10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Sem nefndarmaður í hv. fjhn. langar mig til þess að segja fáein orð, fyrst umr. þessar hafa dregizt svo mjög sem raun ber vitni.

Ég tók þátt í allri afgreiðslu málsins í hv. fjhn. og er fylgjandi þeim brtt., sem n. hefur flutt á sérstöku þskj. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram, að fylgi við þær brtt. þýðir ekki, að ég vilji ekki gera fleiri breyt. á frv. hæstv. ríkisstj. en þar koma fram, enda er greinilega tekið fram í nál. fjhn., að ekki beri að líta á þessar till. hennar sem endanlegar brtt., heldur megi búast við fleiri brtt. frá n. fyrir 3. umr. málsins. Í n. höfum við rætt um nauðsyn þess að gera frekari breyt. á launakjörum ýmissa starfshópa en koma fram í þessum brtt. Ég hef þar haldið fram vissum sjónarmiðum varðandi vissa starfshópa, sem ég tel brýna nauðsyn til þess að breyta launakjaraákvæðunum um. Ég tel, að öllu réttlæti hafi ekki verið fullnægt með frv., þó að það yrði samþ. og allar till. fjhn. yrðu samþ. Ég tel, að það þurfi að gera á því frekari breytingar. Ég skal ekki um það ræða í einstökum atriðum, hvaða breyt. ég tel að þurfi að gera á frv., bæði hætt við, að það yrði of langt mál, og auk þess vafasamt, að heppilegt sé að flytja það, sem enn er á umræðustigi í n., hér inn í þingsalina, enda hafa ræður manna ekki aðallega beinzt að einstökum atriðum í sambandi við málið, heldur frekar snúizt um það almennt. Ég vona, að samkomulag takist í fjhn. um ýmisleg þau atriði, sem ég persónulega hef borið þar fyrir brjósti, og í trausti þess, að samkomulag náist þar um frekari endurbætur á frv., ákvað ég fyrir mitt leyti, og hið sama mun gilda um hv. 9. landsk. þm., að flytja ekki brtt. við þessa umr. málsins, en ljúki n. ekki störfum sínum þannig, að ég eða við getum við unað, þá munu brtt. verða fluttar við 2. umr. málsins.

Um það verður varla deilt, að brýna nauðsyn hafi borið til þess að rétta hlut opinberra starfsmanna frá því, sem verið hefur undanfarið. Það hafa oft verið færð fyrir því töluleg rök, að launakjör opinberra starfsmanna hafi, síðan launalög voru sett síðast, haustið 1945, dregizt aftur úr þeim launakjörum, sem menn hafa aflað sér með frjálsum samningum við vinnuveitendur sína, þegar menn hafa haft frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör. S. l. haust voru launamál opinberra starfsmanna allmikið á dagskrá, m. a. í sambandi við afgreiðslu síðustu fjárl., þegar veitt var nokkur almenn launauppbót á laun opinberra starfsmanna. S. l. haust var gerður samanburður á þeim breytingum, sem orðið hefðu á launum opinberra starfsmanna síðan haustið 1945, og þeim launum, sem hefðu orðið á launum manna í helztu stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands. Niðurstöðurnar af þessum rannsóknum voru mjög athyglisverðar og eru allar á þá lund, að kjör opinberra starfsmanna hafi dregizt mjög aftur úr kjörum þeirra manna, sem búa við frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör. Á s. l. hausti kom í ljós, að vegið meðaltal af kauphækkunum allra faglærðra iðnaðarmanna hafi reynzt frá 1945 til haustsins 1954 23.6%, mest hækkun hafi orðið hjá matreiðslumönnum, 35.1%, en minnst hjá málurum og pípulagningarmönnum, eða 19.4%. Í sambandi við þessa grunnlaunahækkun faglærðra iðnaðarmanna er þess þó að geta, að fjölmargir þeirra vinna nú eftir taxta, vinna eins konar ákvæðisvinnu. Kaup þeirra er miðað t. d. við uppmælingu, svo að raunveruleg grunnkaupshækkun þeirra stétta, sem búa við þessi vinnuskilyrði eða vinnukjör, hefur hækkað miklu meira en hin vegna meðaltalshækkun, 23.6%, ber vott um. Kaup ófaglærðra verkamanna hækkaði frá haustinu 1945 til haustsins 1954, byggt á vegnu meðaltali, um 23.7%. Hinn almenni taxti Dagsbrúnarmanna hafði þó hækkað nokkru meira, hann hafði hækkað um 25.7%, en taxti ófaglærðra verkakvenna hækkaði á sama tíma um hvorki meira né minna en 36.8%. Ef öll þessi vegnu meðaltöl eru enn vegin, þá reynist meðaltalskauphækkun allra þeirra starfsstétta, sem athugunin náði til, en það voru allar stærstu stéttirnar í Alþýðusambandinu, 27.2%. Raunveruleg kauphækkun hefur þó áreiðanlega, sem betur fer, orðið meiri, bæði vegna breytts mælikerfis, þ. e. a. s. ákvæðisvinnunnar, og svo auðvitað vegna aukinnar atvinnu, þar sem um það hefur verið að ræða, en atvinnuskilyrði munn haustið 1945 hafa, ég segi enn: sem betur fer, verið miklu betri en haustið 1945.

Samtímis því, að meðaltalskauphækkun þessara starfsstétta, sem búa við frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör, reyndist á fyrstu 9 árum launalaganna vera 27.2%, var sú kauphækkun, sem loksins fékkst fram í fyrrahaust á launum opinberra starfsmanna, aðeins 20%. Lengra komust opinberir starfsmenn ekki í fyrra. M. ö. o., þegar síðasta breyting var gerð á kaupi opinberra starfsmanna, var meðaltalshækkun þeirra 20%, en meðaltalshækkun þeirra starfshópa, sem semja frjálst um kaup sitt og kjör, orðin 27.2%. Þess er líka að geta, að 20% hækkunin er raunveruleg, um þá tölu verður ekki deilt, en 27.2% hækkunin er áreiðanlega algert lágmark, og má frekar gera ráð fyrir því, að rétt tala þar nálgist 30%.

Síðan þetta gerðist, hefur kaup almennt hjá félögum Alþýðusambandsins, svo sem kunnugt er, hækkað um 11%. Til þess að vega upp á móti því er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að kaup opinberra starfsmanna hækki um 9–10%. Enn er kauphækkun opinberra starfsmanna því látin vera minni en sú hækkun, sem fæst með frjálsu samkomulagi, þrátt fyrir það að um það bil 10 hundraðshluta bil hafi verið á kauphækkuninni síðan 1945. Það bil á að standa óbætt enn. Ég tel því, að ekki verði sagt, að þetta frv. gangi í heild of langt í kauphækkunarátt til handa opinberum starfsmönnum. Verði eitthvað sagt, þá er það hið gagnstæða, að frv. gangi fremur of skammt en of langt til móts við það, sem telja má eðlilegar kröfur opinberra starfsmanna í samanburði við þá, sem semja frjálst um kaup sitt og kjör.

Um frv. er auk þess það almennt að segja, að samkv. því er bilið milli hárra og lágra tekna ríkisstarfsmanna ekki breikkað, og er þó það bil án efa minna hér en tíðkast í nokkru nágrannalandi. Ég er ekki að segja, að þetta bil eigi að breikka, en aðeins að benda á, að með þessu frv. er bilið ekki breikkað. Hefur þó áreiðanlega, síðan síðustu launalög voru samþykkt, gerzt sú breyting almennt í íslenzku þjóðfélagi, í íslenzku efnahagskerfi, að mönnum, sem hafa háar tekjur, hefur farið fjölgandi. Tekjuskiptingin hefur án efa ójafnazt síðan 1945, þ. e. a. s. þeim mönnum, sem hafa tiltölulega mjög háar tekjur, hefur fjölgað að tiltölu, miðað við hina, sem hafa tiltölulega lágar tekjur. Ef opinberir starfsmenn ættu að búa almennt við sams konar launahlutföll og gerast í íslenzku efnahagslífi yfirleitt, hefði átt að breikka bilið milli hinna tekjuháu og hinna tekjulágu. Ég mæli ekki með slíkri stefnu, heldur þvert á móti með því að gera ráðstafanir til þess, að sú breikkun, sem orðið hefur í efnahagskerfinu yfirleitt og milli tekjuhárra og tekjulágra manna annars staðar en hjá opinberum starfsmönnum, verði minnkuð, að það verði gerðar ráðstafanir til þess að minnka launabilið í viðskiptalífinu almennt meir til samræmis við það, sem hefur átt sér stað og á sér enn stað samkvæmt launalögum opinberra starfsmanna. En meðan ástandið er í viðskiptalífinu eins og það er raunverulega, að bilið milli tekjuhárra og tekjulágra manna er miklu meira en gert er ráð fyrir að það verði samkvæmt þessum lögum, tel ég ekki rétt að gera breytingar á þeim í þá átt að minnka bilið frá því, sem gert er ráð fyrir þarna.

Í sambandi við þetta má og minna á, að einmitt vegna þess, hversu mjög það hefur færzt í vöxt, að menn í viðskiptalífinu, jafnvel hjá hálfopinberum stofnunum, hafi hátt kaup og hafi fengið kaup sitt hækkað mikið undanfarin 10–20 ár, hefur ríkinu gengið æ erfiðara að fá menn til hinna ábyrgðarmeiri starfa. Það mætti nefna ýmsar hálfopinberar stofnanir, svo sem t. d. bankana, þar sem launagreiðslur almennt, ekki aðeins hjá hinum hæst launuðu, heldur einnig hjá hinum lægra launuðu, eru mun hærri en hjá hinu opinbera. Fjölmargar aðrar hálfopinberar stofnanir mætti nefna, þar sem þetta á sér stað, og þó er vitað, að launin í viðskiptalífinu, í atvinnurekstrinum, eru enn hærri. Það, sem stofnanir eins og bankarnir bera einmitt fyrir sig, þegar rætt er við þá um það, hvers vegna eðlilegt sé, að þeir greiði hærri laun almennt en gert er samkvæmt launalögum, er alltaf þetta: Við keppum á vinnumarkaðinum við viðskiptalífið, við keppum við heildverzlanirnar, við keppum við iðnfyrirtækin, við keppum við útgerðarfyrirtækin, og þar eru launin enn miklu hærri. Við fengjum enga hæfa starfsmenn, ef við gerðum ekki tilraun til þess að bjóða eitthvað í áttina við það kaup, sem greitt er í viðskiptalífinu.

Ég tel, að varhugavert sé, þegar gerður er samanburður á launahæð opinberra starfsmanna nú og t. d. fyrir ári, að blanda saman þeim grunnlaunabreytingum, sem gerðar hafa verið með bráðabirgðaákvæðum í fjárlögum undanfarin ár og núna á að lögfesta í þessu frv., og svo þeim breytingum, sem gerðar hafa verið með sérstökum lögum og hafa þegar tekið gildi, um afnám á skerðingu vísitöluuppbótar hjá opinberum starfsmönnum. Þegar það frv. var til meðferðar í fjhn. og þessari hv. d., var ég fylgjandi því frv., vitandi þó, að það hefði í för með sér tiltölulega meiri hækkun á launum hinna hærra launuðu opinberu starfsmanna en hinna lægra launuðu. Ástæðan var sú ein, að hliðstæð breyting hafði áður verið gerð hinum lægra launuðu í vil, en hinir hærra launuðu þá skildir eftir. Eftir að það ástand er komið á, ekki aðeins á hinum frjálsa vinnumarkaði, heldur einnig hjá langflestum hálfopinberum stofnunum, að verðlagsuppbót er greidd jafnt á öll laun, hvort sem þau eru há eða lág, tel ég óverjandi að láta það ekki einnig gilda um opinbera starfsmenn. Mér hefur skilizt, að það hafi verið milli 250 og 300 opinberir starfsmenn og þeir einir, sem sú regla náði ekki lengur til, að full verðlagsuppbót skyldi greidd á allt kaup, eftir að sú regla var tekin inn í kaup- og kjarasamninga í verkfallinu á s. l. vori. Ég fylgdi frv. um afnám vísitöluskerðingarinnar vegna þess, að ég taldi óeðlilegt, óréttlátt, að raska því launahlutfalli, sem ákveðið var í launalögunum 1945, gagnvart 250–300 starfsmönnum með því að láta þá búa við skerta verðlagsuppbót. Það er mál út af fyrir sig, sem ekki á að blanda saman við þá breytingu á grunnkaupi, sem gert er ráð fyrir að gera með þessu frv., og þá tilfærslu einstakra starfshópa eða starfsmanna milli flokka, sem hér er einnig gert ráð fyrir.

Að síðustu vildi ég fara nokkrum orðum um þá brtt. hv. þm. A-Húnv. að spara ríkinu 16 millj. með því að lækka yfirleitt laun opinberra starfsmanna í öllum flokkum um þá upphæð. Ég tel, að ekki verði flutt skýrari rök gegn þessari till. hv. þm. A-Húnv. en fram koma í samanburðinum, sem ég gat um áðan, á launabreytingum opinberra starfsmanna síðan 1945 og launabreytingum þeirra manna, sem semja frjálst um kaup sitt og kjör. Staðreyndin er sú, að fyrir síðasta verkfall voru opinberir starfsmenn næstum 10% á eftir og höfðu öll 9 árin verið meira eða minna á eftir þeim, sem eru í Alþýðusambandinu. Síðan hækkaði kaup þeirra enn um ca. 11%. Það á aðeins að bæta upp með 9%, svo að enn er hægt að segja, að opinberir starfsmenn séu a. m. k. 10% á eftir meðlimum Alþýðusambandsins. Ef þrátt fyrir þetta ætti að lækka laun opinberra starfsmanna enn, svo sem hv. þm. A-Húnv. leggur til að gert verði, þá er það að sýna þessari fjölmennu starfsstétt beinan fjandskap. Og það er ekki aðeins að sýna henni beinan fjandskap, það er einnig að stefna mikilvægum hagsmunum ríkisvaldsins í hreinan voða, því að ef þetta yrði gert, er öldungis öruggt, að þeir erfiðleikar, sem ríkisvaldið á nú við að etja að fá hæfa menn í sína þjónustu, þ. e. keppa á vinnumarkaðinum við viðskiptalífið almennt, mundu aukast og margfaldast svo mikið, að af því mundi hljótast hreinn voði fyrir ríkisbúskapinn. Till. er því hvort tveggja í senn ranglát í garð opinberra starfsmanna og óskynsamleg, ef ekki beinlínis hættuleg frá sjónarmiði ríkisvaldsins.