02.02.1956
Neðri deild: 61. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Sigurður Guðnason) [frh.] :

Herra forseti. Á síðasta þingfundi, er þetta mál var til umræðu, hafði ég óskað eftir, að hæstv. landbrh. væri viðstaddur, og þá var það tekið út af dagskrá eftir minni beiðni, og hv. forseti ákvað, að það yrði tekið til umræðu næst, hvort sem ráðh. væri við eða ekki. Nú í byrjun fundarins lýsti hv. forseti yfir, að hæstv. landbrh. hefði fjarvistarleyfi, svo kom hann nú samt rétt á eftir, en var svo farinn aftur. (Forseti: Má ég upplýsa hv. ræðumann. Hæstv. ráðh. kom hér við. Það var rétt, að hann hafði fjarvistarleyfi, kom hér við, en fór til jarðarfarar.) Já, ég mun því halda áfram minni ræðu, en mér fannst rétt, að þetta kæmi fram.

Eftir ræðu hæstv. landbrh. tók hv. 2. þm. Reykv. (EOl) fram ýmislegt viðvíkjandi framferði hæstv. ráðh., þar sem hann hefði borið á mig, að ég sýndi bæði dólgslega framkomu og óþinglegt orðbragð. En mér finnst, að hæstv. ráðh. hafi eitthvað dálítið skriplað á siðferðinu yfirleitt hérna í Alþ., þar sem hann tók fram um hv. 1. varaþm. Sósfl., Gunnar M. Magnúss, að hann hefði alls ekki munað, hvað maðurinn héti, sem kom inn í Alþ. í veikindum mínum, og hann lét sér sæma að ávarpa ekki þann þm. eins og venja er, honum fannst það vera fyrir neðan það, að það væri honum samboðið að tala við hann sem þm. Og það álít ég vera dálítið langt gengið gagnvart mönnum, sem hér mæta á Alþ., og er yfirleitt erfitt að sætta sig við það, að maður, sem er það háttsettur í Alþ., að hann geti gengið inn í umræður fram fyrir alla alþm., sýni svona óviðurkvæmilega framkomu.

Í öðru lagi sagði hann, að ég hefði haldið því fram, sem væri fyrir neðan allar hellur að geta haldið fram, að þegar þetta mál kom fyrst til umr. hér í Alþ., hefði framleiðsluráð sem slíkt átt að fá alveg óskorað vald á þessu, en breytingarnar, sem hafa orðið síðan, eru þær, að þar fá menn frá eggjaframleiðendum, frá ylræktarbændum og Sambandi smásöluverzlana allir tillögurétt, og ég sagði, að þeir hefðu fengið það til þess að mæla með málinu. Það stendur svart á hvítu, að þessir menn hafa fengið rétt til þess að gæta sinna hagsmuna gagnvart þessu máli, og það er enginn vafi, að þeir eru ekki ánægðari með þessa breytingu en var áður, úr því að þeir settu það skilyrði, til þess að þeir fylgdu málinn.

Í þriðja lagi sagði hæstv. ráðh„ að ég hefði verið að myndast við að lesa upp tölur, sem sýndu, að framleiðslan á jarðarávöxtum væri orðin eins mikil eða meiri í kaupstöðunum en hjá bændunum, og efaðist hann um, að þetta væri rétt, og vefengdi skýrslur frá hagstofunni um þetta. Og svo kemur í Tímanum í morgun grein frá Sveini Tryggvasyni framkvæmdastjóra verðlagsráðs, sem kemur inn á þetta sama, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp það, sem segir um þetta mál:

„Því er að vísu haldið fram nú, að minni hluti framleiðslunnar sé framleiddur af bændum og hafi sá hluti framleiðslunnar farið ört minnkandi hin síðustu ár. Er í þessu efni vitnað í skýrslu frá Hagstofu Íslands. Sízt vil ég bera brigður á tölur þeirra mætu starfsmanna hagstofunnar, en grunur minn er sá, að grundvöllur þeirra talna sé í hæsta máta óábyggilegur, og er það ekki sök hagstofunnar. Hitt er svo lærdómsríkt fyrir bændur að heyra það, að með hverju ári fer meira af tekjum þeim, er þeir hafa haft af garðrækt, til annarra stétta. Þrátt fyrir þetta er enginn vafi á því, að bændur rækta enn þá meiri hlutann af þeim kartöflum, sem til sölu eru boðnar árlega, og er sú staðreynd vitanlega það, sem skiptir máli í þessu sambandi.

Þá er því fram haldið, að bændur hafi engan áhuga á breytingu þeirri, er frv. gerir ráð fyrir, og margir helztu forustumenn þeirra hafi lýst sig andvíga.“

Hvað er nú verið að segja þarna? Það getur ekki verið nema eitt, sem kemur fram bæði hjá hæstv. landbrh. og starfsmanni framleiðsluráðs, að þeir bera það á bændastéttina, að hún telji rangar fram sína framleiðslu en kaupstaðabúar, og það hefði einhvern tíma verið talið, að það væri heldur fjandskapur við bændurna að bera það fram alveg blákalt, að þeir telji rangar fram sína framleiðslu en kaupstaðabúar, og það er frá mönnum, sem ættu að vita þetta. Það er langt fyrir neðan að vera sæmandi fyrir menn að bera þetta fram. Ég held satt að segja, að þetta sé líkt. Ég er ekkert að bera það fram, að kaupstaðamenn telji betur fram en bændurnir yfirleitt, en ég vil ekki slá því föstu, að bændurnir telji rangar fram.

Svo kom nú þungamiðjan, þegar hæstv. landbrh. kom fram og fór að tala um, hvað þetta væri mikið vandamál um kartöfluframleiðsluna. Þá segir hann, að þeir hafi haft svo litlar tekjur og ekki getað haft peninga til stofnræktunar. Nú var það sannað skriflega frá þeim, að þeir höfðu lagt til stofnræktunar í kringum 600 þús. kr. þessi ár. Hann var að tala um þessi vandræði, og það er meira, sem kemur fram. Það upplýstist líka, að a.m.k. núna fjögur undanfarandi ár hafi verið meira til af útsæðiskartöflum, sem hefur verið stofnræktað, heldur en hefur gengið út. Núna undanfarin ár hefur alltaf verið meira til af þessum kartöflum, sem hafa verið ræktaðar í stofnræktun, útsæðiskartöflum, heldur en hafa verið notaðar, svo að það hlýtur eitthvað að vera annað, sem liggur við að leggja niður þessa stofnun ríkisins og afhenda stéttarfélaginu það eða verðlagsráði. Hæstv. landbrh. hefur sagt, að þetta væri erfitt mál. En allir, bæði verðlagsráð, Búnaðarfélagið og stéttarsamtökin, hafa verið sammála um þetta. En þegar farið er að athuga, eru þetta allt sömu mennirnir, sem koma með þessar till., og allt, sem við kemur þessu máli, er þannig, að það virðist ekkert vera, sem þeir sækjast eftir, annað en að fá þetta keypt. Ég fyrir mitt leyti er algerlega á móti því. Hæstv. ráðherra hefur líka skyldu gagnvart heildinni, þeim mönnum, sem trúa honum fyrir að gæta hagsmuna ríkisins. Þeir eru líka menn. Og ég er algerlega á móti því, að einhver maður, jafnvel þó að hann hafi löngun og vald til þess, láti fólk selja hópi manna eða einu stéttarfélagi hluti, sem honum sjálfum er trúað fyrir, og ég vona, að meiri hluti hv. þm. sé sammála mér í þessu og samþykki því till. mína um að vísa málinu frá.