16.02.1956
Neðri deild: 71. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það gladdi mig áðan, þegar þetta mál var tekið hér til umr., að sjá, að hv. þm. Dal. gerði okkur nú þann sóma að stíga í ræðustólinn til þess að ræða þetta mál við okkur, og ég bjóst við því, að hann mundi ræða málið eins og það liggur fyrir og að hann mundi reyna að rökræða þá gagnrýni, sem komið hefur fram á þessu frv. fl þessari hv. deild. En raunin varð allt önnur.

Hv. þm. Dal. svaraði mjög litlu þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið á þessu frv., heldur tók hann þann kostinn að fara undan í flæmingi og flétta inn í ræðu sína alveg óskyldum hlutum. Hann skýrði hér starfsemi búnaðarfélaga, hvernig þau væru byggð upp, samband þeirra við Stéttarsamband bænda og framleiðsluráð, hvernig kosið væri í búnaðarfélögum og hreppafundum til aðalfundar Stéttarsambandsins o.s.frv. Síðan gerði hann grein fyrir störfum og skipun verðlagsnefndar landbúnaðarafurða. Nú virðist það svo, að hv. þm. Dal. ætti þó a.m.k. að vera þessum málum kunnugur, starfsemi og skipulagi búnaðarfélaga, Stéttarsambands bænda og framleiðsluráðs alveg sérstaklega, ef það er rétt, sem mig minnir, að hann sé varamaður í framleiðsluráði landbúnaðarins. En af ræðu hans var ljóst, að hann var málum þessum ekki eins kunnugur og maður hefði mátt ætla. T.d. má nefna, að í sambandi við það, sem hann sagði um þátt fulltrúa neytenda í verðlagningu búvara, var mjög margt rangt túlkað. Hann sagði, að neytendur ættu jafnmarga fulltrúa og bændur í verðlagsnefnd búvara og að þeir réðu jafnmiklu í þessari nefnd og fulltrúar bænda, þess vegna væri ekki ástæða til þess að óttast bændasamtökin né að nefnd sú, sem ákveður verðlag á búvörum, gengi á rétt neytenda, þar sem neytendurnir ættu þar jafnmarga fulltrúa og framleiðendurnir.

Sumt af þessu er rétt, en annað ekki. Það er rétt, að fulltrúar neytenda og framleiðenda eru jafnmargir í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða, en hitt er algerlega rangt hjá hv. þm. Dal., að nefndin þannig skipuð ákveði verðiag á einstökum landbúnaðarafurðum. Það er algerlega rangt. Þegar n. starfar skipuð sex mönnum, þrem frá framleiðendum og þrem frá neytendum, þá gerir hún ekkert annað en að ná samkomulagi um grundvöll, þ.e.a.s. kostnað og tekjuhlið á meðalbúinu. Verðlagið á einstökum tegundum búvara er algerlega í höndum framleiðsluráðs, og þetta ætti hv. þm. Dal. að vita, ekki sízt ef það er rétt, að hann sé varamaður í framleiðsluráði.

Menn hljóta þess vegna að spyrja: Hvernig stendur á því, að þm. Dal. kemur hingað upp til þess að tala um þetta mál og ber á borð fyrir mann önnur eins rök í málinu og þetta. Hann sagði einnig, að það þyrfti nú að gera breyt. á þessum málum með verzlun og grænmeti, skipulagsbreytingu á þeim málum, vegna þess t.d., að verð á gulrófum væri ekki ákveðið og bændur neyddust oft til að selja kaupmönnum þær á eina krónu kg, en kaupmenn seldu þær síðan aftur neytendum á 3–4 kr. kg. Og það varð ekki annað skilið af þessum ummælum hv. þm. Dal. en að þetta væri grænmetisverzlun ríkisins að kenna. Nú ætti þó hv. þm. Dal. að vita það, að í 8. gr. l. um framleiðsluráð landbúnaðarins er það beinlínis tekið fram, að framleiðsluráðið skuli ákveða verðlag á helztu tegundum garðávaxta. Ef við einhvern er að sakast í þessu efni og ef bændur hafa beðið eitthvert tjón af því, að verð á gulrófum er ekki ákveðið, þá er það framleiðsluráðið, en ekki grænmetisverzlunin, sem ber sök á því. Og ég vil enn fremur upplýsa, að svo augljóst er, að þarna á framleiðsluráðið hlut að máli, en ekki grænmetisverzlunin, að framleiðsluráð hefur nú þegar ákveðið verð á gulrófum. Þetta gerði framleiðsluráðið í fyrsta skipti seint á árinn sem leið. Þá loksins ákvað framleiðsluráðið að sinna nú skyldustarfi sinu og ákveða verð á gulrófum. Og svo kemur hv. þm. Dal. hér upp og heldur því fram, að nú þurfi nauðsynlega að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins, vegna þess að hún hafi ekki gert það, sem hún ætti ekki að gera. (Gripið fram í.) Hv. þm. Dal. leyfir sér að halda því fram með framítöku, að það sé hreinasta lygi. Vill hann gera svo vel að fara hér fram í skjalasafn Alþingis eða á skrifstofuna og fá sér lögin um framleiðsluráð landbúnaðarins og lesa þau, fyrst hann ekki þekkir þau.

Þannig voru þá rök hv. þm. Dal. fyrir því frv., sem hann hefur hér barizt fyrir. Hann hafði engin rök fram að færa gegn þeirri gagnrýni, sem hér hefur verið höfð í frammi um frv., en hann reyndi að fara inn á nýjar leiðir, opna baráttuna á nýju sviði, og þá er allt eins í pottinn búið, haldið fram röngum málstað og fullyrðingum, sem eiga ekki við neitt að styðjast.

Þá sagði hv. þm. Dal. og gerði það að miklu innleggi í mál sítt, að hér hefði verið nýlega haldinn fundur kaupfélagsstjóra í Reykjavík og þeir hefðu ekki sent Alþ. nein mótmæli gegn þessu frv. Þetta vildi hann túlka á þann veg, að kaupfélagsstjórunum hefði snúizt hugur í þessu máli, frá því að þeir létu í ljós álit sitt á því á þinginu í fyrra samkv. beiðni þá.

Ég held, að þetta sé mjög hæpið hjá hv. þm. Dal., svo að ekki sé meira sagt. Og það mætti alveg eins spyrja hann: Sendu þessir kaupfélagsstjórar eða fundur þeirra Alþ. áskorun um að samþykkja þetta frv.? Og ef þeir hafa gert það, hvar er þá sú áskorun? Mættum við fá að sjá hana? Ég sé ekki, að það eitt út af fyrir sig, að kaupfélagsstjórarnir samþykkja ekkert í málinu, verði túlkað sem innlegg fyrir hv. þm. Dal. og Framsfl. í þessu máli. Það má alveg eins túlka það þveröfugt, ef á annað borð á að fara að taka hér inn í umræðurnar hluti, sem ekki eru til, ályktanir, sem ekki hafa verið gerðar. En þetta átti að vera eitt helzta haldreipíð í málflutningi hv. þm. Dal. Þetta voru rökin, sem hann vildi færa fram fyrir því, að nú bæri að samþykkja þetta frv.

Og ég vildi nú spyrja hv. þm. Dal. í tilefni af því, sem ég hef hér sagt um þetta: Fyndist honum nú ekki, að hann gerði sjálfum sér og flokki sínum meiri sóma með því að hætta við að berjast fyrir þessu frv. heldur en að koma með svona rök og svona málflutning í sambandi við það?

Hv. þm. Dal. var ekki við hér, þegar þessi fundur hófst að nýju. Hv. 2. þm. Reykv. bar þá hér fram fyrirspurnir um það, hvernig afstaða Framsfl. sjálfs væri nú um þetta mál. Hann gat þess, að það mundi hafa verið rætt á fundi fulltrúaráðs framsóknarfélaganna hérna í Reykjavík og gerð ályktun um það, og hann spurði um það, hvernig þessi ályktun hefði verið gerð og hvernig menn hefðu tekið þar í þetta mál. Hann spurði um það, hvort menn hefðu verið sammála um að samþykkja till. um að skora nú á Framsfl. að hraða afgreiðslu þessa máls eða sjá til þess, að það kæmist í gegnum þingið. Hann spurði, hvort það hefði verið ágreiningur um málið, hvort það hefðu orðið átök um það, sumir vígreifir með því og aðrir á móti, og hann spurði í þriðja lagi, hvort það mundi e.t.v. hafa verið svo, að það hefði ekki verið neinn ágreiningur að ráði um þetta mál, heldur hefðu menn verið einróma á móti því og samþykkt að skora á Framsfl. að hætta nú víð þetta mál og draga það til baka. Ég endurtek þessar spurningar hér, af því að hv. þm. Dal. er nú kominn, svo að honum gefist tækifæri til þess að svara þeim. Hv. 2. þm. Reykv. lét í ljós þá skoðun sína, að það mundi hafa verið svo, að á þessum fulltrúaráðsfundi framsóknarfélaganna í Reykjavík hefðu menn verið yfirleitt sammála um það og það nærri því einróma að skora á Framsfl. að hætta baráttunni fyrir þessu máli, og að þessir menn, þessir forvígismenn Framsfl., hefðu verið sammála um það, að skömm Framsfl. af þessu máli væri þegar orðin meiri en nóg. Nú vil ég spyrja hv. þm. Dal.: Er þessu þann veg farið? Er það rétt?

Ég hef nú gert hér nokkur skil þeim atriðum, sem áttu að vera meginuppistaðan í ræðu og rökum hv. þm. Dal. um þetta mál, og ég sé nú ekki ástæðu til að ræða þetta mál öllu lengur. Það hefur verið gert mjög rækilega. Og það hefur verið gagnrýnt og tætt í sundur mjög rækilega. Þeir, sem berjast fyrir þessu máli, hafa enga tilraun gert til þess að hrekja þá gagnrýni, sem þetta frv. hefur sætt, eða þau rök, sem sú gagnrýni hefur verið studd. Þeir hafa reynt, eins og hv. þm. Dal., að fitja upp á nýjum atriðum máli sínu til stuðnings, en ég hef nú sýnt fram á, hve haldlaus þau rök voru.

Það hefur verið rætt mikið hér að undanförnu, hve þetta væri einstætt mál og einstakt í alla staði, ekki sízt með tilliti til þess, að hér ætti að fara að afhenda stéttarsamtökum verzlun með ákveðna vörutegund. Nú skal ég ekki endurtaka neitt af þeim umræðum, en ég vil aðeins benda á, að það er jafnfráleitt að afhenda Stéttarsambandi bænda kartöfluverzlun og ætla þessum stéttarsamtökum að fara að verzla með einhverja ákveðna vöru eins og það væri fráleitt að afhenda Alþýðusambandinu t.d. þessa sömu verzlun og eins og það væri fráleit hugsun að ætlast til þess, að Alþýðusamband Íslands tæki að sér verzlun með kartöflur í landinu.

Hv. þm. Dal. sagði, að það væri nú ekkert að óttast bændasamtökin í þessu sambandi. Það er alveg rétt. Því hefur enginn maður haldið fram, að það þyrfti neitt að óttast bændasamtökin. En því hefur verið haldið hér fram, í fyrsta lagi af hæstv. landbrh., og ég tók síðar undir þau ummæli, að þetta mundi verða mjög erfitt og óvinsælt hlutverk fyrir bændasamtökin í landinu. Og hv. þm. Dal. sagði alveg á sama hátt og ég hafði áður sagt í þessari umr., að menn ættu ekki að gera sér leik að því að stofna til misklíðar og tortryggni á milli bændasamtakanna og alþýðunnar í landinu og verkamannanna, en með þessu móti, með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt verið að stofna til slíkra hluta.

Ég hafði áður sýnt fram á það og það hafði komið fram í ræðu hæstv. landbrh., að framleiðsluráð og Stéttarsamband bænda gætu orðið fyrir aðkasti, misskilningi og tortryggni í sambandi við þessa starfsemi. Ég tók það fram áður í þessum umræðum, að Stéttarsamband bænda gæti orðið fyrir þessari tortryggni og óánægju úr tveim áttum, bæði frá framleiðendum og neytendum, frá framleiðendum, ef svo skyldi til takast, að Stéttarsambandið léti flytja inn meira af kartöflum en ástæða væri til og á þá lund, að innlend framleiðsla seldist ekki. Og ég benti einnig á það, að Stéttarsambandið mundi verða fyrir óvild og tortryggni frá neytendum, ef á einhverjum tíma tækist svo til, að það sæi ekki um, að nægilegt magn yrði flutt inn af kartöflum, þannig að kartöfluskortur skapaðist í landinu. Og ég vil taka undir það með hv. þm. Dal.: Svona ráðstafanir á ekki að gera, það á ekki að stofna til svona hluta. — Það er rétt, sem hann sagði, það er nauðsyn að eyða misklíð, misskilningi, tortryggni og óvild milli bænda, samtaka þeirra annars vegar, og verkalýðsins og samtaka hans hins vegar. Þessum stéttum er nauðsyn að standa saman. Og einmitt þess vegna á ekki að samþykkja þetta frv., sem sýnilega hefur í för með sér ýmsa svona hluti og er þeim mun hættulegra sem óvönduðum mönnum gefst betra tækifæri til að ýta þarna undir og blása að glóðunum. Þess vegna ættum við hv. þm. Dal. að geta verið sammála um að fella þetta frv.

Ég býst ekki við, að forseti Alþýðusambands Íslands eða ábyrgir stjórnendur þeirra samtaka mundu óska eftir því, að Alþýðusambandinu væri fengin þessi starfsemi, þessi kartöfluverzlun og grænmetisverzlun í hendur, fyrst og fremst vegna þess, að það tæki þá á sig hættuna af óvild og tortryggni, sem væri algerlega ástæðulaust að taka á sig. En það væri ekkert meiri fjarstæða að afhenda Alþýðusambandinn þessa verzlun heldur en Stéttarsambandi bænda. Í kaupstöðum og kauptúnum er ræktað meira af kartöflum en í sveitunum. Kartöflurnar, sem ræktaðar eru í kaupstöðum, eru ræktaðar m.a. og að mjög miklu leyti af verkamönnum í tómstundum og aukavinnu, verkamönnum, sem eru aðilar að Alþýðusambandi Íslands. Þeir hefðu því sem framleiðendur í þessu tilliti alveg jafnmikinn rétt á að fá þessi mál í sínar hendur eins og bændur. En ég býst ekki við því, að nokkur forsvarsmaður alþýðusamtakanna vildi stuðla að því, að þau gerðust verzlunaraðili með grænmeti, enda þótt svona væri í pottinn búið og enda þótt alþýðusamtökin eigi og telji sér skylt að tryggja hag mikils meginþorra þjóðarinnar í þessu tilliti, þ.e.a.s. allra neytenda. Þess vegna skil ég ekki þá menn, sem þykjast vera hér að berjast fyrir bændastéttina og vera sjálfkjörnir og sérstakir fulltrúar hennar, að þeir skuli leggja til, að stéttarsamtökum bænda verði afhent þetta mál. Miklu eðlilegra hefði verið að athuga þá leið, ef endilega þurfti að gera einhverja skipulagsbreytingu á þessum málum, að afhenda Sambandi íslenzkra samvinnufélaga þessi mál. Það eru samtök, sem hafa fengizt við verzlun, en ekki Stéttarsamband bænda. Og það eru samtök, sem eiga og ber skylda til að tryggja jafnt hag neytenda sem framleiðenda.

Nú hefur komið fram till. hér frá hv. 3. landsk. þm. um, að þessu máli verði vísað til ríkisstj. með það fyrir augum að rannsaka það betur og þá alveg sérstaklega þessa leið, athuga alveg sérstaklega að afhenda S.Í.S. og kaupfélögunum þennan hluta verzlunarmálanna, ef ástæða sé til að gera hér einhverja skipulagsbreytingu. Nú hef ég hins vegar ekki heyrt nokkur rök færð fram fyrir því, að það væri ástæða til að gera breytingu á þessum málum. Þvert á móti. Öll rök, sem hafa verið færð hér fram bæði með þessu frv. og móti því, hafa einmitt sannfært mig um, að hér þyrfti engra breytinga við, eða a.m.k. svo smávægilegra, að þær breytingar mætti vel gera á grænmetisverzlun ríkisins.

Eitt af höfuðatriðunum í þessu frv. og ein af höfuðrökunum fyrir því, að þessar breytingar þurfi nú að gera, er, að hér er tekið fram einhvers staðar, að framleiðsluráð landbúnaðarins skuli stuðla að því, að kartöflugeymslum verði komið upp sem viðast á landinu. Hver bannar framleiðsluráði að stuðla að því nú þegar? Ekki nokkur. Það er hvergi bannað með lögum. Það hefði getað stuðlað eins mikið að því og það vildi, ef það á annað borð vildi nokkuð stuðla að því. En hingað til hefur það ekki sýnt sig. Og ég býst ekki við, að það stuðli meira að þessu hér eftir en hingað til. Ég get ekki séð það. Það hafa engin rök verið færð fram fyrir því. Fyrir nú utan málið á þessu, að ætla að fara að setja það í lög, að einhver samtök megi stuðla að einhverju. Annaðhvort er að banna eða bjóða hlutina, en ekki að fara að lögbjóða, að mönnum sé heimilt að stuðla að einhverju, sem þeim er heimilt að stuðla að án allrar lagasetningar og enginn hefur bannað þeim.

Ég vil svo aðeins að lokum taka það fram, að ég mun styðja dagskrártili. hv. 3. landsk. þm. Mér finnst hún mjög eðlileg og mjög skynsamleg, eins og þessum málum er nú komið.