02.03.1956
Efri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem heyra mátti af þeim umr., sem urðu um þetta mál í gær, hafa blandazt inn í það allmjög annarleg sjónarmið. Það virðist með einhverjum hætti vera orðinn verulegur þáttur í þeirri togstreitu, sem er á milli svokallaðra vinstri afla hér á þingi, og vera mikið áhugamál í nokkrum hópi í Reykjavík, sem vinnur að því að koma á svokallaðri vinstri stjórn. Það var auðheyrt af ræðu frsm. hv. minni hl., að þetta var meginuppistaðan í hans andmælum. Þar mátti heyra frýjunarorð til framsóknarþingmanna um það, að þeir væru að yfirgefa stefnu flokksins í landbúnaðarmálum, og að nokkru frýjunarorð til sjálfstæðismanna um, að þeir væru hér með einokun, en héldu annars fram frjálsri samkeppni. Að öðru leyti bar mest á sárindum yfir því, að þessi einkasala ætti að takast úr höndum þeirra ágætismanna, sem henni hafa veitt forstöðu að undanförnu.

Ég skal ekkert blanda mér í þessa vinstri togstreitu og læt hana með öllu eiga sig. Það getur verið, að fyrir þá menn, sem þar eiga hlut að, hafi þetta mikla þýðingu, — ég er ekki kunnugur heimilisháttum þar, — en mér er það nóg að hafa áttað mig á, að það eru annarlegar ástæður, sem valda því uppnámi, sem hér er á ferðum, en ekki málefnaleg rök.

Það er ljóst, að að svo miklu leyti sem málefnalegar ástæður hafa verið færðar fram gegn þessu frv., þá hvíla þær að verulegu leyti á misskilningi. Það er bent á ýmiss konar þvingunarákvæði í þessu frv. og því haldið fram, að óviðunandi sé að lögleiða þvílíka þvingun. En þegar betur er að gáð, eru flest þau ákvæði, sem í þessu sambandi hafa verið tilfærð, nú þegar í lögum, þannig að einungis er verið að staðfesta það, sem verið hefur. Það lætur t.d. illa í eyrum, að ekki megi flytja inn grænmeti nema með samþykki framleiðsluráðs landbúnaðarins, en þetta hefur verið í lögum langa hríð, að grænmetiseinkasalan hefur haft algerlega í hendi sér að kveða á um, hvort grænmeti ætti að flytja inn. Hún hefur haft um það algert einræði og það einn embættismaður, sem hefur ráðið því án þess að spyrja kóng eða klerk. Nú eru það þó í staðinn fjölmenn samtök ópólitísk, sem eiga að fá þetta ákvörðunarvald, og ég sé ekki nokkrar líkur til þess, að því valdi verði frekar misbeitt af hálfu þessara fjölmennu samtaka en því hefur verið misbeitt undanfarið, meðan það var í höndum mannsins, sem einu sinni var sagður hafa einræðisklærnar í Hornafirði. Ég sé ekki, að það séu nokkrar líkur til þess, að harkalegar verði með þetta vald farið í höndunum á bændasamtökunum en í hinum mjúku höndum núverandi forstjóra grænmetisverzlunarinnar. Eins er það, sem bent hefur verið á, að verðákvörðunarvaldið hefur verið í höndum sömu aðila sem eiga að halda því, þannig að á því er bókstaflega engin breyting frá því, sem verið hefur. Þannig hygg ég, að séu rakin ákvæði frv., þá er annaðhvort óbreytt ástand frá því, sem verið hefur, eða vald, sem hefur verið í höndum eins manns, forstjóra grænmetisverzlunarinnar, er fengið í hendur bændasamtökunum, framleiðsluráðinu, og þá er í raun og veru eingöngu um það að ræða, hvort menn trúa betur þessum fjölmennu samtökum fyrir ákvörðunarvaldinu eða hinum blíðlynda fyrrverandi einræðisherra í Hornafirði. Ég játa, að ef hægt er að sýna mér fram á, að sú skipun, sem hér er ráðgerð, komi á nokkurn hátt verr við neytendur en sú skipun, sem verið hefur, þá mun það hafa mjög rík áhrif á afstöðu mína í málinu. Ég hef ekki til fulls gert mér grein fyrir, hvaða endanlega afstöðu ég muni taka í málinu, og þess vegna hef ég með athygli fylgzt með umræðunum. En ef breytingin er ekki önnur en sú, að það vald, sem núverandi forstjóri einkasölunnar hefur haft einn, á að færast yfir í hendur framleiðsluráðsins, þá get ég ekki séð, að það geti verið hættulegt fyrir neytendur. Ég fæ ekki séð betur en það geri líklegra, að fleiri og sanngjarnari sjónarmið komist að um ákvarðanir þær, sem taka þarf.

Hitt er svo allt annað mál, að ég tel varhugaverða alla einkasölu, jafnt í þessu efni sem öðru, og ég mundi vera því mjög fylgjandi, ef nokkur vegur væri til þess að fá samkomulag um það á Alþ., að gera alla þessa verzlun mun frjálslegri en hún hefur verið. Hvort unnt væri að gefa þetta algerlega laust, skal ég ekki fullyrða, ég sé þó ekki, hvaða hætta ætti að vera slíku samfara. En því miður eru engar líkur til þess, að hægt sé að fá samkomulag um það. Það er alveg víst, að eindreginn meiri hluti á Alþ. er fyrir því að halda einkasölu. Eina spurningin er því sú: Telja menn betur farið, að einkasalan sé í höndum eins einræðisherra eða að hin fjölmennu bændasamtök hafi þar yfirstjórnina og endanlegt ákvörðunarvald? Og ég get ekki séð, að það horfi í aukna þvingunarátt að láta fjölmenn samtök fá yfirráð yfir því, sem einn maður hefur getað farið með eftir sínum geðþótta hingað til, heldur sé breytingin þó í réttari átt með því að láta þetta í fleiri manna hendur en eins.