10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það þarf enginn að undrast það, þó að deilt sé um það, þegar setja skal ný launalög. Það er áreiðanlegt, að það er nokkuð almennt viðurkennt hér á Alþ. sem annars staðar, að það sé þörf fyrir að breyta launalagaákvæðum hér á landi, sökum þess að lögin, sem ákveða launagreiðslurnar, eru búin að standa nokkur ár með litlum breytingum, þ. e. a. s. grundvöllurinn er í raun og veru lagður eftir gengislækkunina 1950, síðan lappað við þetta nokkuð og ýmislegt gert, sem fært hefur hina fyrri löggjöf úr skorðum. Það er alveg rétt, sem hv. þm. A-Húnv. minntist á, að ýmsum skrifstofum og embættum ríkisins hefur haldizt það uppi á öllu þessu tímabili að færa embættismenn og starfsmenn milli launaflokka, án þess að nokkuð hafi verið að gert, og er þetta þó vitanlega beint lögbrot og hefur í raun og veru fyrirfarið öllu samræmi í launalögunum.

Það þarf enginn að undrast það, þó að þeir, sem laun taka samkv. launalögum, vilji hver um sig ota sínum tota, og þá er það, að nefndin, sem fer með þetta í þinginu, fær mörg bréf og það er óskað eftir mörgum viðtölum, eins og hv. frsm. sagði hér frá áðan, því að hver um sig vill reyna að pota sér sem efst í launastigann.

Þetta launalagafrv., sem er hér til umræðu, er undirbúið af mþn. í launamálum, og hún byggir í starfi sínu á gömlu launalögunum og gerir þær breytingar að færa menn til í launaflokkunum, einn til tvo launaflokka. Einstaka stéttir hafa verið það í náðinni hjá hv. n., að svo að segja allir meðlimir stéttarinnar hafa verið færðir upp um tvo launaflokka, sumar starfsstéttir hafa verið færðar upp um einn og aðrar látnar sitja í sinu fari. Þetta hefur vafalaust frá nefndarinnar sjónarmiði verið gert til þess að bæta úr misrétti, en um það verður áreiðanlega deilt af þeim sérstaklega, sem hafa ekki verið færðir upp í launastiganum.

Ég er ósköp hræddur um, að það hafi verið meira látið ráða gerðum nefndarinnar dauð reikningslist en það að líta í kringum sig í þjóðfélaginu. Ég er frekar á þeirri skoðun, að það hefðu verið alveg eins rétt vinnubrögð af hv. n. að hafa opin augun og horfa í kringum sig og að taka upp reikningsstokk. Ég skal hér nefna til dæmis, að það er nú viðurkennt, að það sé orðið mjög miklum erfiðleikum bundið hjá fræðslumálastjórninni að fá kennara til þess að gegna kennarastörfum. Það er fjöldi manna nú við kennslustörf, sem hefur ekki neina sérmenntun í þeim efnum, af því að sérmenntaðir menn fást ekki til starfanna. Og þetta er af þeirri eðlilegu ástæðu, að laun kennara voru komin niður úr öllu valdi. Ef þeir hefðu beðið um upplýsingar frá Kennaraskóla Íslands frá seinustu tveimur árum, þá hefðu þeir fengið vitneskju um það, að mikill minni hluti þeirra ungu manna og kvenna, sem útskrifuðust úr þeirri stofnun seinustu tvö ár, er nú við kennslustörf, af því að þjóðfélagið býður þeim betur launuð störf hvarvetna annars staðar. Samt er það niðurstaðan hjá hv. n. að halda kennurum á byrjunarstigi við lítt breytt laun og að þeir fái ekki launahækkanir fyrr en eftir tíu ár. Í langflestum öðrum starfsstéttum þjóðfélagsins er mönnum ætlað að fá launahækkanir eftir fjögur ár. Nei, kennarastéttin, sem hið opinbera er alveg í vandræðum með að fá menn til að skipa sér í, skal sitja við þetta ákvæði, að hún er ekki komin á hæstu laun fyrr en eftir tíu ár. Þarna held ég að hefði verið heppilegra að bæta um og gera aðgengilegra fyrir efnilegt ungt fólk að helga sig þessu starfi, sem alls ekki verður talið þýðingarlítið fyrir þjóðfélagið. En fram hjá þessu hefur verið litið. Ég fyrir mitt leyti tel, að það væri réttmætt og sjálfsagt og hyggilegt að koma á framfæri brtt. um það, að kennarar væru komnir á full laun eftir fjögur ár, en þyrftu ekki að bíða eftir því í tíu ár, og auk þess væri ástæða til að athuga, hvort ekki væri hægt enn fremur að bæta byrjunarlaun kennara. Ég hef að vísu verið skólastjóri í hálfan annan áratug, en ég er samt þeirrar skoðunar, að það hafi verið minni þörf að bæta laun skólastjóra og þeirra kennara, sem eru búnir lengst að starfa, heldur en nýbyrjendanna, af því að það er þó síður hætta á, að þeir fari úr skólastjórastörfunum og þeir kennarar, sem búnir eru að starfa við kennslu lengur en tíu ár, fari á Keflavíkurflugvöll. Þeir eiga yfirleitt erfitt með að slíta sig frá starfinu, alveg án tillits til launanna.

Líkt þessu er farið með hjúkrunarkvennastéttina. Það er alkunna, að það eru vandræði í þessu landi að starfrækja þær mörgu og myndarlegu heilbrigðismálastofnanir, sem komið hefur verið upp á síðustu árum, af hjúkrunarkvennaskorti. Þetta er einungis hægt að leiðrétta á einn hátt og laga. Það er með því að bjóða þessari stétt betri laun. Það hefur verið gert að nokkru í tillögum nefndarinnar, en ég hygg samt, að það verði alveg ófullnægjandi til þess að bæta úr þeim skorti, sem þarna er á starfsliði.

Það eru þessi lífrænu sjónarmið, sem ég er hræddur um að hv. nefnd hafi sézt yfir og hafi allt of mikið farið eftir reikningsstokknum. Auk þess er svo það, að þó að menn hefðu áreiðanlega ekki hér í þingsalnum deilt um réttmæti þess, að opinberir starfsmenn ríkisins yfirleitt og embættismenn ættu að fá 10–12% launahækkun til þess að vera ekki settir hjá, samanborið við verkalýð landsins, sem knúði fram á s. l. vori slíka launahækkun sér til handa, þá undrast ég ekki hitt, þó að komi hér fram mótmælaraddir um það, að hæst launuðu embættismenn ríkisins skuli fá 30 og upp í 40 og yfir 40% launahækkanir, því að þær réttlætast a. m. k. á engan hátt af þeim launahækkunum, sem verkalýðssamtökin hafi knúið fram. Það er ekki ráðstöfun til þess að jafna nein met, það er ekki til annars en að auka misrétti og stofna vinnufriðnum í landinu í hættu á ný. Og að því stendur hæstv. ríkisstj. og hennar hæstv. ráðunautar í fjármálum og efnahagsmálum, sem hafa haft forustuna í undirbúningi þessa frv. Það er einmitt sérfræðingur hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, Ólafur Björnsson prófessor, sem er forustumaðurinn í að hækka laun hæst launuðu embættismannanna hjá ríkinu nú um 30–40%, og það er ómögulegt annað en að segja, að það er grátlegt ósamræmi í því, þegar hæstv. ríkisstj. beitir svo þessum manni líka fyrir sig í því að hamast á móti 10–12% launahækkun verkafólks í landinu. Það, að hann var hafður í því hlutverki í vor, gerði manninn gersamlega óhæft verkfæri í höndum ríkisstj. til að framkvæma þetta verk á þann hátt, sem hann hefur gert það. Þeir áttu að útvega sér annað verkfæri í þetta hlutverk.

Ég tók eftir því áðan, þá litlu stund, sem einn fulltrúi úr fjölmennasta þingflokki Alþ. var hér viðstaddur umr., — nú er hér enginn, held ég, það var Jóhann Hafstein, hv. 5. þm. Reykv.; hann sagði, að vísu eftir dúk og disk, að það hefði verið réttlætanlegt og réttmætt s. l. vor, að lægst launaða stétt landsins, verkalýðsstéttin, fengi nokkra launabót. Og hvað var það, sem gerðist í vor? Það var einmitt þetta, að lægst launuðu stéttir landsins fengu lítils háttar launabót. Það varð niðurstaðan af 6 vikna verkfalli, að verkamenn fengu kaup sitt hækkað um 11%, og það var gegn þeirri réttarbót staðið af Vinnuveitendasambandi Íslands, studdu í bakið af Sjálfstfl. og að því er virtist af ríkisstj. allri. Þessi yfirlýsing hans nú er þess vegna í algerri mótsögn við framferði hans flokks og vinnuveitendasamtakanna á s. l. vori.

Þegar þing kom saman núna í haust og fjárlfrv. var lagt fram, heyrðist mér fulltrúi Framsfl., hæstv. fjmrh., og fulltrúi Sjálfstfl., sem talaði við það tækifæri, vera sammála um, að eiginlega hefði verið blómatímabil hér í landinu fram á s. l. vor; nú væri uggur og kvíði í brjósti allra, sem stjórnuðu landi og lýð, eiginlega væri allt farið úr böndunum og það væri þessum ósköpum að kenna, að laun verkafólks hefðu hækkað um 11%. Ég vil nú halda, að þessir menn hafi meint þetta og að þeir sjái enga glætu fram undan vegna þessarar launahækkunar verkafólksins og að þeir hafi alveg truflazt af þessu, gefið upp alla vörn og hugsi nú með sjálfum sér: Nú er bezt að láta skeika að sköpuðu, stjórnarfleytunni hefur slegið flatri, hvort eð er, og við erum hlaupnir frá stýrinu; verkalýðssamtökin hafa eyðilagt þetta allt fyrir okkur. Þess vegna er bezt að láta alla fá það, sem þeir vilja, en viðkunnanlegast að láta ráðherrana fá mest, áður en fleytan sekkur. — (Gripið fram í.) Ég held, að það bendi til þess, að þeir ætli eitthvað að lafa enn þá. Það er grunur sumra manna, að það sé meiningin að reyna að lafa út þetta kjörtímabil og vita svo, hvort það væri ekki hægt að fitja upp á ný.

Ég fæ a. m. k. ekki séð, að það sé neitt samhengi eða samræmi í þeirri afstöðu að hafa fyrst hamazt með atbeina ríkisvaldsins, atvinnurekendavaldsins og allra máttarvalda þjóðfélagsins, sem hægt var að tefla fram á móti verkalýðssamtökunum, á s. l. vori gegn 11% kauphækkun hins vinnandi fólks og segja nú á eftir: Það er ekki nóg, að fastlaunaðir menn hjá ríkinu fái sams konar launahækkun. Nei, hún verður að vera margföld á við það. — Þó olli hitt böli og háska, og það að halda áfram á þessari braut veldur þá náttúrlega enn meiri háska og tjóni.

Ég hefði haldið, að við mættum vænta þess af þeirri ríkisstj., sem taldi allt vera að farast vegna launahækkana verkafólks, að hún mundi nú spyrna sem ákafast og fastast við fótum og segja: Hingað og ekki lengra. — En það er eins og ég áður sagði: Það er eins og þeir hafi alveg misst stjórn á sér og öllu saman og segi, að úr því að því sé öllu slegið flötu, þá sé bezt, að allt sökkvi. Ég vil fullyrða, að ef þjóðfélaginu hefur verið háski að 11% launahækkun verkalýðsins í vor, þá má því standa nokkur stuggur af þeirri hækkun, sem þetta launalagafrv. með brtt., sem hér liggja fyrir, mun leiða af sér. Og þegar hæstv. fjmrh. stendur hér upp, þegar hækkunartill. fjhn. liggja fyrir, gengur hér í ræðustólinn og segir: Ég þakka hv. n. fyrir hennar starf — þá er ekki hægt að taka það öðruvísi en að hann sé hinn ánægðasti með þessar miklu hækkanir frá frv. Ég skal ekki segja, hvernig á því stendur, að Sjálfstfl. lætur tvo þm. sína taka þátt í þessum umr., annan gersamlega á móti öllum launahækkunum og hinn með þeim. Það hefur komið fyrir áður, að Sjálfstfl. hefur talið heppilegt að leika tveimur skjöldum í stórum málum, tefla fram mönnum, sem eiga að túlka afstöðu, sem gangi vel í bændur, eigi vel við í sveitunum, tefla öðrum fram, sem túlki þann málstað, sem falli í kramið hjá launamönnum kaupstaðanna. Nú getur vel verið, að hv. þm. A-Húnv. geri það með góðri samvizku að túlka sínar lækkunarkenningar, ég skal ekkert bregða honum um það. En þó að svo sé, þá er það ekkert annað en stjórnhyggindi hjá Ólafi Thors að velja einmitt mann, sem gat gert þetta með góðri samvizku, til þess að vera í þessu hlutverki, og ég sé það ósköp vel í hendi, að nú er í uppsiglingu mikil tvískipt barátta hjá Sjálfstfl. með kauphækkunum hjá opinberum starfsmönnum og á móti þeim, og baráttan með kauphækkunum verður útlistuð og útmáluð lystilega í Morgunblaðinu, en kauplækkunarstefna Jón Pálmasonar verður útmáluð lystilega í dálkum Ísafoldar og send út um sveitir.

Það er þó ómögulegt að neita því, að í því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði í sinni skörulegu ræðu hér í dag móti launalagafrv. og hækkunartillögunum víð það, rakti hann sögu kauphækkunarmálsins réttar en flestir aðrir hafa gert. Hann minnti á, að það væri rangt, að kauphækkunarherferð hefði byrjað af völdum verkalýðssamtakanna, þegar var farið að hreyfa nú við launa- og kauphækkunum, eftir að nokkur kyrrstaða hafði verið í þeim málum um tveggja ára skeið. Sú kyrrstaða var fyrst og fremst að þakka verkalýðssamtökunum, og þegar var verið að leggja grundvöllinn að henni, var ég skammaður og svívirtur meir en ég hef verið skammaður nokkurn tíma annars á ævinni fyrir að hafa reynt að knýja ríkisstj. til þeirrar stefnu, sem var að nokkru leyti fylgt um tveggja ára skeið. En þegar tvö ár voru liðin frá þeim atburðum, hvað gerðist þá? Þá gerðist það, að kunnugt varð um, að nokkrir nokkuð hátt launaðir starfsmenn hjá Reykjavíkurbæ hefðu sagt upp störfum sínum og haft á orði að leggja niður vinnu og ráða sig annars staðar, þar sem þeir fengju vinnu sína betur borgaða. Endirinn á því máli varð sá, að Reykjavíkurbær samdi um stórfellda hækkun til handa þessum starfsmönnum sínum á miðju síðastliðnu sumri. Þetta er eitthvað nálægt því að vera byrjunin á kauphækkunar- og launahækkunarmálunum, sem við erum nú að ræða um.

Hvað gerðist næst? Jú, þá fer á þá lund, að verkfræðingar í þjónustu ríkis og ríkisstofnana segja upp sínum störfum, ráða sig margir í vinnu annars staðar, þar sem í þá var boðið, og létu fyllilega skiljast, að þeir kæmu ekki aftur í þjónustu ríkisins, nema þeir fengju hærra kaup. Hæstv. ríkisstj. samdi við þessa menn um stórfellda hækkun á kaupi. Það var í annað skipti dreginn við hún kauphækkunarfáninn. Við höfum fengið að vita það núna í fjvu., að þessir menn, sem þá sömdu, í fyrrahaust, í októbermánuði líklega, sömdu um, að þeir fengju þá 72 þús. og upp í 100 þús. kr. í árskaup, og samkvæmt þeim upplýsingum verður að áætla þeim tekjur á næsta ári. Á þessum mönnum gat hæstv. ríkisstj. séð aumur og samið við þá möglunarlítið á s. l. hausti. Þá var verkalýðshreyfingin ekki farin að hreyfa sig til kauphækkana.

Í desembermánuði, eins og hv. þm. A-Húnv. vitnaði til, stóðum við hér, og þá var verið að afgreiða nokkra hækkun — bráðabirgðahækkun, eins og það hét — á launum opinberra starfsmanna og embættismanna, og þá var það, sem hv. þm. A-Húnv. stóð líka upp og benti á, að þegar væri byrjað að hækka hjá opinberum starfsmönnum, sem hefðu þó atvinnuöryggi, mætti búast við, að það yrði ókyrrt á eftir og að það drægi dilk á eftir sér. Ég man, að hann varaði við á þennan hátt eða eitthvað því líkt, og það komu viðvaranir þá úr fleiri áttum. En það var haldið áfram með að breyta þá til bráðabirgða til hækkunar launum opinberra starfsmanna. Ég undirstrika það, að þegar þetta gerðist, var verkalýðshreyfingin ekki farin að hreyfa sig til kaupgjaldshækkana eða breytinga.

Hins vegar er komið fram í janúar þessa árs, þegar fyrsti fundur er haldinn og það með formönnum stéttarfélaganna hér í Reykjavík og nágrenni, hvort ráðlegt þyki að segja þágildandi kaupgjaldssamningum verkalýðsfélaganna upp. Og eftir þann fund fara félögin að boða fundi til þess að athuga þetta mál og komast að þeirri niðurstöðu, að þau geti ekki setið hjá og vilji segja samningunum upp til breytinga. Í febrúarmánuði ræðir stjórn Alþýðusambandsins við hæstv. forsrh. um þessi mál. Hann vill þá fá sambandsstjórnina til að beita sér fyrir því, að verkalýðsfélögin fresti aðgerðum í kaupgjaldsmálum a. m. k. fram á vorið. Hann sagði okkur þá frá því, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að reyna af alefli að gera ráðstafanir til lækkaðs verðlags í landinu. Þau ummæli sín, sem hann hafði í stjórnarráðinu, staðfesti hann nokkrum dögum síðar með bréfi til Alþýðusambandsins. Þá taka nefndir verkalýðssamtakanna, sem þá var búið að setja á laggirnar, ákvörðun um að fresta verkfallsaðgerðum a. m. k. í 3 vikur, þangað til séð sé, hvort ríkisstj. takist að framkvæma nokkuð í verðlækkunarátt. Þegar þær eru liðnar, án þess að nokkuð fréttist um þetta, eru lagðar fram kröfur til kauphækkana og síðan ákveðið að fylgja þeim eftir með samningum, og upp úr því varð svo verkfall til þess að knýja eitthvað af þeim fram.

Þegar samningar byrja, er gengið ríkt eftir svari ríkisstjórnarinnar um það, hvað henni hafi orðið ágengt í verðlækkunarviðleitni sinni. Svarið er, að öll atvinnufyrirtæki, sem hún hafi snúið sér til, hafi svarað neitandi og tilkynnt, að þau gætu engar ráðstafanir gert í verðlækkunarátt. Þá fyrst, er þetta lá fyrir, var engin leið önnur fram undan hjá verkalýðssamtökunum en að reyna að knýja fram lagfæringar á kaupinu. Og nú liggur fyrir frv. til nýrra launalaga, sem ætlar, eins og hér er búið að taka fram, þeim, sem þó voru skást launaðir fyrir, margfalda launahækkun að krónutölu, en þeim lægst launuðu litlar bætur. Ég held, að það sé alveg vonlaust verk fyrir hæstv. ríkisstj. og málgagn hennar, Morgunblaðið, að reyna að telja þjóðinni trú um, að verkalýðshreyfingin hafi stofnað þessu þjóðfélagi í glötun með 11% kauphækkun, sem fór fram í apríllok, þ. e. a. s. kom til framkvæmda frá 1. maí s. l., þegar launagreiðslukerfið hjá stóraðila eins og Reykjavíkurbæ og hjá ríkinu var sprungið mörgum mánuðum áður og byrjað að hækka laun hjá tiltölulega hátt launuðum mönnum og stéttum mörgum mánuðum áður en verkalýðssamtökin hreyfðu sig. Hitt skal ég aftur játa, að ástæðan til þess, að Reykjavíkurbær varð að hækka við verkfræðinga sína og ríkisstj. síðan varð að hækka við sína verkfræðinga og að það varð að hækka hjá launafólkinu í fyrrahaust, var auðvitað sú, að verðbólgustefna ríkisstj. var búin að heltaka allt mannfélagið og það gáfust möguleikar til að fara úr störfum ríkisins og á hinn opna vinnumarkað á Keflavíkurflugvelli og annars staðar og fá þar betur launuð störf. Hér var hæstv. ríkisstj. að súpa seyðið af eigin stjórnarstefnu, og hún er enn og heldur áfram að súpa seyðið af henni. Það þarf enginn að halda, að hún sé búin að bíta úr nálinni með afleiðingar þeirrar stjórnarstefnu í launamálum í landinu með því að hækka núna laun ráðherranna um milli 40 og 50%. Nei, það dregur líka dilk á eftir sér, og hæstv. ríkisstj. á eftir að horfast í augu við þann vanda, sem af því leiðir. Hér er bara snjókúla að velta niður bratta fjallshlíð, og það er hæstv. ríkisstj. og stjórnendur ríkis og bæjar, sem hafa komið þessari snjókúlu á stað, en ekki verkalýðssamtökin.

Ég sé það á till. hv. þm. A-Húnv., að hann leggur til á þskj. 177, að byrjunarlaun í I. fl., þ. e. a. s. í flokknum næst fyrir neðan ráðherra, verði 54000 kr. í grunn og svo óbreytt úr því. Ég hafði verið að gera mér vonir um, að þessi að minni hyggju heiðarlegi íhaldsmaður hefði aftur gert till. um, að laun samkv. lægstu launaflokkunum væru ekki skorin niður að sama skapi, heldur jafnvel hefði getað vænzt þess af honum, að hann hefði viljað hækka launin í lægstu flokkunum, t. d. lagt til, að XV. launafl. væri tekinn burt, skorinn neðan af „skalanum“. En hann gerir þetta ekki, og það eru mér vonbrigði. Samkvæmt launalagafrv. eiga laun í XV. launafl. að vera 12900 kr. með hækkunarmöguleikum upp í 18900 kr., eða rúmlega 1000 kr. á mánuði í laun. Dettur nokkrum manni í hug, að hægt sé að lifa af þessu? Ég held, að þeir séu fáir, og ég held meira að segja, að það fari ekki vel, ekki einu sinni í dálkum Ísafoldar úti um sveitir, að skýra frá því, að samkv. hinn endurskoðaða frv. til launalaga sé sumu fólki ætlað að lifa af 12900 kr. í grunnlaun. En það var þó hægt að lækka það, því að í till. hv. þm. A-Húnv. er lagt til, að laun samkv. XV. flokki byrji með 11880 kr. Það varð að fara með það niður fyrir 1000 kr. á mánuði í grunn; þá fyrst var réttlætinu fullnægt.

Það er þetta, sem gerir að verkum, að það fæst ekki samkomulag um afgreiðslu launalagafrv. hér á Alþ., að það eru hjá hv. þm. A-Húnv. og milliþn. og þeim, sem enn þá hafa um frv. fjallað, ekki bornar fram neinar till. til lagfæringar á launum þeirra lægst launuðu í landinu. Það ætti þó einmitt að vera í samræmi við þá stefnu, sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) túlkaði áðan og sagði að hefði verið sanngjörn gagnvart verkafólkinu í vor. Er þá ekki sanngjarnt nú að hækka laun þess fólks í tveimur neðstu launaflokkunum, sem er lægra launað en þeir lægst launuðu samkvæmt stéttarfélagasamningunum? Ég held, að ég verði að skjóta því til hv. 5. þm. Reykv., sem er hér í hliðarherbergi og á eftir að standa í fjhn. að þessu máli, að hann verði að skera í burtu tvo neðstu launaflokkana til þess að komast upp í Dagsbrúnarkaupið, sem hann sagði okkur áðan að hefði verið sanngjarnt að væri lagfært dálítið s. l. vor. Þeir ættu einmitt að hans áliti að hverfa þarna í burtu, og þá væri búið að laga frv. verulega, þá væri búið að bæta hlut þeirra aumustu og einhverjar líkur til þess, að hægt verði að lifa af þeim launum. En það er ekki hægt að lifa fyrir um eða innan við 1000 kr. í grunn á mánuði.

Þá var einhver, sem sagði það hér áðan af hv. stjórnarliðum, að það væri breytt hljóð í ýmsum frá því í fyrra. Já, það er það. En í hverjum er það, þetta hljóð? Þeir menn, sem börðust á móti 11% kauphækkun í vor, berjast nú fyrir 30–40% kauphækkun í þetta sinn. Það er breytt hljóð. Hins vegar er ég sannfærður um, að þeir menn, sem á s. l. vori beittu sér fyrir því, að verkalýðssamtökin fengju 11–12% kauphækkun, mundu enn sem fyrr una því og una því vel, að hæst launuðu embættismenn ríkisins fengju 11–12% kauphækkun, og þannig er fullt samræmi í afstöðu þeirra. Verkalýðssamtökin mundu ekkert gera annað en að fagna því, að launasamræmi héldist svipað og áður var milli launafólks í verkalýðsstétt og starfsmanna ríkisins á þann hátt, að hvorir tveggja fengju hlutfallslega þær sömu launabætur. En það er ég sannfærður um, að það veldur ókyrrð og óánægju hjá verkafólki, sem auk þess á annars staðar en hér í Reykjavík og nágrenni hennar, eins og stendur, við öryggisleysi í atvinnumálum að stríða, það veldur ólgu hjá þessu fólki, ef og þegar það vitnast, að launalög hafa verið afgreidd með hlutfallslega hækkandi launabótum hjá starfsmönnum og embættismönnum ríkisins, eftir því sem þeir voru hærra launaðir fyrir.

Ég vil því vona, að þegar hv. fjhn. fer að starfa að afgreiðslu frv. fyrir alvöru, — en það starf virðist ekki vera byrjað enn þrátt fyrir þakkarávarp hæstv. ráðherra, því að hv. 5. þm. Reykv. upplýsti hér áðan, að í raun og veru væri ekki búið að gera annað enn þá en taka við frv. úr hendi mþn. og síðan að taka til greina þær till. til breyt. á frv., sem mþn. sjálf hefði komið með til n., eftir að hún hafði heyrt óánægjuraddirnar úr öllum áttum um frv. sjálft, — en ég treysti því, að hv. fjhn. eigi eftir að inna sitt starf af hendi, og mér finnst einsætt, að það starf hennar eigi að miðast við að laga kjör þeirra lægst launuðu samkv. frv. og draga úr þeim nú fyrirhuguðu launahækkunum til hinna allra hæst launuðu, þannig að það verði hlutfallslega lægri hækkanir, sem þeir fái, heldur en þeir lægst launuðu. Með þeim vinnubrögðum er ég alveg viss um, að það verði hægt að fá nokkurn veginn frið um frv. við afgreiðslu þess á Alþingi, og það er ég sannfærður um, að verkalýðshreyfingin ann ráðherrum og sérhverjum öðrum opinberum starfsmönnum 12–15% launahækkunar, en þykir ekki gætt réttlætis og sanngirni, ef þeir fá mun meira.