09.02.1956
Neðri deild: 65. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar 2. umr. þessa máls hófst, hagaði svo til, að hv. þm. Dal., frsm. meiri hl. í þessu máli, fór af landi brott eftir að hafa haldið sína framsöguræðu. Hins vegar var umr. um málið fram haldið, og ég sá í þeim umr. ástæðu til þess að gagnrýna mjög harðlega þau ummæli, sem hann hafði haft hér, og eftir að hann nú er kominn, vil ég gjarnan endurtaka þau. Ég tók sérstaklega þau ummæli, sem hv. þm. Dal. hafði svo orðrétt:

„Ég get tekið það fram nú, eins og ég tók fram þegar við 1. umr. þessa máls, að það er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, að þeir starfsmenn, sem eru við stofnun sem grænmetisverzlun ríkisins, séu undir þessum kringumstæðum mótfallnir því, að stofnunin sé lögð niður. Slíkt mundu allir hafa gert, svo að út af fyrir sig sé ég ekki, að það sé nein brýn ástæða til að taka tillit til þess, þar sem það væri hins vegar óeðlilegt, ef starfsmenn við stofnunina æsktu þess, að hún væri lögð niður.“

Ég lýsti því yfir í umr., að ég áliti þessi ummæli í hæsta máta ómakleg og til skammar að koma fram með slík ummæli eins og þessi. Það mundi þýða sama sem að lýsa því yfir, að allt, sem kæmi frá starfsmönnum ríkisins um þær stofnanir, sem þeir veita forstöðu, væri yfirleitt ekki að marka, vegna þess að þessir menn hefðu aðeins eitt fyrir augum, þegar þeir gæfu slíkar upplýsingar, og það væru þeirra einkahagsmunir af því að vera starfsmenn þessarar stofnunar og að stofnunin héldi áfram.

Ég tók það fram, að þegar forstjóri skipaútgerðar ríkisins gæfi hér langa og ýtarlega grg. í máli skipaútgerðarinnar fyrir þessari hv. deild og fyrir þinginu sjálfu og þegar forstjóri ferðaskrifstofu ríkisins gæfi svipaðar upplýsingar, þá tækju þm. mark á þessum upplýsingum og þeir gengju út frá því, að þessir starfsmenn ríkisins væru að tala þarna sem þeir menn, sem hefði verið falið það trúnaðarstarf af hálfu ríkisins og þess vegna hefðu manna bezt vit á þessu, og ég sagði, að ég hefði aldrei heyrt einu sinni af hálfu Sjálfstfl., sem hefur barizt fyrir því hér í d. og í Sþ., að t.d. skipaútgerð ríkisins væri lögð niður, að hann hafi svarað þeim skýrslum, sem starfsmenn ríkisins þannig fluttu, með því að segja, að þeir tækju ekkert mark á þessu, því að þessir menn væru bara að hugsa um sína einkahagsmuni. Ég vitti þess vegna harðlega þessi ummæli hv. þm. Dal. og áleit, að þetta sýndi, með hverjum ofstopa er reynt að koma þessu máli hér í gegn, þegar þannig er þurrkað út allt, sem sagt hefur verið, og öll rök, sem Framsfl. fram að þessu hefur reynt að skjóta undir það að viðhalda stofnun eins og skipaútgerð ríkisins eða öðrum slíkum, sem fyrst og fremst hefur byggzt á því að geta lagt fram sannanir fyrir því í skýrslum þeirra manna, sem við þessar stofnanir starfa og veita þeim forstöðu, að þetta væru mjög nytsamar stofnanir, Þess vegna er þetta ákaflega hart, og ég álít, að það væri rétt af hv. þm. Dal. að biðjast afsökunar á ummælum eins og þessum, og það væri viðkunnanlegast fyrir hann, þegar hann nú loksins hefur tækifæri til þess að taka aftur þátt í þessum umr., að láta það koma fram, að svona ummæli eftir sjálfan sig vilji hann ekki láta standa í þingtíðindunum óhögguð, til þess að hægt væri að taka þau upp í næsta skipti, þegar Sjálfstfl. væri að berjast hér fyrir afnámi skipaútgerðar ríkisins, og vitna í þau til þess að eyðileggja a.m.k. þá í augum Framsfl. ummæli þeirra manna, sem veittu þeirri stofnun forstöðu.

Af því að ég hef bara athugasemdatíma nú, get ég því miður ekki farið út í að rekja fleira af því, sem nauðsynlegt hefði verið og eðlilegt hefði verið að hv. þm. Dal. svaraði hér til saka um.

Það er í hæsta máta óviðfelldið, að það sé farið að haga umr. hér í þinginu þannig, að þm. verði að standa og tala um mál eins og þessi lengi, án þess að þeir menn, sem að málunum standa, fáist til að gefa upplýsingar um málin. Hæstv. landbrh. hefur verið fjarverandi allan þennan tíma, og nú í dag er það fyrst upplýst, að hann muni vera veikur. Það hefði þá kannske verið hægt fyrir einhvern annan, sem annast landbúnaðarmálin í hans veikindum, að svara hér, ekki sízt eftir að hæstv. ráðh. hafði haft önnur eins ummæli og hann hafði um frsm. minni hl., sem ég líka átaldi mjög harðlega í minni ræðu hér. En nú er hv. þm. Dal. hér staddur, og nú er vonandi, að hann svari til saka í þessu máli, sem hefur verið á hann deilt, og segi til um það, sem að honum snýr, bæði persónulega í þessu máli og ég nú þegar hef tekið fram, og enn fremur vil ég segja honum það, að hér er búið að draga fram alveg samlíkinguna á milli grænmetisverzlunar ríkisins og skipaútgerðar ríkisins og ferðaskrifstofu ríkisins, og sem aðalfulltrúa Framsfl. í þessum umr. vildi ég leyfa mér að spyrja hann að því, hvort það sé meiningin næst að leggja þær stofnanir niður eða hvort Framsfl. ætlast til þess með því að knýja þetta mál fram, að við hinir gerum þá ráðstafanir til þess, að þessar stofnanir verði lagðar niður líka.

Mér sýnist, að það, sem nú er að ganga fyrir sig hér, sé það, að þeir tveir flokkar, sem enn þá lafa saman við völd, hafi komið sér saman um að ræna nú ríkið duglega, áður en þeir sleppa völdunum eða áður en þeir leggja til kosninga; það sé svona eins og ef þjófar brjótast inn og skipta milli sín, hverju þeir skuli stinga í vasann. Eins virðist þetta vera á milli hv. stjórnarflokka nú. Við heyrum sagt, að nú eigi að fara að selja fiskiðjuver ríkisins. Ég veit ekki, hvort það á einu sinni að leggja það hér fyrir Álþingi áður. Við vitum, hvernig verið er að reyna að stela áburðarverksmiðjunni af ríkinu og hvernig mál, sem flutt er þing eftir þing til þess að gera út um það mál, fæst ekki tekið fyrir hér í þessari hv. deild, vegna þess að meiri hl. fjhn. liggur á því að afgreiða málið, og nú er verið að reyna að knýja þetta fram, að afnema grænmetisverzlun ríkisins og setja þá verzlun undir stjórn og koma henni í eign eins aðilans, sem hefur með grænmetisframleiðsluna í landinu að gera. Það væri þess vegna vel, ef hv. þm. Dal. gæfi okkur upplýsingar um, hvaða stefna þetta er, sem hér sé verið að taka upp.

Þá vil ég enn fremur segja honum frá því, að það hafa ekki fengizt enn sem komið er neinar skýringar á því, hvað raunverulega 5. gr. í þessum lögum beri með sér. Í þeirri grein er gert ráð fyrir, að leyfilegt sé að setja verðmiðunargjald á bæði matjurtir og egg, m.ö.o., að framleiðsluráði landbúnaðarins sé gefin heimild til að leggja svo og svo mikinn skatt á þær kartöfiur, sem það fær til umráða, og ef að vanda lætur, þá yrði nú kannske farið að seilast jafnvel lengra seinna meir og leggja það á allar kartöflur, sem ræktaðar væru, og með þessu móti ætti, eftir því sem d-liðurinn í þeirri grein ber með sér, að jafna verðið á milli söluvara annars vegar og vinnslu- eða fóðurvara hins vegar. Okkur sýnist, að þetta mundi m.ö.o. þýða það, að allar þær kartöflur, sem bændur t.d. færu að gefa sem fóður, ættu þá að fara að verðbætast, ef framleiðsluráði landbúnaðarins fyndist það rétt, með því að kartöflurnar, sem neytendur í bæjunum fengju til neyzlu, ættu gegnum grænmetisverzlun landbúnaðarins að hækka að sama skapi. Þetta er samsvarandi kerfi og núna er notað viðvíkjandi mjólkinni, að það, sem vinnslumjólkin gefur minna af sér en það, sem neyzlumjólkin, sem seld er mjólkurkaupendum í bæjunum, gefur af sér, þá er lagt nokkurs konar verðmiðiunargjald á neyzlumjólkina til þess að verðbæta þannig þá mjólk, sem unnið er úr. Ég er hræddur um, að það geti orðið nokkuð dýrt spaug, ef það ætti að fara út í eitthvað svipað með kartöflurnar, þ.e. þessi mál, sem snerta ekki aðeins bændur og þann meiri hluta kartöfluframleiðenda í landinu, heldur líka neytendur í landinu og geta snert stórkostlega vísitöluna, því að þetta er náttúrlega eitt af þeim atriðum, sem koma mjög mikið inn í hana. Ég er hræddur um, að það hefði einhvern tíma þótt sjálfsagt, að menn hefðu fengið betri upplýsingar um þessi mál en núna liggja fyrir okkur. Yfirleitt hefur það ekki fengizt, að þeir menn, sem standa að þessum málum, gæfu þær upplýsingar, sem óskað hefur verið eftir, hvorki í sambandi við almenna stefnu um þessi mál né í sambandi við einstakar greinar þessara laga. Hins vegar hefur verið í þeim tveimur ræðum, sem haldnar hafa verið við þessa 2. umr., annars vegar af hálfu hv. þm. Dal. og hins vegar af hálfu hæstv. landbrh., því meira um fúkyrði eða að afgreiða þetta mál eins og sá, sem hefði valdið til þess að koma þessu í gegn, en þyrfti ekki að vera að beita neinum rökum.

Það má vera, að stjórnarflokkarnir þykist þess umkomnir að afgreiða mál hér í þinginu enn þá án þess að ræða þau, án þess að beita rökum í þeim, án þess að gefa upplýsingar í þeim, afgreiða þau alveg á einræðislegan hátt. En það er ekki að vita, að það verði, þegar til lengdar lætur, heppilegasta afgreiðslan á slíkum málum, og ég vil benda hv. þm. Dal. á það, að þó að hann geti máske ásamt sinum samstarfsmönnum úr Sjálfstfl. knúið mál eins og þetta fram hérna í þinginu með offorsi, þá getur orðið skammgóður vermir að því fyrir Framsfl. að beita slíkum aðferðum. Ég er hræddur um, að það fari margt fleira að fara á eftír, ef það á að fara að hafa þann hátt á að taka úr eigu ríkisins og henda í eigu einkaaðila hverri ríkisstofnuninni á fætur annarri, sumpart ef það er af tilviljun þannig, að það ein lög um málið, þá fæst það ekki gert nema með lögum, eins óg nú er verið að reyna að gera með þetta, en sumpart án þess að samþykkja nokkur lög um það, eins og mér virðist vera meiningin með fiskiðjuver ríkisins, af því að það eru ekki til lög um það; og eins og hann veit að Sjálfstfl. hefur verið að reyna viðvíkjandi skipaútgerð ríkisins. Ég er hræddur um, að það fari ekki að standa mikið eftir af þeirri róttæku löggjöf, sem Framsfl. óg Alþfl. settu á því tímabili, sem þeir öðru hverju tala nú mest um, sínu vinstristjórnartímabili 1934–37, þegar einmitt lögin um grænmetisverzlun ríkisins voru sett og lögin um ferðaskrifstofuna, þegar nú á að fara að höggva þessi fyrirtæki niður hvert á fætur öðru. Núna höfum við verið að upplifa það hér í þessari deild í sambandi við almannatryggingarnár, að heilsugæzlukaflinn þar í hefur verið afnuminn, og við sjáum, að því meira sem talað er um samstarf á milli Framsfl. og Alþfl., því meira virðist gert að því hérna í þinginu að afnema álla þá löggjöf, alla þá endurbótalöggjöf, sem þessir flokkar höfðu sett, á meðan þeir töldu sig báðir vinstri flokka. Það væri þess vegna gaman að heyra frá hálfu málsmetandi manna í Framsfl., eins og hv. þm. Dal., hvort þetta sé það, sem eigi að taka upp, þessa sérstöku vinstri samvinnu þessara tveggja flokka um að rýja þannig ríkið að hverju fyrirtækinu á fætur öðru og henda því í einstaklingseigu eða einstakra manna eign. Ég vona, að þm. Dal., þegar hann nú loksins er mættur, gefi nú svör við þessum spurningum, sem til hans hefur verið beint, og noti það tækifæri, sem hann hefur, til þess annáðhvort að bera af sér þær sakir, sem ég hef hér nú aftur, svo að hann hefur hlýtt á, borið á hann, og biðjast afsökunar á því að hafa farið þeim ummælum um forstöðumenn ríkisstofnana, sem hann þarná gerði, og reynt með því að eyðileggja allt allt allra slíkra starfsmanna ríkisins framvegis og gera að engu slíkar skýrslur þeirra, sem Framsfl. þó fram að þessu hefur sérstaklega byggt á, þegar hann hefur verið á þeim buxunum að vernda fyrirtæki ríkisins frá því, að þau séu lögð niður, öfugt við það, sem hann nú miðar að, þegar hann reynir að ræná þeim af ríkinu og fá þau í eigu einstakra aðila.