16.02.1956
Neðri deild: 71. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, hefur hlotið óvenjulega mikla gagnrýni hér á hinu háa Alþingi, og er út af fyrir sig ekki nema gott eitt um þá hluti að segja, þar sem ég ætla, að þá hafi komið í ljós þeir helztu agnúar, sem í þessu frv. felast og mega því verða að ýmsu leyti til viðvörunar við meðferð þessa máls í framtíðinni.

Hv. 2. þm. Reykv. gat þess, að ég hefði viðhaft óviðeigandi ummæli gagnvart starfsmönnum grænmetisverzlunar ríkisins. Þetta er ekki rétt. Ummæli mín eru afbökuð, því að það hefur verið fjarri mér að kasta steini að starfsmönnum grænmetisverzlunar ríkisins, en það hafa aðrir gert með því að umsnúa ummælum mínum.

Það, sem mér finnst að þurfi að gera upp í þessu máli, eru ummæli einnar stofnunar, og bera þau saman við ummæli heillar stéttar, þ.e. bændastéttar landsins. Þar sem málið hefur að nokkru snúizt um Stéttarsamband bænda og framleiðsluráð landbúnaðarins, finnst mér ekki óviðeigandi að skýra nokkru nánar, hvernig uppbygging þessara stofnana landbúnaðarins er, því að fram hjá þeim atriðum hafa allir þeir aðilar hlaupið, sem hafa talað í þessu máli.

Stéttarsambandið er stofnað fyrir nokkrum árum og er því tiltölulega ungt að árum. Ég skil ekki, hvers vegna jafnmiklir félagshyggjumenn og margir þeirra eru, sem hér hafa talað, bera ótta í brjósti við félög, sem eru mynduð með frjálsum samtökum í landinu, eins og þessi, þar sem hinir sömu hafa þrásinnis og margsinnis notað sér stéttarfélög og tekið þátt í þeirra uppbyggingu og starfsemi fyrir þjóðarheildina.

Búnaðarfélög landsins eru frjáls félög, sem allir bændur geta verið félagar í, og einnig aðrir, sem hafa smábú eða minnst einn hektara ræktaðs lands. Það geta því fleiri en bændur verið þátttakendur í búnaðarfélögum. Það er ekki skilyrði að vera bóndi til þess að vera meðlimur í búnaðarfélagi. Það er ákaflega rúmt um þau ákvæði, og þar geta yfirleitt verið flestir, sem hafa ræktun sem nokkru nemur. Búnaðarfélögin eru aftur á móti sameinuð eftir frjálsum leiðum í búnaðarsambönd, sem svo aftur tilheyra einu félagi, þ.e. Búnaðarfélagi Íslands, og Búnaðarfélag Íslands vinnur að ræktun jarðar og ræktun búfjár ásamt ýmiss konar tilraunastarfsemi og fleiri framfaramálum landbúnaðarins. Á hinn bóginn standa hin frjálsu búnaðarfélög að Stéttarsamhandi bænda, sem til þess að gera er ungt að árum, eins og ég gat um áðan. Stéttarsamband bænda heldur einn landsfund á ári, og þar mæta tveir fulltrúar úr hverri sýslu og einn frá Vestmannaeyjum. Þessir fulltrúar eru valdir á sameiginlegum fundi, sem haldinn er einn í hverri sýslu, og á þann fund eru kosnir tveir kjörmenn á hreppabúnaðarfélagsfundum heima fyrir, svo að það má segja með sanni, að öllum gefist kostur á því að koma sínum óskum á framfæri til stéttarsambandsfundar, ef þeir á annað borð þurfa og vilja. Annað hvert ár eru svo kosnir á stéttarsambandsfundi fimm menn í stjórn Stéttarsambandsins. Þessum mönnum hefur verið falið að vera í framleiðsluráði landbúnaðarins ásamt fjórum öðrum mönnum, sem þar eiga sæti, þ.e.a.s. einn frá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, einn frá Sláturfélagi Suðurlands og einn frá mjólkursamsölunni og einn frá mjólkurbúum utan Reykjavíkur, þannig að í framleiðsluráðinu eiga sæti níu menn alls.

Þegar rætt er um verðlagsgrundvöll og verðlag á landbúnaðarvörum, þá skyldi maður ætla samkv. þessu, að Stéttarsamband bænda væri þar úrslitaaðilinn. En svo er ekki, því að þegar fjallað er um verðlagsgrundvöllinn, þá er samið við fulltrúa frá neytendum. Í þessu verðlagsráði eiga sæti sex fulltrúar, þ.e.a.s. þrír frá Stéttarsambandi bænda, einn frá Alþýðusambandi Íslands, einn frá Sjómannafélagi Reykjavíkur og einn frá Iðnrekendasambandi Íslands, þ.e.a.s., að hlutur bændanna er nákvæmlega jafn hlut neytendanna í þessu tilfelli. Hvað er þá að óttast? Og ef ekki næst samkomulag hjá þessum aðilum, þá er málinu skotið til gerðardóms, þar sem í eiga sæti þrír aðilar, þ.e. einn frá Stéttarsambandi bænda, einn frá þessum samtökum neytenda, sem ég talaði um áðan, og hagstofustjóri sem oddamaður. Og við þau úrslit, sem þar verða, verða bændurnir að sætta sig, hvort sem það er þeim í vil eða ekki.

Svo er risið hér á fætur og sagt, að bændasamtökin hugsi ekki um hag neytenda. Það er merkilegur hlutur. Þegar rætt er um verðlagsmál og teknar eru ákvarðanir í þeim, þá er hlutur neytendanna jafnrétthár hlut bændanna, nákvæmlega jafn. Og ef ágreiningur er, þá er það hagstofustjóri, sem hefur síðasta orðið í þeim efnum.

Hver er þá ástæðan fyrir því í lýðfrjálsu landi, þar sem félög hafa myndazt og þróazt af frjálsum vilja fólksins, að vantreysta þeim, og ekki sízt þar sem þegar til úrslita og ágreinings kemur í verðlagsmálum, þá eru það önnur félög, sem hafa jafnan rétt við rétt bændastéttarinnar? Nei, það eru veigalítil rök hjá hv. þingmönnum, þegar þeir eru að reyna að læða því inn, að bændasamtökin í landinu hugsi ekki um hag neytenda, því að þau ráða litlu um verðlagsmál, þegar til úrslita kemur, og verða auk þess að sætta sig við það að hafa sama verðlagsgrundvöll allt árið, hvernig svo sem kaupgjald og annað verðlag ílandinu kann að breytast á því tímabili. Og ég hygg, að ýmsum öðrum stéttum í þjóðfélaginu þætti þungt að bera þann bagga.

Þessi fámenni hópur bændanna í landinu og þeirra skylduliðs, sem ekki er orðið meira en um það bil 1/4 hluti landsbúa og fækkar með hverju ári sem líður, sýnir það fyrst og fremst, að hann má sín ekki mikils, og ekki heldur það vel að honum búið, að landbúnaðurinn þyki það girnilegur, að fólk keppist um að komast í þá framleiðslu. Þess vegna er ekki bændasamtökin að óttast, þar sem bændur eiga afkomu sína undir neytendum á ýmsan hátt og verða því að vanda vöru sína á sviði garðmetis ekki síður en við framleiðslu kjöts eða mjólkur.

Þeir hv. þingmenn, sem hér hafa talað, eru yfirleitt mjög miklir félagshyggjumenn, sem starfað hafa í mörgum félögum. Það er því leiðinlegt, að þeir skuli vanmeta frjáls félagasamtök eins og Stéttarsamband bænda, sem er byggt á grunni, sem nær yfir allar byggðir þessa lands og því bæði víðáttumikill og traustur. Ég segi fyrir mig, að ég met stéttarfélög mikils og tel þau nauðsynleg og virði vinnandi stéttir, því að það eru þær, sem knýja auðæfin úr skauti náttúrunnar og skapa grunnverðmætin, sem við lifum af.

Mitt sjónarmið er því, að vinna beri að því að auka traust og skilning á milli þessara stétta, en ekki breikka það bil, sem kann að hafa verið þar á milli. Á því er ekki þörf. Ég hygg, að flestra hugur sé sá, að það beri frekar að vinna að skilningi milli þessara stétta en að læða þar inn tortryggni.

Grænmetisverzlun ríkisins var nauðsynleg á sínum tíma, á meðan engin félagssamtök höfðu þróazt til að taka við verkefni hennar. Það kemur mér því mjög á óvart þessi skoðun hv. andstæðinga þessa frv. að treysta ekki frjálsum félagssamtökum til að fara með sín framleiðslumál.

Því hefur verið haldið fram, að bæjabúar framleiði meiri kartöflur en sveitabændur. Þetta er eflaust rétt, ég skal. ekki andmæla þessu. En það er ekki þetta atriði málsins, sem er aðalatriði. Það, sem er aðalatriðið, er það, hvað mikið af landsframleiðslunni kemur í verzlanir, hvað það er, sem verzlað er með. Ég hygg, að það sé nálægt því 1/5 hluti af framleiðslunni, sem kemur í verzlanir. Ég get ekki lagt fram skýrslu um það atriði, enda hefur enginn gert það hérna, hversu mikið kemur af sölukartöflum úr sveitum og hversu mikill hluti úr kaupstöðum. En ég hugsa, að það sé ekkert ofmælt, þó að maður segi, að þar séu bændurnir og sveitaframleiðendur í meiri hluta, því að stórframleiðsla er ekki það mikil í kaupstöðum, að menn rækti miklu meira en þeir þurfa að jafnaði með sjálfir.

Þá er eitt af því, sem andstæðingar þessa frv. hafa mjög hampað hérna, það, að kaupfélagsstjórarnir væru mjög á móti málinu. Ég skal ekkert efast um það, að eins og frv. var lagt fyrir hv. Alþ. í fyrra, hafi kaupfélagsstjórarnir verið á móti málinu, og umsagnir kaupfélagsstjóranna gegn þessu frv. eru um frv. eins og það var lagt upphaflega hér fyrir hv. Alþ. Og ef kaupfélagsstjórarnir hefðu verið mjög á móti málinu, hefði þeim gefizt kostur um eins árs bil að andmæla því frv., sem nú liggur fyrir, og hefðu til þess getað notað kaupfélagsfundina, sem haldnir voru í fyrra, aðalfund Sambands íslenzkra samvinnufélaga, og hefðu þeir ekki haft tækifæri til þessa, var þeim alltaf innan handar að afla ákveðnari mótmæla a.m.k. frá stjórnum kaupfélaganna. En slík andmæli hafa ekki komið, svo að ég tel, að það beri ekki að taka þeirra andmæli eins alvarlega og þau liggja fyrir nú. Og fyrir nokkrum dögum stóð yfir hérna í Reykjavík fundur hjá kaupfélagsstjórum landsins, og um sama leyti voru háar raddir hér í þessum sal um það, hversu kaupfélagsstjórarnir væru mikið á móti málinu. Hvers vegna sendu þá ekki kaupfélagsstjórarnir andmæli frá þessum fundi gegn þessu frv., ef þeir lögðu mikla áherzlu á það? Slíkt gerðu þeir ekki, vegna þess að þeir eru ekki á móti málinu eins og það liggur nú fyrir. Enn fremur vil ég geta þess, að frá því fyrsta að farið var að fjalla um þetta mál og tala um skipulagsbreytingar á því, hefur ávallt átt þar sæti einn fulltrúi frá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, og það þarf ekki hér að vera að tala um það, af hvaða aðilum Samband íslenzkra samvinnufélaga er myndað, því að það eru kaupfélög landsins, svo að þessi rök eru harla veigalítil, þegar er talað um mótmæli kaupfélagsstjóranna.

Þessar umræður hér hafa að mestu leyti snúizt um kartöflur, og út af fyrir sig er það kannske ekki merkilegt. En það er ýmislegt annað í þessu frv., sem þó er jafnvert um að tala og kartöflurnar. M.a. er í þessu frv. tekið upp ákvæði þess efnis, að það skuli verðleggja gulrófur og gulrætur, en eins og hefur verið ástatt, var það ekki skylda, og urðu framleiðendurnir oft að koma með sína vöru hingað og selja hana fyrir það verð, sem kaupmenn vildu kaupa hana, og höfðu þeir algerlega frjálsar hendur um, hvað þeir lögðu á hana. Og þess eru dæmi, að það hafi verið komið með rófur hingað í bæinn, gulrófur, sem framleiðendur hafa fengið fyrir kannske eina krónu, en verið seldar út á þrjár og fjórar krónur. Þetta eru hv. andmælendur þessa frv. ekki að hugsa um. Þar eru þeir ekki að hugsa um neytendur. Hver er ástæðan fyrir því?

Nei, á þessu stigi standa þessir framleiðendur í sömu sporum og í gamla daga, þegar sunnlenzku bændurnir voru komnir langar leiðir með fé sitt í kaupstað og kaupmenn létu þá biða lengi, þar til féð var farið að leggja af, og þá keyptu þeir það fyrir það, sem þeim sýndist. Síðan urðu neytendur að kaupa þetta kjöt, hversu vont sem það var og með hversu hárri álagningu sem það var, og gátu ekkert um fengizt. Þetta er ekki verið að tala um. Þar er ekki verið að hugsa um hag neytendanna.

Það er eiginlega merkilegt með jafngreinda menn og hv. andmælendur þessa frv., að þeir skuli ekki hafa á víðara grunni borið hag neytendanna fyrir brjósti en í ljós hefur komið hjá þeim, svo að ég er dálítið efablandinn, að þeir séu í þessu sambandi fyrst og fremst að hugsa um neytendurna, þegar þeir eru að andmæla þessu frv., þó að þeir noti þá mjög, enda er ég búinn að sýna fram á, að það er ekki ástæða fyrir neytendurna að óttast í þessum efnum. Stéttarsamband bænda og þeir aðilar og ráð, sem hjá því starfa, hafa aldrei sýnt, að það hafi ekki verið hægt við þau að semja, ef eitthvað hefur þótt miður fara, og bæta vöruvöndun, og frá upphafi veit ég ekki annað en að það hefur jafnan líkað betur með hverju ári, bæði sú skipulagning, sem gerð hefur verið á kjötsölu og mjólkursölu hér á landi, og ég ætla, að hið sama megi eiga sér stað um þá skipulagsbreytingu, sem hér um ræðir gagnvart garðmeti í landinu.

Meiri hl. landbn. flytur hér nokkrar brtt. við frv., þar sem tekið er tillit til þeirra, sem bent hafa á ýmsa ágalla á málinu. T.d. er sett inn ákvæði um, að sala grænmetisverzlunar ríkisins skuli fara fram eftir mati dómkvaddra manna, eins og venja er, þegar um sölu ríkiseigna er að ræða.

Þá er tekinn til baka d-liður 5. gr. um verðjöfnun á kartöflum, þannig að það þarf ekki lengur að vera neinn ásteytingarsteinn í augum manna, að það eigi að fara að láta neytendurna borga þann verðmismun, sem kann að verða á þeim kartöflum, sem fara til fóðurs eða vinnslu á annan hátt, sem á sér þó víða stað, og þessi liður er felldur burt nú, svo að hann er ekki lengur að óttast.

Aðrar brtt. eru nánast leiðréttingar, og vænti ég, að hv. þm. geti því fallizt á þessar breytingar, sem meiri hl. leggur til.

Varðandi brtt. frá þeim hv. 2. þm. Reykv. (EOI) og hv. 3. landsk. (HV), þá gleður það mig, að þeir aftaka þó ekki allar hreytingar á framleiðsluráðslögunum eða ekki a.m.k. hv. 2. þm. Reykv., og ég vænti þess, að þegar þeir eru búnir að íhuga þessi mál betur, þá sjái þeir, hversu hættulaust frumvarpið er fyrir neytendur, og geti af þeim orsökum fylgt því á leiðarenda.

Ég hef svo ekki meira að segja að sinni í þessu máli, en vonast eftir, að afgreiðslu þess verði hraðað, eftir því sem auðið er.