19.03.1956
Neðri deild: 89. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem áður hefur verið nokkuð minnzt á í þessari hv. d., er þá komið til okkar aftur, ofur lítið breytt, og á meðan hafa ýmsir þeir hlutir gerzt, sem varpa dálítið skærara ljósi á, hvers konar mál þetta er og hvernig afstaða það er, sem ýmis samtök í landinu hafa tekið til þessa frv., sem hérna liggur fyrir, þannig að við ættum að vita það öllu betur en áður, hvernig viðhorf manna, bæði bænda og kaupstaðabúa, er til þessa máls.

Ég vil þá fyrst rifja upp nokkuð það almenna í sambandi við þetta mál og þá fyrst og fremst þá afstöðu, sem Framsfl. hefur tekið með þessu máli, og leyfa mér að skora á hv. Framsóknarflokksmenn, ekki sízt nú eftir nýafstaðið flokksþing þeirra og þær ákvarðanir, sem þar hafa verið teknar, og með tilliti til þeirra kosninga, sem fram fara í vor, að gefa nú skýrar og ótvíræðar yfirlýsingar um, hver þeirra stefna sé í þeim málum, sem skyldust eru þessu. Ég skil ekki í, að Framsfl. ætti að hafa þar neitt að dylja, og það er nauðsynlegt, að það komi fram, hvaða breyting er að verða hjá honum í þessum málum og hvernig hann hugsar sér að standa hvað svipuð mál snertir. Það, sem hér er um að ræða, er það, að einkasala, sem hingað til hefur verið hjá ríkinu og hefur átt að hafa það hlutverk að taka jafnt tillit til neytenda og til framleiðenda, á að leggjast niður. Í staðinn á að koma einkasala, sem ákveðinn hópur framleiðenda á að hafa með höndum. Ég vil leyfa mér að spyrja Framsfl., hvort hann hafi tekið ákvörðun um það í sambandi við sitt flokksþing nú, að það verði að afhenda skipaútgerð ríkisins í hendur Eimskipafélagsins og Sambandsins. Það er algerlega hliðstætt mál við það, sem hér er lagt til. Hérna er lagt til að taka úr höndum ríkisins fyrirtæki, sem á að rækja þjónustustörf við almenning, þjónustustörf jafnt við framleiðendur og við neytendur. Það á að fá þetta fyrirtæki í hendur nokkrum hópi manna, sem telja sig fulltrúa viss hluta af framleiðendum, og láta þá fá einkaréttindi í því sambandi. Skipaútgerð ríkisins hefur haft það verk með höndum að vinna almenn þjónustustörf fyrir landsmenn. Hins vegar hafa komið fram hér á Alþ. tillögur um að leggja skipaútgerð ríkisins niður og afhenda hana þeim einkafélögum, sem eru fyrst og fremst fulltrúar þeirra, sem skipin eiga og svo að segja skipta skipum ríkisins upp á milli þessara einkafélaga.

Ég vil leyfa mér að spyrja Framsfl.: Er það hins meining nú á þessu þingi eða eftir næstu kosningar að fara þannig að með skipaútgerð ríkisins? Og það væri æskilegt að fá að vita það, hvort þetta er einn liðurinn í samningum Framsfl. og Alþfl., sem nú standa yfir í sambandi við það kosningabandalag, sem talað er um, að það eigi að skera niður einkasölur ríksins og afhenda þetta í hendurnar á nokkrum hluta af þeim,sem hafa hagsmuni á móti framleiðendum. Ég vil í því sambandi leyfa mér að spyrja hv. þingmenn Framsfl. hér í d., hvernig standi á því, að frv. Alþfl. viðvíkjandi olíueinkasölu skuli ekki koma hér fram aftur úr nefnd, hvort það standi e.t.v. á Framsfl. að samþykkja það, sem einu sinni áður fyrr var eitt af aðalstefnumálum Framsóknar- og Alþýðuflokksins, fyrir 1930, olíueinkasalan, hvort það standi á Framsfl. að fallast á þetta og hvort þetta sé þá einn þáttur í þeirri pólitík að svipta ríkið þeim einkasölum, sem það hefur, og fá þær í hendur einstökum mönnum. Ég vil enn fremur leyfa mér að spyrja að því í þessu sambandi, hvort það sé meiningin hjá Framsfl., að það eigi að taka svona skipulag upp eða halda því við á þeim sviðum, þar sem íhaldið nýtur góðs af því núna. Við skulum taka sem dæmi fiskhringinn, Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda. Þar er sem stendur einkasala, sem nokkrir auðmenn í Reykjavík ráða, og það hefur stundum a.m.k. viljað hvessa eitthvað frá hálfu Framsóknar gagnvart fiskhringnum, gagnvart þeirri einkasölu, sem Kveldúlfur & Co. hefur þar. Það hefur að vísu venjulega þagnað í Framsfl., þegar hvesst hefur í því sambandi, ef stungið hefur verið upp í hann, ef t.d. Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur fengið úthlutað í sinn hluta einhverju af fisksölum úti í heimi. Ég vil leyfa mér að spyrja Framsfl. í tilefni af því máli, sem hérna liggur fyrir: Hvað er meiningin að gera í sambandi við fiskhringinn og Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda? Er meiningin, að þar eigi að viðhafa þá reglu, að einn lítill hluti framleiðendanna og jafnvel ekki einu sinni framleiðenda eigi að fá að ráða á þessum sviðum? Sú stefna, sem Framsfl. leggur til með þessu frv., er sams konar stefna og það, sem Kveldúlfur hefur verið að framkvæma á sviði fisksölunnar, að láta lítinn hóp manna, sem jafnvel telur sig framleiðendur, þó að þeir séu það ekki, fá að ráða, þannig að þeir gúkna bæði yfir hagsmunum framleiðendanna, þeirra almennu og smáu, og ég tala nú ekki um náttúrlega yfir hagsmunum neytendanna. Það er ekki að ófyrirsynju, að um það er spurt, hver sé afstaða Framsfl. í þessu efni. Hann hefur verið að rífa sig með það öðru hverju, að hann væri eitthvað á móti einkaeinokun, a.m.k. ef Kveldúlfur ætti í hlut. Er hann á móti einkaeinokun líka, ef það eru einhverjir gæðingar Framsfl., sem eiga í hlut, eins og þeir, sem eiga að fá þessa einokun í sínar hendur? Eða er það eins og hv. þm. N-Þ. sagði nú nýlega, að það væri ekki hægt að gera það, sem þyrfti að gera, vegna þess að það mundi bitna á sjálfstæðismönnum? Er það þannig, að það eigi að taka einkasölur af ríkinu og fá þær í hendur einstökum aðilum, ef þeir aðilar eru framsóknarmenn, en kannske taka þær af einstökum aðilum, ef það eru sjálfstæðismenn? Má ég spyrja: Hver er reglan, hver er hugsjónin, sem liggur þarna til grundvallar? Ef þetta mál er gott á þessu sviði, er þá ekki Kveldúlfseinkasalan í fiskhringnum góð líka? Má ég spyrja: Hvaða regla er það, sem á að gilda þarna? Ef menn eru komnir inn á það svið, að það eigi að vera einokun til handa einstökum aðilum, á reglan þá að vera sú, að svo framarlega sem það eru framsóknarmenn, sem hafa einkasölur eða geti fengið þær, skuli þeir fá þær, ef það eru sjálfstæðismenn aftur á móti, sem hafa hreppt þær, þá skuli þeir missa þær? Á að umskipuleggja helmingaskiptaregluna á einhvern hátt, fyrst stjórnarsamstarfið er að slitna núna eða a.m.k. er verið að burðast við að reyna að slíta það?

Ég vil segja það, að mér finnst, fyrst á annað borð þetta mál hefur dregizt svo lengi sem orðið er, að Framsfl. skuldi þingheimi og þjóðinni nokkra almenna yfirlýsingu um sína afstöðu í þessum málum.

Ég hef áður lagt á það áherzlu, að það séu fleiri fyrirtæki, sem við höfum þó helzt haft hugmynd um að Framsfl. stæði frekar með, sem hlytu að vera í hættu, ef þessi regla á upp að takast, sem hér er til lagt. Hvernig væri með ferðaskrifstofu ríkisins? Er meiningin að láta einkaferðaskrifstofu nú fá þann einkarétt, sem hún hefur? Og hverju ætla hv. þm. Framsfl. hér í d. að svara sjálfstæðismönnum, ef þeir, eins og t.d. hv. 7. þm. Reykv., borgarstjórinn í Reykjavík, koma fram með sitt frv. nú frá 2. umr. viðvíkjandi ferðaskrifstofunni og fara að vitna í, að þetta sé hin nýja regla Framsfl. að taka einkasölur af ríkinu og fá einkasölur í hendur einstökum mönnum? Hverju ætla hv. þingmenn Framsfl. að svara?

Enn sem komið er, er það ekki orðið þannig með lög á Íslandi, að það standi í lögum, að þetta skuli gilda, þegar framsóknarmenn eiga í hlut, og hitt skuli gilda, ef sjálfstæðismenn eiga í hlut. Enn sem komið er, eru það almennar reglur, sem gilda í þessum málum, og þess vegna er það ekki undarlegt, þó að við viljum reyna að fá þann þögla Framsfl. til þess að segja eitthvað um þetta mál í þessari hv. d. og um sína afstöðu til þess. Það gekk mjög erfiðlega að toga það út úr hæstv. landbrh. og hv. frsm. landbn. þessarar d., hv. þm. Dal., hvað þeir ættu við með rökstuðningnum, sem þeir notuðu í þessu máli. Eins og hv. þm. muna, var sá rökstuðningur sá frá hálfu hv. þm. Dal., að hann sagði, að það væri ekki að marka umsagnir, sem kæmu um svona mál, ríkiseinkasölu og annað slíkt, ef það væru forstjórar og stjórnendur ríkiseinkasalanna, sem flyttu það. Nú hefur það verið svo, þegar við höfum verið að ræða hér um skipaútgerð ríkisins eða ferðaskrifstofuna, að það, sem við þingmenn höfum fyrst og fremst byggt á, þegar við höfum verið að ræða þau mál, hafa verið upplýsingar frá stjórnendum þessara ríkisfyrirtækja, mönnum, sem hafa stjórnað þessum ríkisfyrirtækjum, venjulega með prýði, árum og jafnvel áratugum saman. Nú kemur fulltrúi Framsfl. og segir: Það er ekkert að marka, þegar þessir menn leggja á móti því, að svona einkasölur skuli lagðar niður. Það eru bara þeirra hagsmunir, sem valda því. — Ég minnti hv. þm. Dal. á þessi ummæli hans, þegar hann loksins mætti hér aftur á fundum til að standa fyrir máli sínu, og gat hann þá raunverulega ekkert við því sagt, var að reyna að tala nm, að út úr þessu væri snúið og hann hefði nú ekki meint neitt ljótt í garð þessara manna. Ég las ummæli hans upp úr þingtíðindunum, og þau standa ómótmælt. M.ö.o.: Þingmenn Framsfl. hafa í sambandi við umræðurnar um þetta mál reynt að grafa undan tiltrú þingmanna til þeirra manna, sem stjórna ríkisfyrirtækjunum, reynt að grafa undan því, að við gætum treyst þeim umsögnum, sem trúnaðarmenn ríkisins veita í þessu efni. — Ég var að ræða um hv. þm. Dal. (Gripið fram í.) Jæja, annars hefði ég endurtekið það, ef hv. þm. hefði ekki heyrt það, en mér þykir mjög vænt um, að hann skuli hafa heyrt það, og þá vonast ég til þess, að hann í fyrsta lagi gefi yfirlýsingu um, að hann hafi ekkert meint af því, sem hann sagði, þegar hann talaði um stjórnendur grænmetisverzlunar ríkisins, og í öðru lagi, að hann muni framvegis taka fullt tillit til þess, sem fram komi frá hálfu starfsmanna og trúnaðarmanna ríkisins, þegar þeir séu til þess kvaddir af nefndum Alþingis að flytja rök um, hvort ákveðin fyrirtæki ríkisins fullnægi þeim tilgangi, sem með þeim var ætlað, starfi vel og annað slíkt. Og ég vona, að hv. þm. Dal. sleppi þá ekki heldur tækifærinu til þess að gefa okkur um leið upplýsingar um, hvað það er, sem Framsfl. ætlast fyrir viðvíkjandi skipaútgerðinni og ferðaskrifstofunni, og hvernig sé með afstöðu Framsfl. viðvíkjandi olíueinkasölunni og öðru slíku.

Það er ekkert undarlegt, þó að okkur verði nú á að spyrja hv. þingmenn Framsfl„ hvort það, sem þeir meina með endurbótum, sem þeir segjast leggja svo mikla áherzlu á, sé fyrst og fremst fólgið í því að rýra og skemma allar þær endurbætur, sem Framsókn og Alþfl. komu í gegn í það skipti fyrir rúmum 20 árum, þegar þeir voru saman í meiri hluta hér á Alþingi. Þetta er eitt af þeim málum, sem hefur þó staðið af sér allar þjóðstjórnar- og afturhalds- og íhaldshríðir síðan. Ef Framsfl. ætlar nú að leggja grænmetisverzlun ríkisins að velli, sem stofnuð var í tíð meirihlutastjórnar Framsfl. og Alþfl., þá sýnir það nokkurn veginn, hvaða stefnu sá flokkur er að taka, og það er þá til lítils að vera að tala um, að hann sé fylgjandi endurbótum í slíkum málum, svo að maður fari ekki að rifja upp hans verk í sambandi við almannatryggingarnar, húsnæðismálin eða aðra slíka hluti, þar sem hann hefur verið að skemma þá endurbótalöggjöf, sem knúin hefur verið í gegn á undanförnum áratugum. En um einmitt þau mál, sem ekki sízt Alþfl. hefur lagt alveg sérstaklega upp úr að framkvæmd væru, eins og þær einkasölur, sem komið hefur verið á, er sérstaklega upplýsandi fyrir þá kjósendur, sem nú eiga fyrir tilstilli Framsfl. bráðum að fá að segja sitt álit á flokkunum, að fá að vita um það, hvort þetta séu aðalendurbæturnar, sem við eigum í vændum eftir kosningarnar, að það verði rifið niður sem mest af þeim einkasölum ríkisins, sem þessir vinstri flokkar einu sinni höfðu barizt fyrir og komið á, og fengið í hendur einstökum mönnum til einkaafnota eins og þeim þóknast. Það er þess vegna vonandi, að hv. þm. Framsfl. verði nú, eftir að þeirra flokksþing hefur starfað, ekki alveg jafnþögulir í þessum málum og þeir voru, á meðan verið var að ræða þetta feimnismál þeirra hér í deildinni við þrjár umr., þegar þeir fengust helzt aldrei til þess að segja eitt einasta orð.

Þetta er nú viðvíkjandi því almenna í sambandi við þetta mál, og maður mætti ætla, að eftir nýafstaðið flokksþing Framsfl. væri þó flokkurinn búinn að koma sér niður á, hver hans stefna væri í þeim málum, sem snerta afskipti ríkisins af hinum og þessum höfuðdeilumálum í þjóðfélaginu, og afstaða hans til þess, hvort rýra skuli þau umbótamál, sem fram hafa verið knúin á undanförnum árum, eða hvort það skuli endurbæta þau. Ég býst við, að þetta mál verði nokkuð góður prófsteinn í því sambandi, og ég er hræddur um, að fáist hv. þm. Framsfl. ekki til þess að gefa ótvíræðari yfirlýsingar um afstöðu sína í þessum málum, þá þýði það það, að þeir hugsa sér að halda áfram á slíkri braut sem þessari og jafnvel freklega, þegar kosningum væri lokið.

Nú var það sagt við okkur hér í þessari hv. deild, þegar þetta mál var lagt fyrir, að þetta væri krafa bænda í landinu, og við vorum spurðir að því, hvernig við dirfðumst að standa á móti því, sem bændasamtökin heimtuðu í þessu sambandi. Við lásum upp við þær umr., sem fram fóru í þessari hv. deild, þegar þetta mál var hér síðast, margar umsagnir, m.a. frá kaupfélagsstjórum og það valinkunnum framsóknarmönnum úr öllum fjórðungum landsins og alveg sérstaklega þeim fjórðungum landsins og þeim svæðum, þar sem kartöflurækt er hvað mest, sem allir lögðu meira eða minna á móti því, að þetta frv. yrði samþykkt. Við lásum það upp hér. Þm. Framsfl., þeir fáu, sem töluðu seint og litið, vildu sem minnst um þetta ræða. Þeir hliðruðu sér hjá því að taka afstöðu til þess, sem þessir fulltrúar bændasamtakanna úti um land, kaupfélaganna, bændakaupfélaganna, hefðu sagt um málið. Það var auðséð, að það var eitthvert vald þarna á bak við, einhver klíkuskapur, sem var að verki, sem þýddi, að það átti að pína þetta mál fram, hvað sem það kostaði, hvað sem snerti öll rök í málinu. Ég ætla ekki a.m.k. að svo stöddu að fara að tefja menn á því að lesa upp aftur umsagnir kaupfélagsstjóranna, eins og Jakobs Frímannssonar og ýmissa fleiri, um þetta mál. Ég skal gera það, ef ég sæi, að hv. þm. Framsfl. væru farnir að gleyma því, hvað sagt hefði verið um það.

En það er hins vegar máske ekki úr vegi, að það sé minnzt á, hvað komið hefur frá samtökum bænda, ekki kaupfélögum, heldur bændafélögum, síðan þetta mál var til umræðu hér í þessari deild. Það átti upphaflega að knýja þetta mál fram í janúarmánuði, og hefði gengið að vilja Framsfl. hér í deildinni, þá hefði þetta vafalaust farið þannig, að málið hefði verið sett hér í gegn í einum hvelli á nokkrum dögum í janúar, það hefði verið fullyrt, að öll bændastéttin stæði á bak við þetta, og bændur úti um land og þeirra samtök hefðu yfirleitt ekki fengið tækifæri til þess að segja neitt um málið. Hins vegar vildi nú svo til, að af ýmsum ástæðum dróst nokkuð afgreiðslan á þessu máli, og þess vegna hafa bændur, m.a. í ýmsum kartöfluframleiðsluhéruðum landsins, fengið tækifæri til þess að halda fundi og athuga málið og segja sitt álit um það. Ég skal leyfa mér að lesa hér upp samþykkt, sem aðalfundur Bændafélags Eyfirðinga, sem haldinn var á Akureyri 7. marz, hefur gert um þetta mál. Menn taka eftir því, að það er fyrst i. marz og það er aðalfundurinn. Bændur eiga ekki þægilegt með að koma mjög títt saman á fundi, en þeir nota auðsjáanlega það tækifæri, að það er aðalfundur í þeirra félagsskap, til þess að raða líka þetta mál, sem vissir þm. Framsfl. hafa fullyrt að væri bændum í aðalkartöfluframleiðsluhéruðunum gífurlegt hagsmunamál og áhugamál. Þeir nota tækifærið, þegar þeir koma saman á sinn aðalfund, til þess að ræða þetta mál, en eins og menn vita, er Eyjafjörðurinn allmikið kartöfluræktarhérað, og þegar þeir koma saman á sinn fund, hvað samþykkja þeir þá? Samþykkja þeir að lýsa ánægju sinni yfir því, sem Framsfl. sé að reyna að pína hér fram í þessum efnum? Nei, þeir samþykkja það ekki. Samþykkt fundarins hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Aðalfundur Bændafélags Eyfirðinga, haldinn á Akureyri 7. marz 1956, skorar á Alþingi að fella frv. það, sem nú liggur fyrir Ed. um breytingu á lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins. Fundurinn lítur svo á, að breytingar, sem fram koma í þessu frv., séu ekki líklegar til hagsbóta fyrir kartöfluframleiðendur, og telur því fráleitt að kollvarpa því skipulagi, sem verið hefur á þessum málum um nokkurt árabil, eins og ákveðið er í lögum nr. 31 2. apríl 1943, um verzlun með kartöflur.“

Þannig hljóðar þessi samþykkt, sem gerð er af aðalfundi Bændafélags Eyfirðinga. Sem sé aðalfundur þessa Bændafélags Eyfirðinga skorar á Alþingi að fella frv., og hann álítur það fráleitt að kollvarpa því skipulagi, sem verið hefur á þessum málum um langt árabil. Þetta segja bændur í Eyjafirðinum, þegar þeir koma saman á sinn aðalfund. Það er fjarri því, að þeir taki undir með því, sem vissir hv. þm. Framsfl. hafa verið að berjast fyrir hér í deildinni, að þeir þvert á móti skora á Alþingi að fella frv. Það er ekki verið að biðja um að gera einhverjar smábreytingar á því. Það er ekki verið að biðja um að lagfæra það. Það er beinlínis skorað á Alþingi að fella það, að steindrepa það, og þeir taka fram, að það sé alveg fráleitt að ætla að fara að kollvarpa því skipulagi, sem núna sé.

Svo koma þessir hv. þm„ eins og hv. þm. Dal., sem telja sig sérstaka fulltrúa bænda hér í d., og staðhæfa við okkur, að þeir tali í nafni allrar bændastéttarinnar og sérstaklega bænda á kartöfluræktarsvæðunum, þegar þeir halda því fram, að það sé vilji bændastéttarinnar að fá þetta frv. í gegn.

Ætli það sé nú ekki vissara fyrir Framsfl. að taka ofur lítið rólegar á þessum málum, að reyna ekki að pína þetta fram með því offorsi, sem sýnt hefur verið í sambandi við þetta mál, að taka ekki tillit til neinna röksemda, neinna mótmæla, sem fram koma?

Það er í raun og veru slembilukka, ef svo mætti segja, að þessi aðalfundur Bændafélags Eyfirðinga skuli yfirleitt hafa haft tækifæri til þess að fá að segja Framsfl. sitt álit á þessu máli. Hefðu þm. Framsfl. ráðið hér um afgreiðsluna á þessu, hefði málið verið löngu afgreitt, áður en aðalfundur kom saman. Og hann hefði þá kannske ekkert annað getað gert en að mótmæla því, að þessu fyrirkomulagi hefði verið kollvarpað. Nú hefur hann hins vegar fengið tækifæri til þess að segja sitt álit, áður en málið er afgreitt endanlega. Og hver segir okkur, að það kunni nú ekki svo að vera, að víða um land mundu bændafélög ef til vill gera svipaðar samþykktir og Bændafélag Eyfirðinga hefur gert, ef þau fengju tækifæri til þess, ef þeirra aðalfundir færu fram, áður en svona mál væru útkljáð, ef þeir fengju að ræða málið frá öllum hliðum og kynna sér það?

Ég held þess vegna með mál eins og þetta, að það sé rétt að láta afgreiðslu þess bíða. Ég held, að það sé rétt m.a. að lofa bændasamtökum landsins, bændafélögunum sjálfum á hinum ýmsu stöðum í landinu, að segja sitt álit endanlega um það. Við sáum örlítinn vott um, hvernig afstaðan mundi vera hér austanfjalls hjá bændum þar, þegar allmikill bændafundur var haldinn á Selfossi, þar sem þetta mál var rætt, og það er kunnugt, að framsóknarmenn eru þar mjög sterkir og Árnessýsla ekki mjög langt frá Reykjavíkurvaldinu, þannig að það var handhægara að beita Reykjavíkurvaldinu yfir á Selfoss en yfir á Akureyri, þannig að það var þess vegna reynt að knýja fram á þeim bændafundi á Selfossi samþykkt með þessu frv. Og hvernig gekk? Það varð þrívegis að skora á menn af hálfu fundarstjóra að rétta upp hendurnar, þangað til það fengust, ja, ég man nú ekki lengur, hvað það voru margar, eitthvað í kringum 20 hendur á loft og eitthvað þrír á móti, á fundi, sem taldi á annað hundrað bændur af öllu svæðinu frá Selvogi og alla leið austur í Vík í Mýrdal. Svona var nú áhuginn. Svona var nú eldmóðurinn fyrir þessu mikla hagsmunamáli bændastéttarinnar, og það þarf þó ekki að segja okkur, að íslenzkir bændur kunni ekki að standa saman um sín hagsmunamál. Það kunna þeir sannarlega og skilja fyllilega vel. Þeim verður aldrei borið það á brýn, íslenzkum bændum, að þeir skilji ekki, hvað eru hagsmunamál þeirra, og að þeir standi ekki vel saman um þau. En það er vegna þess, að þeir finna, að þetta er ekki þeirra hagsmunamál, sem þarna er um að ræða; að þeir eru svona tregir í þessu máli, að á Selfossi þarf að þríendurtaka það til að fá kannske 1/7 hluta bændafundar til að rétta upp hendur með, og á Akureyri komu fram bein mótmæli á móti frv:

Ég held þess vegna, af því að Framsfl. á það til að taka sér nokkuð oft í munn orðið lýðræði, að hann ætti að lofa fólkinu í landinu, samtökunum í landinu, bæði bænda- og neytendasamtökunum, að fá að segja til um skoðun sína á þessu máli, áður en það er afgreitt frá Alþingi. Eða má ég spyrja: Hvað er það, sem liggur svo á, að það þurfi endilega nú að leggja niður, einmitt á þessu þingi, þá grænmetisverzlun ríkisins, sem búin er að starfa í tvo áratugi? Hvað er það, sem kallar svona að? Eru þetta einhver síðustu helmingaskiptaviðskiptin á milli Framsóknar og Sjálfstfl., áður en þeir skilja í bili? Og má ég þá spyrja: Hvað er það, sem Framsfl. ætlar að hjálpa Sjálfstfl. til að drepa, fyrst Sjálfstfl. er nú að hjálpa Framsfl. til að drepa þetta? Ja, ég veit ekki, hvort það eru kannske einhver frv., sem eru stöðvuð hérna í deildinni nú í augnablikinu, sem verið sé að semja um. Við fáum nú að sjá það næstu dagana, hvernig það muni vera, en það kæmi okkur ekkert á óvart, þó að það væri nú eitthvað nýtt í sambandi við helmingaskiptaregluna, sem væri verið að framkvæma í þessu sambandi.

Mér sýnist þess vegna alveg augljóst eftir þær upplýsingar, sem við höfum nú fengið frá Bændafélagi Eyfirðinga um afstöðu bænda þar nyrðra í þessu máli, upplýsingar, sem aldrei hefðu komið til okkar, ef þessu máli hefði verið flýtt hér í gegn í deildinni, að bændur landsins standa ekki á bak við þessa tilraun til þess að drepa grænmetisverzlun ríkisins. Það er vilji einhverra annarra aðila, það er vilji einhverra valdhafa ofan frá, sem þarna er píndur í gegn, það eru viðskipti, sem einhver valdhafaklíka Framsfl. hefur ákveðið að framkvæma við einhverja aðila hér í Reykjavík og samþykkt um hefur verið pínd í gegn eða flaustrað í gegn hjá Stéttarsambandi bænda og þess almenna þingi, án þess að almennur vilji bænda væri á bak við.

Kaupfélagsstjórarnir, sem við margsinnis höfum vitnað hér í, segja sjálfir, að þeir hafi ekki orðið varir við neinn áhuga hjá bændum fyrir þessu máli. Einn talar um kannske einn eða tvo menn, og það hafa ekki einu sinni verið kartöfluframleiðendur. Það er eitthvað óhreint mél í pokanum í sambandi við þetta mál.

Þetta liggur þá fyrir okkur viðvíkjandi afstöðu þess bændafélags, sem látið hefur Alþingi í té sína skoðun á þessu máli, og við höfum fulla ástæðu til þess að halda, að eyfirzkir bændur séu ekki einir um þá afstöðu.

En hvað svo viðvíkjandi öðrum kartöfluframleiðendum? Það er viðurkennt, að um það bil helmingur allra kartöfluframleiðenda sé í bæjunum, kaupstöðunum, kauptúnunum, þorpunum í landinu, þar sé framleitt meira af kartöflum en í sveitunum. Hvað segja þeir kartöfluframleiðendur? Hér í Reykjavík mun vera upp undir 30% af kartöfluframleiðslunni í landinu, og hér í Reykjavík hefur komið fram eindregin andstaða gegn þessu frv., ekki bara frá vondu fólki, frá alls konar sjálfstæðismönnum, samstarfsmönnum Framsóknar, eða sósíalistum eða einhverjum þaðan af verri, — nei, frá Framsóknarflokknum sjálfum, frá sjálfum samtökum framsóknarmanna í Reykjavík hafa komið fram mótmæli gegn þessu frv. Ekki einu sinni hérna í Rvík, ef almenningur í Framsfl. fær að segja eitthvað um þetta, tekur hann undir við það, heldur þvert á móti. Hann leggst á móti því, alveg eins og bændur norður í Eyjafirði. — Framleiðendurnir í bæjum og kauptúnum og þorpum, sem framleiða helminginn af öllum þeim kartöflum, sem eru framleiddar, eru andvígir þessu frv. Það er vitanlegt, vegna þess að frá þeirra sjónarmiði horfir málið þannig, að það sé verið að taka úr höndum ríkisins einkasölu, sem þeir á ýmsan hátt hefðu þó aðstöðu til þess að hafa máske einhver áhrif á, og fá hana í hendur eins hluta af framleiðendunum. En hvernig er svo með hinn helminginn af þeim, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þessi mál, neytendurna, þá menn, sem eiga að borða kartöflur og borga þær? Þeir hafa hingað til litið svo á, neytendurnir, að fyrir þá væri viss trygging í því, að ríkið hefði einkasölu á kartöflunum, ef á annað borð ætti að vera einkasala þar, að það væri frekar ríkið, sem hefði það, heldur en einn ákveðinn hópur framleiðenda. Hvernig líta nú neytendurnir á þetta? Jú, neytendurnir líta þannig á þetta, að þeir eru mjög tortryggnir og það af eðlilegum ástæðum. Þeir eru á móti því, að ákveðnum hópi manna, ákveðnum hópi, sem hefur sérstakra hagsmuna að gæta sem framleiðendur, sé gefin þarna einkasala, vald gagnvart og yfir neytendunum.

Frá sjónarmiði neytendanna er það eðlilegt, að þeir vilji eitt af tvennu: Ef eigi að vera einkasala, þá hafi ríkið hana, og því ríkisfyrirtæki, sem sé falið að annast hana, sé fyrirlagt að taka jafnt tillit til neytenda sem framleiðenda, eins og grænmetisverzlun ríkisins hefur verið fyrirlagt að gera og hefur yfirleitt vel framkvæmt. Neytendur álíta, að eitt eigi að vera af tvennu, einkasala ríkisins á þessu, ef einkasala eigi að vera á annað borð, eða þá algerlega frjáls verzlun, þannig að menn megi þá flytja inn kartöflur, ef þeim þóknast. Og ég er nú hræddur um, að það auki frekar á tortryggni neytenda, það sem nú gerist í öðrum málum, sem snerta innlenda framleiðslu, heldur en að það eyði þeirri tortryggni. Við skulum taka sem dæmi smjörið í augnablikinu. Það er skortur á smjöri í landinu. Má ég spyrja: Væri það nokkuð óeðlilegt, þó að það yrði flutt inn eitthvað ofur lítið af smjöri, á meðan skortur er á því? Væri það nokkuð óeðlilegt, a.m.k. þegar ástandið er þannig undir stjórn íhalds og Framsóknar, að hvaða óþarfi sem vera skal er fluttur inn í landið?

En það er ekki flutt inn smjör, þó að menn standi smjörlausir, og hv. þm. Framsfl. vita ósköp vel, af hvaða ástæðum það er. Getur nokkur maður láð neytendum, þó að þeir hugsi sem svo: Eftir að einkasala er komin í hendurnar á þeirri klíku, sem Framsfl. nú virðist berjast fyrir að fá hana í hendurnar á, verða þá fluttar inn kartöflur, þó að það vanti kartöflur?

Ég þykist vita, að það verði komið með öll möguleg loforð, ekki sízt þegar búið er að ákveða kosningar, það verður svo sem lofað og kannske séð um, að nógar kartöflur verði um kosningarnar. En þegar á að fara að framkvæma þetta til lengdar, þá er ég hræddur um að verði annað upp á teningnum og að neytendum muni þykja anzi hart að farið við þá. A.m.k. er það staðreynd, að frekar hefur sá aðili, sem nú á að fara að fá völdin í þessum efnum, amazt við kartöfluinnflutningi, þegar grænmetisverzlun ríkisins hefur álitið hann nauðsynlegan, heldur en hitt.

Hér er sem sé um að ræða hagsmunamál, þar sem neytendur landsins eru settir frammi fyrir því, að sú einkaeinokun, sem þarna eigi að skapa, geti neitað þeim um aðra eins nauðsynjavöru og kartöflur, ef það þarf að flytja þær inn. Það getur þess vegna enginn láð þeim mönnum, sem vilja a.m.k. taka jafnmikið tillit til neytenda og framleiðenda í þessum efnum, að þeir mótmæli algerlega samþykkt svona frv. eins og þessa.

Ég hef bent á það við þær umræður, sem hér fóru fram áður í hv. deild, hver fyrirætlunin mundi vera með ákvörðuninni um verðjöfnunargjaldið viðvíkjandi kartöflunum, sem þá var í einni grein frv., og þessir hv. þm., sem hafa fylgt þessu máli fram með svona miklu offorsi; þorðu á endanum ekki annað en að fella þann þátt burt. Það var svo sem auðséð, að upphaflega var meiningin að láta neytendur máske ekki aðeins þurfa að skorta kartöflur, heldur líka láta þá þurfa að borga alveg sérstakt verðjöfnunargjald til þess að bæta upp og borga hærra verð fyrir þær kartöflur, sem færu til fóðurs. Maður sá alveg, hvers konar einokunaraðstöðu var verið að reyna að skapa með þessu móti. Ákvæðið um verðjöfnunargjaldið var tekið út úr frv. Mönnum þótti ekki fært að hafa það þar. En ákvæðið um einokunina, höfuðatriðið í frv., stendur.

Hér í Reykjavík, þar sem meira en þriðjungur þjóðarinnar býr, hefur sjálf bæjarstjórn Reykjavíkur sem fulltrúi almennings tekið þetta frv. til meðferðar, og það kemur nú satt að segja ekki mjög oft fyrir, að bæjarstjórn Reykjavíkur tekur til meðferðar mál, sem rætt er á Alþingi, til þess að láta sérstaklega í ljós sína skoðun á því, og það, sem kemur þó máske enn þá sjaldnar fyrir í slíku sambandi, er, að bæjarstjórn Reykjavíkur verði sammála um afstöðu sína gagnvart slíkum málum. Bæjarstjórn Reykjavíkur gerði hins vegar samþykkt um þetta mál, sem var gerð með samhljóða atkvæðum, það var ekkert mótatkvæði, og sú samþykkt, sem gerð var á bæjarstjórnarfundi 1. marz, hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Reykjavíkur skorar á hæstv. Alþingi að samþykkja ekki frv. það, sem fyrir liggur um grænmetisverzlun landbúnaðarins, og telur, að með frv. sé hagsmuna neytenda ekki gætt sem skyldi.“

Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að þessi samhljóða samþykkt bæjarstjórnar Reykjavíkur hafi á bak við sig vilja alls þorra Reykvíkinga, framsóknarmanna líka, eins og fram hefur komið í þeirra eigin félagi, þannig að þarna liggja fyrir mótmæli frá fulltrúanum fyrir stærsta hóp neytendanna, sem til er í landinu, sem sé f.h. Reykvíkinga, gegn þessu frv.

Þegar það tvennt liggur þess vegna fyrir, að annars vegar eru bændur í Eyjafirði, í því héraði, sem ásamt Þingeyingum hafði forgöngu um samvinnufélagsskapinn í landinu, í því héraði, þar sem samvinnufélagsskapurinn er einna sterkastur á Íslandi, samþykkt gerð í þeim bæ, þar sem Framsfl. er einna sterkastur af öllum bæjum á landinu, að Reykjavík undantekinni, hlutfallslega langsterkastur á Akureyri; frá Bændafélagi Eyfirðinga, aðalfundi þess, höldnum á Akureyri, liggur fyrir samþykkt, þar sem skorað er á menn að fella þetta frv., af því að það sé fráleitt að samþykkja það, og frá Reykjavík, frá bæjarstjórn Reykjavíkur, liggja fyrir f.h. neytenda í höfuðstað landsins mótmæli gegn því, að þetta frv. verði samþ., þá þykist ég nokkurn veginn sjá, að fái almenningur í landinu að segja sitt álit á þessu máli, þá er hann á móti því. Ef þetta mál er sett í gegn, þá er það með hrossakaupum hér á Alþingi, með baktjaldamakki hér, engu betra en því, sem skóp þetta frv. í upphafi. Þegar fyrir liggja þess vegna mótmæli víðs vegar að gegn þessu frv. og gegn samþykkt þess, álit þeirra manna, sem gerst ættu til að þekkja um hugi bænda, eins og kaupfélagsstjóranna, sem vitnað hefur verið hér í, og þessi algera tregða bænda eins og á Selfossi, bændafundarins þar, að samþykkja nokkuð í þessum málum, þá ætti það að vera nokkurn veginn ljóst, að hér er ekki um mál að ræða, sem bændastéttin sem slík stendur á bak við, heldur aðeins lítill valdhafahópur, sem er að reyna að sölsa undir sig og sína klíku völd, sem ríkinu hingað til einu hafa verið fengin. Frá sjónarmiði neytenda er hér um hreint gerræði að ræða, og takist þetta gerræði, þá er auðséð, að það kemur fleira til með að fylgja á eftir. Ég held þess vegna, að nú ætti að láta þetta frv. fá að hvíla sig, láta það fá athugun fram yfir kosningarnar, fyrst Framsfl. er nú búinn að manna sig upp í að ákveða að láta stofna til kosninga í sumar. Svona verk eins og samþykkt þessa frv. hæfa satt að segja líka frekar því, sem á að gera eftir kosningar, heldur en á undan þeim. Það er venjulega, að það er máske hægara fyrir Framsfl. að fá ill verk gerð eftir kosningar en áður, og ég held, að það væri skynsamlegra af honum, af því að ég veit, að hann geymir nú máske fleiri slík ekki góð verk í poka sínum þar til eftir kosningar, að lofa þessu að fylgjast með þeim. Þetta er það slæmt mál, að það á heima með gengislækkun og öðru slíku.

Þess vegna er það mín till., að þessu máli sé nú vísað frá. Það væri máske heppilegast, að hv. landbn. þessarar d. fengi það enn einu sinni til athugunar. Það hefur nú komið í ljós alltaf, þegar þetta frv. hefur verið rætt, að nokkrar lagfæringar hafa verið gerðar á því, og sýnir, að hv. þingmönnum Framsóknar er sem sé ekki alls varnað. Það er hægt að fá þá til að taka tillit til staðreynda, ef þær eru hamraðar nógu oft inn í þá og ef þeir finna, að nógu mikill fjöldi af þeirra eigin fylgismönnum sé orðinn sannfærður um þessar staðreyndir. Ég tók eftir því, að þegar samtök framsóknarmanna hér í Reykjavík voru farin að mótmæla allkröftuglega þessu frv., þá byrjuðu framsóknarþingmenn hér í þessari hv. d. að hugsa, og þeir fóru að hugsa um það, hvort það væri nú ekki e.t.v. rétt að breyta einhverjum ofur litlum stafkrók í frv. Og eftir að hafa hugsað nokkra daga og nokkrar nætur um þetta mál, komust þeir að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera rétt að feila niður verðjöfnunargjaldið, og það gerðu þeir. Á endanum tókst sem sé að berja það inn í þá, þeir hafa kannske ekki sannfærzt um, að það væri vitlaust að hafa þetta í eða að það væri ranglátt, það efast ég um, en að það væri ópraktískt, að það væri ekki rétt að reiða svona hátt til höggs, og þess vegna hættu þeir við það. — Ef hv. þingmenn Framsfl. hér í d. gátu nú vitkazt ofur lítið við það, að þeirra eigin flokksmenn hér í Reykjavík mótmæltu, þá hef ég þá trú út frá því sjónarmiði, að þeim sé ekki alls varnað, að þeir mundu e.t.v. vitkast eitthvað ofur lítið meira, þegar þeir vissu, að bændur norður í Eyjafirði, svo góðu framsóknarkjördæmi, mótmæltu svona skarplega eins og þeir hafa gert. Hver veit þess vegna nema hv. þingmenn Framsfl. hér í d. fengjust aftur til að hugsa, ef þetta mál færi nú t.d. til landbn., og fengjust nú e.t.v. til þess að fjarlægja einhvern agnúa til á frv.? Ég held þess vegna, að það væri mjög heppilegt, að landbn. tæki nú málíð enn þá einu sinni til athugunar, enda held ég, að það væri rétt, áður en endanleg afstaða er tekin í málinu, að það kæmi alveg greinilega fram. Og því vil ég alveg sérstaklega skjóta til þingmanna Sjálfstfl. hér í þessari hv. d., að það kæmi alveg greinilega fram, ef það er meining Framsfl. að knýja þetta mál fram í því formi, sem það nú er, hvort Sjálfstfl. væri þá fylgjandi því, sem hann segist almennt vera svo mjög fylgjandi, að koma á frjálsri verzlun, frjálsri verzlun með kartöflur til dæmis. Ég leyfi mér bara að bera þá spurningu fram, af því að ég þykist vita, að eitt af því, sem muni verða eitt það stóra mál Sjálfstfl., þegar hann leggur til kosninga nú, verði eins og vant er frelsi í viðskiptum. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þingmenn Framsfl., hvort þeir væru kannske með því þá að gefa frjálsa verzlunina með kartöflur. Það virðist nú satt að segja ekki farið fram á mikið, að Íslendingar mættu flytja inn kartöflur, að þeir mættu kaupa kartöflur frjálst. Ég held, að það sé ekkert voðalegt frelsi, sem farið er fram á með því. Og ef Sjálfstfl. er fylgjandi frjálsri verzlun með lúxusbíla eða hvern fjandann sem er, þá finnst mér nú, að ef hann vill framkvæma sína hugsjón um frjálsa verzlun, þá gæti hann þó a.m.k. gert það hvað kartöfiur snertir, það sé ekki til mikils mælzt. Og ég vil segja það, að við erum fyllilega reiðubúnir að taka það til athugunar, ef það á að berja það hér í gegn að leggja niður einkasölu ríkisins til þess að skapa einkasölu einstakra manna, hvort það sé þá ekki betra að gefa verzlunina algerlega frjálsa.

Þetta vildi ég biðja hv. þingmenn að hafa til athugunar við umr. um þetta mál, en mín tilmæli til hæstv. forseta eru þau, að landbn. fái tækifæri til þess að athuga þetta mál, áður en það verður afgreitt hér endanlega frá hv. deild.