22.03.1956
Neðri deild: 91. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

56. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta hefur dvalið dálítinn tíma hjá samgmn., en á meðan það var hjá n., sendi hún það til umsagnar vegamálastjóra, sem hefur látið álit sitt í ljós, og er það birt með áliti n. á þskj. 519.

Nefndinni þótti hagkvæmara, að sá háttur yrði á hafður, þegar um hækkun þessa heimildarbráðabirgðaákvæðis er að ræða, að hækka 50% um 40%, þ.e.a.s. upp í 70%, heldur en að viðhafa sérstakan útreikning árlega til að finna út þann meðaltalskostnað, sem yrði á hækkun varðandi vegagerð hverju sinni, því að væri sá háttur viðhafður, mundi ekki fyrir fram vera vitað, hversu hár þessi skattur gæti orðið á ári hverju. En ég ætla, að n. hafi í þetta sinn áætlað heimildina það riflega, að það þurfi ekki að koma að sök í þessum efnum á næstunni. Ætlunin er, að þessi skattur, fasteignaskatturinn, verði endurskoðaður, þegar það fasteignamat, sem samþ. var hér á síðasta þingi, öðlast gildi, svo að það getur varla dregizt mjög lengi, þar til þessi skattur kemur aftur til meðferðar í þinginu og endurskoðunar, og sú hækkun, sem nú er, er það rífleg, að ekki ætti að þurfa að fá hækkun á honum, þó að um nokkra kauphækkun yrði að ræða frá því, sem nú er.

Annars hygg ég, að þróunin í þessum vegamálum og kostnaður við vegi hljóti að verða sú í framtíðinni með fækkandi fólki í sveitum, að þeir vegír, sem notaðir verða, verði að takast upp í þjóðvegatölu, því að það verður útilokað fyrir það fáa fólk, sem í dreifbýlinu býr, að leggja neitt verulega af mörkum til þessara hluta, svo að það geti komið að stórnotum eða gert nokkur átök í þessum efnum. Það var á sínum tíma hægt, en þar sem fólkið þyrpist æ meira og meira í þéttbýlið og vegirnir eru engu síður fyrir þá, sem þar búa, heldur en í dreifbýlinu; þá verður óhjákvæmilegt, að sá kostnaður, sem verður að leggja í vegna vegagerðar í framtíðinni, verði að öllu leyti greiddur af því opinbera, enda hefur þróunin verið sú á undanförnum árum, að það hafa aldrei liðið mörg ár á milli þess, sem hefur verið bætt nýjum vegum í þjóðvegatöln, og ég tel, að næsta skrefið í þessum efnum verði það, að allir þeir vegir, sem aðkallandi eru á næstunni og um ófyrirsjáanlega framtíð, verði að takast upp í þjóðvegatölu.

Ég sé hér á dagskránni, að það er búið að vísa til nefndar einu máli, sem er einnig um breytingar á sýsluvegasjóðslögunum, og ef deildin ætlaði sér að afgreiða það mál, þá tel ég heppilegra, að þetta frv. yrði sameinað því og síðan látið ganga til Ed., því að það mundi spara nokkurn tíma. En eftir því sem mér skilst, þá er nú ekki sýnt, að það frv. fái fljótan byr hér í d., og þess vegna tel ég að svo stöddu, að það sé rétt, að þetta mál hafi sinn eðlilega framgang, þar til séð verður, hvernig hinu frv. reiðir af.