07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það hefur því miður farið svo, að það fellur í minn hlut að flytja þetta frv. til laga um laun starfsmanna ríkisins hér inn í þessa hv. d. og láta nokkur orð fylgja. Hæstv. fjmrh. er rúmliggjandi og verður að vera sennilega ekki minna en viku enn. Hins vegar taldi hann og ríkisstj. öll, að það væri nauðsynlegt að flýta því, að frv. kæmist til meðferðar hér á Alþingi, og af þeim ástæðum er það, að ég tók að mér, þó ekki fyrr en nú í morgun eða seint í gærkvöld, að flytja frv. Verður það að sjálfsögðu svipur hjá sjón við það, ef hæstv. fjmrh. hefði sjálfur flutt það, því að ég hef ekki fylgzt svo með þessu máli sem þyrfti að vera, þar sem það hefur að öllu leyti verið í umsjá hans. Hins vegar er þetta svo stórt mál og merkilegt, að ég tel rétt, að nokkur orð verði þó látin fylgja frv. nú strax, en vonandi hefur hæstv. fjmrh. möguleika á því að taka fram það, sem hann sérstaklega vildi nefna, við meðferð málsins, bæði í þeirri nefnd, sem fær það til meðferðar, og sömuleiðis hér á Alþingi síðar.

Það var á s. l. ári á Alþingi, að því var lýst yfir f. h. ríkisstj„ að hún mundi beita sér fyrir setningu nýrra launalaga á Alþingi því, sem nú stendur yfir. Þá var skipuð nefnd til að undirbúa þetta mál. Í þessari nefnd áttu fimm menn sæti, tveir af hálfu ríkisstj., þeir Sigtryggur Klemenzson skrifstofustjóri í fjmrn., sem jafnframt var form. n., og Gunnlaugur E. Briem skrifstofustjóri í atvinnumálaráðuneytinu, og í n. voru auk þess þrír menn af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þeir Arngrímur Kristjánsson skólastjóri, Guðjón B. Baldvinsson fulltrúi og Ólafur Björnsson prófessor.

Nefnd þessi hefur lokið störfum fyrir nokkru og skilað áliti og till. til ríkisstj. Fjmrh. hefur haft tillögurnar nokkurn tíma, þó ekki mjög langan, til athugunar, en frv. það, sem hér liggur fyrir, er í samræmi við till. nefndarinnar, eins og þær voru lagðar fyrir ríkisstj., í nær öllum atriðum a. m. k.

Ég skal aðeins leyfa mér að nefna hér örfá atriði um breytingar frá því, sem er í fyrri launalögum, en það verður stiklað mjög á stóru og að sjálfsögðu mörgu sleppt.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að launaflokkar verði 15. Þeir eru 16 í núgildandi launalögum, en í raun og veru mun það hafa verið orðið þannig, að engir hafi tekið laun eftir lægsta launaflokknum, þ. e. 16. flokknum, upp á síðkastið, svo að það má kannske segja, að þetta sé frekar að leggja til að lögbjóða það, sem orðið hefur, heldur en að hér sé um verulega breytingu að ræða. Sjálfur launastiginn er þannig ákveðinn, að grunnlaun þau, sem nú eru greidd, eru hækkuð um 9–10%, og var þá annars vegar tekið tillit til þeirra kauphækkana, sem orðið hafa á almenna vinnumarkaðinum, frá því að gildandi launalög voru sett, og hins vegar til þeirra grunnlaunauppbóta, sem áður voru veittar, 20%, og þeirra hlunninda, sem opinberir starfsmenn njóta, t. d. um eftirlaunaréttindi og atvinnuöryggi.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er því um það að ræða, að starfsmenn ríkisins fái bætt launakjör til samræmis við það, sem aðrar stéttir hafa þegar fengið.

Hlutföllin milli launaflokkanna innbyrðis verða sem næst hin sömu og þau eru í launalögunum frá 1945. Það er gert ráð fyrir, að á grunnlaun samkvæmt launastiga frv. verði greidd verðlagsuppbót, eins og hún er ákveðin á hverjum tíma, samkvæmt lögum.

Nefnd sú, er ég áðan nefndi og samdi frv., getur þess í álit sinu, að hún telji einn helzta galla á þessum launastiga vera, hve lítill munur sé gerður á launum fyrir ábyrgðarstöður og stöður, er krefjast mikillar undirbúningsmenntunar annars vegar, og launum fyrir hin ábyrgðarminni og vandaminni störf hins vegar. Nefndin bendir á það í áliti sínu eða grg. með frv., að samkvæmt þessum launastiga séu hæstu laun 2½–3 sinnum hærri en lægstu laun eru annars staðar á Norðurlöndum, en þar séu hæstu laun a. m. k. 5–6 sinnum hærri en lægstu launin.

Það mun hafa komið til álita hjá n. að hækka laun efri flokkanna hlutfallslega meira en hinna lægri, en þó var ekkert gert að því og þá m. a. af því, að fyrirhugað afnám skerðingar á greiðslu verðlagsuppbótar bætir nokkuð hag þeirra, sem laun taka í efri flokkunum.

Svo sem er í núgildandi launalögum, er í frv. gert ráð fyrir, að í sex efstu launaflokkum taki menn þegar hámarkslaun, þ. e. byrjunarlaun eru jöfn hámarkslaunum í þeim flokkum. Í hinum launaflokkunum er nokkur munur á byrjunar- og hámarkslaunum, svo sem nú er, en sú breyting gerð samkvæmt 2. gr. frv., að laun skuli hækka á fjórum árum úr byrjunarlaunum í hámarkslaun með jöfnum fjárhæðum árlega, í stað þess að nú tekur það fjölmarga starfsmenn sex ár að komast úr byrjunarlaunum í hámarkslaun.

Þá er það og nýmæli, að heimilt er, þegar sérstaklega stendur á, að taka tillit til starfa, þó að ekki sé unnið hjá ríkinu, þegar aldurshækkanir eru ákveðnar.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir allmörgum tilfærslum milli launaflokka frá því, sem er í núgildandi launalögum. Það yrði allt of langt mál að fara nákvæmlega út í það, og ég skal jafnvel viðurkenna, að ég er ekki svo inni í þessu, að ég sé fær um að greina það réttilega í sundur hér við þessa framsögu, en yfirleitt er hér um að ræða einstaka starfsmenn eða fámenna starfshópa. Þó eru þrjár fjölmennar stéttir færðar í hærri launaflokk, það eru hjúkrunarkonur, sem hækkaðar eru um einn launaflokk, prestar, sem færðir eru upp um einn til tvo launaflokka eftir því, hverjar aukatekjur fylgja embættinu, og barnakennarar, sem gert er ráð fyrir að hækki um einn launaflokk, ef þeir hafa starfað sem fastir kennarar a. m. k. 10 ár.

Laun kennara eru miðuð við níu mánaða kennslutíma minnst á ári hverju, svo sem nú er, en á hinn bóginn er í frv. gert ráð fyrir, að þau lækki um 1/12 heildarlauna fyrir hvern mánuð sem kennslutími er skemmri, í stað þess að nú lækka þau um 1/9.

Í þessu launafrv. eru teknar upp allmargar stofnanir sem eru ekki í launalögum nú eða hafa verið áður. Þær stofnanir, sem hér er um að ræða, eru þessar: 1) forsetaembættið, 2) landhelgisgæzlan, þ. e. a. s. forstöðumaður hennar, 3) mjólkureftirlitið, 4) flugþjónustan, 5) ferðaskrifstofa ríkisins, 6) eftirlit með fjármálum skóla, 7) þjóðleikhúsið, þ. e. a. s. skrifstofan þar, skrifstofufólkið, 8) listasafn ríkisins, 9) náttúrugripasafnið, 10) tilraunastöðin að Keldum, 11) stjórn veiðimála, 12) matsveina- og veitingaþjónaskólinn, 13) iðnskólar, 14) sauðfjárveikivarnir, 15) stjórn raforkumála og 16) innkaupastofnun ríkisins.

Eins og sést á þessari upptalningu, er jöfnum höndum hér um að ræða nýjar stofnanir, sem hafa myndazt á síðustu árum og því eðlilega ekki verið teknar í launalög fyrr, en auk þess nokkrar stofnanir, sem ekki hafa verið teknar upp í launalögin, þótt starfað hafi langan tíma. Það er álitamál og mun hafa mjög komið til álita hjá nefndinni, hvort ekki hefði átt að taka fleiri stofnanir inn í frv., því að eins og allir hv. alþm. vita, eru enn þrátt fyrir þennan viðauka allmargar stofnanir og margar þeirra voldugar, sem eru utan launalaganna, þótt raunverulega sé þar um ríkisstofnanir a. m. k. að mjög miklu leyti að ræða. En það hefur orðið ofan á, að ekki skyldi meira tekið en þetta, og er það þá eitt af þeim atriðum, sem hið háa Alþ. fær til meðferðar, að athuga, hvort það óskar að gera frekari breytingu á þessu.

Eitt af þeim nýmælum, sem eru í frv., er, að fjmrh. er heimilt að ákveða, að starfsmenn hljóti 33% álag á þann hluta launa, sem greiddur er fyrir störf unnin á tímabilinu frá kl. 21 að kvöldi til kl. 8 að morgni, þ. e. a. s. það, sem mun vera kallað næturvinnuálag.

Ég hef hér með vilja stiklað á mjög stóru og ekki séð mér fært að fara nánar inn á þetta frv. af þeim ástæðum, sem ég áður hef nefnt. Eins og allir sjá, er frv. þetta mikill bálkur með mörgum tölum, eins og vera ber. Að formi til er það allmikið frábrugðið núgildandi launalögum, og niðurskipun stofnana og starfsgreina er miklu ýtarlegri í þessu frv. en er í þeim lögum, sem enn gilda, og vitanlega þess vegna miklu gleggri, og hlýtur það tvímælalaust að verða hagræði fyrir þá, sem lögin þurfa að nota, ef frv. þetta verður að lögum.

Þá skal að lokum sagt, hvað þetta muni kosta. Launalaganefndin hefur gert áætlun um þá útgjaldaaukningu, sem frv. þetta bakar ríkissjóði, ef það verður að lögum, og niðurstaða n. í sem allra stytztu máli er sú, að útgjaldaaukningin verði rúmlega 20 millj. kr., miðað við það ástand, sem nú er eða var, þegar hún skilaði frv. Í því efni vísa ég til nánari sundurliðunar í áliti nefndarinnar sjálfrar.

Þetta er í raun og veru það, sem ég vildi leyfa mér að flytja í sambandi við framlagningu þessa frv. hér í hv. Nd. Ég vil þó geta þess að lokum, að ég veit, að hæstv. fjmrh. hefur áhuga fyrir því, að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi, og samkv. þeim loforðum, sem búið var að gefa áður um að koma málinu fyrir þingið, og þeim áhuga, sem virzt hefur vera ríkjandi hjá a. m. k. mjög mörgum alþm. um þetta mál, er sennilegt, að Alþ. taki mál þetta föstum tökum og starfi að því. En hæstv. fjmrh. hefði að minni hyggju bent sjálfur á, að það mundi vera mjög heppilegt, ef nefnd sú, sem fær frv. hér til meðferðar, hefði samvinnu við sömu n. í Ed., þannig að nefndirnar ræddu meginstefnu frv. saman, ef það gæti kannske greitt fyrir afgreiðslu málsins á Alþingi í heild. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri hér. Er það að sjálfsögðu á valdi þeirrar n., sem með frv. fer, að hve miklu leyti hún telur þetta vera rétt vinnubrögð eða ekki.

Ég mun svo ekki flytja lengri framsögu um þetta mál, en vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.