10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að þeir fulltrúar Framsfl., sem sérstaklega hafa tekið að sér að verja þær till. til launabreytinga, sem hér liggja raunverulega fyrir, form. fjhn., hv. þm. V-Húnv., og hæstv. fjmrh., séu nú orðnir heldur innikróaðir í þessum umr.

Hv. form. fjhn. segir hér, að það komi sér ákaflega einkennilega fyrir sjónir, að jafnvel maður úr fjhn. og það töluglöggur maður skuli leyfa sér að halda því fram, að hér sé um launahækkanir að ræða, sem jafnvel nemi 30–40% í ýmsum tilfellum, þar sem n. hafi reiknað það nákvæmlega út, að á öllum liðum eða í öllum launaflokkum sé tilsvarandi launahækkun 9–10%. Hvernig stendur nú á þessu, að hv. 9. landsk., eins og form. fjhn. spurði, getur haldið þessu fram, og hæstv. fjmrh. hefur reynt að marka sér umræðugrundvöll á þennan hátt líka? Báðir vilja þessir hv. þm. reyna að líta fram hjá þeirri staðreynd, sem hér hefur verið margítrekuð, að þær launahækkanir, sem við fulltrúar Sósfl. hér höfum bent á að nema í ýmsum tilfellum 30–50%, hafa komið fram á þessu ári í 4 liðum, en koma ekki allar fram í þessu frv. einu. Hvernig stendur svo á því, að hv. form. fjhn. gerir sig hlægilegan á þennan hátt, að koma svo og þykjast ekkert skilja, að menn skuli blanda þessu svona saman? Honum hefur verið bent á það, að þegar rætt er hér um, að ýmsir af embættismönnum ríkisins muni fá, þegar þetta launalagafrv. hefur verið samþykkt, upp í 40–50% launahækkun, þá byggist það á því, að með er reiknuð sú grunnlaunabreyting, sem gerð var í ársbyrjun, og sú samþykkt Alþ. að fella niður vísitöluskerðinguna við útreikning launa, og svo einnig miðað við ákvæði þessa frv., sem gera ráð fyrir 9–10% launahækkun, og í fjórða lagi við þau ákvæði þessa frv. að færa ýmsa embættismenn á milli launaflokka. Þessu hefur verið hér haldið fram, og hér hefur verið birtur útreikningur, sem þessir hv. ræðumenn hafa ekki reynt að hnekkja og er fullkomlega réttur. Það hefur verið bent á, að séu tekin laun ýmissa forstjóra á vegum ríkisfyrirtækja í ársbyrjun þessa árs og aftur reiknuð út í árslok nú, miðað við nákvæmlega sömu vísitölu í báðum tilfellum, 159 vísitölustig í ársbyrjun og 159 vísitölustig nú í árslok, þá er hækkunin hjá þessum forstjórum í launum 34.6%. Af hverju reynir ekki hv. formaður fjhn., sem þetta veit mætavel, að hnekkja þessum útreikningi hins töluglögga manns og stærðfræðikennara? Af hverju reynir hann það ekki? Af því að hann veit, að þetta er ekki hægt. Þetta eru beinar staðreyndir, sem þarna liggja fyrir. Þetta er nákvæmlega sama varðandi laun ráðherranna. Séu laun ráðherranna reiknuð út í ársbyrjun og svo aftur í árslok og þá teknar til greina allar þær breytingar, sem þá eru orðnar, þá er launahækkunin hjá ráðherrunum 47.3%. Hvernig stendur nú á því, að jafntöluglöggur maður og hæstv. fjmrh. og vanur að fara með tölur og reikna út kaup er að reyna að gera sig hlægilegan á þann hátt að neita þessari staðreynd og ætlar svo að fela sig á þann hátt að segja: Ja, frv. gerir nú ekki ráð fyrir í þessum launaflokki nema 9–10% launahækkun. Þetta er því 9–10% launahækkun, þó að þessir aðilar séu búnir að fá launahækkun á ýmsum öðrum liðum áður.

Þá var reynt að klóra í bakkann á þann hátt að skjóta sér undir það: Ja, hafa nú þeir menn, sem benda á þessa staðreynd, hafa fulltrúar sósíalista verið á móti þessum fyrri aðgerðum viðvíkjandi breytingum á launum embættismanna? Voru þeir á móti því, þegar grunnlaunauppbótinni var breytt? Þegar fyrsta aðgerðin til launahækkunar var samþykkt, voru þeir á móti því? Auðvitað kemur þetta ekki málinu við út af fyrir sig. En hið sanna er, að við sósíalistar fluttum till. þá um það, við afgreiðslu fjárlaga rétt um áramótin í fyrra, að sú upphæð, sem ráðgert var að verja til þessara grunnlaunauppbóta hjá starfsmönnum ríkisins, yrði greidd starfsmönnum ríkisins á sama hátt og áður var, þ. e., að hinir lægst launuðu skyldu fá tiltölulega mesta grunnlaunauppbót, en hinir bæst launuðu skyldu fá samsvarandi minni grunnlaunauppbót. Við lýstum því greinilega yfir í umræðum og með flutningi þessarar till., að við vorum andvígir þeirri stefnu, sem þarna var tekin upp. En þá knúði ríkisstj. það í gegn hér á Alþingi að bæta upp laun hinna launahæstu miklu meir en laun hinna launalægstu. Þegar tillögur lágu hér fyrir um að greiða öllum, hversu há laun sem þeir hafa, fulla dýrtíðarvísitölu, þá var það rétt, að við sósíalistar héldum hér ekki uppi neinum umræðum út af þeirri till. Það er að vísu sjónarmið út af fyrir sig, hvort rétt er að láta menn fá launahækkun í formi fullrar vísitölu eða hafa skerta vísitölu, en bæta upp grunnlaunin. En í þessu efni vil ég minna á, að það hefur aldrei fyrr en nú í þessum umræðum, þegar menn eru að reyna að skjóta sér undan hinum sára veruleika á þennan hátt, því verið neitað, að hækkuð verðlagsuppbót í launum væri metin til jafns við hækkað grunnkaup, þegar svo hefur staðið á. Í þessu efni vil ég minna á verkfallið s. l. vetur. Þá fengu verkamenn, eins og allir kannast við, um 11% grunnlaunahækkun. En við iðnaðarmenn, sem líka tóku þátt í þessum verkföllum, var samið um það, að þeir fengju samsvarandi jafnháa kauphækkun. En hvernig var þeirra kauphækkun til komin? Þeir fengu aðeins í kringum 3% grunnlaunahækkun, en vísitöluskerðingu, sem var á þeirra kaupi, var aflétt. Þannig var það reiknað út, hvað þessi breytta vísitala jafngilti mikilli beinni kauphækkun þessari stétt til handa, og það voru allir á einu máli um það, að þetta væri sanngjarnt, og svona var frá þessu gengið þá. En nú koma fulltrúar hinna hæst launuðu embættismanna ríkisins og segja: Ja, þó að við fáum vísitöluna á miklum hluta kaupsins hækkaða úr 23 vísitölustigum upp í 71 vísitölustíg eða stórfelldar launabætur á þennan hátt, þá er alveg vafasamt, hvort maður eigi að telja þetta með. Eiginlega er það bara blekking að vera að blanda því inn í málið. — Þá á ekki að reikna þetta sem kaupuppbót. En það var sannarlega gert við lausn verkfallsins. Auðvitað eru það launabætur, og sannleikurinn er sá, að ég hygg, að embættismönnum og öðrum, ef þeir fá, miðað við sitt árskaup, 10 þús. kr. launabætur, er nokkurn veginn sama, hvort þessar 10 þús. kr. koma út eftir breyttum vísitöluútreikningi eða þá með hækkuðu grunnkaupi. Ef þeir fá sömu launabætur eftir sem áður, þá kemur það nokkuð í einn stað niður.

Þá vil ég einnig benda á það, að þó að gengið hafi nú verið til móts við ýmsa launaflokka og jafnvel þá launahæstu með því, að þeir fá í fyrsta lagi verulega grunnlaunauppbót, og síðan er gengið til móts við þá með því, að þeir fá verulega kauphækkun með breytingu á vísitöluútreikningi, þá er ekki þar með sagt, að svo eigi að halda endalaust áfram og segja: Þrátt fyrir þessar miklu launabætur kemur hér bara 910% launahækkun til þessara manna eins og ýmissa annarra, sem hafa ekki fengið neina kauphækkun í formi breyttrar vísitölu. — Það er talið sjálfsagt, og ekki aðeins það, heldur einnig sjálfsagt að færa þá á milli launaflokka, jafnvel um tvo launaflokka upp á við til hækkunar í kaupi. Þegar tvær aðskildar launabætur hafa hér verið samþykktar og svo kemur hér fram till. um aðrar tvær og gengið er lengra til þess að færa þeim aukið kaup, sem hæst hafa kaup í landinu, þá er ósköp eðlilegt, að á það sé bent. Og það er miklu mannlegra fyrir hæstv. fjmrh. og form. fjhn. að játa hreinlega, að þetta sé svona, það sé ætlunin að láta þessa aðila, sem hæst hafa launin, fá miklu meiri launahækkun en alla aðra, heldur en að reyna að vefja þetta inn í loðnar yfirlýsingar um það, að raunverulega sé hér í þessu frv. aðeins verið að tala um 9–10% launahækkun, því að það er rangt. Hið sanna er, að á því ári, sem enn stendur yfir, nemur launahækkunin því, sem við höfum hér skýrt frá.

Sitthvað hefur nú dregizt hér inn í þessar umr., og m. a. var hér minnzt á það, hvernig tekið hefði verið á sínum tíma á kröfum verkfræðinganna um launahækkun. Ég tek að vísu ekki til mín það, sem sagt hefur verið um það. Ég hef ekki sett mig svo mjög inn í það, hvernig ríkisstj. í rauninni hélt á þeim málum. En það vil ég segja í sambandi við þær kröfur og lausn þeirra mála, að það, sem þar var að gerast, var rétt mátulegt handa ríkisstj. að fá að glíma við, því að hinar mjög svo hækkuðu kröfur verkfræðinganna til kaups hjá ríkinu grundvölluðust fyrst og fremst á því, að þessir menn áttu kost á gífurlega háu kaupi suður á Keflavíkurflugvelli og miðuðu flestallir við það. Í sambandi við verkfræðingana stóð því ríkisstj. í þessu efni nákvæmlega eins að vígi og ýmsir aðrir í þjóðfélaginu hafa staðið og standa enn í dag í sambandi við kaupuppboðið, sem á sér stað suður á Keflavíkurflugvelli. Framleiðsluatvinnuvegirnir, t. d. togarareksturinn og bátaútvegurinn, hafa vitanlega fengið að glíma við þetta. Þrátt fyrir allverulega hækkun stundum á kaupi sjómanna hefur Keflavíkurflugvöllur í ýmsum tilfellum sprengt það langt upp. Og þeir, sem hafa haft með framleiðsluna að gera, hafa staðið frammi fyrir þessum vanda, þeir hafa ekki getað keppt við allt það kaupuppboð, sem þar hefur átt sér stað í ýmsum greinum. Þeir hafa bara misst mennina. Skipstjórarnir hafa farið í land og margir og margir fleiri. Og hvað átti framleiðslan að gera? Framleiðslan var meira og minna í vandræðum vegna þess ástands, sem ríkisstj. var völd að í þessum efnum, og lokaleiðin varð svo sú, til þess að stöðva skipin ekki alveg, að leita til Færeyja og fá Færeyinga til þess að reyna að halda skipunum úti. Alveg sambærilegt vandamál hefði verið fyrir ríkisstj. að reyna að leysa sitt mál með því að fá Færeyinga í staðinn fyrir þá verkfræðinga, sem hún var búin raunverulega að senda í hernaðarvinnu suður á Keflavíkurflugvöll. En vegna þess að það var sérstaklega boðið í verkfræðingana þar syðra, þá vitanlega miðuðu þeir sínar kröfur við allmiklar launabætur, og þeir fengu nokkuð mikið fram og eru nú ekki teknir inn í þetta frv. En í þeim efnum var hæstv. ríkisstj. sem sagt að glíma við sinn eigin draug og ekkert annað, þann draug, sem hún fann að var nokkuð erfitt að glíma við í þessu tilfelli, þó að hún hafi ekki skilið þau vandræði, sem hún hefur raunverulega stefnt að atvinnulífi landsins á samsvarandi hátt gagnvart öðrum starfsmönnum.

Ég vil svo að lokum benda á það, að þegar var verið að leysa verkfallið s. l. vetur, þá buðu fulltrúar verkamanna það, að vísitöluskerðingin mætti fyrir þeim haldast eftir sem áður á kaupi, sem væri yfir 12 kr. á klst., en það mun samsvara mjög kaupi, sem er samkvæmt XI. launaflokki, eða með lægri launaflokkunum. En þá brá svo einkennilega við, að þeir aðilar, sem stóðu að verkfallinu, atvinnurekendur studdir af ríkisstj., neituðu með öllu að fallast á þetta. Þeir vildu þá endilega afnema alla vísitölutakmörkun, og nú kemur vitanlega í ljós, vegna hvers það var. Það var til þess, að hinir hæst launuðu í þjóðfélaginn, ýmsir opinberir starfsmenn, gætu fengið að njóta sérstaklega góðs af því, að rýmkað var þarna til nokkuð um útreikning á kaupi fyrir hina lægra launuðu. Hið sanna er, að við, sem höfum bent á þessar staðreyndir viðvíkjandi mikilli launahækkun hjá þeim hæst launuðu, höfum ekki á nokkurn hátt, eins og hæstv. fjmrh. hefur haldið fram, rangfært þetta frv. Við bendum aðeins á þá staðreynd, að þetta frv. boðar svona mikla launahækkun til viðbótar við þá, sem þegar hefur verið gerð, og samtals nema launabæturnar svona háum tölum eins og við höfum sýnt fram á. Svo getur hver trúað því, sem trúa vill, að það takist á eftir að sætta þá, sem hafa lægst laun í þjóðfélaginu, við að búa við þau kjör, sem þeir búa við nú, þegar allar þessar miklu launahækkanir hafa verið samþykktar þeim til handa, sem langsamlega hafa hæst kaup í landinu.

Eitt atriði er það enn, sem ég vildi minnast hér á, og það er sá einkennilegi samanburður, sem sumir aðilar vilja hafa hér í tíma og ótíma á kauphækkunum hinna lægst launuðu verkamanna og allra annarra manna í landinu, hversu hálaunaðir sem þeir eru. Hæstv. fjmrh. notar þessa aðferð sí og æ. Og einn er sá maður hér annar, fulltrúi Alþfl., hv. 1. landsk. þm. (GÞG), sem í sífellu er einnig með þennan samanburð, og mér þykir það enn einkennilegra, að hann skuli nota hann. En finnst honum sanngjarnt, finnst honum eðlilegt, að þó að hinir lægst launuðu í þjóðfélaginu jafnvel fái á einu stigi málsins 10% launabætur, þ. e. maður, sem hefur 30 þús. kr. kaup, geti lyft sínu kaupi upp um 3 þús., þá sé einnig gefið mál, að maður, sem hefur, eins og sumir hafa samkvæmt þessu frv., 100 þús. kr. kaup, eigi líka að fá 10% launabætur, eða 10 þús. kr., ef hinir fá 3 þús.? Er það endilega sjálfsagt, að svo sé haldið á málunum? Ég neita þessum samanburði með öllu og felist ekki á það, því að þetta er óréttlátt, og það er einmitt barátta verkalýðssamtakanna í landinn og hefur verið fram til þessa, hélt ég, baráttumál Alþfl. líka að vinna fremur að hagsmunamálum þeirra, sem ganga frá borði með skarðan hlut í þjóðfélaginu, en ekki að það sé þeirra hlutverk að krefjast í sífellu samsvarandi launahækkana til hinna, sem hafa langhæst kaup í landinu, enda er hið sanna það, að þegar hæstv. fjmrh. og aðrir slíkir reyna að nota þessa aðferð, þá er það gert í því skyni að reyna að koma í veg fyrir, að hinir lægst launuðu geti fengið sín 10%. Það er gert í því skyni. Þegar þeir voru s. l. vetur að knýja fram sína litlu kauphækkun, þá var það m. a. aðferð hæstv. fjmrh. að taka einnig samsvarandi kauphækkun á alla starfsmenn ríkisins til þess að reyna að gera fúlguna sem allra hæsta og segja: Ja, ef hinir lægst launuðu fá þetta, þá fá allir hitt, og þá verður upphæðin svona mikil. — Það er a. m. k. varhugavert fyrir þá, sem vilja vera forsvarsmenn þeirra, sem lægst launin hafa í landinu, að ætla að elta þennan samanburð á þann hátt, sem m. a. hv. 1. landsk. þm. gerði hér í sinni ræðu.