20.03.1956
Neðri deild: 90. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

26. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir þeim miklu straumhvörfum, sem orðið hafa í afstöðu hv. þingmanna til þessa merkilega baráttumáls íslenzkra togarasjómanna, og það er mjög gleðilegt til þess að vita, að það virðist sem hv. alþm. ætli nú að samþykkja lög um hvíldartíma sjómanna í samræmi við það, sem er í gerðum samningum á milli togaraháseta og togaraeigenda.

Á undanförnum tíu árum, réttara sagt í tíu skipti, hafa þm. Sósfl. flutt frv. um þetta mál hér á Alþ., en af ástæðum, sem ég skal ekki fara hér inn á frekar, hafa hv. alþm. ekki séð sér fært að samþykkja þetta mál og borið því alltaf við, að þetta ætti að vera samningsatriði á milli togaraháseta og togaraeigenda. Enn fremur hafa svo þm. Alþfl. flutt frv. um sama mál, og það frv. þeirra Alþýðuflokksmanna hefur hlotið samþykki í Ed. með breytingu, sem er þó heldur til hins verra en hitt. Þrátt fyrir það vil ég endurtaka það, að ég er því fyllilega samþykkur, að lög um þetta atriði verði samþ., og ég vonast til þess, að þegar þetta mál verður athugað í n., þá komi einnig til athugunar frv. það, sem ég flutti hér í þessari hv. d. og minni hl. í sjútvn. hefur fyrir löngu skilað áliti um, en meiri hl. n. hefur ekki séð sér fært að taka ákvörðun um það. Nú hafa á þessu sem sagt orðið mjög snöggar breytingar, og það gleður mig sannarlega, og það mun gleðja alla þá, sem fyrir þessu máli hafa barizt, þessu mikla hagsmunamáli togarasjómanna, sem á sínum tíma var eitt mesta deilumál, sem hér kom inn á Alþingi, en enginn mun nú leyfa sér að draga í efa, að það hafi verið og sé enn eitt af þörfustu málum, sem Alþ. hefur samþykkt.