16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

26. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta ánægju mína í ljós vegna þess, að nú skuli líta svo út sem þetta frv. verði nú loks að lögum, að loks verði samkomulag um, að það nái samþykki. Það er nú raunar svo, að þetta er þegar komið í framkvæmd með samningum milli sjómanna og útgerðarmanna, en samt sem áður hefur það sína þýðingu, að það verði lögfest.

Það er langt síðan þetta frv. var fyrst flutt hér á Alþingi af Sósfl. Það var flutt ár eftir ár og mætti jafnan harðri andstöðu. Sósfl. reyndi að fá Alþfl. til þess að taka þátt í flutningi þessa frv. Það tókst ekki. En síðar var flutt samhljóða frv. af Alþfl., og hefur svo verið núna á undanförnum þingum, að það hafa legið fyrir tvö frv., annað frá Alþfl. og hitt frá Sósfl., algerlega samhljóða. Þetta er náttúrlega út af fyrir sig dálítið kátbroslegt, en þrátt fyrir það hefur þetta frv. verið flutt í raun og veru sameiginlega af tveimur flokkum, þó að það kæmi svona einkennilega fram, að frv. voru tvö, en voru sem sagt algerlega samhljóða orði til orðs. Og það er svo enn á þessu þingi, að það eru flutt tvö frv. af þessum flokkum, algerlega samhljóða, annað þeirra hefur verið flutt hér í Ed. af Alþfl., og er nú mælt með því, að frv. nái fram að ganga.

Ég vil sem sagt lýsa mikilli ánægju minni vegna þess, að þetta skuli nú ná fram, og geri raunar ráð fyrir því, að þær kosningar, sem í hönd fara, hafi haft sín áhrif í þá átt, og vona ég, að frv. verði samþykkt óbreytt, án þess að sú brtt., sem horfir til þess að gera það lakara, verði samþykkt.