16.02.1956
Neðri deild: 71. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Loksins hefur það nú gerzt, að hv. frsm. landbn., hv. þm. Dal., hefur tekið til máls og rætt útjaðra þessa máls, en þó forðazt vendilega að ræða um kjarna málsins, ræða um þau efnisatriði, sem þetta frv., þessi frumvarpsómynd, sem hér liggur fyrir, fjallar um. Og það var ákaflega skynsamlegt af honum að haga sinni ræðu þannig, því að það er hægt að tala margt náttúrlega um kartöflur og grænmeti og framleiðslu þess og sölu þess af bónda og bændafrömuði, en hitt er ekki gott fyrir hann sem fulltrúa bændastéttarinnar að ræða um þetta frv., hvort sem hann færi að ræða um þá breytingu, sem í því felst frá gildandi skipulagi, þ.e.a.s. fyrst og fremst niðurlagningu grænmetisverzlunar ríkisins og þessa einkasölu landbúnaðarins, sem á að koma í staðinn, sem þó er ekki í rauninni vitað á neinn ákveðinn hátt hvernig verði eða hverjir eiga. Því síður væri honum hollt að fara að ræða um málatilbúnaðinn eða hvernig þetta frv. sé úr garði gert að efni og formi, enda forðaðist hv. þm. Dal. þetta allt saman og valdi þar auðvitað hinn skynsamlegri kostinn, eins og hans var von og vísa. Ég vil nú leyfa mér að víkja nokkru að ýmsum þeim atriðum, sem hann þó ræddi og alls ekki eru í brennidepli málsins.

Hann segir réttilega, að málið hafi sætt óvenjulega mikilli gagnrýni hér á Alþingi, og það er vissulega rétt. Það hefur verið til umr. hér langt til upp undir mánuð í þinginu, og það er tiltölulega óvenjulegt, og hafa þó hæstv. forsetar verið mjög iðnir, líklegast hlýðnir, í því efni að taka málið oft á dagskrá. Það hefur því ekki verið seinagangur á málinu vegna þess, að forsetar hafi tregðazt við að taka það inn á dagskrána. Það eru önnur mál, sem ástæða er til að kvarta um að því er það snertir, að þau fást ekki tekin á dagskrá, og er þar þó fleiri um að saka en forsetana, því að þar er fyrst og fremst forustu nefndanna um að saka, og er það í raun og veru vægast sagt þinghneyksli ár eftir ár, hvernig mál stjórnarandstöðunnar eru leikin í þessu svokallaða þingræðislandi. Þau eru flutt inn í þingið í fullum þinglegum rétti, og svo er þeim hleypt í gegnum 1. umr., en kistulögð undantekningalítið í nefndum og fást ekki tekin þar til umræðu eða afgreiðslu, þó að þingið standi í 5–6 mánuði.

Það er þó vitanlega ekki mál þeirra manna úr stjórnarflokkunum, sem í nefndunum eru, að svona er unnið. Þeir fá alveg áreiðanlega fyrirmæli frá ríkisstj. um að leggjast á öll mál stjórnarandstöðunnar, og er þetta þó vitanlega algert brot á öllu þingræði.

Nei, þetta mál hefur ekki átt slíkum stjúpmóðurlegum móttökum að fagna af hendi ríkisstj. eða umboðsmanna hennar í nefnd eða forseta þingsins. Það hefur notið allrar fyrirgreiðslu, sem hægt hefur verið og það eins og önnur mál á rétt á náttúrlega.

Af hverju halda menn, að þetta mál hafi sætt sérstaklega harðvítugri gagnrýni? Af því að málið .er þannig vaxið, að með því er ætlazt til, að lögum, sem tiltölulega almenn ánægja er með, lögunum um grænmetisverzlun ríkisins, sé breytt á þann hátt, að allt vald í sambandi við meðferð þeirra mála, sem lögin um grænmetisverzlun ríkisins fjalla um, verði fært í hendur einnar stéttar, þ.e.a.s. fært í hendur nokkurra trúnaðarmanna bændastéttarinnar. Þetta kunna að vera hinir mætustu menn og ágætustu og réttsýnustu, en þeir eru a.m.k. ýtnir fyrir hönd sinnar stéttar og það um of, ýtnir á þann hátt, að þeir vilja þarna seilast til áhrifa og yfirráða yfir málum, sem þeim einum ber ekki réttur eða skylda til að ráða yfir, málum, sem snerta hag mjög margra annarra, þ.e.a.s. miklu fleiri manna í landinu annarra heldur en þeirra, sem þeir hafa umboð fyrir. Og með þessari tilhögun mála, sem nú er lagt til í frv. á þskj. 126, er tekinn réttur úr höndum fólksins við sjávarsiðuna í bæjum og kauptúnum, sem því fólki sannarlega ber og engin von er til að þetta fólk vilji láta taka úr greipum sér mótstöðulaust. Og það er á þessu, sem andstaðan við málið byggist hér í þinginu. Það er hér um að ræða hagsmunaárekstra, sem eiga sína formælendur á báðar hliðar, og hefur verið haldið þannig á málum, að annar aðilinn hefur ekki viljað kannast betur en svo við sína afstöðu með málinu, að hann hefur yfirleitt látið sína formælendur skjótast úr stólum sinum í þingsalnum, skjótast úr þingsalnum, jafnvel bregða sér af landi burt og alla aðra þegja sem fastast um málið. Vitanlega er þetta öruggur vitnisburður um það, að þarna er eins ástatt og fyrir manninum, sem hafði biblíuna sem bögglað roð fyrir brjósti sínu, og hafði hann þó lært hana alla í einu, en ei kom það að gagni neinu.

Þetta mál hefur bögglazt svona ónotalega fyrir brjóstinu á hæstv. ríkisstj. og á öllum formælendum málsins, af því að þeir hafa það á tilfinningunni, að þeir séu þarna að framfylgja máli, sem ekki byggist á réttlætisgrundvelli. Það er að vísu lof um mennina, að þá hafa þeir réttlætistilfinningu, þó að þeir misbjóði henni, og án þess að leggja nafn sitt við eiginlega að mæla með málinu, þá ætla þeir samt að knýja það í gegn með þöglum þingmönnum, sem rétta upp höndina með því og leiða það þannig í höfn.

Hv. þm. Dal. hafði það á orði, að hann gæti vitnað til ummæla heillar stéttar. Það er dálitið nýstárlegt, að heilar stéttir séu farnar að tala alveg í einum kór og það sé hægt að vitna til ummæla heilla stétta. Ég hef ekki heyrt þessa rödd bændastéttarinnar í málinu, — eða hvar hefur hún komið fram? Mig langar til þess að vita það, ég er það forvitinn, að mig langar til þess að spyrja hv. þm. Dal. að því, hvar liggi fyrir ummæli heillar stéttar í þessu máli, á þann veg, að stéttin — sennilega á hann hér við bændastéttina — heimti, að þetta mál sé gert að lögum. Einasta tístið, sem hefur heyrzt í nafni bændastéttarinnar, er frá einstaklingum í stjórn Stéttarsambands bænda, og það er sannarlega ekki rödd heillar stéttar. Bændastéttin hefur ekki látið til sín heyra í þessu máli. Það er sama, hvort maður hefur hitt bónda af Norðurlandi eða af Austfjörðum eða úr Akureyrarkaupstað eða af Suðvesturlandi, Vestfjörðum eða Norðurlandi eða Suðurlandsundirlendinu eða úr þeim sérstöku héruðum, þar sem mest er ræktað af kartöflum, eins og hér úr nágrenni Reykjavíkur, Eyrarbakka og Stokksey ri, Hornafjarðarsvæðinu, af Svalbarðsströndinni og í kringum Akureyri, — ef bændur hafa verið spurðir um þetta mál, hafa þeir ekki verið ákveðnir og ákafir og sagt: Við viljum heimta, að þetta frv., sem er um sölu og meðferð og ræktun kartaflna, verði gert að lögum á þinginu. — Nei, ég held nú ekki. Þeir hafa svarað undantekningarlaust: Við höfum ekki fyrirhitt neinn bónda, sem hafi áhuga á málinu. — Og það hefur ekki verið lögð fram hér í þinginu rödd eins einasta bónda, sem hafi áhuga á málinu, utan stjórnar Stéttarsambands bænda, sem er búin að endurtaka samþykktir um þetta í tvö eða þrjú skipti og virðist vera haldin af þeim leiða sjúkdómi, sem er kallaður að fá mál á heilann. Og ef þetta er stærsta málið, sem Stéttarsamband bænda berst fyrir, þá má guð hjálpa þessu stéttarsamhandi, ef hann annars í almætti sínu getur það.

Þetta er þá um rödd heilla stétta. Bændurnir heyrast ekki tala um þetta mál, og það einasta, sem hefur um það heyrzt úr röðum bændanna, er sem sé frá einstaklingum í stjórn Stéttarsambandsins.

Hv. þm. Dal. gerði grein fyrir því, að Stéttarsambandið væri sprottið upp af búnaðarfélögunum. En ég spyr nú: Hefur nokkurt búnaðarfélag á landinu gert samþykktir um þessi mál? Hvar eru þær? Ekki hafa þær verið sendar hér á lestrarsal Alþingis, ekki eru þær prentaðar sem fskj. með málinu, ekki hefur þeirra verið getið í framsöguræðum eða ræðum formælendanna, hvorki hæstv. landbrh. né hv. þm. Dal. Hvers vegna þessi óskaplega og óviðurkvæmilega þögn af þeirra hendi? Um svona hluti á ekki að þegja. Ef menn eru að berjast fyrir einhverju máli, þá eiga menn að leggja gögnin, sem þeir hafa, fram, og sterkustu gögnin í þessu máli væri það, ef þeir gætu skýrt okkur frá því, að tugir eða hundruð eða þúsundir bænda bæru málið fyrir brjósti og vildu knýja það fram og hefðu gert um það samþykktir og látið þær berast til þingsins. Ekki er til eitt einasta andvarp í þessa átt frá neinu búnaðarfélagi.

Eru þá til nokkrar samþykktir á móti málinu? Ja, kannske bara frá kaupstaðabúum og einhverjum slíkum, sem ekki bera neitt skyn á hagsmunamál bænda, kynnu menn að segja. Nei, það eru til samþykktir í þessu máli, sem bera því alveg glöggt vitni, að bændastéttin álítur þetta ekki vera sitt stóra hagsmunamál. Ég vitnaði hér á dögunum í stjórnarblaðið Tímann, bændablaðið Tímann, sem heitir blað fyrir bændur og er það. Hann var að segja þar á allri forsíðunni frá geysilega stórum fundi, fjöldafundi, sem bændur og bændasamtökin á öllu Suðurlandi hefðu haldið á Selfossi um síðustu helgi. Það vildi svo til, að ég var staddur á Selfossi einmitt um þessa helgi og vissi, að það var rétt, sem Tíminn sagði, að svo miklu leyti sem hann sagði frá þessum fundi, og hann orðaði það alveg réttilega: Þessi fundur var svo víðtækur, að á honum voru mættir bændur alla leið austan frá Vík í Mýrdal og vestur í Selvog, og þarna voru mættir hátt á annað hundrað bændur. Í forsæti á fundinum var formaður Búnaðarfélags Íslands, Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu, og hann ber fram till. um að skora á Alþ. að samþykkja frv. um sölumeðferð kartaflna, sem liggi fyrir þinginu. Og eins og ég skýrði frá hér seinast, þá koma örfáar hendur á loft við fyrstu atrennu. Hann biður menn að taka sig betur saman og greiða atkv., eins og forsetar gera, þegar þeim þykja daufar undirtektir, hvað og kemur hér fyrir í þingsölunum, og þá fær hann nokkru fleiri, en ekki var form. Búnaðarfélags Íslands enn ánægður með hinn brennandi áhuga bændastéttarinnar og fulltrúa hennar þarna á þessum fjölmenna fundi og vildi reyna í þriðja sinn, og verið þið nú með, greiðið þið atkvæði, hvatti þá rækilega og þá komu tölurnar, sem Tíminn sagði frá: 23 atkv. með, 3 atkv. á móti. Allur fjöldi bændanna í salnum á Selfossi sat gneypur og þagði eins og formælendur málsins hér þegja og fékkst ekki, ekki einu sinni í þriðju atrennu, til þess að rétta upp hendurnar með málinu, þó að form. Búnaðarfélags Íslands bæði þá að greiða nú atkv. Hvernig er hægt að leggja fram sterkari sönnun en þessa fyrir því, að bændur hafi ógeð á málinu? Ef stétt hefur talað í þessu máli, þá er það orðsendingin frá fundinum á Selfossi um, að Lændur hafi svo megna skömm á þessu máli, að þeir fáist ekki — marghvattir til þess — til að rétta upp höndina með því. Ég hef ekki heyrt frá bændastéttinni skýrar og eindregnar tekna afstöðu á móti málinu en einmitt í niðurstöðu þessa fundar.

Hv. þm. Dal. sagði líka: Kaupfélagsstjórafundur hefur verið hér, fjölmennur. Af hverju mótmælti hann ekki málinu? sagði hann. Hann þarf nú auðvitað að leita fylgjenda við málið, og honum hefði verið mikill styrkur að því, ef kaupfélagsstjórarnir, sem hafa daglegt samband við bændur, hefðu verið lifandi áhugamenn fyrir málinu, og þeir hafa þó komið mjög við framkvæmd þessa máls, þeir hafa annazt fyrir grænmetisverzlun ríkisins alla sölumeðferð grænmetis og kartaflna. Ég segi: Hefði ekki verið eðlilegra, að hv. þm. Dal. hefði spurt: Gerðu þeir ekki, alveg upptendraðir af áhuga fyrir þessu stóra áhugamáli bændastéttarinnar, samþykkt um, að Alþingi yrði að samþykkja þetta frv., sem hér er verið að ræða? Nei, ekki gat hv. þm. Dal. þess. Þeir létu það vera. Þeir höfðu ekki þann áhuga á málinu, að þeir sendu frá sér áskorun til Alþingis um að samþykkja málið. Ekki var það heldur að fá undirtektir undir rödd stéttarinnar, sem hv. þm. hafði þó sagt okkur að hefði heyrzt. Kaupfélagsstjórarnir þögðu um áhuga sinn á þessu máli. Eru þá til nokkrar samþykktir núna upp á síðkastið með málinu eða á móti? Jú, neytendasamtökin í landinu hafa skotið á fundi og rætt þetta mál, — og mæltu þau ekki fastlega með því, að málið yrði samþykkt? Nei, ekki gátu þau fengið sig til þess. Þau sendu Alþingi núna rétt nýskeð mótmæli gegn frv. og töldu það ganga, ef það væri samþykkt, mjög á rétt neytenda. Ríkisútvarpið var að færa okkur þessa samþykkt neytendasamtakanna nú fyrir skemmstu, og ég ímynda mér, því að þess var getið í fréttinni, að nú sé búið að senda þessi mótmæli til Alþingis. Og svo er mér tjáð, að nýlega hafi verið fundur í fulltrúaráði framsóknarfélaganna í Rvík. Framsóknarfélögin í Rvík geta alls ekki verið viðskila við bændur og bændastéttina. Þetta eru þó samtök í stjórnmálaflokki bændanna, Framsóknarflokknum, sem nú hefur látið bera þetta mál fram sem eitt af sinum áhugamálum. Hvað sagði fulltrúaráð framsóknarfélaganna í Rvík? Sendi það ekki frá sér áskorun til þingsins um að lögfesta þetta mikla nauðsynja- og hagsmunamál bændastéttarinnar? Ég get ekki efað, að fulltrúaráð framsóknarfélaganna hlýtur á fundi sínum að hafa fundið köllun hjá sér til slíks, ef bændur hafa yfirleitt látið til sín heyra um, að þetta væri þeim mikið hagsmunamál og nauðsynjamál. Nei, fulltrúaráð framsóknarfélaganna sendi enga slíka áskorun frá sér um að samþykkja frv. Þvert á móti. Þarna var málið rætt með og móti. Þeir voru fáir formælendurnir, þeir voru margir andmælendurnir, og niðurstaða fundarins var sú, að það var samþykkt að mótmæla lögfestingu þessa frv.

Ég fæ því ekki betur séð en málið hafi fengið óvenjulega mikla andstöðu og sætt óvenjulegri gagnrýni, ekki aðeins hér innan þingveggjanna, ekki bara af málþófsmönnum, sem af einhverri stirfni hafa sett sig upp á móti málinu eða í sérvizku, heldur af nákvæmlega sömu ástæðum og málið hefur hlotið andstöðu hér, að það þykir ganga gegn hagsmunum fólksins í kaupstöðum og kauptúnum landsins, sem vitað er nú og upplýst að framleiðir meiri hlutann af kartöflum, sem ræktaðar eru á Íslandi, og er að langsamlega mestum hluta neytandi þeirra kartaflna, sem koma á sölumarkaðinn á Íslandi, því að meginhlutann af þeim kartöflum, sem bændur framleiða, éta þeir sjálfir, selja sjálfum sér og éta þær sjálfir og þeirra búpeningur. Það fer þess vegna ákaflega litið af þeim kartöflum á sölumarkaðinn. Hinar, sem eru á sölumarkaðinum, eru yfirleitt framleiddar í nágrenni kaupstaðanna og í kauptúnum og kaupstöðum, og þó að ekki séu teknir með kaupstaðir eins og Akranes og Sauðárkrókur, eins og upplýst er í þessu mikla nál., sem hér liggur fyrir, og ekki heldur nein þau kauptún, sem eru hluti af hreppum, og slík kauptún talin með hreppunum, þá er framleiðsla sveitarfélaganna langtum minna en helmingur af þeim kartöflum, sem ræktaðar eru hér á landinu.

Hv. þm. Dal. lét liggja að því, að kaupfélagsstjórarnir hefðu í fyrra verið á móti málinu, og það er víst ekki gott að neita því, að þeir voru á móti málinu í fyrra, a.m.k. kaupfélagsstjórarnir í öllum aðalkartöfluframleiðsluhéruðum landsins, því að það stendur skjalfest hér í fskj. nál. frá hv. minni hl. En hv. þm. Dal. lét að því liggja, að þeim mundi hafa snúizt hugur síðan. Ef svo væri, þá er ég sannfærður um, að kaupfélagsstjórarnir létu hér ekki standa svart á hvítu úrelta og afskrifaða afstöðu sína frá í fyrra. Svo rænulausir eru þeir ekki, að þeir hefðu þá ekki sent Alþingi grg. fyrir sinni nýju afstöðu og greint frá ástæðunni til þess, að þeir hefðu skipt um skoðun í málinu, t.d., að þeir létu það liggja núna augljóslega fyrir þinginu, að þeir hefðu breytt um skoðun á málinu vegna þeirrar breytingar, sem hefði orðið á frv. síðan. Það gæti verið alveg fullgilt. En það eru svo smávægilegar breytingar, sem hafa verið gerðar á frv. síðan í fyrra, að það dettur engum manni í hug, að kaupfélagsstjórarnir telji það valda úrslitum um afstöðu sína til málsins, enda er alveg víst, eins og ég var að enda við að segja, að ef breytingarnar eða aðrar ástæður hefðu valdið því, að kaupfélagsstjórarnir hefðu skipt um skoðun í málinu, þá er alveg óefað, að þeir hefðu verið búnir að senda Alþingi skjallega grg. sína fyrir því, að nú væri afstaða þeirra breytt, eins og málið blasti nú við. En hvorki hæstv. landbrh. né hv. þm. Dal. hafa imprað á því, að þeim hafi borizt nokkur slík vitneskja um breytta afstöðu kaupfélagsstjóranna frá því í fyrra. Ég fullyrði því, að þau vottorð, sem liggja hér fyrir frá því í fyrra um afstöðu kaupfélagsstjóranna í öllum aðalkartöfluframleiðsluhéruðum landsins, séu óbreytt í dag og það séu þeirra orð, sem þeir létu frá sér fara í fyrra, sem gildi í dag.

Það getur því ekki farið á milli mála: Kaupfélagsstjórarnir meðal annarra eru andvígir því, að grænmetisverzlun ríkisins sé lögð niður og þessi stofnun, grænmetiseinkasala landbúnaðarins, sett á í staðinn, en þá breytingu kölluðu sumir þeirra í fyrra hreina vitleysu, og er það nokkuð fast og ákveðið að orði kveðið.

Hv. þm. Dal. gerði verðlagsráð landbúnaðarins að umtalsefni. Ég held nú, að það sé ekkert til í lögunum, sem heitir verðlagsráð landhúnaðarins. Ég held, að þar sé talað um nefnd, sem skuli reikna út, hvaða verð skuli vera á landbúnaðarafurðum, þegar kaupgjald hafi breytzt í landinu. En það er ekki svo mikið haft við þessa nefnd, að hún hafi eiginlega neitt nafn. Það er bara nafngift hv. þm. að kalla hana verðlagsráð. Hún heitir ekki því nafni. Það er ekkert það, sem viðkemur verðlagsráði landbúnaðarins, sem er deilt um í þessu frv. Verðlagsráðið er ekki hér nefnt heldur og ekki einu sinni hin nafnlausa nefnd. Hún er ekki heldur nefnd. Það er ekki heldur látið í það skína, að hér sé verið að berjast fyrir öðru og breyttu verðiagi á kartöflum og grænmeti í landinu með þessari breytingu. Nei, þó að það kynni nú að vera tilgangurinn að reyna að tryggja hærra verð á kartöflum og grænmeti, þá er ekki látið í það skína á nokkurn hátt í frv., hvorki beint né óbeint, hvorki í línunum né á milli línanna, enda væri skammsýni mikil að láta slíkt sjást.

Ætli það sé nú svo, að framleiðendur hafi svo mjög mikið undan því að kvarta, hvernig grænmetisverzlun ríkisins hafi verðlagt grænmeti á undanförnum árum? Til er vitnisburður um það, hvernig verðlagningu hafi verið háttað. (Gripið fram í.) Það er framleiðsluráðið, já, og hvernig hefur það verðlagt að undanförnu? Í þessu mikla nál., sem kostar 80 þús. kr. án vaxta — (Gripið fram í: Umræðurnar kosta meira.) Umræðurnar, já, það væri nú skömm að því, ef umr., sem byggðust á 80 þús. kr. nál., kostuðu ekki neitt; það væri algert ósamræmi í því. En við skulum athuga hér, hvað í því ódýra nál. stendur um verðlagningu á grænmeti. Þar segir, að á árunum 1943–52 hafi álagningin á grænmeti stundum verið 100–170%, og hér er það nú orðað svona: „Það var 100–170% hærra en kostnaðarverð innfluttra kartaflna.“ En að meðaltali öll þessi ár var það frá 50–110% hærra. Er það meiningin, að þetta þyki ófullnægjandi álagning og að á bak við þetta frv. sé löngun til þess að búa þannig um, að það sé hægt að hafa þetta svolítið hærra? Mig langar til þess að vita það. Það sést ekki á frv. Það væri þess vegna ágætt, að það kæmi fram í umr. Það væri líka atriði til þess að hjálpa neytendunum í bæjum og kauptúnum til þess að taka skýra og ákveðna afstöðu til málsins, mynda sér skoðun um það, hvort þetta mundi vera hagsmunamál neytenda kartaflna í bæjum og þorpum.

Hefur nú réttur framleiðenda garðávaxta verið borinn svo mjög fyrir borð að því er snertir aðra þýðingarmikla þætti þessa máls? Er það af þeirri nauðsyn, sem þetta frv. er fram boríð, að það sé verið að rétta hlut bænda og framleiðenda, sem hafi verið fyrir borð borinn að því er snertir þessa framleiðsluvöru? Hverjir hafa t.d. rétt til að selja grænmeti nú undir lögunum um grænmetiseinkasölu ríkisins? Eru lögin um grænmetisverzlun ríkisins svo þröng, að þau heimili ekki bónda, sem framleiðir kartöflur, að selja sínar kartöflur? Nei, þau eru svo rúm, að framleiðendum og öðrum er heimilt að selja innienda garðávexti alveg frjálst. Ekki þarf að setja ný lög til þess að útvega bændum þann rétt. Þeir hafa hann. Þeir mega selja frjálst innlenda garðávexti. Í nál. ódýra segir: „Samkvæmt lögunum um ríkiseinkasölu á innfluttum kartöflum er framleiðendum og öðrum heimilt að selja innlenda garðávexti.“

Hvað vilja þeir þá meira? Þeir geta annazt söluna sjálfir. Ef þeim er illa við grænmetisverzlun ríkisins, þurfa þeir ekkert til hennar að leita. Þeir þurfa ekki endilega að vera að biðja hana að selja sínar kartöflur. Þá gera þeir það sjálfir. En þeim hefur líkað svo vel við grænmetisverzlun ríkisins, að þeir hafa ekki notað sinn lagalega rétt, sitt lagalega frjálsræði til þess að selja kartöflurnar sjálfir. Þeir hafa selt meginhlutann af sínum kartöflum í gegnum grænmetisverzlun ríkisins. Til hvers? Aðallega til þess að fá niðurgreiðsluuppbót á kartöflurnar sínar. Og sagan segir, og ég hygg, að það sé nú eitthvað til satt í því, að til þess að fá greiðsluna úr ríkissjóði séu kartöflur, sem ræktaðar eru í sveitum, sendar hingað í grænmetisverzlun ríkisins og síðan keyptar þar aftur til þess að borða þær í sveitunum. Og hvaða erindi hafa þær átt hingað? Til þess að fá niðurgreiðslupeningana. Þetta er vitanlega lagalegur réttur, sem mætti heita skammsýni af bændum, ef þeir notuðu sér hann ekki. En staðreyndin er, að þrátt fyrir það að bændur hafi fullan rétt til þess að annast sölu á sínum garðávöxtum sjálfir, þá hafa þeir ekki notað sér hann, heldur látið þetta ganga í gegnum grænmetisverzlun ríkisins. Það þarf því ekki neitt nýtt lagafrv. eða nein ný lög, til þess að bændur fái sjálfir að selja sínar kartöflur frjálst. Það verður enginn þeirra hýddur við staur út af því. Þeir eru í lagalegum rétti með það. Þeir þurfa engum lögum að breyta til þess að fá þann rétt.

Þá er það eitt atriðið enn, sem skiptir miklu máli fyrir þann, sem framleiðir kartöflur. Það er með matið á kartöflunum. Í hvers hendi er matið núna? Er það í hendi einhvers fjandsamlegs aðila? Þarf að breyta lögum til þess að koma því í hendur einhvers vinveitts aðila eða einhvers réttláts aðila? Nei, ekki er þörf á breytingu á lögum til þess, því að staðreynd er, að framleiðsluráð landbúnaðarins, einmitt framleiðsluráð landbúnaðarins, það, sem þetta frv. snýst um fyrst og síðast og vill leggja öll völd í hendur; fer með þetta vald núna að óbreyttum lögum.

Í drögum að nál. og till. um skipan matjurtasölunnar, á bls. 127, segir: „Þegar rætt er um skipan matjurtasölunnar, er nauðsynlegt að hafa í huga, að grænmetisverzlunin framkvæmir dreifinguna, ákveður verðlag og framleiðsluráð landbúnaðarins sér um framkvæmd matsins.“ Matið á þessum framleiðsluvörum er í höndum framleiðsluráðs nú og verður það. Ekki þarf því nýja lagasetningu til þess að færa þetta vald í hendur bænda eða framleiðenda kartaflna í sveitum. Ég held, að það sé því augljóst mál, að lögin um grænmetisverzlun ríkisins níðast ekki á bændum. Þau ætla þeim rétt til verðlagningarinnar. Þau ætla umboðsmönnum þeirra rétt til að framkvæma matið, bændunum frjálsræði, ef þeir vilja, til þess að selja sína eigin framleiðslu sjálfir. En með þessu frv., sem hér er til umræðu og sætir andstöðu yfirleitt fulltrúanna úr kaupstöðum og kauptúnum, er ætlazt til þess, að öll ráð yfir þessum málum séu tekin úr höndum hlutlausra aðila, sem líklegir væru til að gæta hagsmuna beggja aðilanna, og í hendur framleiðsluráðs eingöngu. Það teljum við vera ranglátt, og þess vegna beitum við okkur gegn málinu. Ef ég hefði fundið nokkurt atriði, smátt eða stórt, þar sem mér hefði fundizt nú í gildandi löggjöf stigið á strá bændanna og þeirra réttur vera þrengdur um of, þá hefði ég verið fús til þess að koma til móts við hv. þm. Dal. og aðra slíka fulltrúa bænda um að rýmka það og láta þá fá sinn fulla rétt. En ég get ekki fallizt á hitt, að fótumtroða rétt þess meiri hluta þjóðarinnar, sem býr í kaupstöðum og kauptúnum og er ekki hlutlaus aðili í þessu máli, heldur framleiðir meginhlutann af þeirri vöru, sem hér er verið að tala um, og étur langsamlega mestan hluta af henni. Það er ekki hægt að deila um það, að kartöflurnar eru öndvegisrétturinn á borði hins fátæka manns hér í þessu landi. Á borði bóndans ern kartöflurnar aukaréttur með hans góða kjöti og öðrum slíkum krásum og er þannig miklu þýðingarminna atriði í hans fæðu en kartaflan er í fæði kaupstaðarbúans.

Hv. þm. Dal. vék að því,. að það væri einmitt ætlun þessa frv. að skapa jafnrétti um þessi mál. Ja, ég vil ekkert ljótt segja um hv. þm. Dal., mér er svo vel við hann, en ég held nú, að hann hljóti að hafa mælt þetta gegn betri vitund. Þetta frv. er ekki þesslegt, að það sjái vel fyrir jafnrétti framleiðandans og neytandans. Það er allt saman á eina bókina lært, á þann veg að taka réttinn af neytandanum og færa hann yfir til framleiðandans, ekki framleiðandans almennt í landinu, heldur bara framleiðandans, sem býr í sveit og á fulltrúana í framleiðsluráði landbúnaðarins sem sína umboðsmenn. Málið er því ekki byggt á jafnréttisgrundvelli, og í því skeikar hv. þm. Dal. mjög. Ég trúi því ekki, að hann geti lagzt svo til hvíldar í kvöld, ef hann gefur sér tóm til þess að hugsa um málið, að hann komist ekki að þeirri niðurstöðu, að í þessu atriði hafi hann vaðið í villu og svima og eigi með sólarupprás næsta dags að taka aðra afstöðu til málsins til þess að hafa ekki brennt sig á því að hafa léð röngu máli stuðning.

Hv. þm. Dal. sagði, að það væri frekar einkennilegt, að við skyldum eingöngu ræða um kartöflurnar. Þó féllst hann nú á við nánari athugun, að það væru aðallega kartöflurnar og sölumeðferð þeirra, sem féllu undir aðalatriði frv., en frv. fjallaði óneitanlega einnig um sölumeðferð og framleiðslu á rófum og öðru grænmeti. Og það er alveg rétt hjá honum. En um þetta er nefnilega nákvæmlega sama að segja og kartöflurnar. Aðrar tegundir grænmetis eru ræktaðar að meginstofni til utan sveitanna. Hvar eru gróðurhúsasvæðin á Íslandi? Upp til sveita? Nei, það er mjög sjaldgæft að sjá gróðurhús í sveitum. Það er mjög sjaldséð. Þetta er yfirleitt í kaupstöðum og kauptúnum. Hvað er með Hveragerði? Ætli það sé ekki nokkuð mikill hluti af grænmelinu, sem framleiddur er í gróðurhúsum í því kauptúni? Það má vera, að það sé talið með sveitum, en engu að síður er þetta nú kauptún, og það eru engir bændur, sem þar eru að verki. En þarna á að leggja þeirra mál alveg undir framleiðsluráð landbúnaðarins, og þeim er ekki ætlaður neinn réttur, þessum garðyrkjubændum, gróðurhúsaeigendunum. Þeim var ekki ætlaður neinn réttur samkvæmt frv. Það er fyrst núna, að hv. landbn., meiri hluti hennar, hefur rausnazt til að bera fram brtt. í þá átt; að þegar rætt sé um málefni, er varði Sölufélag garðyrkjumanna eða Samband eggjaframleiðenda, þá beri að gefa fulltrúum þeirra félaga, einum frá hvoru, kost á að sitja fund framleiðsluráðs með málfrelsi og tillögurétti. Þegar rætt er um mál þessara framleiðenda á grænmeti, mega þeir koma á fund framleiðsluráðsins og mega tala og mega leggja til í sambandi við sín mál það, sem þeim þykir rétt vera, en atkvæðisrétt hafa þeir ekki. Þeir eru atkvæðislausir menn á þessum fundi um sín eigin mál. (Gripið fram í.) Ja, það væri of mikil nízka að boða þá á fundinn og segja: Svo verðið þið að þegja. — Það væri ekki gott. Nei, þið megið tala, megið tala í belg og biðu, en atkvæði, það er of hættulegt að láta ykkur hafa. Það eru atkvæðin, sem ákveða, hvað verður gert í málinu. Það á framleiðsluráðið að annast. Þetta er rétturinn. Þetta er jafnréttisgrundvöllurinn þarna. En það er ekkert í frv. og ekkert í till., sem eru að koma núna smátt og smátt frá hv. meiri hl. n., um það, að neytendurnir almennt eða fulltrúar frá þeim megi koma þarna og hafa málfrelsi eða tillögurétt. Nei, þeir hafa ekki þann rétt einu sinni. Þeir skulu halda sér fjarri. Neytendunum kemur þetta ekkert við, hafa hvorki málfrelsi né tillögurétt og auðvitað þaðan af síður nokkurn atkvæðisrétt.

Svo þegar málið var búið að vera lengi hér á döfinni og farið að verða að umræðuefni manna á meðal, þá kom n. saman á fund og sagði: Jú, það er ein stétt manna, sem verður að hafa einhvern rétt í sambandi við þetta mál. Það eru kaupmennirnir, smákaupmennirnir. — Ég á von á því, að innan stundar komi tili. um, að heildsalarnir verði líka að fá að koma a.m.k. með málfrelsi og tillögurétt.

Þetta mál er orðið miklu fremur mál kanpmannanna, Sambands smásöluverzlana, heldur en neytendanna í bæjunum. Það má vel ganga fram hjá rétti þeirra, en kaupmennirnir urðu að mega koma þarna, og þeir eiga að hafa sama rétt og Sölufélag garðyrkjumanna, mega senda fulltrúa á fund framleiðsluráðsins, þegar rætt er um málefni, sem varða kaupmennskuna sérstaklega, varða mál Sambands smásöluverzlana. (Gripið fram í.) Já, það er auðvitað, þeir verða að koma til þess að benda þeim á, hvað þeir megi til með að leggja mikið á, að 170% dugi þeim ekki, það verði að vera meira. Það hefði nú verið skárra, ef þetta mál hefði verið afgr. þannig, að það gæti ekki borizt rödd frá kaupsýslunni, frá kaupmönnunum, sem eiga að selja kartöflurnar og vitanlega verða að sjá sér borgið og hafa frjálsræði til þess, og þeir verða að fá að tala um þetta, áður en hið almáttuga framleiðsluráð hefur ákveðið verðið allt of lágt. Fyrir þessu er séð. Að vísu er þeim ekki veittur meiri réttur en þeim, sem framleiða grænmeti í gróðurhúsum, þeir mega hafa málfrelsi og tillögurétt, en þrátt fyrir þennan skarða rétt þessara aðila hvorra tveggja er þeirra réttur þó miklu ríflegri en þeirra, sem eiga að kaupa kartöflurnar í búðunum og neyta þeirra í kaupstöðunum, jafnvel þó að sumir þeirra séu framleiðendur þeirra líka. Þeir eiga, af því að þeir eru neytendur í kaupstöðum, engan rétt að hafa, hvorki málfrelsi né tillögurétt í þessum málum. — Ég vil vona, að þeir hv. þm., sem eru hér í hliðarherberginu, séu að tala um kartöflur, því að annað þætti mér óviðurkvæmilegt.

Eitt af því, sem hv. þm. Dal. vék að, var það, að þessi afstaða okkar, sem hefðum barizt á móti þessu frv., væri eiginlega úrelt, það væri svípuð afstaða og þeirra, sem hefðu verið að berjast á móti vöruvöndun að því er snerti framleiðslu kjöts fyrir mörgum áratugum, sem hefði valdið því, að menn hefðu fengið vont kjöt og orðið að borga það jafnvel eins dýru verði og ágætiskjöt. Ég finn engan skyldleika með þessu tvennu. Ég held einmitt, að við séum einmitt m.a. að berjast á móti þessu frv. af því, að það færir allt vald að því er snertir sölu þessara vara og meðferð alla í hendur framleiðsluráðs. Það er staðreynd, sem ég veit að hv. þm. Dal. er ekki ókunnug, að grænmetisverzlun ríkisins og hennar starfsmenn og forstöðumenn hafa því miður orðið að berjast stundum við framleiðsluráðið út af því, að það hefur ekki viljað fallast á eins strangt mat á kartöflum sem viðunandi söluvöru til kaupstaðabúanna og grænmetisverzlun ríkisins hefur talið sér skylt að reyna að tryggja. Ég er því alveg viss um það, að einmitt lagasetning eins og þessi verður til þess, að það verður slappara mat á þessum vörum, það verður verri söluvara, sem við fáum, sennilega á hærra verði líka. Og þessi lagasetning kemur því til að verka alveg þveröfugt við það, sem hv. þm. Dal. vildi láta í veðri vaka að hún mundi gera.

Hins vegar er nú enga prýðilega sólarsögu að segja af mati á kjöti eins og það er framkvæmt í landinu með það fyrir augum að tryggja neytendunum í kaupstöðunum fyrsta flokks kjöt. Jú, það er sannleikur, það fer fram mat á kjöti af eiðsvörnum mönnum á haustin; og það er skoðað af dýralæknum, og það er settur grænn stimpill á gott kjöt. En fyrir hverja er það mat aðallega? Ætli það sé ekki aðallega fyrir aðra en neytendurna í kaupstöðunum, því að við vitum ekki til þess, að við eigum kost á því í nokkurri verzlun að velja á milli þess, hvort við viljum kaupa dýrt fyrsta flokks ágætiskjöt eða ódýrt annars og þriðja flokks kjöt? Ég hef aldrei frétt af því. Ég veit ekki, hvað verður af því kjöti, sem kjötmatsmennirnir ákveða að sé annars og þriðja flokks kjöt. Það virðist allt fara ofan í neytendurna sem fyrsta flokks kjöt og er þó áreiðanlega ekkert betra fyrir það, ekkert minna seigt, ekkert horaðra. Kjötsölumálin eru að þessu leyti ekki í æskilegu horfi, og til þess þýðir því ekki að vitna sem einhverrar fyrirmyndar, sem þetta frv. ætli að stefna að að bjarga kartöflumálunum í svipað horf og búið sé að gera með kjötmatslögunum.

Ég sé það nú, að síðan ég talaði síðast, er búið að bæta við brtt. hv. n., og liggja þær nú fyrir á þskj. 379. Í viðbót við þessar réttarbætur Sölufélags garðyrkjumanna og smákaupmanna er nú búið að átta sig á því, að það þurfti að breyta dagsetningum hér og þar í frv., frá því að það var samið. Það þurfti t.d. að breyta dagsetningu í 4. gr., færa það aftur til 1. sept. 1956, þ.e.a.s. á næsta hausti, í staðinn fyrir að þar var miðað við 1. janúar, fyrsta dag þessa árs, janúar 1956. Það hafði láðst við fyrstu endurskoðunina. Svo er auðvitað um gildistökudaginn, að frv. var ætlað að taka gildi 1. janúar 1956. Nú er ekki lengur fært að láta það standa, þetta hefur allt saman verið svo lengi að bögglast fyrir brjósti manna, að nú á þarna að koma 1. september 1956. En það, sem er ánægjulegast að sjá í brtt., er þó það, sem er furðulega seint á ferðinni, en margsinnis hefur verið bent á í þessum umræðum, að það er ekki til einn stafur um það í frv., með hvaða hætti eigi að selja þau milljónaverðmæti, sem ríkið er nú eigandi að og grænmetisverzlun ríkisins á, þ.e.a.s. ríkið. Ég hef bent á, að það stæði ekkert um það, hvort söluverðið ætti að vera samkvæmt mati eða hvort það ætti að auglýsa þessar eignir til sölu og selja þær hæstbjóðanda. Nú er alveg víst, að það hefur ekki verið ætlunin eftir öðrum efnisatriðum frv., að það væri neinni hendingu háð, hvar eignir grænmetisverzlunar ríkisins lentu. Þeim var ætlað að lenda á þeim eina og sama stað, hjá þessari stofnun, sem á að heita grænmetisverzlun landbúnaðarins, og með einhverjum hætti átti hún að fá eignirnar, og það er ekkert í frv., sem hægt væri að segja að væri brotið, þó að þessar eignir væru seldar á eina krónu. Það væri sala, það héti sala, það fullnægði eins og frv. er. Nú stendur: Það skal selja þær eða leigja eftir mati dómkvaddra manna. — Þarna er það viðurkennt, að þetta var gat í frv., svo stórt gat, að nú hefur ekki þótt annað fært en að troða einhverju í það, og það er búið að troða þessu í það, sem blasir nú við okkur á þskj. 379, að í stað þess að „selja“ í c-lið komi: selja eða leigja eftir mati dómkvaddra manna. — Ég verð að segja, að þetta er veruleg umbót á frv., og hefði auðvitað verið, eins og margsinnis var búið að taka fram, alveg óforsvaranlegt að heimila bara að koma nafni á sölu á milljónaverðmætum ríkisins í sambandi við þetta frv.

Að því er snertir þá dómadags hrákasmíð, sem er á málfari frv., þá virðast nú aðfinnslurnar að því er það snertir hafa leitt til þess, að farið hafi verið yfir frv., og þá er það aðeins eitt, sem er lagfært. Ja, ég verð nú að segja, að ekki eru nú gerðar strangar kröfur til meðferðar móðurmálsins í sambandi við kartöflufrumvarp, það hlýtur að vera eitthvað sérstakt. Það er aðeins eitt, sem nú á að breyta, og það er í 4. gr., í stað orðanna „bann þetta nær“ í d-lið komi: ákvæði þetta tekur. — Jú, það var náttúrlega ekki vei gott að láta þetta standa í lögum, því að í meginmáli frv. stendur þetta svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin (landbúnaðarráðuneytið) hefur einkarétt til að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeti.“ Og svo kemur: „Bann þetta nær þó ekki til þeirra skipa, sem koma í landhelgi og hafa innanborðs kartöflur og grænmeti“ o.s.frv. Þetta var ágætt. Í frv., sem er búið að hamra á á þremur þingum Stéttarsambands bænda, er þeirra hjartans mál, sem þeir hafa lagt alla sál sína í að búa stásslega og vel úr garði að efni og innihaldi, segja þeir: ríkisstjórnin hefur einkarétt, og bann þetta nær þó ekki til skipa, sem hafa kartöflur innanborðs en skipa, sem hafa kartöflur utanborðs, náttúrlega, það gegnir öðru máli um þær. Það þarf endilega að taka fram, að þær séu innanborðs.

En það var bara margt annað, það var hver einasta setning og hver einasta grein í frv., sem þurfti að semjast um. Það var ekki bara þetta, þessi réttindi, sem hétu í næstu andránni bann, sem þurfti að laga. Það er jafnforsmánarlegt og svívirðilegt af Alþingi að afgr. þetta frv., þó að ekkert væri að því annað en bara málvillurnar í hverri einustu setningu, og bætir lítið um, þó að þessi eina leiðrétting hafi nú fengizt fram. Hver skilur vaxtaraukann í 3. gr.? Hvaða þýðingu hefur það í lögum að segja, að framleiðsluráð landbúnaðarins geti gert hitt og annað? Hvaða rétt tryggir það? „Það getur haft eftirlit með meðferð matjurta.“ Það getur líka alveg látið það vera. Það væri allt annað mál og hefði innihald, ef það stæði: Það skal hafa eftirlit með meðferð matjurta, sölu þeirra, og það skal stuðla að beztu aðferðum við ræktun og flutning o.s.frv. (SkG: Fjöldamörg lög eru í heimildarformi hér á landi.) Í heimildarformi, já, það er víða talað um, að ríkisstj. sé helmilt að gera hitt eða þetta. Það er hvergi sagt í lögum: Ríkisstj. getur gert. (Gripið fram í: Þýðir það sama.) Það þýðir ekki það sama. Þessu er rubbað upp af fljótfærum mönnum, sem ekkert kunna til að semja frv. Þetta bindur engan við neitt, það tryggir engum neitt, því að segja í lögum, að aðili geti gert eitthvað, það þýðir jafnframt, að ef hann geri það ekki, þá hafi hann engin lög brotið; hann getur líka látið vera að gera það.

Einn hortitturinn, ein mótsögnin er þó fallin burt úr frv. Í staðinn fyrir bannið, sem þýddi heimild, er komið: ákvæði þetta, og það er til bóta, það skal játað. En það liggur bara fyrir hv. landbn. eða meiri hluta hennar miklu meira verkefni en þetta. Hún þarf að taka sig til eina dagstund og semja frv. um, bera það svo að okkur á ný og láta okkur þá tala eingöngu um efnishlið þess, en ekki málið á því, því að málið er til forsmánar.

Þá skal ég segja það enn fremur, að það gleður mig stórlega, að nú er svo komið, að hv. meiri hl. n. hefur fallizt á að bera fram sjálfur þá brtt. við 5. gr., að d-liður 5. gr. skuli falla niður. Það veit ég að hefur ekki verið sársaukalaust einstaklingunum í stjórn Stéttarsambands bænda, sennilega ekki verið borið undir þá. D-liðurinn, sem nú á að falla niður, er nefnilega ekkert hey fyrir þá, sem standa að þessu frv., sízt af öllu úthey. Í honum segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Greiða skal verðjöfnunargjald af matjurtum, ef framleiðsluráð telur nauðsynlegt, til þess að hægt sé að jafna verðið milli söluvara annars vegar og vinnslu- eða fóðurvara hins vegar.“ Þetta var nefnilega nýsmíði, nýtt atriði í lagasetningunni, þetta með verðjöfnunargjald af matjurtum, og það var heimílt að skella því á, ef framleiðsluráðið teldi það nauðsynlegt til þess að jafna verðið milli söluvara, þ.e.a.s. til neytendanna, annars vegar og vinnslu- eða fóðurvara hins vegar. Það er vitað, að þegar gott kartöfluár er, fer nokkur hlutinn af kartöfluframleiðslunni í skepnufóður, sem eðlilegt er og rétt. Það var höfuðyfirsjónin 1953, að bændur áttuðu sig ekki á því fyrr en allt of seint, að þeir áttu að nota nokkuð verulegan hluta, einmitt þann lélegasta, úr kartöfluuppskeru þess árs til skepnufóðurs. Í stað þess var reynt að svæla þessu öllu inn á markaðinn, honum var ofboðið, það seldist ekki nema nokkur hluti af framleiðslunni og ýmist góðar eða lélegar kartöflur urðu svo að skít, þegar á leið árið, og varð að kasta því í sjóinn. Ég kom austur á Hornafjörð snemma hausts það ár og sá þá dyngjur af skít, sem hafði verið kartöflur, svörtum skít, og það átti þá næstu daga að fara að moka því í sjóinn. Hvort það hefði nú ekki verið skynsamlegra að vinza strax í byrjun ársins það bezta úr þessum kartöflum, setja það á sölumarkaðinn til neytendanna, en taka smælkið og úrganginn og nota sem skepnufóður á því ári og hafa þannig af því verðmæti, — bæði mennilegra og hagkvæmara bændunum eða framleiðendunum í þessu tilfelli.

Nú var sem sé tilhneiging þarna til að setja bara á verðjöfnunargjald til þess að hækka verðið á þeim kartöflum, sem kynni endrum og eins að verða varið til skepnufóðurs eða annarrar vinnslu. Ég spurðist fyrir um það hér á fyrra stigi málsins, hvað væri átt við með vinnslukartöflum. Eru kartöflur notaðar hér á landi í einhverjum iðnaði, til einhverrar vinnslu? Það er kunnugt erlendis, að það er gert. Kartöflur eru notaðar til áfengisframleiðslu víða, í brugg. Var þarna ætlunin, að framleiðsluráð stofnaði til þeirrar framleiðslu og ætlaði að fá verðjöfnunargjald greitt á slíkar kartöflur, sem notaðar væru til þess að búa til áfengi úr? Ég veit það ekki, ég hef ekki fengið neitt svar. Það er ekki svo gott að ráða það, hverju tómir stólar kunni að vera að leitast við að svara — eða þöglir þm. eða fjarverandi ráðh. Það hefur enginn fengið neina vitneskju um þessar vinnslukartöflur, og það fer nú að skipta reyndar minna máli, af því að nú er lagt til af hv. nefndarmeirihl., að d-liðurinn skuli falla niður. Það á að kasta honum fyrir borð. Þar með er farið verðjöfnunargjaldið og þetta með vinnslukartöflurnar, og það verð ég að segja, að þar sýnist mér hv. meiri hl. landbn. hafa teygt sig lengst í þá átt að reyna að skapa möguleika til þess, að frv. fengist frekar samþykkt. Þarna er efnisatriði, sem áreiðanlega vakti mikla andúð meðal neytendanna, fellt burt. Verð ég að játa, að það er til bóta, að þessi liður hverfi alveg burt úr frv.

Ég held nú, að þar sem það er augljóst mál, að þessar umræður hafa nú þegar leitt til nokkurra að vísu kákkenndra lagfæringa á frv., þá sé full ástæða til þess að æskja þess, að framhaldsendurskoðun fari fram í landbn. á málinu, því að það bendir allt til þess, að eftir því sem hún athugar þetta betur og fær til þess rýmri tíma, þá fari eins og með karlinn í Arnarfirði, sem átti að vera forsöngvari í sinni kirkju og var nú ekki alltaf hittinn á réttan tón í byrjun lagsins, og ekki heldur fólkið, sem með honum átti að syngja, enda hafði það ekki mikla möguleika til að koma saman til æfinga, en hann sagði bara við fólkið: Byrjið þið aftur, piltar, þið jagið ykkur á það, þið jagið ykkur á það svona. — Og svo komst það smátt og smátt inn á lagið og endaði allt á réttum tón. — Þeir eru að byrja í hv. landbn. þessarar deildar að jaga sig á það, og ég eggja þá til þess að halda áfram, því að ég er sannfærður um, að að lokum jaga þeir sig á það að leggja til, að þessu frv. skuli vísað frá og að grænmetisverzlun ríkisins skuli starfa áfram til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur, eins og hún hefur gert, og þá eru þeir búnir að finna rétta tóninn, þá eru þeir komnir á lagið. Ég fagna þessu mjög og tel, að það sé alveg sjálfsagt að gefa þeim kost á að halda áfram sinni athugun á málinu, því að með þessu, sem þegar hefur fengizt hér á þskj. í breytingartillagnaformi, er sýnt, að þeir eru menn til þess, ef þeir leggja sig fram, að umbæta þetta mál bæði að efni og formi. Þekkinguna vantar þá ekki á landbúnaðarmálum, og góðvilja eiga þeir til í fórum sínum. Þeir mega bara ekki vera of sparir á hann í sambandi við þetta mál. Og ég vil minna þá á, að það eru fleiri mannlegir eiginleikar mikils virði en bara auðmýkt og þægð. Þægð við vondan málstað er alltaf ámælisverð, er engin dyggð, það er ódyggð. Og hingað til er það staðreynd, að menn hafa hér verið of þægir við vondan málstað. Menn hafa hér hunzkazt til þess að rétta upp hendurnar meira að segja með þessu máli, þó að þeir hafi rétt á undan verið að jála það fyrir fleiri en einum manni, að þeir hefðu ógeð á málinu og að þeir hefðu skömm á því og fyndu af því ólykt. Og það hefur gengið svona hægt og hægt, smátt og smátt, að það hefur verið að bætast nýr og nýr maður, sem hefur játað það, að nú fyndi hann ólyktina af málinu. Sá seinasti, sem játaði það, var okkar fíni og prúði borgarstjóri í Reykjavík. Nú er hann búinn að finna ólyktina af málinu. Og það sýndi sig við atkvgr. núna seinast um málið í því, að hann fékk sig ekki til, þrátt fyrir flokkssamþykktir, þrátt fyrir handjárn, að rétta höndina á loft. Hann sat, lét sig hafa það, óhlýðnaðist þingflokki, sat hjá. Hann er líka að jaga sig á það. Ef hann fengi nægan tíma til, þá gæti farið svo, að hann kæmist á lagið og greiddi atkv. á móti. Þetta mál þarf því bara sinn tíma. Það kemur. Og ég er alveg viss um, að það ber að harma, ef menn verða látnir greiða atkv. um það og samþykkja það, áður en þeir eru búnir að átta sig til fulls á efni þess og innihaldi.

Hv. þm. Dal. lét í ljós þær vonir og óskir, að þegar málið kæmist að leiðarenda, þá yrðu allir sammála um það. Ég vona það. Ég álít bara, að það eigi talsverða leið eftir enn þá, og tel allt benda til þess, m.a. brtt. hv. meiri hl. landbn., að menn séu á réttri leið. Það er byrjað svolítið að lagfæra þessa ómynd. En þeir eru bara á byrjunarstigi enn þá. Þeir eiga svo langt í land með að laga þetta eins og nauðsyn er og þörf krefur. Að leiðarenda þyrftum við helzt að verða sammála um málið, ekki á þann veg, að menn samþykki það, heldur þurfa þeir að vera samhentir og samtaka um að fella það, ef það þarf endilega að ganga svo langt. Við þurfum miklu fremur að verða sammála um að víkja því frá okkur með fyrirlitningu og neita að láta bjóða okkur að vera að greiða atkv. um þetta. Ég gæti t.d. á stundinni og veit, að það er meiri hl. í þinginu í hjarta sínu samþykkur því að verða sammála um þetta mál að leiðarenda beint ofan í bréfakörfuna. Það get ég hugsað mér strax í dag. Þar ætti það að lenda.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur borið fram brtt. við þetta mál, og ég verð að játa, að hans brtt. fara allar í þá átt að tryggja betur rétt neytendanna, og þó held ég, að hann gæti þess hófs að ganga í engu á rétt framleiðenda kartaflna og grænmetis í sveitum landsins. Sé ég því ekki annað en að þeir, sem yfirleitt vilja taka efnislega afstöðu til þessa máls á annan hátt en að greiða atkv. á móti því og vilja reyna að breyta því, þá séu þeir menn á réttri leið, sem vilja breyta frv. í þá átt, sem hv. 2. þm. Reykv. gerir, og ég mundi því hiklaust geta greitt atkv. með hans breytingum. En ég tel, að það beri fyrst og fremst að biðja máttarvöld þingsins að taka þennan kaleik frá okkur, vera ekki að misbjóða okkur með því að láta okkur taka efnislega afstöðu til þessa. Ég vil miklu fremur fá þessu máli vikið frá. Nú er þingdeildin búin að fella frávísunartillögu í málinu, nokkuð harðorða að vísu, en það samrýmist fyllilega þingsköpum eftir sem áður að bera fram við 3. umr. málsins mildari frávísunartillögu, því að vel væri hugsanlegt, að þm. vildu fallast á það sama í mildara formi. Nú hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 373 tillögu til rökstuddrar dagskrár, og er hún þó í raun og veru miklu fremur till. um að vísa málinu til stjórnarinnar. Ég hélt nú reyndar, að það ætti ekki eftir að henda mig að sýna þessari hæstv. ríkisstj. það traust að vísa máli til hennar, en það hef ég þó gert, talið það skárri kost af tvennu illu en að eiga að fara að greiða atkv. um málið eða að fara að taka þátt í að reyna að lappa við það, breyta því í einstökum atriðum, því að það er ófullnægjandi, það verður að gerbreyta því bæði að efni og formi, ef það á að vera hægt að samþykkja það. Sannarlega teldi ég t.d. till. hv. 2. þm. Reykv. til bóta, ef þær væru samþykktar, og ég segi, ef þær yrðu samþ., þá sæi ég mér samt ekki fært annað en greiða atkv. á móti frv. í heild, því að það væri svo lítið lagfært eftir sem áður, að það væri ekki hægt að samþykkja það þannig breytt.

Til hvers er að vísa málinu til stjórnarinnar? Jú, það er líka að því vikið í minni till. Ég tel eðlilegt, að málinu verði vísað til stjórnarinnar í trausti þess, að hún undirbúi það til flutnings á næsta þingi. Þá tel ég, að hún þyrfti að athuga í fyrsta lagi, hvort hún teldi nauðsyn að breyta núverandi skipulagi, og ef hún kæmist að þeirri niðurstöðu, að það væri nauðsyn, annaðhvort þjóðarnauðsyn eða bara nauðsyn bændastéttarinnar á Íslandi, þá þyrfti hún að setja menn í að semja frv. upp á nýtt og áreiðanlega að finna annað form á framkvæmd þessara mála en þetta frv. leggur til. Og síðan hef ég gert ráð fyrir því, að ef hún teldi nauðsynlegt að breyta núverandi skipulagi, þá kæmi hún með það fyrir næsta þing. Þess vegna teldi ég sjálfsagt, eftir að búið væri að fela hæstv. ríkisstj. það umboð, að eyða ekki meiri tíma þingsins í afgreiðslu þessa máls og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Ég hef þó í sambandi við þetta, ef málið skyldi skjóta hér upp kolli á næsta þingi, leyft mér að benda á leið, sem ég teldi líklegri til þess, að um hana fengist friður bæði neytenda og framleiðenda. (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á það, að kl. er orðin 7. Ég hafði gert mér og hef reyndar enn þá von um, að þessari umr. mætti verða lokið um þetta leyti. Ef þess er ekki kostur, þá hefst fundur að nýju kl. hálf níu, en ég ætla, að hv. þingdeildarmenn telji ekki mikla nauðsyn á því, og væri æskilegt, ef hv. ræðumaður vildi athuga, hvort hann sér sér ekki fært að stytta mál sitt svo, að hann hefði lokið ræðu sinni á fimm mínútum.)

Já, ég skil það, að hæstv. forseti vilji fá að neyta kvöldverðar, og það væri ekki nema sanngjarnt, að við fengjum það allir. En það er nú eiginlega þannig vaxið mál, að ég hef eiginlega enga samúð, hvorki með hæstv. forseta né neinum öðrum, þó að þeir neyti ekki svefns eða matar í sambandi við þetta mál, því að ég tel, að það sé nokkuð strangt á haldið, þegar þingmenn eru boðnir í veizlu til sinnar ágætu ríkisstjórnar eða eins af ráðherrunum, eins og var nú í dag, að þá var seilzt til þess að boða þingfund á sama tíma. Það er sýnt, að það hefur ekki verið ætlunin, að menn neyttu þar matar eða drykkjar a.m.k. á þessum eftirmiðdegi, sem manni var boðið í veizlu til landbrh., þess ráðh., sem þetta mál heyrði undir. Ég verð að láta það í ljós, að ég tel í raun og veru algerlega ósæmilegt, að þingfundum sé haldið áfram, þegar þm. eru í boði , hjá ráðh. þess málaflokks, sem umræðumál heyrir undir. En þessari kurteisi höfum við orðið að sæta í dag. Það er ekki sök hæstv. forseta, ég játa það, því að vera má, að hann hafi kannske ekki vitað um þetta. En ég tel samt líkur til þess, að hann hafi vitað um það og þá annaðhvort ætlazt til þess, að boðsgestirnir geti ekki verið viðstaddir, geti ekki þegið boðið, eða ætlunin hefur verið, að þeir ættu þar að hafa skamma viðdvöl a.m.k. Ég tel ekki eftir sjálfum mér, í staðinn fyrir að ég hef forsmáð boð hæstv. landbrh., að vera hér í kvöld. (Forseti: Ég óska ekki eftir samúð hv. ræðumanns í sambandi við þetta mál. Ég vil heldur votta honum samúð yfir því að standa hér í ræðustólnum og halda að mestu sömu ræðuna hvað eftir annað. Ég þykist ekki sem forseti hafa sýnt neitt ofbeldi í þessu máli. Ég vil benda hv. ræðumanni á, að það hefur verið í mínu valdi að skera niður umr., en hef ekki gert það. Það skal ekki skorta á, að hv. ræðumaður fái matarhlé, fyrst hann var svo óheppinn að hafa ekki fengið neina hressingu í þeirri veizlu, sem við að vísu vorum báðir staddir í, og hef ég ekki undan þeim tækifærum að kvarta, sem mér veittust þar.

Ef hv. ræðumaður telur sig ekki geta á 5 mín. lokið ræðu sinni, þá verður gert fundarhlé til kl. hálf níu.) Ég kann nú ekki við að fara að skattyrðast við hæstv. forseta, en ég legg það á hans vald, hvort það sé kurteisi að halda áfram fundum, meðan þm. eru í veizluboði hjá ráðh. Hann má hafa þá skoðun, ef hann vill, hann má verja hana úr forsetastóli, ef hann vill, en það er ekki kurteisi, hvað sem öðru líður. Það er seilzt hérna til þess, að þetta mál verði afgr. með hálfgerðum ofbeldisaðgerðum, þegar vitað er, að þm. eru kallaðir til annarra hluta, sem þykir betur fara á að þeir sinni. Það þætti ekki nein kurteisi gagnvart ráðh., ef allir þm. neituðu að mæta í boði hans, og það er á valdi forseta að haga vinnubrögðum þingsins þannig, að það rekist ekki á, þegar ætlazt er til, að þm. séu mættir annars staðar. Og hér var seilzt til þess, að a.m.k. vissir þm. yrðu að vera hér í þingsalnum, með því að hafa fundarhald hér ákveðið á sama tíma. Ég er reiðubúinn til þess að ræða það mál og þá kurteisi, sem okkur er sýnd með því, á öðrum vettvangi en hér, og væri viðeigandi, að það væri gert. En vissulega er þarna sýnd tilraun til þess að svipta okkur þeim helga rétti, sem við höfum sem þm. til að ræða mál, og reynt að knýja fram lausn mála með því að ráðstafa okkur þannig, að okkur sé í raun og veru skylt að vera annars staðar, meðan svo er boðaður fundur. Þetta er alveg ný tegund af kurteisi. (Forseti: Má ég aðeins leiðrétta ræðumann. Ég vil benda honum á það, sem honum er kunnugt um eins og forseta, að ekki var ætlazt til, að sú veizla stæði nema frá 4 til 6. Ég vil þess vegna vænta, að hv. ræðumaður sjái, að hann mundi ekki hafa átt kost á því að dvelja þar milli 6 og 7, á þeim tíma, sem hann flutti sína ræðu. Svo vil ég aðeins óska, að hv. ræðumaður tjái mér, hvort hann hafi lokið ræðu sinni eða ekki.) Ég hefði sennilega getað lokið ræðu minni á tiltölulega skömmum tíma, ef ég hefði ekki verið margsinnis truflaður af hæstv. forseta, nú upp á síðkastið, en þetta leiðir til þess, að tíminn dregst og það saxast á okkar kvöldverðartíma. (Forseti: Ég skal gefa ræðumanni uppbót á því, hann skal enn hafa 5 mín.) En það er staðreynd, að ekki lét forseti sér nægja að boða hér fund kl. 6, á þeim tíma, þegar boði ráðh. lauk, heldur boðaði hann fund kl. 5, á miðjum þeim tíma, sem boð ráðh. stóð.

Ég var þar staddur, áður en þessi orðaskipti hófust, að ég var að gera grein fyrir þeirri till. minni að vísa þessu máli til stj., og þeirri ábendingu sérstaklega, að athugað yrði, áður en málið yrði flutt á ný, hvort ekki væri rétt, að Samband ísl. samvinnufélaga yrðu boðnar eignir grænmetisverzlunar ríkisins til kaups, svo að það, sem er aðili, sem fer með umboð fyrir framleiðendur og neytendur, gæti tekið að sér hlutverk grænmetisverzlunar ríkisins. Ef á annað borð þykir nauðsyn að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins, sem hefur ekki sætt gagnrýni af hendi neytendanna, þá teldi ég það vera mjög athugandi, hvort það væri ekki lausn, sem allir aðaar gætu sætt sig við, að Samband ísl. samvinnufélaga tæki við því hlutverki, sem grænmetisverzlunin hefur samkv. lögum farið með fram til þessa. Það væri a.m.k. nokkuð í samræmi við það, að nú hafa kaupfélagsstjórar nær undantekningarlaust verið umboðsmenn grænmetisverzlunarinnar og farið með sölu meiri hlutans af grænmetinu fyrir grænmetisverzlunina, og í þessu frv. er þeim sýnt það traust, lagður sá dómur á, að þeir hafi reynzt svo góðir umboðsmenn, að það er ætlazt til þess, að þeir verði lögfestir sem umboðsmenn fyrir hið nýja fyrirtæki, grænmetisverzlun landbúnaðarins. Væru þá innkaupin á kartöflum og grænmeti til landsins komin í hendur Sambands ísl. samvinnufélaga og sölumeðferð á kartöflum og grænmeti bæði í sveitum og kaupstöðum og kauptúnum komin í hendur Sambandsins og kaupfélaganna. Þessi aðili fengi þá aðstöðu til að fara með málið í heild, og ég fyrir mitt leyti tel, að sú meðferð færi einna næst því að fullnægja óskum neytendanna, og þá efa ég varla, að þessum aðila yrði líka treyst að því er snertir framleiðendurna og þá ekki hvað sízt framleiðendurna í sveitunum.

Enginn hefur enn þá vikið að því, hvort hann geti fellt sig við þessa lausn. Hæstv. landbrh. hefur verið fjarri, eins og eðlilegt er a.m.k. á þessum fundi, á öðrum stigum umr. var hann einnig löglega afsakaður að því er fjarveru snerti. En hv. þm. Dal. hefur ekki vikið að því máli enn, hvort hann gæti fellt sig við, að Samband ísl. samvinufélaga yrði sá aðili, sem tæki við hlutverki grænmetisverzlunar ríkisins, ef ástæða þætti til að svipta grænmetisverzlunina sínu umboði og leggja hana niður að lögum. Undir venjulegum kringumstæðum, þegar mál eru rædd, mundi þykja sjálfsagt, að slíkar till. sem þessi væru ræddar og gerð grein fyrir því, hvað stæði í vegi þess, að slík tili. yrði samþ., eða hins vegar hvaða rök lægju til þess, að frsm. máls teldi, að hana bæri að fella.

Ég vil því vænta þess, að þó að ég ljúki nú máli mínu mjög bráðlega, þá eigi maður eftir að heyra svör frá frsm. hv. meiri hl. landbn. um þær till., sem hér liggja fyrir. Hann ræddi, eins og ég sagði í upphafi máls míns áðan, aðeins útjaðra þessa máls, ekki kjarna þess, ekki nauðsynina á að leggja grænmetisverzlunina niður, ekki kosti þess að stofna þessa nýju grænmetisverzlun landbúnaðarins, ekki hvaða nauðsyn bændurnir hefðu á þessu máli, greindi ekki frá áskorunum frá bændasamtökum um lögfestingu þessa frv. og vék ekki einu einasta orði að þeim till., sem fram eru komnar ýmist til breytinga á frv. í viðbót við þær till., sem nú liggja fyrir frá hv. meiri hl. n., og ekki heldur þá rökstuddu dagskrá, sem nú liggur fyrir við þessa umr. Ég tel því, að það sé nauðsynlegt, að við komum til þess boðaða fundar kl. hálf níu, og vona, að ég fái þá rækileg svör við þessu, hvort hugsanlegt er að fá frv. breytt meira eða minna eða hvort hugsanlegt er að fá því vikið frá nú til nánari athugunar hjá jafnvelviljuðum aðila bændunum og núverandi ríkisstj. sjálfsagt er. Og ég veit ekki, hvar málið væri betur komið en einmitt í höndum landbrh. til frekari og betri undirbúnings á næsta þingi. Það dettur mér ekki í hug, að nokkur maður vilji halda því fram, að málið sé nú komið í svo fullkominn búning, að þar verði ekki um bætt. Það er áreiðanlegt, að allir játa, að það þarf að laga málið bæði að efni og formi, og það er bezt að fela núverandi hæstv. ríkisstj. að gera það. Hún hefur borið málið fram svona gallað eins og það er, og henni er skyldast að koma því í sómasamlegt horf. Ég held, að það verði ekki lagt út fyrir mér öðruvísi en sem vinsemd við hæstv. ríkisstj., og virðist þá eins og ég byggi fremur á því, að hún sé ekki komin að falli, eins og látið var orð liggja að í dag. Og yrði það þá arfur, sem hún léti eftir sig, ef svo reyndist, að hún væri komin að falli.