15.03.1956
Efri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan, var það aldrei meining mín að fara að rökræða þetta mál, og var það að gefnu tilefni, sem ég kvaddi mér hljóðs.

Hv. 6. landsk. þm. (FRV) vill ekki taka neitt mark á því, sem fulltrúar bænda, sem kosnir eru af bændastéttinni í heild sinni, leggja til og samþykkja, heldur á fundum, sem nokkrir bændur kunna að halda og senda sínar ályktanir.

Mér skilst á flokksblaði hv. þm., að það sé verið að stofna til einhverrar vinstri fylkingar stórrar, Alþýðusambandið og víst hans flokkur og fleiri kannske. Við skulum nú setja svo, að þessi fylking næði meiri hluta á Alþ.; þá væri vitanlega ekkert mark takandi á því, þó að þeir væru kosnir eða einhver flokkur næði meiri hluta á Alþ., það væri ekkert mark takandi á því samkvæmt þessari kenningu, það þyrfti eiginlega að kalla þjóðina saman á þing, þar sem allir mættu eða allir gætu mætt og greitt atkvæði. Það er það eina, sem mark er takandi á eftir hans kenningu. En ég verð nú að halda því fram, að það hljóti að álítast, að eyfirzkir bændur séu yfirleitt sammála fulltrúum sínum, þegar það var vitað, þegar þeir voru kosnir, hvaða skoðanir þeir hefðu á þessu máli, því að þetta er ekkert nýtt mál. Ég hef hér fyrir framan mig samþykktir Stéttarsambands bænda, sem það hefur gert í þessu máli, fyrst 1948, svo 1951 og öll árin síðan, og annar fulltrúinn frá Eyjafirði í Stéttarsambandi bænda og á búnaðarþingi hefur öll þessi ár, að því er ég held, átt sæti í Stéttarsambandinu og alltaf verið jafnvel í forustuliði þeirra, sem hafa viljað fá þessa breytingu. Það er öllum eyfirzkum bændum kunnugt, og þeir hafa kosið hann samt sem áður. Því verð ég að leggja eins mikið upp úr og þessum bændafundi, sem haldinn var á dögunum a.m.k. Það er þá ekki heldur hægt að taka mark á þingkosningum, ef ekki er hægt að taka mark á þessu. Og hver er svo aðaltillaga hv. þm.? Það er einmitt um það, að skipaðir verði fulltrúar vissra samtaka til þess að semja frv. um þetta mál. Það felst í rökstuddu dagskránni, sem hann flytur. Er þá nokkurt mark takandi á þeim? Nú semdu þeir frv. og svo væri haldinn fundur, bændafundur eða neytendafundur, einhvers staðar og þeirra frv. mótmælt, á þá ekki að fara eftir því, sem þeir fundir samþykktu? Til hvers er þá að skipa þessa fulltrúa í n., ef ekki er mark takandi á því, sem fulltrúar ákveðinna stétta og starfshópa samþykkja?