13.02.1956
Neðri deild: 69. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hafði á vissum stigum málsins við 2. umr. gert mér vonir um, að hlé yrði gert á umr. um það og framhald umr. látið bíða, a.m.k. þangað til hv. frsm. landbn. kæmi heim, en aldrei var orðið við þeim tilmælum. Nú hafði ég einnig talið, að málið væri komið inn á það svið, að heppilegast væri og eðlilegast, að 3. umr. yrði látin bíða um sinn og athugað nánar, hvort ekki gæti náðst samkomulag milli eðlilegra aðila, eins og t.d. bændasamtakanna og samtaka verkalýðsins, um aðra og heppilegri lausn málsins, þannig að um þetta mál fengist friður, um framkvæmd málsins í framtíðinni, en ekki . lagasetning, sem þröngvaði mjög kosti annars aðilans, þ.e.a.s. neytendanna, því að það er vitað, að þó að slík lagasetning sé lamin í gegn af deyjandi ríkisstj., þá er það ekki nein framtíðartrygging fyrir málið. En það gerist ýmislegt, þegar út í dauðateygjurnar er komið, og eitt af því, sem þannig gæti gerzt, væri þá þetta, þessi lagasetning.

Nú er, eins og sagt var hér af seinasta ræðumanni, hv. 2. þm. Reykv., 2. umr. búin að taka þrjár vikur og hlýtt í veðri, og stundum hefur verið heitt í umr. Það má því búast við, að blessaðar kartöflurnar fari nú að spíra hvað af hverju, og af þeim ástæðum einum væri nú eðlilegt að bíða með framkvæmd þessa máls til næsta árs og stofna nú ekki framleiðslu ársins í hættu og eyðileggingu með þessu háttalagi öllu saman, hita úti og inni og seinagangi í meðferð málsins, þannig að það verði komið fram undir vor, þegar þetta leysist. En málið er þannig, að það þarf langan aðdraganda til þess að koma hinni nýju framkvæmd vel fyrir sig.

Það er orðið augljóst mál, að hv. landbn. d. hefur eingöngu flutt þetta mál af þægð við ríkisstj. sína. Hinir einstöku nm. hafa sýnt það, að þeir hafa, ekki einn einasti þeirra, nokkurn áhuga fyrir málinu. Og svo augljóst er þetta, að einn af bændafrömuðum þingsins, sem sæti á í landbn., er svo andvígur málinu, að hann vill ekki einu sinni leggja nafn sitt við málið á nokkurn hátt, og veit ég, að það er af því, að honum hefur frá öndverðu fundizt af því óbragð hið mesta og sér ekki í þessu máli nokkurt hagsmunamál fyrir bændastéttina, því að hefði svo verið, þá hefði hann barizt sem fullhugi fyrir framgangi þess. En hann lætur ekki einu sinni nafn sitt undir nál. viðvíkjandi þessu máli. Hinir fulltrúar bændanna þarna í n. gera það af þægð að vísu að flytja hér framsöguræðu fyrir málinu og leggja það fyrir þingið á þann hátt, fyrir ríkisstjórnina, en síðan ekki söguna meir, þó að miklar umræður verði um málið og margs spurt, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum þætti sjálfsagt að leysa úr.

Það fór svo, þegar þessari þriggja vikna umr. um málið lauk, þá kom alveg óvænt í ljós, að mönnum varð lausari höndin af einhverjum ástæðum en tungan. Hún hafði verið bundin í þrjár vikur, tungan, en höndin kom á loft við atkvgr. Og þetta kemur mér til þess að ætla, að það sé rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan: Þetta mál er orðið verzlunarvara. Fulltrúar flokkanna, sem stjórninni fylgja, hafa verið bundnir, og hendur þeirra hafa verið bundnar á þann hátt, að höndin skyldi lyftast, þegar kæmi til atkvgr. Spottinn hefur legið þannig í höndina. Þetta vitum við ósköp vel af viðtölum við einstaka þingmenn úr stjórnarflokkunum. Þeir hlakka ekkert til þess, að nafn þeirra verði bendlað við málið, þó að þeir hafi talið sér nauðsyn að lúta flokksfyrirmælum um að greiða atkv. með því. En þeir leggja því ekki liðsyrði í orði og herpa hér saman varirnar, þegja viku eftir viku, meðan rætt er um málið. Og þetta er eðlilegt. Ég þykist alveg vita, að ef þetta frv. yrði nú afgreitt sem lög og einkasöluaðstaðan á öllu grænmeti, öllum kartöflum, hvort sem þær eru framleiddar í sveitum eða kaupstöðum, ætti svo að fara undir einkasölu landbúnaðarins, ráðstafast þar bæði um verðlag og sölumeðferð alla, og þar ætti að taka ákvarðanir um það, hvort og hvenær leyfilegt yrði fyrir landbrn. að flytja inn kartöflur og annað grænmeti, og þannig væri t.d. haldið á málum, sem vel gæti komið fyrir undir svona einkasölnaðstöðu, að það yrði hinkrað við að leyfa landbrn. að flytja inn kartöflur og grænmeti, þangað til þurrð væri orðin á þessum vörum í landinu, búið að svæla út lélegri vöru ofan í neytendurna, af því að annað vantaði gersamlega, og þar að auki búið að setja á verðjöfnunargjald milli kartaflna til fóðurbætis og manneldis og tryggja þannig neytendunum nokkru dýrari kartöflur og fóðurpeningnum aftur ódýrari kartöflur á lægra verði vegna þessa verðjöfnunargjalds, sem nú virðist vera heimilað í 5. gr., og kaupstaðabúar fengju svo, þrátt fyrir það að þeir framleiði meiri hl. af öllum kartöflum í landinu, að verða kartöflulausir við og við, því að það gæfi byr undir báða vængi um að geta hækkað verðíð á meðan, þá er ég ekkert undrandi á því, þó að t.d. kjósendum hv. þm. Ak., en á Akureyrarsvæðinu er framleitt mikið af kartöflum, fyndist þetta ekkert góð lausn á málinu og þökkuðu honum lítillega fyrir að hafa stutt að framgangi slíks máls, — ég gæti ekkert undrazt það. Ef maður lítur á annað kartöflusvæði, Reykjavíkursvæðið, þar er stórkostleg framleiðsla á kartöflum: ég er ekkert undrandi á því, þótt kjósendurnir hér í Reykjavík tækju svona heldur kuldalega í hendur Reykjavíkurþingmannanna fyrir að hafa samþykkt mál, sem gæti leitt til kartöfluleysis hér tímum saman og gæti leitt til þess, að það væri búið að gera allar neyzlukartöflur í landinu dýrari með verðjöfnunargjaldi milli neyzlukartaflna og fóðurbætiskartafina, og í þriðja lagi, að það væri búið að taka öll yfirráð yfir þessum málum í hendur þess aðilans, sem framleiðir minni hl. af kartöflum landsmanna. Hins vegar er vitað, að í sveitunum er neytt tiltölulega minna magns af kartöflum en í kaupstöðunum, af því að þar eru ýmsar aðrar landbúnaðarvörur sem eigin framleiðsla á borði á degi hverjum. Hér hlífast menn heldur við að kaupa slíkar vörur, gjaldgetan er ekki alltaf fyrir hendi til þess, og þess vegna eru kartöflurnar meginþátturinn í fæðu allra kaupstaða- og kauptúnabúa á Íslandi, tvisvar sinnum á borði hvers manns upp á hvern einasta dag, og hjá mörgum hinum efnaminni aðalfæðutegundin á matborðinu. En þessa fæðutegund á að taka alveg undan ríkisrekinni verzlun, sem leitazt hefur við að gæta hagsmuna bæði neytenda og framleiðenda, og setja alla sölumeðferð og rannar yfirráðin yfir grænmetisræktun allri í landinu og öllum innflutningi á grænmeti í hendur einnar stéttar, sem hefur minnihlutahagsmuna að gæta í þessu, hvar sem á málið er litið.

Þegar ég lít á það, sem hv. 2. þm. Reykv. var að fullyrða hér áðan, að hér hljóti að vera verzlun milli flokka á ferðinni, þá fer ég að sannfærast um, að svo hljóti að vera, einkanlega þegar ég frétti, að það sé nokkurn veginn nú búið að ráðstafa því að selja fiskiðjuver ríkisins í Reykjavík útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum hér. Ég veit, að Framsfl. hefur staðið gegn því árum saman, og ef hann hefur nú látið sig með þetta og fallizt á það, sem er þó engin lausn á nauðsynjamálum Reykvíkinga að því er snertir fiskvinnslumöguleika, því að hér hefði auðvitað þurft að koma nýtt fiskiðjuver í viðbót við þau, sem fyrir eru, en það eykur enga möguleika til aukinnar fiskvinnslu í borginni, að fiskiðjuver ríkisins fari af hendi ríkisins og í hönd útgerðarfyrirtækjanna og útgerðarmannanna, þá kann Framsfl. að hafa talið sér svo mikla nauðsyn á að verða við óskum Stéttarsambands bænda um, að grænmetisverzlun ríkisins sé lögð niður, að hann hafi nú loksins viljað kaupa þessu, að Sjálfstfl. fengi lagt fiskiðjuver ríkisins að velli sem ríkisfyrirtæki og komið því undir yfirráð útgerðarmanna og útgerðarfyrirtækja. Það er gróðamöguleiki í sambandi við slík fyrirtæki, og þá aðstöðu vilja útgerðarmenn og útgerðarfyrirtæki fá, sem eðlilegast hefði verið að þau hefðu fengið gegnum það, að ríkið hefði aðstoðað þessa aðila við að koma upp nýju fiskiðjufyrirtæki hér í Reykjavík.

Ef þetta er svona, þá er málið enn óhreinna en maður hafði hugboð um í fyrstu. Þá er þarna bara verið að verzla með gagnkvæma hagsmuni einstaklinga og stétta, en ekki verið að leysa þetta mál frá rökrænu sjónarmiði.

Ég verð að taka undir það, að það væri full ástæða til þess fyrir mig eins og fleiri þingmenn að endurskoða afstöðu mína til margframkominna tillagna frá sjálfstæðismönnum um að leggja skipaútgerð ríkisins niður og selja eignir eða gefa eignir þeirrar útgerðar Eimskipafélagi Íslands og skipaútgerð samvinnufélaganna og fallast á það, því að ef það er rétt, sem flm. þeirrar till. hafa haldið fram, að Eimskipafélagið og skipadeild S.Í.S. séu fús til þess að taka þessa þjónustu við landslýðinn að sér og inna hana eins vei af hendi, þá er náttúrlega engin ástæða til að kasta 10 eða 11 millj. kr. úr ríkissjóði árlega til þess að halda þessari þjónustu uppi og tryggja landsmönnum hana. Ef þetta er rétt og sú stefna er orðin ofan á hjá þessum mikils ráðandi flokkum, að þessi ríkisfyrirtæki öll skuli lögð að velli, þá er sízt ástæða til þess, að við höldum einstrengingslega verndarhendi yfir skipaútgerð ríkisins einni. Þá er sjálfsagt bezt að láta hana fara sömu leiðina fyrir stjórnarandstöðuna, sem hefur bjargað því máli með Framsfl. þing eftir þing, af því að við höfum talið, að þjónustan við hinar dreifðu byggðir væri bezt tryggð með því skipulagi, að skipaútgerð ríkisins annaðist þetta og hefði ríkisins hjálp til þess að gera það vel. Nú þegar á þetta er knúið svona af Framsfl. og Sjálfstfl. um önnur hliðstæð fyrirtæki, þá er sjálfsagt bezt að láta skipaútgerðina líka sigla sinn sama sjó. Þetta er allt svo líkt, grænmetisverzlun ríkisins á núna að leggjast niður við trog, og það á að selja eða gefa eignir hennar svokallaðri grænmetisverzlun landbúnaðarins, sem enginn hefur þó getað upplýst hver eigi að eiga, hver eigi að vera eigandi að. Og till. hv. þm. Barð. (GíslJ) og hv. þm. Snæf. (SÁ) er um það, að eignir skipaútgerðar ríkisins skuli verða seldar eða gefnar tveim útgerðarfyrirtækjum, Eimskip og skipadeild S.Í.S.

Ég heyrði nú í fyrsta sinn þær till., sem hv. 2. þm. Reykv. kvaðst mundu flytja við þetta frv. og óskaði eftir að fá tóm til þess að ganga frá, og hans till. skildist mér vera á þá leið, að það yrði kannske fallizt á það, að bændur og bændasamtökin fengju einkasöluaðstöðu um sölumeðferð allra þeirra kartaflna, sem framleiddar væru í sveitum landsins, og það yrði út af fyrir sig að teljast sanngjarnt, upp á þau býti þá, að það grænmeti og þær kartöflur, sem framleiddar eru í kaupstöðum og kauptúnum, væru utan við þetta söluskipulag bændasamtakanna og framleiðendurnir og neytendurnir í kaupstöðum og kauptúnum fengju aftur alveg frjáls umráð yfir framleiðslu sinni og sölumeðferð á þeirri framleiðslu. Þetta fyndist mér vera vel til athugunar, og ég get ekki betur séð en að þarna væri komið inn á þau svið málsins, sem lúta að lausn, sem báðir aðilar ættu að geta sætt sig við.

Þá er þriðji þáttur málsins. Það er um innflutning á grænmetinu að öðru leyti, því að það er vitað, að þó að framleiðsla kartaflna og grænmetis hafi vaxið geysilega mikið á undanförnum árum í kaupstöðum og kauptúnum, þá er hún samt ekki svo mikil að jafnaði, að nægi allri neyzluþörf landsmanna, og má því búast við, að í flestum árum þurfi að flytja inn meira eða minna af kartöflum og grænmeti. Og þar eru neytendurnir algerlega kaupstaðabúar. Skýrsla mþn. um þessi mál sýnir, að hver einasti bóndi í landinu sé kartöfluframleiðandi, og þá verður fyrst og fremst að ætla, að þeir séu flestir kartöfluframleiðendur í þeim stíl, að þeir séu sjálfum sér nokkurn veginn fullnægjandi. Og svo er það aftur einn og einn bóndi, sem framleiðir meira en til eigin neyzlu og er þannig jafnframt seljandi slíkrar vöru á hinum innlenda markaði.

Eðlilegast væri í raun og veru, að grænmetisverzlun ríkisins héldi áfram til þess að annast þessa þjónustu fyrir neytendurna að því er snertir innflutning á öllu grænmeti og öllum kartöflum, — eða þá að lengra væri gengið, ef mönnum er mjög mikið í mun að leggja grænmetisverzlunina samt endilega niður, þó að bændurnir fengju öll yfirráð fyrir sinum framleiðsluvörum, að neytendurnir fengju þá einmitt að setja upp slíka einkasölu í staðinn. Það yrði grænmetisinnflutningsverzlun neytendanna, sem yrði komið á fót, jafnframt því sem grænmetisverzlun landbúnaðarins væri sett á laggirnar. Þá væri gróandi í þessu, nýtt og nýtt fyrirtæki stofnað til þess að taka við vissum þáttum af því hlutverki, sem grænmetisverzlun ríkisins hefur annazt að öllu leyti fram til þessa, að því er virðist við ánægju flestra og af samvizkusemi.

Það má vel vera, að það sé þetta, sem verði að koma, til þess að allir gætu sætt sig við og teldu sínum hlut sæmilega borgið. En ekki held ég nú, að frá heildarsjónarmiði væri þetta skynsamlegri lausn en sú, sem við búum nú við í þessum málum.

Eitt af því, sem við, sem rætt höfum þetta mál, höfum verið að spyrjast fyrir um, er þetta, sem er mjög óljóst í frv.: Hvaðan á grænmetisverzlun landbúnaðarins að fá fé til þess að kaupa eignir grænmetisverzlunar ríkisins? Ef þær væru seldar við nokkuð sómasamlegu verði, þá er þarna um milljónaupphæðir að ræða.

Fasteignamat þessara fasteigna, sem grænmetisverzlunin á hér á góðum stað í bænum, innan Hringbrautar, er það hátt, að með 15–20–földun, eins og sjálfsagður hlutur þykir á öllum fasteignum hér innan Hringbrautar í Reykjavík, nemur þetta milljónum. Og við höfum verið að spyrja: Hvaðan á grænmetisverzlun landbúnaðarins að fá fé til þess að kaupa þessar verðmætu eignir, ef henni er ætlað að kaupa þær, eða sá aðili, sem hvergi er þar nefndur, en á að fara með þessa verzlun og koma fótum undir hann á ný? Engin svör hafa við þessu fengizt enn þá, og enginn stafur er um þetta í frv., og hefur verið margtekið fram, að þetta sé auðvitað óviðunandi gloppa í þessari lagasmíð.

Í annan stað vil ég spyrja, — ég held, að það hafi ekki verið gert áður: Hvaðan á að koma fé til þess að koma upp hinum stóru og vönduðu kartöflugeymslum, sem gert er ráð fyrir í 4. gr. frv., samkvæmt g-lið, að skuli koma upp víðs vegar úti um landið? Það vita allir, að vandaðar og stórar grænmetisgeymslur eru dýrar byggingar, miklu dýrari byggingar, miðað við rúmmetra, heldur en vönduðustu íbúðarhús, einangrunin þar tekur til sín svo mikinn tilkostnað. Eftir frv. er það svo, að höfundum þess finnst mikið á skorta að því er snertir grænmetisgeymslur hér og þar úti um landið, og þeir ætlast til, að mikið magn af grænmeti sé geymt hér og þar úti um landið í slíkum geymslum, sem grænmetisverzlun landbúnaðarins á að koma á fót. Grænmetisverzlun ríkisins hefur hingað til hagað þessum málum þannig, að hún hefur tryggt sér grænmetisgeymslur hér í Reykjavík, stórar og vandaðar, fyrir ærið leigugjald, og talið það vera einu heppilegu lausnina, einu lausnina, sem hægt væri að framkvæma án þess að stofna til allt of mikils kostnaðar, en sá kostnaður yrði auðvitað að koma á söluverð kartafinanna. Hin leiðin hefur verið talin svo dýr, að hún hlyti að hækka verð á kartöflum mjög verulega, og þess vegna hefur hún ekki verið farin af stjórnendum grænmetisverzlunar ríkisins. En nú vilja þeir, sem frv. þetta hafa samið, og sennilega þeir, sem með því mæla, — nei, ég mismæli mig, það hefur enginn mælt með því, — þeir, sem um það þegja, er bezt að segja, og rétta upp með því höndina, þeir ætlazt sýnilega til þess, að þarna sé breytt um stefnu og komið upp dýrum og stórum og vönduðum grænmetisgeymslum hér og þar úti um land til þess að geyma birgðirnar á mörgum stöðum í landinu. En þessum grænmetisgeymslum verður ekki komið upp með neinu kraftaverki. Þeim verður ekki komið upp á neinn annan hátt en á kostnað neytendanna, og það þýðir það, að til þess að framkvæma þessa stefnu þarf að leggja á hvert selt kíló af kartöflum vissa upphæð, til þess að hægt sé að leggja það gjald til hliðar fyrir væntanlegum stofnkostnaði á grænmetisgeymslum. Þetta atriði eitt út af fyrir sig mundi þýða aukinn kostnað við framkvæmdina á sölu, meðferð og geymslu kartaflna og þýða aukin útgjöld úr vasa neytendanna, sem fyrst og fremst eru kaupstaða- og kauptúnabúarnir, — atriði, sem mundi þykja vera til nokkurs hagræðis fyrir framleiðendurna, þ.e.a.s. minni hl. framleiðendanna í sveitunum, því að væntanlega ætla þeir ekki að fara að flytja meiri hluta framleiðslunnar, sem er einmitt framleidd í bæjunum, upp í sveitir í þessar geymslur, en yrði algerlega á kostnað kaupstaðabúanna, — til nokkurs hagræðis, segi ég, fyrir minni hluta framleiðendanna, þ.e.a.s. þá, sem í sveitunum eru, en algerlega á kostnað þeirra, sem eru neytendur að meginhluta þess magns, sem framleitt er í landinu af kartöflum og grænmeti.

Mér berst orðsending frá hæstv. forseta um það, að umr. verði nú frestað, og skal ég þá fresta mínu máli, því að ég á eftir að víkja að 3–4 atriðum enn og að tillögu, sem ég ætlaði mér að flytja um málið um mildilegri frávísun en hér hefur verið felld. Ég ætlaði mér nefnilega að fá málinu vísað í skaut Abrahams, þ.e.a.s. til ríkisstjórnarinnar. [Frh.]