03.02.1956
Neðri deild: 62. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Hannibal Valdimarsson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði í gær rætt nokkuð um það, hvernig þetta mál bar að á síðasta þingi og hvernig það kom aftur núna frá landbn. Ég skal nú ræða nokkuð um málið sjálft og búnað þess og ræða um þýðingu þess gagnvart neytendunum og sérstaklega skoða málið frá sjónarmiði verkalýðssamtakanna, sem hljóta að láta mál eins og þetta til sín taka. Alveg eins og það er sjálfsagt og skiljanlega mikið kappsmál bændasamtökunum að ráða algerlega og ein með einkasöluaðstöðu yfir innflutningi og verðlagningu og verzlun með grænmeti, eins er það að sjálfsögðu mikið hagsmunamál neytendanna í kaupstöðunum, að þeirra hagsmuna sé gætt, bæði að því er snertir innflutning á þessari nauðsynjavöru, sem er á borði hvers einasta manns á hverjum einasta degi, og einnig að því er snertir verzlunarfyrirkomulagið og verðlagningu og flokkun þessara vörutegunda. Og eins og það kann að vera mikið kappsmál bændasamtökunum, að öll þessi atriði um innflutninginn, verzlunina og dreifingarskipulagið séu eingöngu í höndum bændastéttarinnar, eins mikið hagsmunamál neytendanna og verkalýðssamtakanna er það, að sjónarmiða neytendanna sé fyllilega gætt í allri meðferð þessara mála. En í öllum undirbúningi málsins er mér ekki kunnugt um, að neitt hafi verið gert til þess að hafa um þetta mál samráð hins aðilans. Hér er meginefni málsins það, að ríkiseinkasala, sem á sinum tíma var talið nauðsynlegt að koma á fót til þess að sjá um þessi mál, á að leggjast niður og í staðinn á að koma upp verzlun með þessar vörur, að því er manni skilst undir stjórn framleiðsluráðs, en sú verzlun á að byggja á einkasöluréttindum, sem landbúnaðarráðuneytinu séu heimiluð í lögum.

Ég held, að það sé erfitt að hugsa sér, að þessi tvö sjónarmið, sem í þessu máli á tvímælalaust að fullnægja, sjónarmið neytendanna og framleiðendanna, verði betur tryggð með öðru móti en að hlutlaus stofnun undir æðstu stjórn ríkisvaldsins sjálfs fari með þessi mál. Og þar sem nú er ekki um það deilt, að þessi stofnun hafi rækt vei sínar skyldur, — engin skjöl eru hér lögð fram, sem gagnrýni starfsemi grænmetisverzlunar ríkisins, — þá virðist mér, að það þurfi að koma fram mjög sterk rök fyrir því, að annað skipulag henti betur og fullnægi betur þörfum hvors tveggja aðilanna, sem tillit ber að taka til. En slík gögn hafa ekki legið frammi í sambandi við þetta mál enn þá. Það liggja hér aðeins fyrir gögn frá mörgum aðilum um það, að ríkiseinkasalan, þ.e.a.s. grænmetisverzlun ríkisins, hafi unnið sín störf vel, og fjöldamargir aðilar votta það, að þeim hafi í hvívetna líkað vel öll þau viðskipti, sem þeir hafa átt við þetta fyrirtæki.

Í þessi ummæli hefur verið vitnað. Það eru hér í fylgiskjölum umsagnir frá ég held einum 5 eða 6 kaupfélagsstjórum og einum kanpmanni, held ég, sem segist hafa 37 ára reynslu í verzlun með kartöflur og grænmeti, og öllum ber saman um það, að grænmetisverzlun ríkisins hafi verið góð viðskiptis og hafi rækt störf sín vel, ekki aðeins gagnvart framleiðendunum, heldur einnig gagnvart neytendunum og sömuleiðis að því er snertir viðskipti við þau kaupsýslufyrirtæki, sem hafa annazt sölu afurðanna, þ.e. bæði kaupfélög og kanpmenn. Ég fæ því ekki betur séð en að fyrirtækið sjálft fái hin beztu meðmæli úr öllum áttum og það stuðli að því, að niðurstaðan ætti að vera slík, að framtíð þessa fyrirtækis væri tryggð og ekki vikið frá þessu fyrirkomulagi. Ef það væri undirstaða málsins, að það þyrfti að kippa þessari starfsemi, þessari þjónustu við landslýðinn, úr höndum þeirra manna, sem stjórna grænmetisverzlun ríkisins, þá væri miklu auðveldara að láta skipulagið halda sér, en víkja þeim mönnum burt, sem hefðu gefizt illa, ef það er. Ég er alveg viss um, að þeir menn, sem starfa hjá grænmetisverzlun ríkisins og hafa látið hér frá sér fara umsagnir, gera það ekki vegna sjálfra sín. Þeir líta á málið ekki sem sitt einkamál eða sitt hagsmunamál. Ég hygg, að þeir gætu allir saman fengið störf og stöður við aðra starfsemi hjá þjóðfélaginu og gætu séð sér sjálfum borgið fyrir það, þó að grænmetisverzlun ríkisins væri lögð niður. En það er greinilegt, að þeir hafa öðrum mönnum fremur þekkingu á þessum málum, reynslu af þeim, og þeir leggja fram sjónarmið almennings, skoða sjónarmið framleiðendanna, sem ég hygg að þeir hafi sízt tilhneigingu til að bera fyrir borð eða sniðganga eða leggja til, að neitt það skipulag sé upp tekið á þessum málum, sem henti framleiðendunum illa. Ég er alveg viss um, að Jón Ívarsson og Björn Guðmundsson og slíkir menn létu aldrei hafa sig til þess að mæla með fyrirkomulagi, sem hentaði framleiðendunum illa. Og þeir hafa áreiðanlega vitneskju um það, hvernig framleiðendunum sjálfum líki það fyrirkomulag, sem nú hefur verið á þessum málum. Og þeir eru það miklir og góðir drengir, báðir tveir, að þeir mundu ekki bera vitnisburð með fyrirkomulagi grænmetisverzlunar ríkisins, ef það væri óhentugt og óþénanlegt hagsmunum bændanna.

En ef þessum mönnum væri ekki treystandi, orðum þeirra ekki treystandi eða þeim ekki treystandi í störfum, þá ætti vitanlega að láta þá víkja, en halda góðu skipulagi eftir sem áður og skipta þar aðeins um menn.

Jón Ívarsson, sem landbn. bæði í fyrra og núna sneri sér til og virtist þannig vilja leggja nokkuð upp úr, hvað segði um málið, bendir í fyrsta lagi á, að frv. sé illa samið, illa frá því gengið, bæði um efni og orðfæri. Og það dylst heldur engum, sem athugar frv. Það er hrákasmíð hin mesta og alveg furðulegt, að þetta skuli í fyrsta lagi vera samið af sigldum menntamanni, sem sérstaklega hafði átt að undirbúa sig undir þau störf, kynna sér þessi mál öll, og í annan stað að vera búið að ganga í gegnum hreinsunareld framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem leggur mikið kapp á þetta mál og hefði því átt að hugsa um, að það væri ekki búið eintómum druslum, þegar það væri lagt fram fyrir Alþingi, heldur væri í sómasamlegum klæðum. En það er það ekki. Og í annan stað er það búið að vera tvívegis í landbn. Alþingis og kemur þaðan lítið sem ekkert breytt, annað en það, að meiri hl. n. leggur á það nokkurt kapp, að smásölukaupmenn fái að fjalla um þá hlið málanna, sem snúi að sölu grænmetis. Það er breytingin, sem landbn. er núna með, þ.e.a.s. þeir af landbn.- mönnum, sem hafa viljað leggja nafn sitt við þetta mál. En ég gat um það áðan, að einn hefði verið svo vandur að virðingu sinni, þ.e. hv. þm. A-Húnv., að hann hefði hvorki í fyrra né nú viljað láta leggja nafn sitt við þetta mál, og tel ég það sönnun þess, að hann telji þetta mál ekkert þurftarmál íslenzkrar bændastéttar. Annars hefði hann mælt með þessu máli og mælt fast fram með því.

Til sönnunar því, að frv. sé illa samið, þarf ekki annað en að nefna nokkur dæmi. Það er tekið fram í frv., að grænmetisverzlun ríkisins eigi að leggjast niður. Hún mun eiga eignir, sem ekki er ólíklegt að mundu seljast á frjálsum markaði fyrir svona 2–3 millj. kr. Í frv. er enginn stafur um það, að fara eigi fram mat á þessum eignum. Það á að selja þær, segir í frv., enginn stafur um það, fyrir hvað eigi að selja þær, ekki um, að það eigi að fara fram mat á því. Það mundi þykja fullnægjandi samkvæmt lögfestingunni, heimildinni um sölu, að þetta væri selt á eina krónu. Ekkert er til fyrirstöðu því í frv. Þetta er vitanlega strax óviðunandi gat í frv. Það nær ekki nokkurri átt, að Alþingi heimili sölu á milljónaverðmætum, sem ríkið á, án þess að nein ákvæði séu um það, með hverjum hætti sú sala skuli fara fram. Vitanlega er svo þar af leiðandi enginn stafur eða stafkrókur um það í frv., hverjum eigi að selja eignir grænmetisverzlunar ríkisins, engar heimildir um að selja ákveðnum aðila. Í frv. er gert ráð fyrir því, að landbrn. fái einkasölurétt á þessum vörum. Landbrn. hefur einkarétt til að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeli, stendur í b-lið 4. gr. Það er enginn stafur um það, að landbrn. eigi að fara að setja upp verzlun. Það virðist ekki vera það, sem á að kaupa eignirnar og fara að verzla. Hvort tveggja er líka furðulegt, að ætla einu ráðuneyti eins og landbrn. að fara að verzla. Aðilinn, sem á að fá einkasöluréttinn, á því áreiðanlega að vera laus við verzlunina, og það á að selja einhverjum öðrum eignir grænmetisverzlunar ríkisins. En sá aðili, sem á að verða kaupandinn, er ekki nefndur nokkurs staðar. Það er annað gatið í frv., annaðhvort vísvitandi eða fyrir vankunnáttu sakir hjá þeim, sem hafa samið þetta frv., sjálfsagt fyrir borgun.

Málfarið á frv., mér dettur það í hug einmitt núna, þegar ég staldra við þessar línur: Ríkisstjórn, innan sviga landbrn., hefur einkarétt til að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeti. Svo kemur: Bann þetta nær þó ekki til skipa. — Hvaða déskotans bann? Það var ekki verið að tala um neitt bann þarna á undan, það var verið að tala um einkasöluréttíndi. Og svo segir: Bann þetta — kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Höfundurinn hefur ekki einu sinni yfirsýn yfir næstu setningu á undan, og þannig er þetta frv. hnoðað saman. Það er skrípi, bæði að því er snertir efni og orðfæri, enda var það svo, þegar verið var að lesa upp úr þessu nál., þessari bók, kartöflubiblíunni svokölluðu, í fyrra hér á Alþingi, að þm. hlógu mest að orðskrípunum og ambögunum. Þeir menn, sem höfðu kynnt sér það rit, hefðu því átt alveg af sérstakri varfærni að taka gilt frv. frá þessum höfundi. Það var vitað mál, að það mundi ekki vera á betra máli en bókin, og þurfti því að umsemja þetta allt saman. Þessi umsamning er enn þá eftir ógerð, og það er skömm fyrir Alþingi, ef það lætur ekki semja þetta frv. upp, áður en því er hnoðað inn í löggjöf landsins.

Sízt af öllu trúi ég Framsfl. til þess að gera þetta mál í þessum búningi að sínu máli. Ef Stéttarsambandi bænda er þetta annað eins kappsmál og látið er í veðri vaka, þá ætti stjórn Stéttarsambands bænda að unna sér einnar dagstundar til þess að lagfæra þótt ekki væri annað en málfærið á frumvarpsómyndinni.

Það er hægt að finna í hverri einustu grein frv. ambögur eins og þetta, að það er talað um einkasöluréttindi og svo segir: Bann þetta nær þó ekki til skipa.

Ef einhver skyldi vefengja, að það sé rétt hjá mér, að í frv. sé enginn stafur um, hver eigi að vera kaupandi að eignum grænmetisverzlunar ríkisins og hver elgi að annast verzlunina, þá er ég ákaflega þakklátur þeim þm., sem gæti leiðrétt þetta fyrir mér og bent á, að það sé nokkurs staðar að því vikið, hver eigi að verða eigandinn eða með hvaða hætti hann elgi að verða það og fyrir hvaða verð, Allt þetta vantar í frv. Um forstöðu hennar veit maður ekkert annað en það, að framleiðsluráði landbúnaðarins er ætlað að ráða henni framkvæmdastjóra. Það er það eina, sem stendur um það, hvaða forstöðu þessi mál eigi að lúta, þegar búið væri að leggja grænmetisverzlunina niður. Landbrn. á að ráða henni forstjóra.

Nú er ekki nema tvennt til, einhvers staðar lendir þetta. En annaðhvort verður tap eða gróði á slíkri verzlun sem þessari. Það er nú kunnugt, að verzlun með grænmeti og kartöflur er nokkuð áhættusöm verzlun. Gætu því komið fyrir töp. Það er líka hugsanlegt, að framleiðsluráð landbúnaðarins hefði vaðið fyrir neðan sig og ákvæði verðið ríflegt og hátt og að það skapaðist gróði. Í frv. er ekkert að því vikið. hver eigi að bera hugsanleg töp af þessari verzlun eða hver eigi að njóta og vera eigandi að hugsanlegum gróða. Það veit enginn, hvar skellirnir eiga að lenda, enginn, hverjir eiga að njóta gróðans, ef hann yrði. Þetta er ein botnleysa frv. Ef gera má ráð fyrir töpum þarna, þá er vitanlega alveg sjálfsagt að taka fram í frv., hver eigi að vera ábyrgur bak við þessa stofnun.

Það er látið að því liggja, að þetta fyrirkomulag á sölu kartafina og grænmetis sé hliðstætt því, sem nú er um sölu mjólkur og mjólkurafurða og kjöts, en þetta er alrangt. Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur þau ein afskipti af sölu mjólkur og mjólkurafurða, að það ákvarðar um verðið. Það hefur það líka lagalegan rétt til að gera að því er snertir kartöflur og grænmeti. En framleiðsluráð landbúnaðarins verzlar ekki með mjólk, það verzlar ekki með kjöt, og það væri þess vegna algert nýmæli í lögum, ef landbrn. ætti að hafa einkasöluréttindi að því er snertir sölumeðferð þessara vara og framleiðsluráðið ætti síðan að annast verzlunina. Og ef það er nú ætlunin, þá er að athuga, hversu heppilegt slíkt fyrirkomulag mundi vera.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefði þá algert einræði um það, hvort flutt væri til landsins grænmeti og kartöflur frá útlöndum eða með hverjum hætti innflutningi væri hagað. Það hefði vald til þess, þegar einkasöluréttindin væru fengin, að stöðva allan innflutning á grænmeti og kartöflum til landsins, þangað til öruggt væri, að síðasta kartafla af innlendri framleiðslu væri seld. Og það gæti leitt til þess, að landið væri kartöflu- og grænmetislaust vikum eða mánuðum saman. Hefði þetta nokkra þýðingu fyrir neytendurna í kaupstöðum og kauptúnum? Þetta er stórkostlegt hagsmunamál þessa fólks, og það er þess vegna, sem ég geri það að umræðuefni. Það er þess vegna, sem ég skírskota til þm. Reykjavíkur, hvort þeir vilji stuðla að því, að neytendurnir í kaupstöðunum hafi ekkert með innflutning eða verzlun á þessari vöru að segja og að það sé eingöngu látið í hendur einnar stéttar. Ég er alveg sannfærður um það, að fulltrúar bændastéttarinnar hér á þingi mundu ekki láta taka slíkt hagsmunamál bændastéttarinnar úr höndum sinnar stéttar, ef þeir ættu þar um að fjalla, eins og við getum ekki annað en verndað hag neytendanna að því er snertir afgreiðslu þessa máls. Það er algerlega óverjandi af þm. kaupstaða og kauptúna að greiða atkvæði með þessu máli, því að þar er í raun og veru fengin einni stétt í hendur öll meðferð þessa þýðingarmikla máls.

Ef þetta væri lögfest, ein stétt fengi þarna einkasöluaðstöðu og einkarétt til þess að ráða allri dreifingu og sölumeðferð svona þýðingarmikillar neyzluvöru, þá er alveg ljóst, að önnur landssambönd annarra stétta heimtuðu að fá sams konar fríðindi og réttindi. Það er alveg víst, að Alþýðusamband Íslands mundi þá heimta í sínar hendur einkarétt á hagsmunamálum, sem annars kæmu bæði við fólkinu innan samtakanna og í bændastéttinni. Það má búast við, að Landssamband iðnaðarmanna heimtaði líka til sín einkaréttaraðstöðu um mál, sem væru þó ekki aðeins hagsmunamál þeirrar stéttar einnar, heldur gripu inn í hagsmuni annarra stétta. Ég held, að stefnt væri í mikið óefni, ef farið væri inn á þá braut, þó að það væri gert út frá því, að þetta væri mikilsverður réttur fyrir bændastéttina. Það mundi draga slíkan dilk á eftir sér í stéttareiptogi um stórkostleg hagsmunamál, sem eru ekki bundin við eina stétt, því að fá hagsmunamál eru þess eðlis, þau grípa inn í hag annarra stétta, það yrði af því áreiðanlega aukið stéttastríð. Það væri ekki aðeins verið að della um kaupgjald eða krónutölu, þarna væri verið að deila um réttindi, sem eru eftirsótt og mjög svo eftirsótt, þ.e.a.s. aðstöðu til verzlunar og meira að segja einkasöluréttinda um verzlun og dreifingu ákveðinnar vöru. Það er enginn efi á því, að þetta mál mundi vekja upp marga drauga, hvort sem það er ætlunin eða ekki. Það er alveg gersamlega óstætt á því fyrir ríkisvaldið að lögleiða einni stétt til handa einkasöluréttindi og neita öðrum stéttum um sams konar réttindi. Það væri búið að opna leiðina fyrir margvíslegum sams konar einkasöluréttindum til handa öðrum stéttum, ef þetta verður gert, eða að öðrum kosti að fremja stórkostlegt ranglæti.

Jón Ívarsson segir í allri hógværð hér, með Leyfi hæstv. forseta, í sinni umsögn: „Hversu góð sem einstök stéttarsambönd eða stéttarfélög eru og stjórnendur þeirra nú réttsýnir á hag allra landsmanna, er lagt á fulltæpt vað að veita þeim slík völd, að ríkisvaldið sjálft verði að lúta.“ En hér eru réttindin til handa framleiðsluráði svo óskoruð, að landbrn., sem á að hafa einkasöluinnflutninginn með höndum, má ekki flytja inn eina einustu kartöflu, fyrr en búið er að spyrja framleiðsluráðið um leyfi til þess, og þar með er ríkisvaldið látið lúta fyrir samtökum einnar stéttar. Ja, hvað skyldi hann Bjarni Benediktsson, hæstv. dómsmrh., segja um ríkisvaldið, hið sterka ríkisvald, sem hann þráir, sem hann dreymir um á hverri nóttu, bæði úti í Kaupmannahöfn og heima í Reykjavík, ef svona á að búa að ríkisvaldinu, að það á að lúta þarna í þessu efni ákvörðun framleiðsluráðsins og sá réttur að takmarka vald landbrn., sem þó á að fá þarna einkasöluréttindi, sem verða ekki nema nafnið tómt vegna takmarkana, sem síðar koma í frv.? Ég er hræddur um, að hann fari að dreyma illa. Ég er hræddur um, að hæstv. dómsmrh. fari bara að dreyma illa, ef hans flokkur, Sjálfstfl., ætlar að stuðla að því, að ríkisvaldið verði þarna valdalaust gagnvart framleiðsluráðinu. Það stefnir ekki í þá áttina, sem hann hefur verið að prédika fyrir okkur að væri nauðsynlegt. Hins vegar getur það leitt til þess, að réttmætar kröfur hvers stéttarsambandsins á fætur öðru komi um að fá eitt að ráða yfir sölu og allri viðskiptameðferð þýðingarmikilla vara, sem viðkomandi stétt vill ráða ein yfir. Þetta væri í raun og veru að tætla ríkisvaldið, að því er þessa yfirstjórn viðskiptamálanna snertir, niður í smátætlur. Og þó að ég sé andvígur því, að hæstv. dómsmrh. fái það vald, sem hann þráir, að hægt sé að vopna einhvern óaldarlýð hér í Reykjavík til þess að lemja á verkalýðnum, þá er ég honum sammála um það, að svona má ekki leika ríkisvaldið, svona má ekki tætla það niður í ekki neitt, svona má ekki efla stéttaaðstöðuna, að hún verði yfirgnæfandi og ríkisvaldið fái enga rönd við reist á neinu sviði. En það verður nú gaman að sjá, hvaða afstöðu sjálfstæðismenn taka til þessa máls, þetta er algerlega í mótsögn við stefnu hæstv. dómsmrh., auk þess sem þeir verða að ganga í berhögg við hagsmuni allra umbjóðenda sinna hér í Reykjavík og í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Það þyrfti kannske ekki merkilegra atriði en það, að kaupstaðabúar allir í landinu væru kartöflulausir í einn mánuð, eftir að þetta hlífðarskipulag væri komið á, til þess að það fækkaði eitthvað atkvæðum þess flokks, sem hefði staðið að slíkri lausn málanna. Það þarf nú stundum ekki meira til.

Enn ranglátara er að koma á því skipulagi um sölu kartaflna og grænmetis, sem leggur allan rétt og öll völd í hendur framleiðslustéttarinnar einnar og umboðsmanna hennar, hversu réttsýnir sem eru, — enn furðulegra og enn ranglátara verður það, þegar þess er gætt, að hagstofan upplýsir, að nú seinustu árin sé meiri hluti allra kartaflna ekki framleiddur í sveitum landsins, heldur í kaupstöðum og kauptúnum. Það virðist hafa orðið stórkostleg breyting á þessu síðan 1950. Þá voru framleiddar í sveitunum 52603 tunnur, en í kaupstöðunum 33430 tunnur. 1951 er þetta farið að jafnast nokkuð. Þá eru í sveitunum framleiddar 45679 tunnur og í kaupstöðum og kauptúnum 39866 tunnur. 1952 er framleidd í sveitunum 39421 tunna, en í kaupstöðum og kauptúnum 31272. En 1953 eru framleiddar í sveitum 77830 tunnur, en í kaupstöðum og kauptúnum 80528. Breytingin er söm og jöfn og sígandi, þangað til 1953, að orðinn er verulegur meiri hluti af öllum kartöflum framleiddur í kaupstöðum og kauptúnum og sveitirnar komnar í minni hluta. Skýrslur hagstofunnar liggja ekki fyrir fyrir árin 1954 og 1955, en eftir þessari jöfnu þróun að dæma gæti maður hugsað sér, að þróunin væri orðin sú, að nú væru nálægt 2/3 af öllum kartöflunum, sem framleiddar eru hér á landi, ræktaðir í kaupstöðum og kauptúnum, og þá á einmitt að taka allan rétt af kaupstaðabúum og kauptúnabúum og fela landbrn. einkasöluréttindi til að flytja allar þessar vörur inn og framleiðsluráði landbúnaðarins réttinn til þess að framselja einhverjum óþekktum aðila verzlunina og framleiðsluráðinu allan rétt til verðákvörðunarinnar. Ég er alveg viss um, að það verður mikill kurr í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins, ef þetta frv. verður lamið hér í gegn, þó að það séu nú bara kartöflur, sem er um að ræða.

Þetta mál virðist vera í þeim flokki mála, sem Sjálfstfl. hefur yfirleitt haft mestan áhuga á á undanförnum árum. Það hefur á undanförnum árum skotið hér upp frv. um að leggja ríkiseinkasölur niður. Sérstaklega hafa tveir þm. úr Sjálfstfl. verið iðnir við kolann um að reyna að fá skipaútgerð ríkisins lagða niður, og hafa um það verið miklar umr. hér á Alþ. Skipaútgerð ríkisins er álíka gömul og grænmetisverzlun ríkisins og var sett á laggir til þess að inna af hendi sameiginlega þjónustu, nauðsynjaþjónustu fyrir fólkið í hinum fjarlægu byggðum landsins, og hvort tveggja fyrirtækið hefur þótt inna sitt hlutverk vel af hendi. Mótmæli hafa dunið á Alþ. utan af landsbyggðinni um að leggja ekki skipaútgerð ríkisins niður þrátt fyrir vaxandi töp á rekstri hennar, og landslýðurinn hefur gert sér það ljóst, að töpin voru afleiðing af því, að það var verið að inna af hendi fyrir fólkið þjónustu, sem er dýr í framkvæmd, og það mátti ekki missa þessa þjónustu. Hin vaxandi töp eru ekki afleiðing af vondri stjórn þessa fyrirtækis, það hafa menn líka gert sér ljóst, heldur af því, að nú dreifist flutningurinn á vörum á bifreiðar að mjög miklu leyti, á flugvélar og á skip og að með vaxandi útgerðarkostnaði skipanna dugir ekki það magn, sem kemur til flutnings með skipum, til þess að standa undir útgerðarkostnaði, og meðan þessi mál eru ekki skipulögð á ný út frá þeim nýju sjónarmiðum, fellst landslýðurinn ekki á það, að skipaútgerð ríkisins sé lögð niður, þó að áhrifamiklir þm. klifi á því þing eftir þing. Það fær engan hljómgrunn, og mótmælin verða því háværari og sterkari sem þessir þm. klifa oftar á þessu, enda er nú komið svo, að þeir hafa engar umr. í frammi sjálfir fyrir sínu máli, en af þrjózku og þrákelkni virðast þeir flytja málið samt áfram þing eftir þing.

Annað eftirlætismálið er svo þetta, að fá grænmetisverzlun ríkisins lagða niður. Þetta mál hefur ekki fengið neinn hljómgrunn hjá bændastéttinni, engar áskoranir koma til þingsins um það, að þetta frv. verði samþ., en mótmæli drífur að frá kaupfélagsstjórum og kaupmönnum og yfirleitt öllum þeim, sem hafa komizt í snertingu við fyrirtækið. Það var hamrað mjög á því um daginn, að þessa breytingu þyrfti aðallegu að gera af því, að grænmetisverzlun ríkisins hefði vanrækt það hlutverk að sjá um stofnræktun kartaflna, en þetta reyndust bara helber ósannindi. Það er búið að upplýsa með vottorðum, að grænmetisverzlun ríkisins hefur varið allstórri fúlgu einmitt til stofnræktunar á kartöflum og falið þeim vísindastofnunum, sem ríkið rekur með ærnum kostnaði, tilraunastöðvunum úti um landið, að annast þessa ræktun, og það er ekki hægt að hugsa sér, að sölunefnd eða hvaða aðill sem það nú yrði, sem ætti að taka við þessari verzlun, kæmi því á aðrar eða öruggari hendur.

Og þriðji óskadraumurinn um að koma ríkisfyrirtæki fyrir kattarnef er svo að leggja ferðaskrifstofu ríkisins niður, svo að einstaklingum gefist þar betra tækifæri til að okra á ferðamönnum.

Enginn af þessum draumum mun rætast. Sem betur fer, hefur Framsfl. ekki léð máls á því að leggja skipaútgerð ríkisins niður og ekki heldur tekið undir frv. sjálfstæðismanna um að leggja niður ferðaskrifstofu ríkisins, sem hefur innt mjög þarft og gott hlutverk af hendi. En þessa stofnun virðist því miður vera samkomulag milli stjórnarflokkanna um að leggja niður og ganga þar með í berhögg við hagsmuni allra neytenda í landinu og án þess, að séð verði, að þeir tryggi á nokkurn hátt betri þjónustu við framleiðendurna í sveitum og við sjó, sem hér eiga hagsmuna að gæta.

Ég legg þessi mál öll saman í eina visk, þau eru öll af sömu rótum runnin, þau eru sprottin eingöngu af því, að Sjálfstfl. hefur á stefnuskrá sinni að þola engin ríkisfyrirtæki. En ég trúi því ekki enn, að Framsfl. knýi á um það að leggja neitt þessara fyrirtækja niður, sízt af öllu það, sem hér um ræðir og er undir stjórn góðra og gegnra framsóknarmanna, þar að auki hinna mætustu manna, sem hafa rækt sín störf þarna af mikilli prýði og mæla með því, að grænmetiseinkaverzlun ríkisins haldi áfram störfum, áreiðanlega ekki út frá eigin hagsmunum, heldur studdir af áliti þeirra manna, sem hafa átt viðskipti við fyrirtækið, og studdir af grundvallaðri þekkingu sinni á hagsmunum bændastéttarinnar, sem þeir áreiðanlega framar öðrum bera fyrir brjósti. Ég er alveg sannfærður um, að mennirnir, sem starfa við grænmetisverzlunina, eru fyrst og fremst menn, sem eru þannig mótaðir og gerðir, að þeir bera hagsmuni bændastéttarinnar fyrir brjósti, fremur en hagsmuni annarra stétta.

Það er engin leið að mæla gegn því, að eins og það er vitanlega hagsmunamál framleiðenda, að gott söluskipulag sé á grænmeti, kartöflum, eins er það mikið hagsmunamál neytendanna, að það sé í senn gott skipulag á sölu og dreifingu innlendra kartaflna og grænmetis, en jafnframt séð svo um innflutning á kartöflum og grænmeti, að aldrei sé skortur á þessari vöru og aldrei skapist í skjóli þess, að skortur sé yfirvotandi, möguleikar til þess að hækka verðið á innlendu framleiðslunni úr hófi fram. Þess vegna er málið þannig vaxið óneitanlega, að það má ekki afgr. það eingöngu út frá sjónarmiðum þeim, sem ráðið hafa hjá stjórn Stéttarsambands bænda. Málið er í eðli sínu þannig, að það er ekki síður hagsmunamál verkalýðssamtakanna. Og ég fer eindregið fram á það við þá aðila, sem að frv. þessu standa, að knýja ekki málið fram án þess, að leitað sé þá samráðs a.m.k. við Alþýðusamband Íslands um lausn þess, um lausn, sem tryggi jafnt hagsmuni kartöfluframleiðenda í sveitunum, kartöfluframleiðenda í kaupstöðum og sjóþorpum og neytendanna í bæjum og kauptúnum.

Ég skal fullyrða það, að ef farið verður inn á þá leið að fresta afgreiðslu þessa máls, þangað til slíkar viðræður hafa getað átt sér stað og leið fundizt til þess að leysa þetta, svo að hvorir tveggja hagsmunaaðilanna megi vel við una, þá er farin skynsamlegri leið í þessu máli en að knýja það fram með offorsi á þann hátt, að allir neytendurnir rísi gegn þeirri lausn og lagasetningu, því að það er ekki skynsamleg leið í málinu.

Ég held, að það sé rétt, að ég láti þessi eindregnu tilmæli mín í nafni hagsmunasamtaka verkalýðsstéttanna vera mitt síðasta orð um þetta mál. En annars er kannske þyngst á metunum, að kaupfélagsstjórar eins og Jakob Frímannsson, Skúli Jónasson á Svalbarðseyri, Oddur Sigurbergsson í Vík í Mýrdal, Magnús Kristjánsson á Hvolsvelli, Sveinn Guðmundsson á Akranesi hafa allir mælt fast með því, að ekki sé gerð sú fyrirhugaða skipulagsbreyting og sízt af öllu án verulegs fyrirvara, af því að það þurfi mikinn undirbúning til þess að koma vel á fót öðru fyrirtæki, sem fylli upp hlutverk grænmetisverzlunarinnar, enn fremur vottorð frá verzlun Guðlaugs Pálssonar á Eyrarbakka, sem vitnar til sinnar 37 ára reynslu og góðu samskipta við grænmetisverzlunina og telur það vitleysu að leggja hana niður og segist alls ekki hafa trú á, að hagsmunum bænda sé betur borgið með því, að einhver sölunefnd með landbrn. að bakhjarli og framleiðsluráð landbúnaðarins sem yfirdrottnara taki þar við og komi í staðinn.

Ef til vill eru þetta rök, sem hv. fylgjendur frv. taka meira tillit til en þó að ég í nafni Alþýðusambandsins vari við þessari lausn og fari eindregið fram á, að ekki sé farið að heimila einstökum stéttarsamböndum allsherjaryfirráð yfir þýðingarmiklum hagsmunamálum, sem grípa mjög inn á hagsmunasvið annarra stétta, sem óneitanlega, eins og ég hef þegar rætt um, hlýtur að verða til þess að hleypa af stað skriðu, þar sem önnur stéttarsamtök heimta sama rétt í sínar hendur viðvíkjandi verðákvörðun á vörum og verzlunaraðstöðu og jafnvel einkaréttaraðstöðu til þess að ákveða tekjur hins vinnandi manns. Verkalýðssamtökin leysa þó slík mál yfir samningaborð við gagnaðilann, en hafa aldrei heimtað einkaréttaraðstöðu til þess að ákveða kaupið. Með þessu er verið að gera það og það í fyrsta sinn. Að öðru leyti er það bókstaflega brot á þeim heppilega grundvelli, sem skapaður hefur verið um verðákvörðun á kaupi bóndans og hins starfandi fólks í sveitunum. Nú er það svo, að verðið á landbúnaðarafurðum á, þegar kaup hefur verið ákveðið við sjávarsíðuna, að reiknast út hækkandi eða lækkandi eftir því, hvort kaup hefur lækkað eða hækkað, á þann veg, að bóndinn fái hlutfallslega hækkun fyrir sína vinnu, að fólkið, sem hann hefur keypt í þjónustu sína, fái hlutfallslega hækkun á sínu kaupi, án þess að það gerist á kostnað bóndans, og þetta er heppilegt fyrirkomulag, sem verkalýðssamtökin viðurkenna að eigi að vera. Þannig er ákveðið verð á kjöti og öðrum landbúnaðarafurðum. En hér er farið út af þessari braut, sem virðist benda í þá átt, að það eigi að byrja að rjúfa þetta heppilega skipulag, þetta samstarfsskipulag um ákvörðun á landbúnaðarafurðum og kaupgjaldi. Þarna á að heimila einni stétt og stéttarsamtökum bændanna að sjá algerlega um innflutning og verzlun með þessa vöru landbúnaðarins og ákveða frá einni hlið verðlagið líka. Ef það bættist nú ofan á, að þetta samstarfskerfi, sem hefur reynzt vel á undanförnum árum um ákvörðun landbúnaðarvara, yrði nú brotið niður, eftir að þetta væri orðið lögfest, sem vel má búast við, þá væri enn stærra óheillaspor stigið en ég get séð fyrir endann á.

Ég endurtek að lokum tilmæli mín til flytjenda og stuðningsmanna þessa frv. og bið hæstv. forseta að koma þeim tilmælum mínum á framfæri, því að ráðherrastólar mega heita auðir eins og fyrri daginn og þingbekkir fáskipaðir, að þessu máli verði frestað og samráðs leitað við stéttarsamtökin í landinu um lausn þess á þeim grundvelli, að hag framleiðenda og neytenda verði borgið á fullum jafnréttisgrundvelli og engin einkasöluréttindi heimiluð landbrn., sem geti leitt til þess, að önnur rn. færu að ásælast einkasöluréttindi á einstökum vörum og sízt af öllu meðan enginn veit, hver á að taka við, hver á að verða kaupandinn að eignum grænmetisverzlunar ríkisins eða fyrir hvaða verð, og að því leyti algerlega óforsvaranlega gengið frá málinu að því er formshliðina snertir.