22.03.1956
Efri deild: 90. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

162. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað þetta frv. Hún hefur sent það til umsagnar landnámsstjóra og jarðeignadeild ríkisins, og fylgir hér með prentað á þskj. 504 álit landnámsstjóra, sem útskýrir málið mjög vel, svo að það er ekki þörf á því að bæta þar neinu við.

Þó skal ég nú geta þess svona persónulega frá sjálfum mér, að ég skil ekki, hvað hreppstjórinn á Eyri ætlar að gera við Engjanesið, sem liggur mjög langt frá honum, og hann getur varla notað það til annars en að hirða rekann, sem þar kann til að falla. En jörðin byggist áreiðanlega aldrei sem sjálfstæð jörð og hefur aldrei verið eiginlega nein jörð, þó að einhverjir hafi einhvern tíma dregið þar fram lífið, og þess vegna er svo sem ekkert á móti því, að honum sé seld hún. Hann er a.m.k. nær því en menn héðan úr Reykjavík að nytja sér rekann, þó að hann sé langt frá honum.

En svo barst nefndinni bréf frá skógræktarstjóra í gegnum ríkisstj., sem óskaði eftir því að beiðni skógræktarstjóra, að skógrækt ríkisins væri heimilt að selja til ábúandans að Skriðufelli þann hluta Skriðufells, sem hann hefur búið á, hluta úr jörðinni Skriðufelli, sem skógræktin keypti fyrir alilöngu til þess að geta friðað Þjórsárdal. Það var þó nokkuð mikið vafamál, hvernig átti að taka á þessu máli. Í fyrsta lagi er vafamál, hvort skógrækt ríkisins þarf nokkra heimild frá Alþingi til að selja þær jarðeignir, sem hún hefur umráð yfir. Það er vafasamt. En með því að taka það hér inn í frv., vil ég slá því föstu, að skógræktin hafi eftirleiðis ekki heimild til að selja af sínum jarðeignum, án þess að það fari í gegnum Alþingi.

Það, sem þarna er um að ræða, er hluti af jörðinni Skriðufelli, sem skógræktin telur að hún þurfi ekki á að halda, hvorki til að friða þann skóg, sem er í landi jarðarinnar, sem verður að mestu utan við þetta, né heldur til að varna uppblæstri, eins og hún gerir með friðun Þjórsárdals.

Þegar búið er að slá því föstu að heimila ríkisstj. að selja þennan jarðarhluta og gera það í gegnum Alþingi, þá er eftir að koma sér saman um, á hvern hátt kaupverðið skuli ákveðið. Þar sem skógræktin heyrir undir ríkisstj., ákveðinn ráðh., þá var lútið liggja opið, hvort jörðin væri seld fyrir verð, sem ráðh. og skógræktarstjórinn kæmu sér saman um við viðkomandi mann, ráðh. sem yfirmaður skógræktarinnar samþykkti söluverðið, eða þá eftir matsverði dómkvaddra manna.

Með þessari brtt., ef að lögum verður, tel ég slegið föstu þrennu: Fyrst því, að þær jarðeignir, sem hálfopinberar stofnanir, heyrandi undir ríkisstj., kunna að komast yfir og eignast á einn eða annan hátt, verði ekki aftur seldar nema með lögum frá Alþingi; því öðru, að þegar um það sé að ræða, þá geti verið, hvort sem vera vill, að verðið sé ákveðið af ríkisstj. eða þeim ráðh., sem viðkomandi hálfopinber stofnun, í þessu tilfelli skógræktin, heyrir undir, eða að matsverði dómkvaddra manna.

Í samræmi við þetta verður fyrirsögn frv. að breytast, og við höfum gert till. um það. Ef svo færi, að hv. deild væri ekki sammála okkur um að taka Skriðufell þarna inn í, heldur liti hinn veginn á málið, að heimild um sölu Skriðufells sé óþörf hér, skógræktarstjórinn geti einn ráðið því, það séu engin lög um það, hvort hann selji þær jarðeignir, sem skógræktin á, og fyrir hvaða verð, þá þarf náttúrlega aftur að breyta fyrirsögninni, ef sú till. okkar yrði felld.

En ég held nú, úr því að það er verið með lög um sölu á hvað litlum landskika sem er, sem ríkissjóður á, þá sé rétt að láta það sama ganga yfir þær opinberu stofnanir, sem eru að nokkru leyti sjálfstæðar, en þó í raun og veru, þegar allt kemur til alls, ríkiseign og stjórnað af ríkinu.