10.02.1956
Neðri deild: 66. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (1439)

10. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um skóla og fræðsluskyldu hefur menntmrn. á hendi yfirstjórn allra þeirra skóla í landinu, sem veita almenna menntun, og margra skóla, er búa nemendur undir sérstök störf. En frá þessari aðalreglu hafa verið gerðar nokkrar undantekningar með þá skóla, sem veita sérmenntun í málum atvinnuveganna eða eru nátengdir heilsugæzlunni eða framkvæmd heilsuverndar í landinu. Þeir skólar hafa lotið yfirstjórn þeirra ráðuneyta, sem fara með mál atvinnuveganna eða þessara sérstöku greina í stjórnarkerfinu. Vil ég nefna fáein dæmi þess, þar sem beinlínis er ákveðið í lögum, að slíkar undantekningar skuli gerðar.

Í lögum nr. 26 1938 er svo kveðið á, að landbrn. hafi á hendi yfirstjórn bændaskólanna. Í lögum nr. 91 frá 1936, um garðyrkjuskóla ríkisins, er enn fremur tekið fram berum orðum, að landbrn. hafi á hendi yfirstjórn skólans ásamt þriggja manna skólanefnd, er ráðherra skipar.

Í lögum nr. 13 frá 1932, um ljósmæðraskólann, er kveðið svo á, að stjórn landsspítalans hafi á hendi stjórn skólans, og er hann undir yfirstjórn heilbrmrn. Í lögum nr. 76 1944, um hjúkrunarkvennaskóla Íslands, er kveðið svo á, að skólanum stjórni fimm manna skólanefnd. Þar á landlæknir sæti, yfirhjúkrunarkona landsspítalans og þrír menn, sem ráðherra skipar eftir tilnefningu vissra aðila, en þessi skóli heyrir undir heilbrmrn. Í lögum nr. 112 1940, um lyfjafræðingaskóla Íslands, er kveðið svo á, að fjögurra manna skólanefnd stjórni skólanum. Hana skipa landlæknir og þrír menn, sem ráðherra skipar eftir tilnefningu, en það hefur þótt tilhlýðilegt, að þessi skóli stæði undir yfirstjórn heilbrmrn.

Þetta frv., sem hér er til umr., og annað frv., sem hér er á dagskrá í dag, fjalla eingöngu um það að breyta til um yfirstjórn tveggja tiltekinna skóla, þ.e.a.s. stýrimannaskólans og matsveina- og veitingaþjónaskólans, að færa yfirstjórn þeirra frá þeim ráðuneytum, sem hafa haft hana á hendi, og leggja hana undir menntmrn.

Meiri hl. menntmn. lítur þannig á, að hér sé um „prinsip“-mál að ræða; um leið og tekin er afstaða til þessara frv., sé löggjafinn í raun og veru að gera upp við sig, hvort hann vilji hverfa frá þeirri reglu, sem skýrt hefur verið mörkuð í lögum að undanförnu, og þeir skólar, sem eru nátengdir höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar eða heilbrigðismálum í landinu, verði lagðir undir menntmrn., eða halda þeirri skipan, sem verið hefur í þessu efni, þeirri skipan, sem Alþingi sjálft hefur markað. Afstaða meiri hl. menntmn. til þessa máls og raunar til hins frv., sem líka er á dagskránni, markast af því, að meiri hl. lítur á þetta sem „prinsip-mál og telur ekki ástæðu til að hverfa frá þeirri reglu, sem Alþingi hefur fylgt og gilt hefur í þessu efni. Þar af leiðandi leggur meiri hl. n. til, að þetta frv. verði fellt.