10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það kveður við nokkuð sérstæðan tón í þessu máli frá þm. sósíalista. Uppbótarþingmaðurinn frá Vestmannaeyjum (KGuðj) byrjaði og hv. síðasti ræðumaður (LJós) hélt áfram í sama tón, og hann er nokkuð annar en tónninn var í þessum mönnum og þessum flokki eftir verkföllin og launahækkanirnar, sem urðu hér í landi á s. l. vori. Ég man ekki betur en blað kommúnistaflokksins hafi þá viðhaft þau orð, að þetta væri eiginlega einn mesti stórsigur í launahækkunum, sem nokkru sinni hefði unnizt hér á landi. En nú heyrum við, að það hafi eiginlega naumast orðið nokkrar launahækkanir eða a. m. k. mjög litlar í vor, en það sé eitthvað öðru máli að gegna núna.

Þetta er auðvitað mjög gagnsær og almennur loddaraleikur hjá kommúnistum. Í þeirri deilu, sem á hverjum tíma stendur, fer bezt á því, að hún sé a. m. k. ekki til samræmis við það, sem áður hefur skeð, heldur að hún geti orðið ástæða til þess að halda kapphlaupinu áfram. Þungamiðja í ræðum þessara fulltrúa kommúnistaflokksins hérna er þess vegna sú, að með þeim breytingum, sem nú sé verið að gera, sé verið að bjóða heim nýjum launahækkunum. Út af þessu almennt vil ég segja það, að ég tel, að það hafi verið til lítils ávinnings fyrir launastéttir landsins, verkafólkið, sem fékk hinar almennu launahækkanir á s. l. vori, og að þær hækkanir, sem þá voru knúðar fram fyrst og fremst fyrir tilstuðlan kommúnista og samstarfsmanna þeirra, hafi ekki náð þeim tilgangi, sem launahækkanir ættu að miðast við, að bæta kjör þeirra, sem um er að ræða. Ég hygg, að ef fólk, sem fékk launahækkanirnar í vor, skyggnist í eigin barm, þá sjái það nú, að það er lítill vinningur, sem það hefur haft af þeim launahækkunum, og það er vegna þess, að þær voru svo almennar, að þær hafa dregið á eftir sér stórkostlegar verðhækkanir, sem gera þær meira og minna lítils virði fyrir þá, sem þeirra áttu að verða aðnjótandi. Um leið og ég segi þetta, vil ég taka fram, að ég tel, að það hefði verið rétt og sanngjarnt að hækka laun þeirra lægst launuðu á s. l. vori, og það hefði komið láglaunamönnum að liði, en almenn launahækkun, sem knúin var fram þá, hefur ekki komið neinum að liði, heldur orðið almenningi til tjóns, og fyrir það gjalda nú Dagsbrúnarverkamenn og aðrir láglaunamenn í þessu landi. Ef menn hefðu horft raunverulega á hagsmuni þeirra lægst launuðu og viljað bæta þeirra kjör, þá hefðu menn farið öðruvísi að. En það er ekki hægt að ætlast til þess einu sinni af kommúnistum og þeirra fyrirsvarsmönnum, að þeir séu að hugsa um að bæta kjör þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, því að það er allt annað, sem fyrir þeim mönnum vakir.

Um afgreiðslu þessa máls í fjhn. hefur hv. frsm. n. rætt, og ég hef mjög litlu við að bæta þá grg., sem hann gerði fyrir afstöðu n. Ég veit ekki, hvort það er rétt, að afgreiðsla n. á þessu máli sé á nokkurn hátt röskleg eða myndarleg, eins og haft hefur verið á orði hérna. Að mínum dómi er það svo, að þingnefnd hefur mjög takmarkaða aðstöðu til að kryfja mál eins og þetta til mergjar. Þess vegna var líka til þess stofnað, að mþn. eða launamálanefnd vann að þessu máli f. h. ríkisstj., og við í fjhn. höfum enn sem komið er ekkert gert annað en að taka upp á okkar arma þær brtt., sem n. höfðu borizt og þessi launamálanefnd hafði fallizt á. Þar með er að vísu okkar starfi ekki lokið, eins og fram kemur í nál., og höfum við haft fyrirvara um það, að bæði n. og einstakir nm. þurfi ef til vill að flytja brtt. og færa málið að einhverju leyti til frekari lagfæringar en orðið er.

Ég tel, að laun opinberra starfsmanna í þessu landi séu almennt lág og það fái ekki staðizt, sem hér hefur verið haldið fram, að hér væri verið að hækka laun hálaunamanna í þjóðfélaginu, og þegar ég segi þetta, miða ég við kjör annarra manna yfirleitt í þessu landi. Mér finnst einnig, að launamismunur í almennum launalögum sé enn allt of lítill, enda þótt hann sé núna nokkru meiri en var, þar sem vísitöluskerðing hefur verið afnumin af hærri launum.

Ég tel, að það hafi verið mjög mikil óheillaþróun í launamálum ríkisins á undanförnum árum, sú stöðuga jöfnun á launum, sem þar átti sér stað; það eigi að hafa launamismuninn meiri, launa meira þá, sem ábyrgðarstöðum gegna, gera betur við þá en gert hefur verið í samanburði við aðra, og það geti orðið beinlínis skaðsamlegt fyrir þjóðfélagið, ef launamismunurinn sé orðinn of lítill, á þann hátt, að þeir, sem gegna minni háttar og ábyrgðarminni störfum, hafi allt að því sömu laun og þeir, sem krafizt er mikils af og eiga að gegna ábyrgðarmiklum störfum, enda hygg ég, að það verði vart fundið annað þjóðfélag, sem að þessu leyti hefur jafnmikla jöfnun á launakjörum og er hjá okkur.

Við höfum einnig búið við þau skattalög í þessu þjóðfélagi, að ríkisvaldið hefur sínar aðferðir til þess að taka kúfinn af þeim aftur, sem hæst eru launaðir, svo að mismunurinn verður aldrei eins mikill á því fé, sem í vasa launamannanna fer. — Að eðli til mundi ég telja réttara að stefna að því að hafa ábyrgðarstöðurnar hærra launaðar, miðað við þær, sem eru minna virði.

Við erum á öndverðri skoðun í þessu máli, hv. þm. A-Húnv. og ég, sem báðir eigum sæti í fjhn. af hálfu Sjálfstfl., og það er auðvitað ljóst, enda engin dul á það dregin, að hann í sinni afstöðu talar þar ekki fyrir hönd flokksins, þar sem þm. flokksins hafa að þessu leyti skiptar skoðanir. Ég tel ekki rétt hjá hv. þm. A-Húnv. það, sem kemur fram í nál. hans, að tala hér um launahækkunarstefnu, sem hættuleg sé í þjóðfélaginu, heldur er hér verið í raun og veru að færa til samræmis laun opinberra starfsmanna við laun annarra stétta þjóðfélagsins með hliðsjón af því, sem orðið hefur, eftir að síðustu launalög voru sett.

Það er erfitt að átta sig á því, hvort rétt eða eðlilegt samræmi sé á milli einstakra flokka í launalögunum, og þar getur sjálfsagt alltaf nokkuð sitt sýnzt hverjum. Ég tel, að sú almenna launahækkun, sem hér er um að ræða, sé sanngjörn, en það sé að sjálfsögðu enn mjög mikið álitamál, hvort ekki þurfi að lagfæra að einhverju leyti laun einstakra launaflokka og einstakra aðila, sem hér eiga hlut að máli. En ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að nefndir þingsins eiga þar mjög erfitt starf, og sjálfsagt verður alltaf álitamál, hvort þær geta verulega krufið það mál til mergjar og það verði ekki að verulegu leyti að byggjast á samráði við þá mþn. eða launamálanefnd, sem áður hefur að þessu máli unnið.