiðendur og enn síður fyrir kaupfélagið, að þetta nýja skipulag verði tekið upp óbreytt.“

Magnús Kristjánsson kaupfélagsstjóri á Hvolsvelli skrifar 12. apríl þ. á., með leyfi hæstv. forseta:

„Vér lítum svo á, að grænmetisverzlun ríkisins hafi með starfi sínu allt frá stofnun unnið mikið og gott starf í þágu framleiðenda og neytenda. Afgreiðsla öll við stofnunina hefur verið traust og örugg og viðskipti Kaupfélags Rangæinga við hana hin beztu í hvívetna.“

Svo að maður taki frá bæjunum líka, skrifar Sveinn Guðmundsson, Akranesi, 5. apríl eftirfarandi:

„Ég get ekki séð, að það sé á neinn hátt hagkvæmt framleiðendum, að grænmetisverzlun ríkisins sé lögð niður og sölunefnd stofnsett í hennar stað. Ég hef aldrei heyrt neinn framleiðanda tala um slíkt.“

Ég veit ekki, hvort ég ætti að halda áfram. Ég held a.m.k., að ég verði að bíða, þangað til hæstv. landbrh. er búinn að koma með einhverjar yfirlýsingar frá einhverjum bændafundum, sem hafa sérstaklega óskað eftir þessu.

Það getur vel verið, að einhverjar ákveðnir hagsmunahópar, pólitískar hagsmunaklíkur innan Framsfl., skjóti fram einhverri till. eins og þessari á fundi Stéttarsambands bænda og fái það samþykkt. En því fer alls fjarri, að vilji almennings sé þarna á bak við.

Það er þess vegna sama, hvar drepið er niður viðvíkjandi þessu máli, hvort það er heldur að athuga þær umsagnir, sem um það hafa borizt frá mönnum víðs vegar af landinu, eða athuga rökin, sem fyrir því eru flutt. Það verður sama endemis hneykslið. Það er tilraun til þess að ræna úr höndum ríkisins í hendur sérstaks takmarkaðs hagsmunahóps valdi, sem ríkið hefur farið með fram að þessu, og afnema löggjöf, sem mælir svo fyrir, að það eigi að reka ákveðið fyrirtæki með hagsmuni jafnt framleiðenda sem neytenda fyrir augum, og gefa meðferð þessara mála algerlega undir vald eins hluta af framleiðendunum.

Vegna þess að þetta mál er svona til komið, hlýtur það að verða harðvítugt deilumál hér, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að um þetta verði hér þó nokkrar umræður. Mér þykir hart, ef það á að hafa þann hátt á að reyna að píska þetta mál í gegnum þingið án umræðna. A.m.k. held ég, að hæstv. landbrh. ætti áður að standa við þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér í gær, að segja okkur, hvað undirbúningurinn að þessu máli hefur kostað. Hann sveikst um það. Ég ætla að leyfa mér að biðja hann um að leggja fram reikningana yfir þann undirbúning og hvað hann hefur kostað og sundurliða það. Það getur svo farið, að ella verði að fara að ræða þau mál alveg sérstaklega, og það er þá kannske hægt að koma fram hér með ýmsar upplýsingar í því efni, sem kynnu að varpa nýju ljósi á, hvað hér er á ferðinni. Ég vil sem sé leyfa mér að vona, að næst þegar annaðhvort hæstv. landbrh. eða þm. Dal. tekur til máls um þetta mál, ræði þeir þessi mál og reyni að finna einhver rök fyrir sínum málstað, en komi ekki með staðhæfingar, staðlausar aðdróttanir og ósvífni eins og þeir gerðu í sínum síðustu ræðum. Ef þeir taka upp slíkan alvarlegan málflutning, verður miklu frekar hægt að ræða þetta mál án þess hita, sem eðlilega kemur í það, þegar þannig er bolazt eins og gert var af hálfu þessara tveggja ræðumanna hér í ræðustólnum í gær.