21.11.1955
Neðri deild: 21. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

104. mál, sjúkrahúsalög

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Ég flyt þetta mál ásamt hv. 2. þm. Rang., hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf. Eins og tekið er fram í grg. fyrir frv. þessu, hefur verið litið svo á, að ríkissjóðsstyrkurinn, sem bæjar- og sveitarfélög fá samkv. lögum til þess að koma upp sjúkrahúsum, nái einungis til kostnaðar við húsbygginguna sjálfa. Af því leiðir, að þeir aðilar, sem brjótast í að koma upp sjúkrahúsum, verða einir að standa straum af kostnaði við kaup á öllum útbúnaði, áhöldum og lækningatækjum, sem nauðsynleg eru við starfrækslu sjúkrahúsa.

Allir vita, að útbúnaður sjúkrahúsanna, ef hann á að vera í samræmi við þær kröfur, sem nú eru gerðar, er mjög verulegur hluti af heildarkostnaðinum við að koma upp sjúkrahúsum. Með aukinni tækni og framförum á sviði læknavísindanna má gera ráð fyrir því, að kostnaður vegna áhaldakaupa komi til með að vaxa. Ég hef ekki aflað mér upplýsinga um hlutföllin á milli kostnaðar við húsbyggingu og vegna útbúnaðar hjá þeim aðilum, sem reist hafa sjúkrahús síðari árin, en get þó upplýst, að röntgentæki fyrir fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri kostaði eitt út af fyrir sig milli 400 og 500 þús. kr. og helztu eldunartæki um 150–200 þús. kr. Gefur þetta nokkra vísbendingu um það, að allur kostnaðurinn við kaup á tækjum og áhöldum til nýs sjúkrahúss sé ekki neitt smáræði.

Ástæðan fyrir því, að ríkissjóðsstyrkurinn hefur ekki verið látinn ná til búnaðar sjúkrahúsanna, mun vera sú, að með því á að fyrirbyggja, að bæjar- og sveitarfélög legðu í óþarflega mikinn kostnað vegna kaupa á tækjum. Með því væri skapað aðhald fyrir þessa aðila.

Þetta sjónarmið má að því leyti viðurkenna, að mjög misjafnlega er unnt að kosta til búnaðar sjúkrahúsanna, sem fer eftir efnum og ástæðum, og erfitt fyrir heilbrigðismálastjórnina að fylgjast með því, að fullrar ráðdeildar sé gætt. En á það verður einnig að líta, að tækin eru ekki síður nauðsynleg til starfrækslunnar en sjálfur húsakosturinn og því hæpin afstaða að undanskilja þau með öllu ríkisstyrk. Þá er sú hætta og fyrir hendi, að þeir, sem eru að koma upp sjúkrahúsum, geti ekki án aðstoðar ríkisins búið þau eins vel út og nauðsynlegt mætti teljast.

Á Alþ. hafa áður komið fram till. um, að allur útbúnaður sjúkrahúsanna verði styrkhæfur, en þær ekki náð fram að ganga af þeirri ástæðu, sem getið hefur verið um.

Með frv. þessu er nú leitazt við að fara meðalveginn. Fylgt er þeirri meginreglu, að bæjar- og sveitarfélögin kosti útbúnað sjúkrahúsanna, þó að því undanskildu, að ríkið taki að sínum hluta þátt í kostnaði vegna kaupa á ákveðnum tækjum, sem nauðsynleg eru, og kostnaði vegna lagfæringar á lóð. Í frv. er lagt til, að ótvírætt sé kveðið á um það, að ríkissjóður greiði að sínum hluta, þ.e.a.s. 2/5 hlutana, þegar um almenu sjúkrahús er að ræða, og 3/5, þegar um fjórðungssjúkrahús er að ræða, kostnað við lagfæringu á lóð, kaup á meiri háttar eldunartækjum og matreiðsluvélum, sem notast eiga til frambúðar í eldhúsi, meiri háttar þvottavélum í þvottahúsi, svo og, þegar um er að ræða 20 rúma sjúkrahús og stærri, kostnað við kaup á aðalröntgentæki, enda sé búnaður þess við hæfi sjúkrahússins.

Á undanförnum árum hefur verið gert stórt átak í þá áttina að bæta sjúkrahúsakostinn í landinu. Um nauðsyn þess hafa allir verið sammála, enda í fullu samræmi við aukna menningu þjóðarinnar og batnandi fjárhagsafkomu. Það hlýtur ætíð að vera ein af frumskyldum þjóðfélagsins að fyrirbyggja vanheilsu með öllum hugsanlegum og mögulegum ráðum og rétta þeim ógæfusömu hjálparhönd, sem orðið hafa sjúkdómum að bráð. Í því skyni verður að leggja allt það af mörkum, sem nauðsynlegt er og fjárhagsgetan leyfir. Í baráttunni fyrir aukinni heilbrigði þjóðarinnar þarf að leggja áherzlu á margt, eins og t.d. góða menntun læknastéttarinnar, fullkomna og árvaka heilsugæzlu, en ekki hvað sízt á það, að fyrir hendi sé nægur og góður sjúkrahúsakostur. Á því sviði hefur ríkisvaldið haft margvíslega forgöngu. Má t.d. benda á landsspítalann og heilsuhælin, sem ríkið hefur rekið. Á síðari árum hafa verið gerðar miklar umbætur á ríkisspítölunum og næstum lokið við að koma upp hjúkrunarkvennaskóla, sem er bráðnauðsynleg stofnun til þess að tryggja rekstur sjúkrahúsanna.

Það hefur verið hlutverk sveitar- og bæjarfélaganna að hafa forgöngu um að koma upp almennum sjúkrahúsum úti um land og annast rekstur þeirra. Samkv. lögum hefur ríkissjóður greitt ákveðinn hluta af stofnkostnaðinum, þ.e.a.s. byggingarkostnaði, og með lögum frá Alþ. í fyrra var rekstrarstyrkur ríkissjóðs til sjúkrahúsanna stórum aukinn frá því, sem verið hafði. Rekstur sjúkrahúsanna hefur verið stór útgjaldaliður hjá mörgum sveitarfélögum, og er mjög vafasamt, svo að ekki sé meira sagt, að hægt hefði verið að halda áfram rekstri stærri húsanna, ef styrkurinn hefði ekki verið samþykktur í fyrra, eins og nú er komið öllu verðlagi í landinu.

Sveitarfélögin hafa ekki brugðizt þeirri skyldu að sinna heilbrigðismálunum að sínum hlut, eftir því sem efni hafa leyft. Í öllum bæjum og stærstu kauptúnunum eru núna rekin sjúkrahús. Víða úti um land eru nú risin upp ný sjúkrahús, sem miðað við allar aðstæður mega teljast hin fullkomnustu. Sem dæmi um framtakssemi eins einasta sýslufélags á þessu sviði má benda á nýja sjúkrahúsið á Blönduósi, sem enn er í smiðum. Akureyringar hafa komið upp fjórðungssjúkrahúsi, sem mun kosta sem næst 13 millj. kr., þegar það er fullgert með öllum útbúnaði. Og komin eru upp ný sjúkrahús á Akranesi og í Keflavík. En fram hjá þeirri staðreynd verður ekki komizt, að framkvæmdirnar í heilbrigðismálunum hafa gengið nærri fjárhag sveitarfélaganna þrátt fyrir myndarlegan stuðning ríkisins, svo nærri, að af geta hlotizt vandræði. Tekjumöguleikar sveitarfélaganna eru takmarkaðir og í mörg horn að líta. Þegar staðið hefur til að reisa nýtt sjúkrahús eða endurbæta gamalt, hafa menn af eðlilegum ástæðum viljað vera stórhuga og stórtækir, og þá hefur verið stofnað til skulda, sem erfitt getur reynzt að ljúka.

Frv. þessu er ætlað, eins og gerð hefur verið grein fyrir, að hlaupa undir bagga með sveitarfélögunum og gera þau þannig færari um að koma upp fullkomnum heilbrigðisstofnunum. Með því eru lagðar auknar álögur á ríkissjóðinn, en útgjöld, sem frekar en mörg önnur byggjast á mikilli þörf og sanngirni.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um það; að ákvæði frv., verði það að lögum, nái einnig til sjúkrahúsa, sem tekin hafa verið í notkun síðan 1. jan. árið 1952. Byggist það á því, að síðustu árin hafa verið tekin í notkun fullkomin sjúkrahús á Akranesi, í Keflavík og á Akureyri, en kostnaður þeirra er enn ekki nema að mjög litlu leyti greiddur og endanlegu uppgjöri vegna byggingar þeirra ekki lokið, að því er ég bezt veit.

Ég óska svo eftir því, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbrmn.