26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

197. mál, gjafabréf fyrir Þykkvabæ

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða að breyta gjafabréfi, sem var eitt af þeim merkilegustu og sett var eða gefið var í upphafi þessarar aldar af manni, sem auðsjáanlega hafði lagt sig eftir því að reyna að ráða bót á því vandamáli, sem eignarrétturinn á jörð er fyrir manninn, sem býr á henni og vinnur á henni í uppvaxandi kapítalistísku þjóðfélagi. Það er auðséð, að sá maður og hans kona, sem gefa þessa jörð í upphafi, hafa ætlazt til þess með því að setja í gjafabréfið þau ströngu ákvæði, sem í því eru, að þessi jörð og þeir afkomendur þeirra eða aðrir, sem á henni byggju, yrðu lausir við að þurfa nokkurn tíma að selja sína jörð, veðsetja hana eða á nokkurn hátt að láta hana sogast inn í þá hringiðu auðvaldsskipulagsins, sem þessi bændahjón sáu að var að rísa upp hér á Íslandi. Það er alveg auðséð, að sú hugsjón, sem hefur vakað fyrir þeim bónda, sem gaf þetta gjafabréf, var, að það væri hægt að tryggja hreppsnefndinni eignarréttinn á jörðinni ævarandi, en ábúandanum, mönnunum, sem ynnu á jörðinni, notkunarréttinn af henni um alla framtíð.

Þessi framsýni og merkilegi bóndi er að reyna á sínum stað og hvað sína jörð snertir að leysa fyrir framtíðina vandamál, sem allir bændur Íslands eiga að glíma við. Það er vandamál meira að segja fyrir þá bændur, sem hafa börnin sín til að taka við jörðunum, hvernig þeir eiga að fara að því, þegar börnin eru mörg og eitt þeirra verður að taka við og fara að borga hinum út og jörðin öðlast þannig svo og svo hátt kaupverð, sem kemur til með að verða manninum, sem býr á jörðinni, fjötur um fót. Og það var þetta, sem þessi bóndi vildi geta losað þessa jörð við og tryggt sínum afkomendum og öðrum, sem á henni byggju, að þeir þyrftu aldrei að sogast inn í að verða að gera verðmæti jarðarinnar sjálfrar að fjármagni og þræla sjálfir undir vöxtunum af slíku fjármagni, kannske oft og tíðum ævilangt.

Ég álít þess vegna, hvað sem verður ofan á um þetta mál nú, að það sé rétt fyrir menn að staldra við og hugsa ofur lítið um þessi mál og hvort það sé ekki hægt að finna betri leiðir en fundnar eru með þessu. Skal ég þó viðurkenna, að till. viðvíkjandi ættaróðulunum, eins og hún var upphaflega hugsuð, var mjög lofsverð tilraun í þessa átt, en tilraun, sem rak sig ákaflega fljótt á auðvaldsskipulagið sjálft með þess veðum og veðsetningu, sölum og kaupum, þannig að meira að segja þeim lögum um ættaróðulin var breytt tiltölulega fljótt.

Í þessu gjafabréfi segir í 1. gr. þess, með leyfi hæstv. forseta:

„Jörðin skal vera ævarandi eign hreppsins, og má því ekki selja hana, gefa eða veðsetja, hvorki eignina í heild né heldur neinn hluta hennar, sbr. þó 4. gr.“ — þ.e. greinina, þar sem gefendurnir áskilja sér grafreit í jörðinni.

M.ö.o.: Í þessu gjafabréfi er það alveg greinilega tekið fram, að jörðin eigi að vera ævarandi eign hreppsins og að það megi ekki selja hana, gefa eða veðsetja, og hjónin, sem gjöfina gefa, vita, að það að veðsetja getur fyrr eða seinna þýtt það sama og að selja. Nú vilja menn breyta þessu og segja, að það sé ekkert annað hægt að gera til þess að tryggja þau lán og að ábúendurnir geti fengið lán, — það sé ekkert annað hægt að gera en að veðsetja jörðina.

Ég vil mótmæla því, að það sé ekkert annað

hægt að gera. Það er hægt að breyta þessu kerfi viðvíkjandi veðsetningum og öllu slíku. Það er hægt að hætta því að láta endilega veðsetja jarðir og að veita þeim mönnum, sem búa á jörðunum og vinna á þeim, út á sína persónulegu ábyrgð samsvarandi lán þeim, sem nú eru veitt með veðsetningum á jörðum. Það er hægt að breyta þessu vitlausa kerfi, sem er að gera ókleift að byggja svo og svo margar jarðir, nema þá að það haldi áfram sífelld verðbólga, sem eyðileggur öll lán og gerir skuldirnar að engu. Ég vil láta þetta koma fram hér, vegna þess, að ég þykist vita, að það, sem vakti fyrir þeim framsýnu hjónum, sem þetta gjafabréf gáfu, var að forða jörðum bænda á Íslandi undan veðsetningu, undan því að dragast inn í hringiðu kaupa og sölu, undan því að verða einn þáttur í öllu braski upprísandi kapítalistísks þjóðfélags.

Ég veit, að það er erfitt að finna þarna aðferð til þess að tryggja ábúendum engu að síður lán án veðsetningar. Þó væri hægt að breyta þannig lögum, að um þær jarðir, sem hreppur á, skyldi gilda það, að hreppurinn sem slíkur væri í ábyrgð fyrir þeim lánum, sem þannig væru veitt, eða í bakábyrgð við þann mann, sem persónulega fengi þetta.

Ég held, að áður en við förum að breyta raunverulega til hins verra ákvæðum framsýnna manna, sem vildu afstýra braski auðvaldsskipulagsins og stýra því fram hjá sínum jörðum og sinna afkomenda, þá ættum við að athuga það alvarlega, hvort við getum ekki breytt heldur kerfinu sjálfu, sem vaxið hefur upp á Íslandi á þessum 4–5 áratugum, siðan þetta gjafabréf var gefið út, Það var sú tíð, að helmingurinn af öllum jörðum bænda á Íslandi var veðsettur, eða það var veðsett fyrir jafnmiklu og fyrir helmingnum af því, sem þær voru virtar að fasteignamati, og var fasteignamatið þá rétt, á árunum eftir 1930. Þó að það líti nokkuð öðruvísi út í dag, þá skapast þetta vandamál alltaf aftur við eðlilega kapítalistíska þróun. Það er að vísu hægt að afstýra þessu vandamáli eins og ýmsum öðrum í sambandi við það að auka í sífellu á verðbólgu og smækka skuldirnar þannig. En ég býst ekki við, að það sé það, sem menn hugsi sér almennt að gera.

Ég vil geta þess, að þetta er ekki vandamál bara fyrir bændur á Íslandi. Þetta sama vandamál eigum við við að stríða viðvíkjandi húseignunum í öllum kaupstöðum landsins, og þróunin hefur verið sú undanfarið að hrinda þeim öllum inn í það vægðarlausa brask, sem allt sogar til sín, með þeim afleiðingum, sem við stöndum frammi fyrir og ég hef oft gert að umræðuefni hér.

Það er alveg rétt, eins og tekið er fram í grg., að það hefur gerbreyting átt sér stað á umliðnu tímabili, en það er einmitt sú gerbreytingin, sem eigandinn að þessari jörð, gefandinn að þessari gjöf; vildi forða sinni jörð og ábúendum hennar frá, þannig að það er ekki í samræmi við hans vilja, sem við værum að gera með því að heimila veðsetningu á henni. Hér stendur, að það geti engan veginn talizt viðunandi að útiloka jörðina frá þeim lánsfjármöguleikum, sem landbúnaðurinn á nú völ á. Við þurfum ekki áð útiloka þessar jarðir frá því, við getum breytt lögunum um lánsfjármöguleikana og veitt slíkum jörðum með sérstökum skilyrðum, persónulegri ábyrgð ábúandans og bakábyrgð hreppsins, þau réttindi, sem aðrir fá nú út á sínar jarðir.

Ég held þess vegna, að við ættum frekar að breyta lánsfjárskilyrðunum í anda þess framsýna manns, sem gaf þetta gjafabréf fyrir 43 árum, heldur en, þó að Alþ. hafi lagalegan rétt til þess, að breyta nú ákvæðum gjafabréfsins eða brjóta á móti þeim til þess að láta veðsetja þessa jörð og láta hana e.t.v. þannig sogast inn í veðsetningu, kaup og sölu, því að hver tryggir, að þessi jörð verði ævarandi eign hreppsins, þegar einu sinni er búið að veðsetja hana og þegar bankar þar með eru búnir að fá réttinn til þess að ganga að jörðinni?