09.02.1956
Neðri deild: 65. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Það var upplýst hér í deildinni nú í dag, að hæstv. landbrh. gæti ekki tekið þátt í þeim umr., sem hér færu fram, vegna þess að hann væri veikur og væri lagztur inn á sjúkrahús. Nú liggur ekkert fyrir um það hér eða það fylgdi ekki þessari fregn, hver hefur verið skipaður landbrh. í hans stað. Ég vil nú leyfa mér að óska þess við hæstv. forseta, að mál þetta sé tekið út af dagskrá, þar til landbrh. getur mætt í deildinni og tekið þátt í umr. um þetta mál. Hann er, eins og við vitum, flm. að þessu frv., og mér finnst í alla staði óviðeigandi, að málið sé afgreitt hér til 3. umr. án þess, að alþingismönnum gefist kostur á því að ræða sérstaklega við hann um þetta mál. Það er þegar vitað, að það eru mjög miklar deilur um málið. Menn skiptast hér algerlega í flokka um málið, og ég tel í alla staði óverjandi, ef hæstv. forseti ætlar að klemma málið í gegn, án þess að alþm. gefist kostur á að ræða við hæstv. landbrh. eða þá staðgengil hans, ef einhver er. Ég vil hér með ítreka þessa ósk mína til hæstv. forseta um það, að málinu verði frestað, þangað til hæstv. landbrh. getur mætt hér í deildinni. (Forseti: Ég skal upplýsa hv. ræðumann um það, að mér hefur borizt sú fregn frá hæstv. landbrh., að það sé óvíst, hvort hann kemur til starfa nú eftir helgina, — það getur dregizt. En hann óskar eftir því, að þau mál, sem hann varða og liggja fyrir hv. þingdeild, haldi áfram eftir sem áður, a.m.k. að svo stöddu.)

Mér kemur það alveg á óvart, ef ekki hefur einhver af hinum hæstv. ráðh. tekið við hans starfi, og ef það er, þá ætti sá viðkomandi ráðherra að mæta hér í deildinni. Hitt vil ég vita, ef svo er, að um alvarleg veikindi sé að ræða, ef ríkisstj. hefur ekki skipað á meðan einhvern ráðh. í hans stað, og ef slíkt er ekki, þá finnst mér, að það sé rétt. Annars get ég gjarnan haldið þessum umr. um málið áfram.

Í þeim umr., sem fram fóru fyrir nokkrum dögum hér í hv. deild, vildi hv. þm. Snæf. halda því fram, að ég hafi í umr. um málið borið allþungar sakir á samtök bænda í sambandi við þetta mál. Ég mótmæli þessu algerlega. Ég bar engar þungar sakir á bændastéttina í heild í sambandi við málið. Ég sagði eitthvað á þá leið, að til væru þeir menn, sem létu sér það til hugar koma, að eftir að þessir aðilar væru búnir að fá einokunaraðstöðu með sölu garðávaxta og einkasöluheimild með allan innflutning á slíkum vörum, væri viss hætta á því, að viðkomandi aðilar mundu takmarka þennan innflutning meira en eðlilegt væri og þá vitanlega til tjóns og óhagræðis fyrir neytendur. Þessi ummæli mín endurtek ég hér. Ég tel, að á þessu sé mikil hætta, svo framarlega sem þetta frv. verður að lögum eins og það liggur hér fyrir.

Annað atriði í þessu máli er rétt að benda á, sem sjálfsagt er að menn geri sér alveg fyllilega grein fyrir, án þess þó að upp sé kveðinn nokkur dómur um réttmæti þess eða ekki. Það er þannig í hverju málí, að það er alveg sjálfsagt að skoða allar hliðar þess, bæði það, sem mælir með málinu, og hitt, sem mælir á móti því. Það má t.d. gera ráð fyrir því, að í góðum sumrum, þegar mikil uppskera er af garðávöxtum, geti komið til offramleiðslu á þessum vörutegundum. Ekki væri óhugsandi og ýmislegt bendir til þess, að sú stofnun, sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir, þó að það sé nú allt mjög í lausu lofti, hvaða stofnun þáð er, sem við á að taka af grænmetisverzlun ríkisins, mundi. kaupa upp alla framleiðslu landsmanna, hvort sem nokkrir möguleikar væru á því, að hægt yrði að selja framleiðsluna innanlands eða ekki. Mér skilst, að áframhaldið yrði því það, að ríkissjóður yrði látinn greiða þann hluta framleiðslunnar, sem ekki væri hægt að selja, án þess að gerð yrði raunhæf tilraun til þess að koma vörunum út til neytendanna með t.d. því að selja þær á lægra verði en upphaflega hafði verið til ætlazt.

Eins og nú horfir í okkar þjóðfélagi, má segja, að langmestur hluti af framleiðsluvörum okkar sé verðuppbættur með styrkjum, eins og það er kallað. Slíkt fyrirkomulag og ástand er í sjálfu sér ákaflega alvarlegt, og vitanlega þykjast allir vilja vinna á móti þessari þróun. Hins vegar er það líka vitanlegt, að þessi styrkjaleið, sem sífellt fer vaxandi og við höfum orðið mjög áþreifanlega varir við nú síðustu daga, sbr. þau lög, sem verið var að samþykkja nú fyrir skemmstu um ýmsa styrki til sjávarútvegsins og annarra fyrirtækja honum skyldra og nákominna, er bein afleiðing þeirrar óheillastefnu, sem rekin hefur verið undanfarin ár af hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar á Alþingi. Frá því verður ekki komizt að viðurkenna þetta sem staðreynd.

Það er máske ekki að ásaka út af fyrir sig kartöfluframleiðendur og aðra þá, sem fást við ræktun matjurta og gróðurhúsaræktun, þó að þeir vilji feta í fótspor annarra framleiðenda og krefjast aukinna styrkja úr ríkissjóði á framleiðslu sína. Hitt er jafnsjálfsagt, að Alþ. geri sér fulla grein fyrir því, hvaða þróun þessi mál geta tekið, ef framleiðendur fá fulla og óskoraða einkasöluaðstöðu með sölu og innflutningi allrar framleiðslu garðávaxta, og það sem meira er, nokkurs konar einkasöluaðstöðu með alla gróðurhúsaframleiðslu líka. Leyfist mér að spyrja hv. frsm. landbn. deildarinnar, hv. þm. Dal.: Hafa eigendur gróðurhúsa landsins óskað eftir slíkum breytingum sem gert er ráð fyrir í þessu frv. um sölu á framleiðslu þeirra? Ef slíkar óskir hafa komið til n., þá frá hvað mörgum? Ég hef ekki orðið var við neinar slíkar óskir. Það má vel vera, að þær liggi fyrir. Ekki er þeirra getið í grg., sem liggur hér frammi og fylgir frv. Þá vil ég enn fremur leyfa mér að spyrja hv. þm. Dal., sem er frsm. þessa máls hér í hv. d., hvort borizt hafi til n. meðmæli og áskoranir frá kaupfélögum landsins og kaupmönnum um að leggja grænmetisverzlun ríkisins niður, og enn fremur, hvort þessir aðilar hafi þá sérstaklega mælt með því fyrirkomulagi, sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir.

Ég vil segja það, að ekkert væri eðlilegra en einmitt að kaupfélögin hefðu látið eitthvað til sín heyra um þetta mál. En mér er nær að halda, að þau hafi verið ótrúlega þögul um málið, og mér er nær að halda, að frá þeim hafi komið ákaflega fáar áskoranir til landbn. eða annarra aðila um, að gerð yrði breyting á því fyrirkomulagi, sem ríkt hefur um þetta mál, eða breytingar réttara sagt á sölufyrirkomulagi þessara mála, sem sé að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins.

Það eru fleiri hliðar á þessu máli en salan eingöngu, sem vert er að athuga dálítið nánar. Í e-lið 4. gr. þessa frv. er kveðið svo á, að ríkisstjórninni sé heimilt að selja fasteignir grænmetisverzlunar ríkisins til grænmetissölu landbúnaðarins, eins og þær verði, er lög þessi koma til framkvæmda. Ekki er óhugsandi, að aðrar eignir grænmetisverzlunar ríkisins verði látnar fylgja með í þessum kaupum. Má þar til dæmis benda á, að grænmetisverzlunin á tvær bifreiðar og skrifstofuáhöld. Þetta er virt samtals samkv. efnahagsreikningi á 44 þús., en fasteignirnar eru metnar á 217 þús. og nokkur hundruð krónur.

Nú leyfi ég mér enn fremur að spyrja hv. frsm. landbn. um, hvort hann geti gefið nokkrar upplýsingar um það hér á Alþ., landbn. eða þeir, sem að þessu frv. standa, á hvaða verði þessar fasteignir og þessar eignir kunni að verða seldar, hvort lagt muni verða til grundvallar t.d. brunabótamat á fasteignunum eða farið eftir öðrum leiðum með sölu þessara eigna.

Ég held, að það sé ekki hægt að ganga fram hjá því að ræða þessa hlið málsins. Eins og ég gat um, eru í efnahagsreikningi grænmetisverzlunar ríkisins fyrir árið 1954 taldar í eigu hennar tvær bifreiðar; bókfærðar á 20 þús., áhöld eru bókfærð á 24 þús. og fasteignir á 217200 kr. Nú er það ekki nema eðlilegt og beinlínis skylda alþingismanna, þegar slíkt mál sem þetta liggur hér fyrir, að um þetta sé spurt, og enn fremur um það, hvernig salan á þessum eignum skuli framkvæmd. Ég geri ráð fyrir því, að flm. hafi gert sér einhverja grein fyrir því, hvernig með þessi mál skuli farið. Hér er um að ræða eignir, sem þjóðin á; en ekki einstakir menn. Það ætti því að haga sölu þessara eigna á þann veg, að sem mest fengist fyrir þær, án þess þó að um neitt okur væri að ræða. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að jafnvel þótt svo óheppilega kynni til að takast, að Alþ. samþykkti þessi lög, þá vil ég taka það fram, að ef um sölu yrði að ræða, þá meina ég það ekki, að hér ætti að beita neinni okurstarfsemi. Hins vegar ber vitanlega líka að vera á verði fyrir því, að þannig sé farið með eigur ríkisins, að fyrir þær fáist, ef um sölu er að ræða, viðunandi verð. Hæstv. landbrh. og frsm. landbn. hafa algerlega gengið fram hjá að minnast á þessa hlið málsins. Vonandi upplýsir frsm. málsins þetta frekar nú við umræðurnar.

Þá eru enn fremur á efnahagsreikningi grænmetisverzlunar ríkisins fyrir árið 1954 taldar vörubirgðir fyrir 500707 kr. Ekki veit ég um það, hvað miklar vörubirgðir kunna að vera nú til eða verða til, ef lög þessi ná samþykki og grænmetisverzlun ríkisins verður lögð niður. Nú er það þannig, að ekkert er heldur á það minnzt í frv., hvort hinni nýju stofnun, sem enginn veit nú hver verður, ber að kaupa þar vörubirgðir, sem til kunna að vera, ef grænmetisverzlunin verður lögð niður. Því síður er á það — minnzt, fyrir hvaða verð væntanlegar vörubirgðir skuli seljast eða með hve miklum afföllum o.s.frv. Þetta er líka stórt atriði í málinu.

Það er ekki að ófyrirsynju, þótt um þetta og margt fleira sé spurt í sambandi við þetta mál. Hér er verið að fara inn á mjög svo óvanalegar leiðir, þó að Framsfl. hafi í einu tilteknu máli farið inn á svipaða leið, þegar hann beitti sér hvað harðast fyrir því, að tekið væri úr eigu ríkisins eitt stærsta atvinnufyrirtæki landsins, áburðarverksmiðja ríkisins, og afhent hlutafélagi, sem frægt er orðið. Hér er sem sagi lagt til, að 20 ára gamalt ríkisfyrirtæki, sem unnið hefur sér álit í skoðun og meðvitund landsmanna, verði lagt niður og afhent til eignar og umráða mjög svo takmörkuðum hópi framleiðenda landsins, án þess að fyrir liggi nokkur knýjandi nauðsyn þar til og án þess að fyrir liggi rökstuddar óskir og kröfur frá þeim aðilum, sem mest varðar þetta mál.

Það verður ekki hjá því komizt að benda á þá staðreynd, að Framsfl. hér á Alþingi á skömmina eða þá, ef menn vilja heldur kalla það svo, heiðurinn af því, að þetta mál er komið hér inn á Alþingi. Frv. er flutt af hæstv. landbrh., sem er einn af aðalforingjum þess flokks, og það hefur verið knúið áfram af framsóknarmönnum hér í d. af meiri hörku en flest önnur mál, sem flutt hafa verið hér í deildinni. Þetta er staðreynd, sem verður ekki hægt og er ekki hægt að mótmæla. Það er engu líkara en öll velferð bændastéttarinnar sé undir því komin á næstu árum a.m.k., að þetta mál nái fram að ganga. Sérstaklega er þessi framkoma framsóknarmanna athyglisverð, þegar það er haft í huga, að grænmetisverzlun ríkisins er gamalt ástfóstur Framsfl. og beinlínis stofnuð á sínum tíma fyrir atbeina Framsfl. Ég vil nú bara spyrja: Hvað hefur gerzt á þessu tímabili, frá því að grænmetisverzlunin var stofnuð og til þessa dags, sem réttlætir það, að Framsfl. skuli beita sér eins ákveðið og hann gerir í þessu máli? Hvað er það, sem hefur gerzt? Ég get ekki gert mér fyllilega grein fyrir því, en mun þó koma inn á það atriði síðar. Ég minnist þess ekki að hafa séð eða heyrt neitt frá þeim flokki um það, að leggja bæri niður grænmetisverzlun ríkisins, þar til hæstv. landbrh. flutti þetta frv. í fyrra hér í þessari deild. Ég spyr enn: Hvað er það, sem hefur gerzt í þessu máli? Hvaða öfl eru það, sem knúið hafa Framsfl. til þess að breyta afstöðu til þessa fyrirtækis, sem framsóknarmenn hafa sjálfir barizt fyrir að væri stofnað, fyrirtækis, sem þeir hafa gefið yfirlýsingu um að sé bezt stjórnaða fyrirtæki af öllum ríkisfyrirtækjum í landinu, sbr. grein í Tímanum frá 27. nóv. s.l.? Er hér um einstakt fyrirbæri að ræða, eða er það máske orðin skoðun Framsfl., að stefna beri að því að leggja niður fleiri eða færri ríkisfyrirtæki nú á næstunni? Það er full ástæða til þess, að um þetta sé spurt. Og ég veit það verða fleiri en við, sem erum á móti frv., sem koma til með að spyrja Framsfl. að þessu og það í fullri alvöru.

Í útvarpsumræðum þeim, sem fram fóru hér á Alþ. fyrir skemmstu, var það upplýst af einum þm. Sjálfstfl., að til stæði að afhenda togaraeigendum fiskiðjuver ríkisins nú á næstunni. Hann taldi, að það væri eiginlega frá þessu gengið að mestu leyti. Þetta er mjög eftirtektarverð yfirlýsing. Þessari yfirlýsingu var ekki mótmælt af ræðumönnum Framsfl., síður en svo: Nú þætti mér og sjálfsagt fleiri þingmönnum mjög fróðlegt að fá að vita um það, hvort Alþfl. er samþykkur því, að þessi mjög svo verðmæta eign ríkisins skuli afhent togaraeigendum hér í Reykjavík.

Manni verður á að ætla, að hér sé um einhvers konar verzlun að ræða á milli stjórnarflokkanna, þ.e.a.s. helmingastaðaskiptin frægu séu hér að koma í ljós eins og svo oft áður, þannig að Framsfl. eigi að fá að selja og ráðstafa grænmetisverzlun ríkisins til sinna gæðinga, en að Sjálfstfl. fái svo í staðinn að ráðstafa fiskiðjuveri ríkisins til togaraeigendanna hérna í Reykjavík.

Mér finnst slík verzlun með fyrirtæki ríkisins vera í ágætu samræmi við hina a]gildu helmingastaðareglu stjórnarflokkanna. Hitt er svo annað mál, hvort almenningur í landinu gerir sig ánægðan með þannig lagaða verzlun með eigur ríkisins. slík helmingastaðaskipti sem ég hef hér bent á, sem maður hefur fyllstu ástæðu til að ætla að standi fyrir dyrum, gætu jafnvel verið upphaf þess, að fleiri sölur og afhendingar á fyrirtækjum ríkisins til gæðinga stjórnarflokkanna, einstaklinga og félaga, stæðu fyrir dyrum. Vitað er, að Sjálfstfl. hefur hinn mesta áhuga á því að koma í einstakra manna eigu sem flestum af þeim fyrirtækjum, sem ríkið á, enda í fullu samræmi við margyfirlýsta skoðun og stefnu flokksins. Hitt gegnir mestu furðu, að Framsfl. skuli nú vera búinn að tileinka sér þessar skoðanir, að því sem manni virðist, og beinlínis að taka inn í sína stefnuskrá, þó að kannske sé ekki búið að prenta hana, þetta atriði úr stefnuskrá Sjálfstfl. Það má alveg eins búast við því, að nú á næstunni muni þeir hv. þm. Dal. og hv. þm. Barð. flytja frv. um að leggja niður skipaútgerð ríkisins. Það mundi gleðja Sjálfstæðisfl. sérstaklega mikið og hann mundi gleðjast í hjarta sínu og foringjar hans yfir þeirri hugarfarsbreytingu, sem orðið hefði hjá framsóknarmönnum, en ég er ekki alveg viss um, að íbúarnir í dreifbýlinu úti á landi mundu vera eins ánægðir yfir slíkri verzlun. Það er vitað mál, að ríkisskip hefur gegnt þörfu hlutverki, og það hefur beinlínis verið eitt af því, sem hefur haldið uppi byggð í dreifbýlinu meðal annars. En ef Framsfl. ætlar að fallast í faðma við Sjálfstfl. með að leggja þetta fyrirtæki niður, sem ég hef fulla ástæðu til að ætla eftir þeirri framkomu, sem framsóknarmenn hafa sýnt hér í þessu máli, þá finnst mér skörin vera að færast upp í bekkinn.

Áður en ég skil við þetta mál, vil ég athuga dálítið nánar þá fullyrðingu, að þetta mál sé sérhagsmunamál bændastéttarinnar í heild. Þetta eru hinar örgustu blekkingar, ekkert annað en eintómar blekkingar. Ég sýndi fram á það hér í ræðu, sem ég hélt fyrir nokkru, að meira en helmingur af öllum kartöfluframleiðendum í landinu er búsettur í kaupstöðum og kauptúnum, yfir 50%, svo að hér er ekki neitt sérhagsmunamál fyrir bændastéttina á Íslandi, enda ef maður athugar það nánar, þá sést, að aðeins nokkur hluti af sýslum landsins selur eitthvað verulegt magn af . garðávöxtum til grænmetisverzlunar ríkisins. Ég skal telja upp þá staði, sem aðallega eru viðskiptavinir grænmetisverzlunarinnar með þessar afurðir. Þessar sýslur eru Austur-Skaftafellssýsla, Vestur-Skaftafellssýsla, en þó ekki í stórum stíl, Rangárvallasýsla, Árnessýsla, Gullbringu- og Kjósarsýsla og Eyjafjarðarsýsla og vesturhluti Suður-Þingeyjarsýslu, þ.e.a.s. Eyjafjarðarmegin. Allar hinar sýslur landsins eru kaupendur að þessari vörutegund og það í mjög stórum stíl. Svo leyfir flm. sér og aðrir, sem eru með þessu máli, m.a. frsm. málsins hér í hv. d., að halda því fram, að hér sé um eitthvert slórkostlegt hagsmunamál allrar bændastéttarinnar að ræða, þegar svona augljósar staðreyndir liggja fyrir í málinu. Þetta er alveg stórfurðulag röksemdafærsla og stórfurðulegar blekkingar, sem hér eru bornar á borð.

Nei, það er ekki stórt hagsmunamál allrar bændastéttarinnar, að grænmetisverzlun ríkisins skuli lögð niður, heldur þvert á móti, og að verksvið hennar verði lagt undir framleiðsluráðið, sem svo geti, að því er virðist, framselt þennan rétt til annarra aðila.

Í sambandi við þá fullyrðingu, sem fram hefur komið hjá forsvarsmönnum þessa frv., að þessi skipulagsbreyting sé til stórra hagsbóta fyrir bændur landsins, má bara benda á það, sem alveg hrekur þessa fullyrðingu, að framleiðsluráð landbúnaðarins ákveður sjálft og ræður algerlega verði á kartöflum. Í framleiðsluráði sitja fulltrúar bændastéttarinnar og munu því að sjálfsögðu gæta hér eftir sem hingað til, þó að grænmetisverzlunin verði ekki lögð niður, alveg í fyllsta máta hagsmuna þeirra bænda, sem eru framleiðendur á þessu sviði. Það ber þeim að gera. Ég er því út af fyrir sig alveg sammála. Hvað er það þá, sem þessi samtök krefjast fram yfir það, sem bændur hafa áður haft og hafa enn? Á því hefur engin fullnægjandi skýring fengizt. Það er margbúið að spyrja um það, hvað það sé eiginlega, í hverju þessi breyting sé aðallega fólgin og hvað það sé, sem geri þetta mál að svona miklu hagsmunamáli, og hvað það sé, sem bændastéttin eða þessi hluti hennar eigi að geta hagnazt á þessari breytingu. Maður fær engar skýringar á því.

Ég tel, að það sé beinlínis skylda þeirra hv. þm., sem eru forsvarsmenn þessa frv., að gefa betri og fullnægjandi skýringar á því, hvað það er, sem fyrir þessum mönnum vakir. Það hlýtur að vera eitthvað sérstakt. Ég álít, að hér eigi ekki að vera um neinn feluleik að ræða. Þetta er mál, sem snertir ekki síður neytendurna í landinu en þá, sem framleiða kartöflur, og ég vil segja jafnvel enn þá meira. Og við, sem erum neytendur á þessu sviði, eigum alveg skilyrðislausa kröfu á því að fá að vita, hvað er meint með þessu, hvað það er, sem á hér að ske.

Ég get nú látið máli mínu lokið, en ég vil bara undirstrika það, að þetta mál er ekki neitt sérhagsmunamál bændastéttarinnar í heild, verzlun með þessa vöru, sem er á hvers manns borði a.m.k. tvisvar, ef ekki þrisvar á dag. Það er ekki alveg sama, hvernig á þeim málum er haldið. Neytendurnir í þessu landi eiga alveg fulla kröfu á því að fá að vita og það án nokkurra undanbragða, hvað hér er á ferðinni. Hvað er það, sem á að ske? Hverjar eru þær breytingar, sem á að framkvæma með þessum lögum? Það er eitthvað, sem er dulið, sem forsvarsmenn frv. vilja ekki láta koma fram í dagsljósið. Það er þetta, sem á að knýja fram, og jafnvel þó að það verði ekki knúið fram nú við þessar umræður, þá skal það koma fram, og þeir, sem koma til með að knýja það fram, verða neytendurnir í landinu sjálfir.