10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Launalagafrv., sem hér liggur fyrir, er á margan hátt mjög athyglisvert. En það, sem mér þykir merkilegast í sambandi við þetta frv., er raunverulega sá tilgangur, sem liggur á bak við það, að mér helzt sýnist, af hálfu ríkisstjórnarinnar og m. a. frá hæstv. fjmrh. Ég veitti því t. d. athygli, að þegar frsm. fjhn. hafði talað hér fyrir brtt. n., en n. flutti margar brtt. og allar til hækkunar, kom hæstv. fjmrh. hér upp í ræðustólinn og talaði nokkur orð og sagði, að honum þætti afgreiðsla fjhn. sköruleg á þessu máli og hann vildi mjög hvetja þm. til að samþykkja allar till. n. og frv. þá sem heild. Þetta hlýtur að láta alleinkennilega í eyrum þeirra manna, sem hlustað hafa á ræður hæstv. fjmrh. og reyndar ríkisstjórnarinnar allrar að undanförnu. Hæstv. fjmrh. hefur barizt manna mest gegn því, að verkamenn og aðrir láglaunamenn í landinu fengju nokkrar launabætur, og talið, að voði væri fyrir dyrum í efnahagskerfi þjóðarinnar, ef smávægilegar launabreytingar þar næðu fram að ganga. En þegar hins vegar liggur fyrir að gera stórfelldar breytingar á launakjörum hæst launuðu manna í landinu, þá segir þessi sami ráðh., að hér sé skörulega að verið og sjálfsagt að samþykkja orðalaust allar hækkanir. Ég get ekki varizt því að setja þetta nokkuð í samhengi við það, sem maður hefur orðið var við að undanförnu að ríkisstjórnin hefur í öðru orðinu talað um ógæfu þess, að verðlag allt færi hækkandi í landinu og erfitt væri fyrir framleiðsluna að standa undir framleiðslukostnaði, en hins vegar hefur ríkisstj. ekki skeytt því á neinn hátt, þó að hún hafi fengið daglega tilkynningar um stórfelldar verðhækkanir, sem ekki hefur verið annað hægt að sjá en gerðar væru að tilefnislausu. Ríkisstjórnin hefur ekkert haft við þær að athuga, engar ráðstafanir gert til að koma í veg fyrir þessar miklu verðhækkanir, en jafnan bætt því við, þegar hún talar um verðhækkanirnar: Ja, þetta er allt saman afleiðing af því, að kaup verkamanna var hækkað. Svona hlaut þetta að fara. Þetta höfðum við sagt, og þetta hlýtur því allt að fara um koll. — Ég verð því að segja, að mér finnst, að þetta með launalagafrv. minni óneitanlega nokkuð mikið á þessar staðreyndir, að nú megi gjarnan samþykkja hvað sem er í sambandi við launalög, helzt sem allra mest og allra hæst til allra, auðvitað með þeirri allsherjar skýringu: Þetta er verkföllunum í vetur að kenna. Vorum við ekki búnir að segja þetta? Þarna sjáið þið það. Er ekki allt að fara á hausinn? Verður nú ekki að grípa til einhverra óyndisúrræða? — Þegar búið er að leyfa þeim, sem fara með völdin í verðlagsmálum, að spana upp verðlag alveg að óþörfu, þegar ríkisstj. sjálf er búin að þenja þannig launahækkanir í ýmsum greinum hjá hæst launuðu embættismönnum í landinu, að langt keyrir úr hófi fram, þá eru þó komin rök fyrir því að segja: Þarna sjáið þið það. Er ekki nauðsynlegt að grípa til gengislækkunar eða annarra ráðstafana? Verðum við ekki að gera það? — Og kannske á að sætta suma embættismenn við að vera með gengislækkunarfrv. í skjóli þess, að búið sé að hækka kaup þeirra miklu meira en annarra starfsmanna í landinu.

Það verður ekki um deilt, að eins og þetta launalagafrv. liggur hér fyrir, eru ýmsir starfsmenn og þeir allmargir, sem fá með þessu frv. og þeim till., sem hér liggja fyrir, stórfelldar launahækkanir. Það verður ekki hægt fyrir hæstv. fjmrh. að skjóta sér undan því á neinn hátt, ekki með því að segja, að samanburðurinn sé rangur, að það er staðreynd, að ýmsir forstjórar fá samkvæmt þessu frv. 34.6% launahækkun frá því, sem var í ársbyrjun og nú til ársloka. Þó að launahækkun þeirra fari að nokkru leyti fram á þann hátt, að vísitöluskerðing, sem í gildi hefur verið á launum þeirra, er afnumin eða hluti af þeirra kauphækkun kemur fram í grunnlaunabreytingu, þá stendur eigi að síður eftir sú staðreynd, að kaup þessara manna hækkar um 34.6%. Engin leið verður að neita þessu.

En þá er aðeins eftir að athuga það: Er 34.6% launahækkun hjá ýmsum forstjórum á vegum ríkisins sambærileg launahækkun og jafnsanngjörn og þær launahækkanir, sem fram hafa farið að undanförnu til lægst launuðu manna í þjóðfélaginu, til verkamanna? Vill hæstv. fjmrh. reyna að sanna, að hér sé um jafnræði að ræða? Nei, hann reynir það ekki, því að hann getur það ekki. Hér er um miklu meiri hækkun að ræða en átt hefur sér stað á undanförnum árum á kaupi verkamanna. Þessi launahækkun, sem í ýmsum tilfellum fer jafnvel yfir 50%, á sér engin fordæmi. Hitt er svo vitanlega alltaf hægt að segja: Þessir ágætu launamenn eru í svo þýðingarmiklum störfum og þeir eru svo góðir menn, að það er sanngjarnt, að þeir verði hækkaðir miklu meira en ýmsir aðrir þegnar þjóðfélagsins. En þá er það meiningin, að eftir þeim ákvæðum, sem hafa verið í lögum um margra ára skeið og tryggt hafa þessum mönnum tvöföld og þreföld laun verkamanna, hafi laun þeirra verið ósanngjarnlega lág og nú beri að hækka þau meira en laun lægst launuðu manna í landinu hafa verið hækkuð. Hitt er svo aftur rétt, að lægstu launaflokkarnir samkv. þessu frv. eru tiltölulega lítið hækkaðir, og það má segja, að þrír lægstu launaflokkarnir, XV., XIV. og XIII., séu hækkaðir ákaflega ámóta og kaup verkamanna hefur verið hækkað, enda er það svo, að þrír lægstu launaflokkarnir af fimmtán samtals eru allir með álíka launahæð og verkamenn hafa. Verkamenn hafa með 8 stunda vinnudegi tæpar 24 þús. í grunnlaun á ári, miðað við að vinna alla vinnudaga ársins, en XIII. launaflokkurinn hefur einmitt 23700 kr. hér, en allir hinir launaflokkarnir þar fyrir ofan allmiklu meira.

Hæstv. fjmrh. minntist á það, að þegar umr. hefðu verið hér á Alþingi um launahækkun til handa verkamönnum, hafi hann spáð því, að þeir menn, sem stóðu með launahækkun verkamanna, mundu einnig verða með launahækkun um til opinberra starfsmanna. Hann þurfti ekki að spá neinu um þetta, því að það var aldrei dregin nein dul á það og hefur aldrei verið af hálfu okkar, að við töldum sanngjarnt og teljum sanngjarnt, að menn með svipuð laun fái svipaða launahækkun. En hitt sögðum við þá og segjum enn, að þó að verkamenn, sem eru lægst launaðir, á einhverju tímabili knýi fram launabætur sér til handa, t. d. um 10%, þá er ekki þar með sagt, að hæst launuðu menn í þjóðfélaginn eigi einhverja kröfu á því að fá sömu launahækkun sér til handa. Hæstv. fjmrh. getur vitanlega búið slíka kenningu til handa sér, en hann getur ekki búið þá kenningu til handa öðrum mönnum. Við munum ekki fallast á það, þó að hann vilji gera það að algildri reglu, að ef þeir lægst launuðu fá lítils háttar launabætur, þá eigi allir að fá þær, og enn þá síður vitanlega er það þá réttmætt, að þeir fái miklum mun hærri launabætur en hinir, ekki aðeins í krónum talið, heldur líka hlutfallslega. Mín skoðun er sú, að þeir, sem eru í hæstu launaflokkunum, hefðu gjarnan mátt t. d. una við það að fá álíka margar krónur til hækkunar á sitt kaup og þeir lægst launuðu hafa fengið í krónum talið á sitt kaup, en því er nú ekki aldeilis að heilsa.

Nei, hér er um það að ræða, og það er það, sem rétt er að undirstrika í þessum efnum, að þetta frv. táknar stórkostlega launahækkun. Þetta eru í ýmsum greinum hæstu till. um launahækkanir, sem fram hafa komið í sambandi við launakröfur á undanförnum árum, og það er rétt, að það verði ekkert undan dregið, að það er sjálf ríkisstj., sem stendur að slíkum till. hér á Alþingi, að hækka laun hæst launuðu mannanna í landinu um hærri hundraðstölu en nokkrir aðrir þegnar þjóðfélagsins hafa farið fram á í kröfum sínum. Mér þykir ekkert undarlegt, að afleiðingarnar af slíku frv. eins og þessu, eins og það liggur fyrir, verði þær, að fjöldamargar aðrar stéttir í þjóðfélaginu komi á eftir, og ríkisstj. mun sannarlega ekki takast að telja mönnum trú um það, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, sé einhver afleiðing af verkföllunum frá s. l. ári eða frá því fyrr á þessu ári, því að það er það ekki. Ég býst t. d. við því, að sjómenn þeir, sem nú eru að vinna að hækkuðu fiskverði og að hækka sitt kaup og nú hafa sagt upp sínum samningum, að togarasjómenn, sem líka hafa sagt upp samningum sínum nú, dragi ekki úr kröfum sínum, sem þeir hafa sett fram, þegar þeir sjá, að ríkisstj. gefur tóninn á þann hátt, sem þetta frv. gerir. Ég hugsa, að þeir hiki ekki við að standa nokkuð þétt á því, að þeir fái t. d. 10– 15% launabætur, þegar ráðherrarnir ætla sér sjálfir 50% á miklu hærra kaup. Ríkisstj. getur kennt sjálfri sér um, hvað verður eftir slíkar till. eins og þessar, því að þær vitanlega hljóta að auka á það ósamræmi, sem fyrir hefur verið, en ekki jafna það. Hitt stendur svo alveg óbreytt, að við sósíalistar munum gjarnan verða með því, að hinir lægra launuðu af opinberum starfsmönnum fái fyllilega sambærilegar launabætur og verkamenn hafa fengið og aðrir launaflokkar til samræmis við það, en ekki heldur meir.

Þetta launalagafrv. er á ýmsan hátt útbúið á þann veg, að það lætur kannske ekki mjög mikið yfir sér fyrst þegar menn sjá það. Í grg. frv. segir, að gert sé ráð fyrir launahækkun almennt um 9–10%, en launahækkanirnar, sem skaga svona upp úr, hafa nefnilega verið teknar í ekki minna en fjórum áföngum nú á stuttum tíma. Ýmsir aðilar hafa fengið beina grunnlaunahækkun með því, að sú skerðing, sem var á grunnlaunum, hefur verið afnumin, þeir hafa fengið verulega hækkun í kaupi með því að afnema skerðingu á vísitölu, vitanlega verður að telja þetta til kauphækkunar, því að þetta verkar sem kauphækkun, svo fá þeir hækkun um 9–10% samkvæmt þessu frv., og svo í fjórða lagi fá þeir hækkun með því að vera margir hverjir hækkaðir um einn til tvo launaflokka, og það er þetta samanlagt, sem gerir þessa miklu kauphækkun.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða um þetta meira á þessu stigi, en vildi gjarnan, að það kæmi hér skýrt fram, að þér er verið að koma fram launahækkunum, sem eru ekki í neinu samræmi við þær launabreytingar, sem orðið hafa á undanförnum árum til verkamanna, og meginið af þessum launahækkunum, sem hér er að finna, er ekki hægt að rökstyðja á neinn hátt með tilliti til kauphækkana verkamanna. Það er ríkisstj., sem boðar hér almenna launahækkun, og það er hún, sem ber ábyrgðina á þeim afleiðingum, sem þessar nýju tillögur raunverulega fela í sér.