10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Launalögin, sem nú gilda, voru sett árið 1945 og eru því 10 ára gömul.

Síðasti áratugur hefur verið mikill breytingatími, og því er eðlilegt, að ekki sé lengur frestað að setja ný launalög.

Það frv. um laun starfsmanna ríkisins, sem hér er til umr., er stjórnarfrv., en samið af fimm manna nefnd, sem ríkisstj. fól að vinna það verk. Frv. var vísað til fjhn. 7. nóv. og hefur verið þar til athugunar síðan. Eins og frá er sagt í áliti n., sem hér liggur fyrir á þskj. 178, hefur hv. fjhn. Ed. unnið með fjhn. þessarar d. að málinn. Þótti heppilegt að hafa þau vinnubrögð, þar sem ætla má, að það flýti fyrir afgreiðslu málsins. Nefndirnar hafa einnig haft samráð við launamálanefndina, sem samdi frv.

Jafnskjótt sem frv. var vísað til fjhn. að lokinni 1. umr. hér í deildinni, fóru að berast bréf til n., sem höfðu inni að halda óskir um breytingar á frv. Ekki er það neitt undrunarefni, því að margir hafa hagsmuna að gæta í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Sendibréfin, sem n. hefur fengið, eru orðin um 90 talsins. Margir bréfritararnir hafa óskað þess að fá að koma á fund nefndarinnar til viðtals um efni bréfanna, en því miður hefur n. ekki séð sér fært að verða við þeim tilmælum. Það mundi taka mjög langan tíma að tala við fjölda manns, en starfstími n. er takmarkaður. Hún þarf að sinna fleiri málum en þessu stóra máli. Nm. eiga líka jafnframt sæti í öðrum nefndum, og þeir þurfa að sitja á þingfundum eins og aðrir þingmenn.

Að sjálfsögðu hefði það verið æskilegt að geta orðið við óskum þeirra manna, sem vilja koma á fund n. og ræða um þetta mál. Og það hefði líka verið ánægjulegt fyrir nefndina að tala við bréfritarana, eins og t. d. blessaðar hjúkrunarkonurnar, eða þá talsímakonurnar, húsmæðrakennarana og aðra kennara, búfræðikandídata, náttúrufræðinga o. fl., o. fl., sem hafa sent nefndinni vingjarnleg og vel skrifuð bréf. En þetta hefði valdið þeim töfum á starfi n., að vonlaust hefði þá verið að ljúka afgreiðslu málsins fyrir árslokin. En n. telur mjög æskilegt, að málið fái fullnaðarafgreiðslu, áður en þingfundum verður frestað nú fyrir jólin, og vill gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að svo geti orðið.

Grunur minn er sá, að óskir sumra bréfritaranna um samtöl við n. kunni að vera sprottnar af því, að þeir óttist, að bréfum þeirra sé ekki nægur gaumur gefinn. Ef til vill lætur einhver bréfritari sér til hugar koma, að sendibréfin til nefndarinnar fari í bréfakörfuna lítt eða ekki lesin. Ef einhver skyldi vera hræddur um, að bréf hans til n. fái slíka meðferð, þá vil ég segja honum, að sá ótti hans er ástæðulaus með öllu. N. hefur lesið vel og samvizkusamlega öll þau mörgu bréf, sem henni hafa borizt. Efnisatriðin úr þeim voru tekin upp á skrá, sem var rituð í nokkrum eintökum, og allir fjárhagsnefndarmenn í báðum þingdeildum fengu eintak af skránni til yfirlestrar og umhugsunar.

Tveir af nm. fjhn., hv. 9. landsk. og hv. þm. A-Húnv., hafa undirskrifað nál. með fyrirvara. Annar þeirra, hv. þm. A-Húnv., hefur gert nokkra grein fyrir fyrirvara sínum í nál., og hann flytur einnig brtt. við 1. gr. frv. Vill hann lækka nokkuð launaupphæðir frv. í öllum launaflokkum. En vegna þeirra breytinga, sem undanfarið hafa orðið í launamálum yfirleitt hér á landi, telja aðrir nm. till. hv. þm. A-Húnv. ekki sanngjarna og geta ekki á hana fallizt.

Í athugasemdum á þskj. 95 um hverja einstaka gr. frv. er gerður samanburður á ákvæðum frv. og núgildandi launalögum. Þetta hafa hv. þdm. getað kynnt sér, síðan frv. var lagt fram, og tel ég því ekki ástæðu til að gera það sérstaklega að umtalsefni. En ég vil hins vegar minnast nokkuð á þær breytingartill. við frv., sem n. flytur á þskj. 176. Till. þessar eru bornar fram í samráði við hv. fjhn. Ed. og launamálanefndina, eins og frá er skýrt í nál.

Fyrsta brtt. er við 8. gr. frv. Sú grein er um starfsmenn hagstofunnar, og er lagt til, að deildarstjóri við þá stofnun og fulltrúar verði færðir upp í hærri launaflokk. Jafnframt er lagt til, að ákveðið verði, að aðeins þeir, sem starfað hafa í hagstofunni a. m. k. í 10 ár, megi taka laun sem 1. stigs fulltrúar.

Næst eru fáeinar brtt. við 9. gr. Er þar fyrst það, að hæstaréttarritari verði í V. launaflokki í stað VI. og að í staðinn fyrir húsvörð hjá hæstarétti komi dóm- og skjalavörður og verði hann í X. fl. Er þetta í raun og veru leiðrétting, sem þarna er um að ræða.

Þá eru þrjár aðrar brtt. við 9. gr., og eru þær um það, að borgardómarinn í Reykjavík, sakadómarinn og lögreglustjórinn taki laun í III. launaflokki. Hins vegar er ekki lagt til, að borgarfógeti eða tollstjóri hér í Reykjavík taki laun í þeim flokki, heldur verði þeir í IV. flokki eins og frv. gerir ráð fyrir. Er þessi till. byggð á því, að þeir 3 embættismenn, sem hér er lagt til að hækka nokkuð, hafa mjög litlar aukatekjur, en hinir tveir munu hafa verulegar tekjur vegna innheimtulauna.

Við 9. gr. er ein till. enn, um bifreiðaeftirlitið, að fulltrúi í Vesturlandsumdæmi verði í sama launaflokki og fulltrúi í Reykjavík og á Akureyri. En vegna nánari athugunar á þessum lið í frv. tel ég rétt að taka þessa brtt. aftur til 3. umr.

Þá er 10. gr. Þar er gerð brtt. við 3. liðinn, sem er löggildingarstofan, að í stað aðstoðarmanna komi þar viðgerðar- og eftirlitsmenn og verði í XI. launaflokki. Og önnur brtt. er við þá gr., að skipulagsstjóri taki laun í IV. flokki í stað V.

Næst koma allmargar brtt. við 12. gr. frv., en í þeirri grein eru taldir starfsmenn við heilbrigðismálin. Þar er lagt til, að aðstoðarlæknar við berklavarnir verði í V. flokki og að yfirlæknar á ríkisspítölunum, forstöðumaður blóðbankans og yfirlæknir við heilsuverndarstöð Reykjavíkur færist úr V. fl. í IV. fl. Til samræmis við þetta eru brtt. um, að deildarlæknar á landsspítala, Vífilsstöðum og fleiri ríkissjúkrahúsum færist í V. flokk.

Lagt er til, að yfirhjúkrunarkonur á ríkisspítölunum verði nefndar forstöðukonur, og er þetta í samræmi við ábendingu frá Félagi íslenzkra hjúkrunarkvenna.

Þá er lagt til, að deildarhjúkrunarkonur færist úr X. í IX. launaflokk, enn fremur að aðstoðarhjúkrunarkonur verði í XL–X. launaflokki, í staðinn fyrir að þær eru í frv. í XI. fl., og lagt til, að bæði aðstoðarhjúkrunarkonur og rannsóknarkonur svonefndar skuli eftir 5 ára starf færast úr XI. launaflokki í X. flokk.

Lagt er til, að forstöðukona hjúkrunarkvennaskólans nefnist skólastjóri og verði í VI. fl. og kennarar við skólann í VHI. fl.

Nokkrar aðrar brtt. eru við 12. gr., og er með þeim stefnt til samræmis við það, sem ég nú hef gert grein fyrir.

Við 13. gr. er ein brtt. í allmörgum liðum, og snertir hún starfsmenn flugþjónustunnar. Eru þessar brtt. gerðar að mestu leyti eftir till. frá flugráði, þó að ekki séu að vísu teknar til greina að öllu leyti till. þess um tilfærslur milli launaflokka.

Við 14. gr. eru nokkrar brtt. Fyrst er þar lagt til, að biskupsritari og söngmálastjóri verði í VI. launaflokki, en ekki í VII., eins og frv. gerir ráð fyrir. Þá leggur n. til, að prófessorar við háskólann færist úr V. fl. í IV. flokk, en dósentar og háskólabókavörður verði í V. flokki. Þótti n. ástæða til að breyta ákvæði frv. viðkomandi launum prófessoranna, taldi óeðlilegt með samanburði við ýmsa aðra starfsmenn, að þeir væru í V. flokki. Lagt er til, að háskólaritari verði í VI. launaflokki, en ekki í VII.

Námsstjórar færist úr VII. fl. í VI. fl. Var á það bent, að ekki væri eðlilegt, að þeir tækju lægri laun en skólastjórar, sem þeir eiga að líta eftir.

Till. er um það, að skólastjóri garðyrkjuskólans á Reykjum og kennarar við þann skóla hækki um einn launaflokk.

Þá er lagt til, að skólastjórar við héraðsgagnfræðaskóla með fleiri en 75 nemendur verði í VI. fl. í stað VII. og skólastjórar við slíka skóla, þar sem nemendur eru færri en 75, færist úr VIII. fl. í VII. fl. Starf skólastjóranna við heimavistarskólana er miklu umfangsmeira og erfiðara en skólastjóra við heimangönguskólana, og þótti því sanngjarnt að gera þessa breytingu á frv.

Þá er lagt til, að skólastjóri húsmæðrakennaraskólans færist úr VII. fl. í VI. og kennarar við þann skóla úr IX. fl. í VIII., enn fremur að skólastjórar og kennarar við húsmæðraskólana hækki um einn flokk. Einnig er lagt til, að kennarar við heyrnar- og málleysingjaskólann verði í VIII. fl., en ekki í IX. og að barnakennarar taki laun í IX. fl., en ekki X.-IX., eins og segir í frv.; enn fremur að skólastjórar skuli strax fá hámarkslaun þrátt fyrir ákvæði 2. gr. frv. um hækkun launa í VII.–XV. fl. á fyrstu 4 starfsárunum.

Við 15. gr. eru brtt. Sú fyrsta er um náttúrugripasafnið, að eigi aðeins deildarstjórar, heldur einnig sérfræðingar við þá stofnun taki laun í VI. fl. En ég vil taka það fram, að vegna nánari athugunar á þessum lið í frvgr. vil ég óska þess, að þessari till. verði frestað til 3. umr. Það er 60. tillagan.

Læknar við rannsóknarstofu háskólans færist í V. fl., og er það í samræmi við það, sem ég hef áður skýrt frá um till. n. viðkomandi launum lækna. Forstöðumaður tilraunastöðvarinnar á Keldum færist þá einnig úr V. fl. í IV. fl.

Við 15. gr. er enn fremur brtt. um veðurstofuna, að þar bætist inn tvær deildir, sem fallið hafa niður, þegar frv. var samið, áhaldadeild svonefnd og jarðeðlisfræðideild. Loks er við þá gr. brtt. viðkomandi skrifstofu húsameistara, að í stað féhirðis, sem samkv. frv. á að taka laun í IX. launaflokki, komi skrifstofustjóri, sem jafnframt er féhirðir og taki laun í VII. flokki.

Við 16. gr. er brtt. um sandgræðslustjóra, að hann færist úr VII. fl. í VI. fl., en veiðimálastjóri úr VI. fl. í þann V. Einnig er till. um það, að hjá sauðfjárveikivörnum verði sýklarannsóknarmaður í VIII. fl., en orðin „2. stigs“ í 3. tölulið þar falli niður, þannig að þar verði aðeins ákveðinn aðstoðarmaður, en ekki tilgreint á hvaða stigi.

Við 16. gr. er enn fremur brtt. um, að tilraunastjórarnir verði í VII. fl., en ekki IX. Ég vil geta þess, að jafnframt gerir n. ráð fyrir því, að tekin verði til endurskoðunar ákvæði um húsaleigu, sem tilraunastjórarnir greiða, en þeir hafa að undanförnu greitt mjög lága húsaleigu.

Við 17. gr. eru fáeinar brtt. viðkomandi raforkumálaskrifstofunni og starfsmönnum hennar. Í fyrsta lagi er lagt til, að í staðinn fyrir fulltrúa 1. stigs komi landmælingamaður, en launin breytist ekki, og þar sem rætt er í frv. um fulltrúa 2. stigs, komi fulltrúi 1. stigs; enn fremur að við bætist yfirteiknari í raforkumálaskrifstofunni, sem verði í IX. launaflokki. Þá er lagt til, að tveir liðir í þessari grein falli niður. Það eru þeir liðir, þar sem ákveðin eru laun rafstöðvarstjóra og flokksstjóra, en það er ekki talin ástæða til að hafa þá starfsmenn á launalögunum. Loks er lagt til, að línumenn hækki um einn flokk.

Kem ég þá að 18. gr. frv., og flytur n. margar brtt. um laun símastarfsmanna. Lagt er til, að inn í frv. komi nýr liður, umsjónarmaður sjálfvirkrar stöðvar, og verði í VII. launaflokki. Símvirkjar verði í X.–IX. launaflokki í stað X., varðstjórar í IX.–VIII., símritarar í X.–IX. og talsímakonur í XIII.–XII. Sendimenn færist úr XIII. fl. í XII. og varðstjórar við langlínumiðstöð úr XIII. í XII.–XI. Nokkrar fleiri brtt. eru til samræmis við þetta. Flokksstjórar falli niður úr þessari frvgr. eins og hjá raforkumálaskrifstofunni, birgðastjóri verði í VII. fl. í stað VIII., bókari í X. í stað XI., stöðvarstjórarnir í loftskeytastöð í Reykjavík, sendistöðinni á Rjúpnahæð, sendistöð á Vatnsendahæð og stöðvarstjóri Loranstöðvarinnar á Reynisfjalli verði í VIII. fl. og við bætist nýr liður, tímaverðir Loranstöðvarinnar á Reynisfjalli, og verði þeir í XII. fl.

Hef ég þá nefnt, held ég, flestar þær brtt., sem nefndin flytur við 18. gr., en síðasta brtt. n. við þá gr. er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Símritaravarðstjórar og símvirkjaverkstjórar skulu eftir 10 ára starf færast úr IX. launafl. í VIII. launafl. Símritarar og símvirkjar flytjast eftir jafnlangan starfstíma úr X. launafl. í IX. launafl. Langlínuvarðstjórar skulu og eftir 10 ára starf færast úr XII. launafl. í XI. launafl. Þá skulu og talsímakonur færast úr XIII. launafl. í XII. launafl. eftir jafnlangan starfstíma.“

Við 19. gr. eru nokkrar brtt., en í þeirri gr. eru taldir starfsmenn ríkisútvarpsins. Lagt er til, að féhirðir útvarpsins verði í VIII. fl. Við bætist í aðalskrifstofu ritari í XIV.–XIII. launafl. og umsjónarmaður í XIII. fl. Þá er lagt til, að fulltrúi í innheimtudeild verði nefndur innheimtustjóri og taki laun í VIII. flokki. Auglýsingastjóri verði einnig í VIII. fl. Þar bætist við bókari í XI. fl. Við skrifstofu dagskrár bætist leiklistarráðunautur og verði í VIII. fl. Það starf virðist hafa fallið niður, þegar frv. var samið. Fulltrúi í magnarasal nefnist forstöðumaður og verði í VIII. fl.

Við tónlistardeildina bætast inn í frv. 3 starfsmenn, píanóleikari í IX. fl., aðstoðarmaður í XIII. og ritari í XIV.–XIII. fl. Þá er lagt til, að stöðvarstjórar Vatnsendastöðvarinnar og endurvarpsstöðvar verði í VIII. fl. Skrifstofustjóri viðtækjaverzlunar færist úr VIII. í VII. fl. og forstöðumaður viðgerðarstofu úr IX. í VIII. fl.

Við 20. gr. eru 4 brtt. Fyrst er till. um það, að aðstoðarfólk í lyfjagerð áfengisverzlunarinnar 1. stigs verði í XII. fl., en aðstoðarfólk 2. stigs í XIV. fl. Þá leggur n. til, að verkstjóri hjá áburðar- og grænmetisverzlun verði í X. fl. og bifreiðarstjóri verði þar einnig í XI. fl.

Síðasta brtt. er um það, að á eftir 27. gr. frv. komi ný grein þannig:

„Nú eru settar á fót ríkisstofnanir, eftir að lög þessi öðlast gildi, og skal þá fjármálaráðherra í samráði við ráðherra þann, er fer með mál stofnunarinnar, ákveða laun starfsmanna við þær með hliðsjón af því, er gildir um sambærilegar eða hliðstæðar stofnanir samkvæmt lögum þessum.

Ef til koma við stofnanir þær, sem lög þessi taka til, nýjar stöður, sem eru ekki taldar í lögunum, ákveður fjmrh. með sama hætti og segir í 1. málsgr., í hvaða launaflokk skuli skipa hlutaðeigandi starfsmann.“

N. telur, að þetta sé eðlilegt fyrirkomulag, þegar um er að ræða nýjar stofnanir, sem settar eru á fót, eða nýjar stöður við eldri stofnanir.

Vera má, að mönnum vaxi nokkuð í augum sá fjöldi brtt., sem n. ber fram. Langflestar brtt. eru við tvær gr. frv., 12. og 18. gr. Í 12. gr. er starfsfólk ríkisspítalanna tilgreint við hvert sjúkrahús og hverja deild landsspítalans fyrir sig, svo að bæði læknar og hjúkrunarkonur eru á mörgum stöðum í frvgr. Ein breyting að efni til þarf því formsins vegna að koma inn í frvgr. á mörgum stöðum. Sama er að segja um 18. gr., en þar eru ákveðin laun þeirra, sem vinna við póst og síma. Hjá símanum eru margar deildir og margar stöðvar, og t. d. símvirkjar, símritarar, talsímakonur og fleiri starfsmenn eru því taldir á mörgum stöðum í gr. Það er þetta form á frv., sem einkum veldur fjölda brtt., en raunverulega eru þær miklu færri efnislega.

Ég sé ekki, nema tilefni gefist, ástæðu til að ræða meira um brtt. Eins og frá er greint í nál., hefur n. enn til athugunar nokkur atriði í frv., og n. hefur eins og áður samstarf við hv. fjhn. Ed. og launamálan. um þessa hluti, og getur svo farið, að hér í deildinni verði fluttar einhverjar brtt. til viðbótar við 3. umr. frv.

Ef einstakir hv. dm. hafa í hyggju að flytja brtt. við frv., tel ég æskilegra, að þeir fresti því til 3. umr. Ætti þá að vera mögulegt að ljúka 2. umr. á þessum fundi og koma málinu til 3. umr., en það mundi greiða fyrir því, að málið gæti hlotið fullnaðarafgreiðslu, áður en þingfundum verður frestað nú fyrir jólin.